Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 150  —  84. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um tæknifrjóvganir og greiðsluþátttöku.


     1.      Hvað líður endurskoðun á reglum um greiðsluþátttöku ríkisins í tæknifrjóvgunarmeðferðum sem heilbrigðisráðherra var falin með þingsályktun nr. 58/145? Er endurskoðun á gjaldskrá hafin? Ef svo er, hvenær er gert ráð fyrir að henni ljúki? Ef svo er ekki, hver er þá skýringin?
    Alþingi ályktaði að fela heilbrigðisráðherra að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar fyrir árslok 2016. Við endurskoðunina skyldi m.a. gætt að eftirtöldum atriðum:
     1.      að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga næði til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar,
     2.      að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga væri óháð því hvort pör eða einstaklingar ættu barn fyrir.
    Í upphafi endurskoðunar á reglugerð nr. 917/2011, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir sem veittar eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, í nóvember 2016 var ljóst að breyting á reglugerðinni til samræmis við þingsályktunina hefði aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkið. Þar sem í ljós kom að ekki var gert ráð fyrir auknu fjármagni í þennan málaflokk var frekari vinnu við efnislega breytingu á reglugerð frestað. Gildistími efnislega óbreyttrar reglugerðar var framlengdur um eitt ár, eða til 31. desember 2017. Gildistími reglugerðarinnar hefur verið framlengdur árlega frá árinu 2011, enda reglugerðin forsenda greiðsluþátttöku þar sem engir samningar eru í gildi um þjónustuna.
    Rétt er að upplýsa að ráðuneytið hefur óskað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands að stofnunin hefji forkönnun fyrir samningsgerð um tæknifrjóvgunarmeðferð.

     2.      Hver er stefna ráðherra um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í tæknifrjóvgunarmeðferðum?
    Vilji ráðherra stendur til að draga úr kostnaði sjúkratryggðra vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar. Til þess þarf aukið fjármagn en ekki hefur verið gert ráð fyrir því á næsta ári. Auk þess er æskilegt að gera samninga um þjónustuna og hefur undirbúningur þegar hafist eins og fram kemur hér að framan.