Ferill 107. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 107  —  107. mál.




Frumvarp til stjórnarskipunarlaga


um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Björn Leví Gunnarsson, Einar Brynjólfsson, Eva Pandora Baldursdóttir, Gunnar Hrafn Jónsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:
    Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytingar á stjórnarskrá skal það borið undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi er nýkjörið Alþingi hefur samþykkt þau.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram til að framvegis verði þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar Alþingis á stjórnarskránni í stað þess að rjúfa þurfi þing og boða til kosninga. Ákvæðið er samhljóða 1. mgr. 113. gr. í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Með samþykkt frumvarpsins yrði aðeins breytingarákvæði stjórnarskrárinnar breytt í samræmi við meginreglu frumvarps sem kjósendur völdu að skyldi lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Með þessum hætti gefst þjóðinni loksins tækifæri til að koma að stjórnarskrárbreytingum framvegis án þess að skipta um ríkisstjórn.