Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 8  —  8. mál.
Frumvarp til laga


um veitingu ríkisborgararéttar.

Flm.: Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Einar Brynjólfsson, Eva Pandora Baldursdóttir, Gunnar Hrafn Jónsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Ríkisborgararétt skulu öðlast:
     1.      Abrahim Maleki, f. 1985 í Afganistan.
     2.      Haniye Maleki, f. 2005 í Íran.
     3.      Joy Lucky, f. 1988 í Nígeríu.
     4.      Mary Lucky, f. 2009 á Ítalíu.
     5.      Sunday Iserien, f. 1992 í Nígeríu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var undirritaður fyrir Íslands hönd 26. janúar 1990. Alþingi heimilaði ríkisstjórn að fullgilda hann 13. maí 1992. Hann var svo lögfestur hér á landi 6. mars 2013 með samhljóða atkvæðum. Markmiðið með lögfestingu sáttmálans var að styrkja stöðu mannréttinda barna, sbr. 1. gr. laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 19/2013. Í frumvarpi til laganna kom fram að samningurinn skyldi ekki aðeins vera viljayfirlýsing heldur vera mikilvægt og öflugt hjálpartæki fyrir börn. Með lögfestingunni skyldi börnum veitt aukin vernd og réttaröryggi þeirra aukið. Barn gæti þar með borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum.
    Í 1. mgr. 3. gr. barnasáttmálans segir: „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“ Í 1. mgr. 22. gr. segir: „Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið er flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum og starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það er í fylgt foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið er á um í samningi þessum og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda- eða mannúðarmála sem ríki þau sem um ræðir eiga aðild að.“
    Með löggildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins kom fram skýr vilji löggjafans til að auka vægi hans við ákvarðanatöku um málefni barna, þ.m.t. barna á flótta. Þau eiga sín eigin mannréttindi og þarf að horfa sérstaklega á stöðu þeirra við ákvarðanatöku um mál þeirra, en ekki aðeins afgreiða mál foreldranna og láta mál barnanna fylgja þeirri niðurstöðu sjálfkrafa.
    Umboðsmaður barna hefur lýst áhyggjum af því að staða barna sem leita hér alþjóðlegrar verndar sé veik. Umboðsmaður barna áréttar að skoða beri mál þeirra með sjálfstæðum hætti og m.a. skuli hlustað á börnin sem skuli gefið færi á að tjá skoðun sína. Með frumvarpi þessu er lagt til að Haniye Maleki, Abrahim Maleki, Mary Lucky, Joy Lucky og Sunday Iserien fái íslenskan ríkisborgararétt nú þegar en skv. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, veitir Alþingi ríkisborgararétt með lögum. Flutningsmenn frumvarps þessa leggja þannig til að tvö börn fái íslenskan ríkisborgararétt, með vísan til mannúðarsjónarmiða, en þau skortir öruggar aðstæður og vernd. Jafnframt er lagt til að foreldrar þeirra fái íslenskan ríkisborgararétt. Frumvarpi þessu er ekki síður ætlað að senda stjórnvöldum skýr skilaboð um að löggjafinn ætlist til þess að réttindi barna séu virt í hvívetna við töku stjórnvaldsákvarðana þar sem hagsmunir þeirra eru í húfi.