Ferill 603. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1159  —  603. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Óla Halldórssyni um friðlýsingu á vatnasviði Svartár og Suðurár í Bárðardal.


     1.      Hver er afstaða ráðherra til hugmynda um friðlýsingu vatnasviðs Svartár og Suðurár í Bárðardal á forsendum náttúruverndar?
    Hvað varðar hugmyndir um friðlýsingu þessa svæðis, þá er mikilvægt að skoða það í samhengi nálægðar virkjunarkosta í Skjálfandafljóti sem hafa verið til umfjöllunar rammaáætlunar. Í núgildandi rammaáætlun eru Hrafnabjargavirkjun og Fljótshnúksvirkjun í biðflokki. Áhrifasvæði þessara virkjunarkosta í Skjálfandafljóti nær yfir Svartá, neðan ármóta við Suðurá. Jafnframt hefur verið lögð fram tillaga til þingsályktunar um 3. áfanga rammaáætlunar (207. mál á 146. löggjafarþingi 2016–2017) þar sem virkjunarkostir í Skjálfandafljóti (Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjun A, B og C) eru í verndarflokki. Ráðherra hyggst endurflytja þá tillögu á Alþingi nú í haust.
    Uppi eru áform um tæplega 10 MW virkjun á vatnasvæði Svartár og Suðurár í Bárðardal og lagningu jarðstrengs yfir í Laxárdal. Hefur Skipulagsstofnun þegar ákvarðað að fram skuli fara umhverfismat á framkvæmdinni og taldi stofnunin að framkvæmdin kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Það var m.a. í ljósi umsagna Umhverfisstofnunar og Fiskistofu vegna áhrifa sem virkjunin kynni að hafa m.a. á náttúru og lífríki. Skipulagsstofnun tilgreindi sérstaklega eftirfarandi viðmið sem forsendur fyrir ákvörðun sinni um að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum 18. 2. 2016:

     *      Eðli framkvæmdar með tilliti til stærðar og umfangs.
     *      Staðsetningu framkvæmdar, þ.e. hversu viðkvæmt það svæði er sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, sérstaklega með tilliti til verndarsvæða, ábyrgðartegunda og tegunda á válista og svæða innan 100 m fjarlægðar frá fornleifum sem njóta verndar. Einnig með tilliti til álagsþols náttúrunnar, einkum vatnsfalla, landslagsheilda og kjörlendis dýra.
     *      Eiginleika áhrifa, einkum með tilliti til þess svæðis sem kann að verða fyrir áhrifum, líkum á áhrifum og óafturkræfni áhrifa.

    Jafnframt setti Skipulagsstofnun fram ýmsar athugasemdir í ákvörðun sinni um matsáætlun framkvæmdaaðila þann 6. 9. 2016 og fer þar m.a. fram á að í frummatsskýrslu „verði gerð grein fyrir hvernig áform um Svartárvirkjun falla að flokkun Skjálfandafljóts, Fljótshnúksvirkjunar og Hrafnabjargavirkjunar samkvæmt gildandi rammaáætlun og fyrirliggjandi þingsályktunartillögu að endurskoðaðri rammaáætlun og hvaða mótvægisaðgerða fyrirhugað er að grípa til við hönnun og útfærslu virkjunarinnar vegna þessa.“
    Það land sem áætlað er að fari undir virkjunina er utan þjóðlendna og er bæði í eigu ríkis og einkaaðila. Fyrir liggja samningar milli þeirra aðila sem áforma virkjun á svæðinu og landeigenda, en það eru samningar við fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna ríkisjarðarinnar Stóru-Tungu vestan Svartár svo og af einkaaðilum vegna þriggja jarða í einkaeigu austan ár.
    Því eru uppi ýmis sjónarmið varðandi þessar hugmyndir um virkjun á vatnasviði Svartár og Suðurár í Bárðardal og vinna við umhverfismat framkvæmdanna stendur yfir samkvæmt þeim lögum sem um það gilda.
    Því eru ekki forsendur til að taka afstöðu um hugsanlega friðlýsingu vatnasviðsins fyrr en fyrir liggur niðurstaða umhverfismatsins og sérstaklega því sem lýtur að áhrifum á landslag, víðerni og lífríki svæðisins svo og því hvort og þá hvernig áformin falli að ákvæðum rammaáætlunar.
    Almennt er það afstaða ráðherra að leggja þurfi aukna áherslu á friðlýsingar og náttúruvernd og það er stefna hennar að vinna að fjölgun og stækkun á friðlýstum svæðum á landinu. Í því geta falist mikil tækifæri.

     2.      Hver er afstaða ráðherra til áforma einkafyrirtækis um hagnýtingu vatnsauðlinda Svartár með tilliti til náttúruverndarsjónarmiða?
    Einkafyrirtæki hefur þegar gert samninga um vatnsréttindin við landeigendur, þ.m.t. þann hluta sem tilheyrir ríkinu með samningi við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ekki aðkomu að gerð slíkra samninga og þetta svæði er hvorki friðlýst né á náttúruminjaskrá. Hins vegar má benda á að sú vinna sem nú stendur yfir við umhverfismat framkvæmdanna, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar, mun draga betur fram hver áhrif þessara framkvæmda verða á víðerni, náttúru og lífríki svæðisins. Afstaða til þessara áforma mun því eðli málsins samkvæmt taka mjög mið af þeirri niðurstöðu. Almennt er afstaða ráðherra sú að ekki dugi að líta eingöngu til þeirra verðmæta sem felast í orkuauðlindum svæða, heldur eru jafnframt mikil verðmæti fólgin í lífríki, víðerni og náttúru sem ekki hefur verið raskað.

     3.      Hvert er viðhorf ráðherra til hugmynda um að fella vatnasvið Svartár og Suðurár inn í Vatnajökulsþjóðgarð?
    Svar við þessum tölul. fyrirspurnarinnar er að hluta til það sama og við 1. tölul. þar sem að fella landssvæði inn í Vatnajökulsþjóðgarð er ein gerð friðlýsingar og því má endurtaka það sem þar kemur fram varðandi friðlýsingu svæðisins.
    Hins vegar, ef til þess kæmi að vatnasvið Svartár og Suðurár yrði friðlýst, væri rökrétt að það yrði gert með því að svæðið yrði fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð og yrði hluti af stjórnkerfi hans. Ráðherra hefur beitt sér fyrir málefnum þjóðgarða og er þeirrar skoðunar að reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði hafi verið góð. Þjóðgarðar, líkt og Vatnajökulsþjóðgarður, geta boðið upp á fyrirkomulag þar sem náttúruvernd getur verið forsenda sjálfbærrar hefðbundinnar landnýtingar, atvinnusköpunar og byggðastyrkingar.