Ferill 36. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 155  —  36. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um vistun barna með fötlun.


     1.      Hvernig er háttað eftirliti ráðherra skv. 3. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með vistun fatlaðra barna sem ekki eru vistuð samkvæmt barnaverndarlögum?
    Í lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, er ekki að finna sérstaka lagaheimild til vistunar barna utan heimilis, utan ákvæða 21. gr. og 22. gr. sem fjalla um stuðningsfjölskyldur og skammtímavistanir.
    Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um málefni fatlaðs fólks ber félags- og jafnréttismálaráðherra ábyrgð á eftirliti með framkvæmd laganna. Þetta eftirlit felur í sér að kanna hvort þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögunum, svo sem skammtímavistun, sé í samræmi við markmið laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim, svo og að kanna hvort réttindi fatlaðs fólks séu virt. Skv. 1. mgr. 4. gr. laga um málefni fatlaðs fólks bera sveitarfélög ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk og skulu hafa innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar. Það gildir einnig um framkvæmd samninga sem sveitarfélög gera við rekstrar- eða þjónustuaðila um framkvæmd þjónustunnar.
    Hafin er vinna hjá velferðarráðuneytinu við að kanna heildstætt vistun fatlaðra barna á öllu landinu. Síðastliðið vor óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá átta sveitarfélögum um eftirlit þeirra með vistun barna og ungmenna á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks á vegum tiltekins rekstraraðila, sem býður upp á búsetuúrræði fyrir börn og ungmenni upp að tuttugu ára aldri.
    Óskað var eftir upplýsingum um með hvaða hætti sveitarfélagið hefði sinnt eftirlitsskyldum sínum, þ.e. með hvaða hætti sveitarfélagið hefði metið gæði og árangur umræddra úrræða og fylgst með hvort ráðstöfun næði tilgangi sínum í hverju tilfelli, hvenær hafi verið óskað gagna/upplýsinga, hvaða gagna hafi verið aflað og hvort farið hafi verið í heimsóknir. Einnig var óskað eftir afritum af þeim gögnum sem til væru varðandi umrætt eftirlit og þeim samningum sem í gildi væru.
    Upplýsingar bárust um vistun 13 barna/ungmenna í búsetuúrræðum á vegum þessa tiltekna rekstraraðila. Sex þessara barna/ungmenna voru vistuð á vegum Reykjavíkurborgar en önnur á vegum sveitarfélaga á stórhöfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Akraneskaupstaðar. Ráðuneytinu er enn fremur kunnugt um að átta fötluð börn eru vistuð á tveimur heimilum sem rekin eru af Reykjavíkurborg.

     2.      Ef ekki er haft beint eftirlit með vistun barna með fötlun af hálfu ráðuneytisins, hefur þá öðrum verið falið að annast það eftirlit eða verið gengið úr skugga um að eftirlit sé til staðar?
    Sveitarfélögin bera fyrst og fremst ábyrgð á eftirliti með einstaka málum og þeim úrræðum sem þau reka eða þjónustuaðilum sem sveitarfélögin hafa gert samning við, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Ráðuneytið hefur svo eftirlit með að sveitarfélög sinni skyldum sínum lögum samkvæmt.
     3.      Við hvaða aðstæður búa umrædd börn, hve mörg börn eru vistuð á sama stað og eru þau vistuð með fullorðnu fólki?
    Á þeim heimilum sem velferðarráðuneytið hefur upplýsingar um er ýmist um að ræða búsetu eins barns á heimili eða fleiri barna á sama heimili. Ekki er um að ræða vistun með fullorðnu fólki.

     4.      Hver er aldur þeirra barna sem eru vistuð?
    Upplýsingar fengust frá sveitarfélögum um 13 börn/ungmenni sem voru vistuð í búsetuúrræðum á vegum þessa tiltekna rekstaraðila, sem óskað var upplýsinga um frá sveitarfélögunum. Þessi börn og ungmenni eru fædd á árunum 1997 til 2009. Fjögur þeirra eru orðin eða um það bil að verða 18 ára.

     5.      Hvaða önnur úrræði hafa staðið foreldrum vistaðra barna til boða áður en til vistunar þeirra kom?
    Velferðarráðuneytið hefur ekki kannað þetta sérstaklega en að öllu jöfnu er ekki gripið til vistunar barns utan heimilis nema úrræði sem fela í sér minni íhlutun í aðstæður og umhverfi barns hafi verið fullreynd áður.

     6.      Hvaða fagaðilar koma að ákvörðun um vistun barna og hvaða fagaðilar annast umönnun þeirra?
    Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga um málefni fatlaðs fólks skulu sveitarfélög starfrækja teymi fagfólks sem metur heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu. Teymin skulu hafa samráð við einstaklinginn við matið og skal það byggt á viðurkenndum matsaðferðum. Fötluð börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar um þjónustu þeim til handa miðað við aldur þeirra og þroska. Vitneskja liggur fyrir hjá ráðuneytinu um það hvernig þessi teymi eru skipuð í nokkrum sveitarfélögum en ekki hefur verið kallað sérstaklega eftir upplýsingum um það. Í upplýsingum frá sveitarfélögunum var tilgreint að hjá þessum tiltekna rekstraraðila komi sálfræðingar að málum allra barna/ungmenna og veiti þjónustu í samræmi við þarfir skjólstæðingsins og starfsmönnum reglulega handleiðslu. Starfsmenn fá þjálfun í hvernig eigi að bregðast við óvæntum uppákomum, fræðslu um fatlanir og ýmis hegðunarfrávik, reglulega handleiðslu, og ýmsa aðra símenntun og þjálfun. Nefnt er dæmi um þverfaglegt teymi sem sinni tilteknu ungmenni og samanstendur það af þroskaþjálfa, sálfræðingi, ráðgjafa og atferlisfræðingi.

     7.      Telur ráðherra, m.a. í ljósi skýrslu um vistun barna á Kópavogshæli og tillagna vistheimilanefndar, að núverandi fyrirkomulag á vistun barna með fötlun hér á landi sé viðunandi?
    Markvisst hefur verið unnið að endurbótum á lagaramma varðandi málefni fatlaðra á undanförnum árum og gert er ráð fyrir að frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir verði endurflutt á Alþingi nú í haust. Þar er sérstaklega kveðið á um búsetuúrræði barna utan heimilis. Enn fremur er í undirbúningi eftirlitsstofnun sem gert er ráð fyrir að muni m.a. efla og bæta eftirlit með framkvæmd laga um málefni fatlaðs fólks.