Ferill 611. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1154  —  611. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur um réttaráhrif laga nr. 124/2016, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Lét ráðherra gera úttekt á réttaráhrifum laga nr. 124/2016, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, gagnvart öðrum lögum, svo sem lögum nr. 64/2014 og lögum nr. 96/2002?
     2.      Liggur fyrir lögfræðilegt mat á því hvort áðurnefnd lagabreyting stenst alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og 1. mgr. 13. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísunum ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, sem og íslensk lög?
     3.      Mun ráðherra bregðast við með lagabreytingu ef í ljós kemur að lagabreytingin stenst ekki alþjóðlegar skuldbindingar Íslands?


    Lög nr. 124/2016, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, voru samþykkt á Alþingi 1. janúar 2017 og giltu tímabundið til 1. apríl 2017. Með lögum nr. 17/2017 var sú breyting sem lögð var til með lögum nr. 124/2016 hins vegar samþykkt sem ótímabundið ákvæði. Þar er m.a. kveðið á um að kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar stofnunin hefur metið umsókn hans bersýnilega tilhæfulausa og hann kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki, sbr. b-lið 1. mgr. og 2. mgr. 29. gr., fresti ekki réttaráhrifum.
    Ekki hefur farið fram úttekt á réttaráhrifum laga nr. 124/2016 gagnvart eldri lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum, enda eru lögin í báðum tilvikum fallin úr gildi. Þá er rétt að benda á að frumvarp það sem varð að lögum nr. 124/2016 var ekki flutt af dómsmálaráðherra heldur formanni allsherjar- og menntamálanefndar.
    Fyrirspurn þessi er að öðru leyti skilin á þann veg að annars vegar sé verið að leita svara við því hvort frumvarpið sem varð að lögum nr. 124/2016 standist alþjóðaskuldbindingar og þá jafnframt lög nr. 17/2017 og hins vegar hvort ráðherra muni bregðast við með einhverjum hætti komi í ljós síðar að svo sé ekki.
    Rétt er að benda á að við vinnslu lagafrumvarpa í ráðuneytinu er farið yfir hvort ákvæði þeirra séu í samræmi við stjórnarskrá, skuldbindingar samkvæmt mannréttindasamningum og öðrum alþjóðlegum samningum. Í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 17/2017 og getið er um hér að framan kemur fram að mat ráðuneytisins sé að það fyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu uppfylli þá þjóðréttarsamninga sem varða málefni útlendinga og réttarstöðu þeirra. Í því samhengi var vísað sérstaklega til flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu.
    Komi til þess að lög sem samþykkt eru á Alþingi teljist fara gegn alþjóðaskuldbindingum sem Ísland er aðili að er slíkt ávallt tekið til skoðunar.