Ferill 76. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 157  —  76. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Pandoru Baldursdóttur um fæðingarorlof.


     1.      Hver var árlegur heildarkostnaður við fæðingarorlof árin 2000–2017?
    Lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, tóku gildi 1. janúar 2001 og taka ákvæði laganna til foreldra barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur þann dag eða síðar. Í lögunum er annars vegar kveðið á um réttindi foreldra sem eru þátttakendur á innlendum vinnumarkaði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á þeim tíma sem þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs og hins vegar um rétt foreldra utan vinnumarkaðar, svo sem vegna náms, til fæðingarstyrks á þeim tíma sem þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Samkvæmt ákvæðum laganna á hvort foreldri um sig rétt á fæðingarorlofi í þrjá mánuði með hverju barni auk þess sem foreldrar eiga sameiginlegan rétt til fæðingarorlofs í þrjá mánuði sem þeir geta skipt með sér að vild.
    Þegar heildarkostnaður við fæðingarorlof er tekinn saman fyrir árin 2000–2017 ber að hafa í huga að sjálfstæður réttur feðra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem og fæðingarstyrks var innleiddur í áföngum í lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Þannig fengu feður sjálfstæðan rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrks í einn mánuð vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2001. Um var að ræða tvo mánuði vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2002 og þrjá mánuði vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. janúar 2003.
    Enn fremur ber að hafa í huga þegar heildarkostnaður við fæðingarorlof er tekinn saman fyrir árin 2000–2017 að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði voru misháar á umræddu tímabili auk þess sem fjárhæð fæðingarstyrks tók breytingum á tímabilinu. Þá var ekki um að ræða tiltekið hámark á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þegar lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi 1. janúar 2001 en slíkt hámark tók í fyrsta skipti gildi hvað varðar foreldra barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2005 eða síðar.
    Heildarkostnaður vegna fæðingarorlofs foreldra á árunum 2000–2017 var eftirfarandi:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hver yrði árlegur heildarkostnaður við fæðingarorlof ef tekjuþak yrði:
                  a.      afnumið,

                  b.      hækkað um 20%,
                  c.      hækkað um 50%?
    a. Við áætlun á heildarkostnaði vegna fæðingarorlofs, þ.m.t. fæðingarstyrks, verður að ætla að líta verði til nokkurra þátta. Í því sambandi má nefna áætlaðan fjölda fæðinga, fjölda foreldra sem áætlað er að nýta muni rétt til fæðingarorlofs, fjölda daga sem áætlað er að þeir nýti innan fæðingarorlofskerfisins sem og áætlaða skiptingu foreldra á sameiginlegum rétti innan kerfisins. Jafnframt má ætla að breyting á hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði geti haft áhrif á alla framangreinda þætti. Þá verður að ætla að þátttaka foreldra á vinnumarkaði og launaþróun á vinnumarkaði geti einnig haft áhrif á heildarkostnað vegna fæðingarorlofs foreldra.
    Í þessu sambandi ber jafnframt að nefna að foreldrar hafa 24 mánuði frá fæðingardegi barns eða frá þeim degi að barn kemur inn á heimili vegna ættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur til að nýta sér rétt sinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrks. Að því gefnu að áfram yrði miðað við tiltekinn fæðingardag eða tiltekinn dag þar sem barn væri ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur við breytingar á hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði má gera ráð fyrir að áhrif breytinganna yrðu minnst fyrst eftir gildistöku breytinganna en ykjust síðan þegar frá liði umræddu tímamarki þar til áhrifin næðu hámarki á um það bil einu og hálfu til tveimur árum.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var árið 2008 besta ár Fæðingarorlofssjóðs til þessa, eftir að lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi, sé litið til nýtingar foreldra á rétti til fæðingarorlofs en það ár fæddust 4.835 börn. Um 90% feðra miðað við fjölda mæðra það ár nýttu sér einhvern hluta af rétti sínum til fæðingarorlofs það ár og voru feðurnir að meðaltali 101 dag í fæðingarorlofi á meðan mæður voru að meðaltali 178 daga í fæðingarorlofi. Þá nýttu á árinu 2008 um 20% feðra eitthvað af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs á meðan 93% mæðra nýttu eitthvað af sameiginlega réttinum. Sé miðað við framangreindar forsendur sem og þróun launa á vinnumarkaði samkvæmt rauntölum Fæðingarorlofssjóðs frá 1. janúar 2008 til 1. janúar 2017 má gera ráð fyrir að kostnaður vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði yrði 15.140 millj. kr. eða 6.319 millj. kr. vegna feðra og 8.821 millj. kr. vegna mæðra ef ekki yrði um að ræða hámarksgreiðslu úr sjóðnum miðað við framangreinda skiptingu foreldra á töku orlofsins. Þá er í fjárlögum fyrir árið 2017 gert ráð fyrir að fæðingarstyrkir á árinu verði um 781 millj. kr. Miðað við framangreindar forsendur má því gera ráð fyrir að heildarkostnaður vegna fæðingarorlofs foreldra yrði 15.921 millj. kr. ef ekki yrði um að ræða hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

    b. Hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 15. október 2016 eða síðar er 500.000 kr. á mánuði. Miðað við þá fjárhæð sem og sömu forsendur og ráðuneytið miðar við í svari sínu við a-lið hér að framan má gera ráð fyrir að kostnaður vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði yrði 13.663 millj. kr., eða 5.539 millj. kr. vegna feðra og 8.124 millj. kr. vegna mæðra. Sé jafnframt miðað við fjárlög fyrir árið 2017 hvað varðar kostnað vegna fæðingarstyrkja á árinu má gera ráð fyrir að heildarkostnaður vegna fæðingarorlofs foreldra yrði 14.444 millj. kr. ef hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði yrði óbreytt frá því sem nú er.
    Verði hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði hækkuð um 20% verður hún 600.000 kr. á mánuði til foreldra í fæðingarorlofi. Sé miðað við slíka hækkun sem og sömu forsendur og í svari ráðuneytisins við a-lið hér að framan má gera ráð fyrir að kostnaður vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði yrði 14.223 millj. kr., eða 5.813 millj. kr. vegna feðra og 8.410 millj. kr. vegna mæðra. Sé jafnframt miðað við fjárlög fyrir árið 2017 hvað varðar kostnað vegna fæðingarstyrkja á árinu má gera ráð fyrir að heildarkostnaður vegna fæðingarorlofs foreldra yrði 15.004 millj. kr. ef hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði yrði hækkuð í 600.000 kr. á mánuði.

    c. Verði hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði hækkuð um 50% verður hún 750.000 kr. á mánuði til foreldra í fæðingarorlofi. Sé miðað við slíka hækkun sem og sömu forsendur og í svari ráðuneytisins við a-lið hér að framan má gera ráð fyrir að kostnaður vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði yrði 14.655 millj. kr., eða 6.031 millj. kr. vegna feðra og 8.624 millj. kr. vegna mæðra. Sé jafnframt miðað við fjárlög fyrir árið 2017 hvað varðar kostnað vegna fæðingarstyrkja á árinu má gera ráð fyrir að heildarkostnaður vegna fæðingarorlofs foreldra yrði 15.436 millj. kr. ef hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði yrði hækkuð í 750.000 kr. á mánuði.