Ferill 627. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1157  —  627. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur um þinglýsingar.


     1.      Hve löng er biðin hjá sýslumanni eftir þinglýsingum á eignaskiptayfirlýsingum?
    Við vinnslu svarsins var leitað upplýsinga hjá sýslumannsembættum um þann tíma sem tekur að þinglýsa eignaskiptayfirlýsingum. Í svari sýslumanna kom fram að hjá flestum embættum tekur þinglýsing á eignaskiptayfirlýsingum fáeina daga eftir að ljóst er að eignaskiptayfirlýsing er tæk til þinglýsingar. Hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu kom fram að enn væru þar í vinnslu eignaskiptayfirlýsingar sem afhentar voru á árinu 2015. Fram kom hjá sýslumönnum að nokkurn tíma tæki að yfirfara eignaskiptayfirlýsingar hjá sýslumönnum og öðrum stofnunum og lagfæra þær áður en þær væru tækar til þinglýsingar. Þá sé oft misbrestur á að önnur skjöl sem fylgja þurfa eignaskiptayfirlýsingum til þinglýsingar, svo sem afsöl og veðbandslausnir, berist sýslumanni og veldur slíkt töfum á þinglýsingu eignaskiptayfirlýsinga.
    Ferli við þinglýsingu á eignaskiptayfirlýsingu er um margt frábrugðið því ferli sem almennt er um skjöl sem send eru sýslumönnum til þinglýsingar. Þegar eignaskiptayfirlýsing er afhent sýslumanni til þinglýsingar er hún skráð í dagbók þinglýsinga og þá samtímis send Þjóðskrá Íslands sem sér um fasteignaskrá. Þjóðskrá yfirfer eignaskiptayfirlýsinguna með tilliti til gagna frá viðkomandi sveitarfélagi. Ef gögn hafa ekki þegar borist frá sveitarfélagi er kallað eftir þeim. Ef villur finnast í yfirlýsingunni á þessu stigi er kallað eftir leiðréttingu. Þegar öll gögn hafa borist frá sveitarfélaginu og búið er að leiðrétta villur í eignaskiptayfirlýsingu er skjalið sent frá Þjóðskrá Íslands til sýslumanns sem yfirfer yfirlýsinguna með tilliti til annarra þinglýstra skjala og gagna er varða fasteignina og þinglýsir eignaskiptayfirlýsingunni á fasteignina. Þjóðskrá Íslands hefur samið við nokkur sveitarfélög um rýni á eignaskiptayfirlýsingum áður en þær eru sendar til þinglýsingar. Hefur slíkt yfirleitt í för með sér styttri málsmeðferðartíma og minni hættu á villum í yfirlýsingum.

     2.      Hyggst ráðherra endurskoða verklag við þinglýsingar hjá ríkinu?
    Verklag við þinglýsingar eins og önnur verkefni sýslumanna hlýtur ávallt að vera metið af sýslumönnum með það að markmiði að ná sem mestri skilvirkni við afgreiðslu mála. Vinnslutími þinglýsinga á eignaskiptayfirlýsingu ræðst af mörgum þáttum eins og gerð er grein fyrir í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar og ekki síst því hvernig gengið er frá yfirlýsingunni í upphafi. Þannig er það ekki ávallt á færi sýslumanns að stýra því hversu langan tíma meðferð málsins tekur. Farin hefur verið sú leið að skrá eignaskiptayfirlýsingu strax inn í dagbók þinglýsinga hjá sýslumanni. Þurfi að gera leiðréttingar á eignaskiptayfirlýsingu eða afla frekari gagna er slíkt gert í samvinnu við viðkomandi en skjali ekki vísað frá.
    Undirbúningur að rafrænni þinglýsingu hefur staðið yfir hjá embættum sýslumanna og standa vonir til þess að hægt verði að hrinda henni í framkvæmd að einhverju leyti á næstu misserum. Ráðherra hefur áform um að leggja fram frumvarp þar að lútandi á komandi þingi. Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar svo að unnt verði að þinglýsa skjölum með rafrænni færslu. Þannig verði heimilt að leggja að jöfnu þinglýsingu skjala og að ákveðin atriði verði skráð með rafrænum hætti í þinglýsingabók. Lagt er til að með reglugerð verði kveðið á um hvaða skjölum megi þinglýsa með rafrænni færslu og hverjir hafi heimildir til að skrá í hið rafræna þinglýsingakerfi.

     3.      Er einhver vinna í gangi í ráðuneytinu við að koma þinglýsingum frá ríkinu, til að auka skilvirkni?
    Nei. Með rafrænni þinglýsingu, sbr. svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar, opnast hins vegar möguleiki á því að aðrir en sýslumaður færi inn skráningar í hið rafræna þinglýsingakerfi sýslumanna.