Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 139  —  113. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (málsmeðferðartími).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Guðmundsson, Berglindi Báru Sigurjónsdóttur og Lilju Borg Viðarsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Hjört Braga Sverrisson og Önnu Tryggvadóttur frá kærunefnd útlendingamála, Þorstein Gunnarsson og Þórhildi Hagalín frá Útlendingastofnun, Ingibjörgu Broddadóttur frá velferðarráðuneyti, Braga Guðmundsson og Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu, Guðríði Láru Þrastardóttur og Gunnar Narfa Gunnarsson frá Rauða krossi Íslands, Jón F. Bjartmarz og Gylfa Gylfason frá ríkislögreglustjóra og Öldu Hrönn Jóhannsdóttur frá lögreglunni á Suðurnesjum.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um útlendinga að því er varðar hvenær umsókn barns um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnislegrar meðferðar og hvenær heimilt sé að veita barni sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að uppfylltum nánari skilyrðum.
    Lagt er til að við lögin bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða. Annars vegar er lagt til að þrátt fyrir 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna skuli miða við 9 mánuði í stað 12 mánaða ef um barn er að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið. Hins vegar er lagt til að þrátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. skuli miða við 15 mánuði í stað 18 mánaða ef um barn er að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið. Lagt er til að umsækjandi sem öðlast rétt samkvæmt ákvæðum frumvarpsins geti innan fjórtán daga frá gildistöku frumvarpsins, verði það að lögum, farið fram á endurupptöku á úrskurði kærunefndar útlendingamála um að umsókn skuli synjað. Fari umsækjandi ekki fram á endurupptöku innan þess frests skal úrskurðurinn standa. Umsækjanda skal ekki gert að yfirgefa landið innan þess frests eða á meðan á meðferð endurupptökumáls stendur.
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um stöðu barna á flótta og sem umsækjenda um alþjóðlega vernd og mikilvægi þess að tryggja mannréttindi þeirra við meðferð umsókna hér á landi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að börn eigi ekki að þurfa að bíða lengi eftir niðurstöðu um umsókn um alþjóðlega vernd, í óvissu um framtíðina. Við gerð laga um útlendinga var hliðsjón höfð af barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og tryggja átti að meðferð umsókna barna yrði samræmi við ákvæði hans. Brýnt er að tryggja að sáttmálinn og þau réttindi sem honum er ætlað að tryggja séu ávallt lögð til grundvallar við meðferð umsókna barna um dvalarleyfi. Mikilvægt er að börnum og fjölskyldum þeirra verði ekki gert að yfirgefa landið hafi þau verið hér í lengri tíma og aðlagast samfélaginu. Á fundi nefndarinnar kom fram að fyrirliggjandi frumvarp geti haft áhrif á stöðu um 80 barna og því ljóst að um mikilvæga breytingu er að ræða.
    Fyrir nefndinni var rætt um texta í greinargerð með frumvarpinu þar sem áréttaður er sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Bent var á að lögskýringargögn væru ekki skýr um þetta atriði og varhugavert geti verið að nýtt þing árétti vilja fyrri þinga án þess að því fylgi breytingar á lögum. Meiri hlutinn bendir á að með þessu er áréttað, líkt og fram kom í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga, nr. 80/2016, að taka skuli til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækt sé að hann fái vernd hér á landi eða ef sérstakar ástæður mæla með því að taka skuli mál til efnismeðferðar. Getur þetta átt við í tilfellum útlendinga sem eiga ættingja á Íslandi en ekki í því landi sem þeir yrðu sendir aftur til. Þetta getur einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuland, svo sem vegna fyrri dvalar. Með sérstökum aðstæðum er vísað til þess að einstaklingar geta verið í viðkvæmri stöðu sem leiði til þess að þeir muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi svo sem vegna heilsufars, aldurs, þungunar eða mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns, eða fyrri reynslu einstaklinga, t.d. fórnarlömb mansals, ofbeldis og pyndinga.
    Meiri hlutinn bendir á að í frumvarpinu er lagt til að breytingarnar taki að sinni aðeins til umsókna sem borist hafa fyrir gildistöku laganna og þar sem um er að ræða ákvæði til bráðabirgða er veitt tiltekið svigrúm til að meta áhrif breytinganna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að nýtt þing taki afstöðu til áhrifa þeirra breytinga sem frumvarpið mælir fyrir um auk þess sem tekin verði til skoðunar ákvæði laganna um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þeirri vinnu þarf að ljúka eins fljótt og auðið er. Brýnt er að huga að því hvernig styrkja megi stöðu barna sem umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi til frambúðar og að framkvæmd laganna verði í sem bestu samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Guðjón S. Brjánsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykkur áliti þessu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 26. september 2017.

Nichole Leigh Mosty,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson. Birgitta Jónsdóttir.
Eygló Harðardóttir. Pawel Bartoszek. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.