Ferill 35. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 159  —  35. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni um fullgildingu viðauka við samning um réttindi fatlaðs fólks.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig miðar og hvernig er háttað undirbúningi fullgildingar valkvæðs viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. þingsályktun nr. 61/145 frá 20. september 2016?
     2.      Er þess að vænta að staðið verði við þá ákvörðun Alþingis í framangreindri þingsályktun að viðaukinn verði fullgiltur fyrir lok þessa árs?


    Áður en til fullgildingar alþjóðasamnings kemur metur það ráðuneyti sem fer með mál er efni hans varðar áhrif samningsins og hvort fullgilding krefjist lagabreytinga svo uppfylla megi skuldbindingarnar sem í honum felast. Sé lagabreytinga þörf leggur viðkomandi ráðherra fram lagafrumvarp. Utanríkisráðuneytið fer með gerð samninga við önnur ríki, sbr. f-lið 2. tölul. 8. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 15/2017.
    Dómsmálaráðuneytið fer með mannréttindamál og mannréttindasáttmála, sbr. 18. tölul. 3. gr. áðurnefnds forsetaúrskurðar. Samkvæmt upplýsingum þess ráðuneytis hefur stýrihópur Stjórnarráðsins í mannréttindum fullgildingu á viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til skoðunar, en hefur ekki lokið við mat á því hvort tímabært sé að ráðast í lagabreytingar og fullgildingu, m.a. vegna vinnu við að uppfylla samningsskuldbindingarnar.