Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 152  —  74. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um umsókn Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu.


     1.      Hvernig miðar umsókn Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu?
    Það á sér talsverðan aðdraganda áður en umsóknarríki er orðið fullgildur aðili að Geimvísindastofnun Evrópu. Væntanlegt umsóknarríki óskar eftir því við Geimvísindastofnunina að starfsmenn hennar heimsæki ríkið til að kanna möguleika á samstarfi þeirra og hvert gæti orðið framlag ríkisins í þeim efnum. Skýrsla starfsmanna stofnunarinnar um mögulega aðild viðkomandi ríkis er síðan lögð fyrir aðildarríkin.
    Sé aðild viðkomandi ríkis talin ásættanleg er gerður samstarfssamningur milli þess og Geimvísindastofnunarinnar þar sem aðilum er ætlað að kynnast hvor öðrum og undirbúa jarðveginn fyrir því að gerður sé samningur milli þeirra um nánar tilgreind verkefni með þátttöku einstaklinga, fyrirtækja eða stofnana frá væntanlegu umsóknarríki. Gangi þessi verkefni eftir er gert samkomulag milli umsóknarríkis og Geimvísindastofnunarinnar, svonefnt „Assocation Agreement“ þar sem umsóknarríkið fær að taka fullan þátt í öllum verkefnum Geimvísindastofnunarinnar og að starfa innan hennar. Er þetta samkomulag undanfari fullrar aðildar viðkomandi ríkis.
    Utanríkisráðuneytið hefur verið í samstarfi við Geimvísindastofnunina og átt m.a. fund með framkvæmdastjóra hennar. Utanríkisráðuneytið vinnur nú að því að setja á laggirnar starfshóp með ráðuneytum, stofnunum, fræðasamfélaginu og fyrirtækjum sem hafa m.a. það markmið að vinna að undirbúningi heimsóknar starfsmanna Geimvísindastofnunarinnar eins og áður er rakið. Vonast er til að hópurinn geti komið sem fyrst saman og hægt verði að bjóða starfsmönnum Geimvísindastofnunarinnar til Íslands á fyrri hluta næsta árs.
    Við aðild að Geimvísindastofnuninni þyrfti Ísland að greiða 500.000 evrur. Erfitt er að segja nákvæmlega hvert yrði árlegt framlag Íslands en eins og staðan er nú yrði það væntanlega undir einni milljón evra.
    Utanríkisráðuneytið mun upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis reglulega um samskipti Íslands og Geimvísindastofnunar Evrópu.

     2.      Hvenær telur ráðherra að umsóknarferli ljúki og Ísland verði fullgildur aðili að Geimvísindastofnun Evrópu?
    Eins og rakið er í svari við fyrri lið fyrirspurnarinnar líður talsverður tími áður en umsóknarríki er orðið fullgildur aðili að Geimvísindastofnuninni. Miðað við reynsluna má ætla að það gæti tekið um eða yfir áratug fyrir Ísland að fá fulla aðild að Geimvísindastofnun Evrópu.