Ferill 549. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1164  —  549. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Daníel E. Arnarssyni um sölu fasteigna Íbúðalánasjóðs.


    Þau gögn sem svarið byggist á eru sala eigna Íbúðalánasjóðs tímabilið 1. janúar 2011 til og með 31. maí 2017. Um er að ræða sölu eigna um land allt þetta tímabil. Rétt er að undirstrika að markaðsverð eigna er mjög mismunandi eftir landshlutum, tegund, ástandi eigna og sölutíma. Um er að ræða sölu á öllum tegundum íbúðareigna, þ.e. fjölbýlishúsum, raðhúsum, parhúsum og einbýlishúsum. Meðalvirði þessara eignaflokka er mismunandi.

     1.      Hversu margar fasteignir seldi Íbúðalánasjóður á ári frá því í ársbyrjun 2011 til þessa dags, sundurgreint í atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði?
    Samkvæmt lögum um húsnæðismál lánar Íbúðalánasjóður eingöngu til kaupa á íbúðarhúsnæði en byggt er á flokkun Þjóðskrár (ÍST120). Þær eignir sem sjóðurinn hefur þurft að fullnusta eru því einvörðungu íbúðarhúsnæði. Á umræddu tímabili hefur Íbúðalánasjóður selt 3.113 íbúðir.

     2.      Hvernig skiptust íbúðir sem seldar voru hvert ár eftir póstnúmerum?
    Íbúðalánasjóður hefur eignast fullnustueignir í nánast öllum sveitarfélögum landsins. Seldar íbúðir á tímabilinu eru samtals 3.113 og eru staðsettar í 100 póstnúmerum landsins. Skipting seldra eigna eftir póstnúmerum kemur fram í fylgiskjali I.

     3.      Hvert var meðalverð á fermetra seldra fasteigna á ári í hverju póstnúmeri fyrir sig, flokkað eftir atvinnu- og íbúðarhúsnæði og uppfært á núgildandi verðlag?
    Í fylgiskjali II kemur fram meðalverð á m² þeirra 3.113 eigna sem sjóðurinn hefur selt á tímabilinu á verðlagi hvers tíma. Íbúðalánasjóður býr ekki yfir gögnum til að uppfæra verð seldra fasteigna eftir landshlutum en breytingar á verðlagi eigna eru mismunandi eftir svæðum og tegundum eigna.

     4.      Hve margar íbúðir seldi Íbúðalánasjóður hvert ár annars vegar til einstaklinga og hins vegar fyrirtækja?
    Á tímabilinu 2011–2017 voru 2.474 íbúðir seldar einstaklingum og 639 eignir seldar í 15 eignasöfnum en kaupendur voru nokkur félög sem leigja út eignir. Sala þeirra fór fram í tveimur söluferlum og eru þessar eignir víða um land á markaðssvæðum þar sem markaðsverð eigna er nokkuð mismunandi.
    Aftur á móti voru 450 eignir færðar í dótturfélag Íbúðalánasjóðs, Leigufélagið Klett hf., í janúar 2013 með sérstakri heimild sem veitt var í lögum og eru þær ekki hluti framangreindra eigna.

     5.      Hvert var meðalverð á fermetra þeirra eigna sem seldar voru annars vegar einstaklingum og hins vegar fyrirtækjum ár hvert, skipt eftir póstnúmerum?
    Í fylgiskjali III kemur fram meðalverð þeirra 3.313 eigna sem seldar hafa verið, eftir póstnúmerum og sölu til einstaklinga eða fyrirtækja, sbr. svar við 4. lið.

     6.      Telur ráðherra þörf á að endurskilgreina hlutverk og starfsemi Íbúðalánasjóðs og hverju ætti helst að breyta ef breytinga er þörf?
    Starfsemi Íbúðalánasjóðs hefur á síðastliðnum fjórum árum tekið breytingum í kjölfar athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA með hliðsjón af ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. Í kjölfar breytinga með lögum nr. 84/2012 hefur ríkisaðstoð sjóðsins með lánveitingum verið bundin við félagsleg markmið. Mikilvægt er að breyta hlutverki Íbúðalánasjóðs frá því að vera fyrst og fremst lánastofnun yfir í að vera stofnun sem hefur það hlutverk að framkvæma stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum. Til þess að það megi verða er nauðsynlegt að festa í sessi hlutverk sjóðsins varðandi stefnumótun á sviði húsnæðismála ásamt því að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í því efni. Þannig mun upplýsingaöflun og greining á stöðu húsnæðismála, vinna með sveitarfélögunum að gerð húsnæðisáætlana og stuðningur við framkvæmd þeirra vera lykilþættir í starfsemi sjóðsins. Lánastarfsemi sjóðsins á að takmarkast við samfélagsleg verkefni og lánveitingar í almannaþágu. Þá mun sjóðurinn halda áfram að úthluta stofnframlögum til uppbyggingar leiguhúsnæðis fyrir einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum samkvæmt lögum nr. 52/2016.




Fylgiskjal I.

Skipting seldra eigna eftir póstnúmerum.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal II.

Meðalverð á fermetra eftir póstnúmerum – verðlag hvers tíma.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal III.

Meðalverð seldra eigna greint eftir póstnúmerum og sölu til einstaklinga og fyrirtækja.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.