Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 161  —  73. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um gengisflökt.


    Forsætisráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands við undirbúning svars við fyrirspurn þessari og eru eftirfarandi svör m.a. byggð á þeim upplýsingum.

     1.      Hvernig er mat lagt á gengisflökt?
    Gengisflökt er yfirleitt talið vísa til skammtímasveiflna í gengi gjaldmiðils og er sá skilningur lagður í hugtakið hér. Ekki er til nein algild aðferð til útreiknings á gengisflökti enda misjafnt til hvaða tíðni er horft, en algengt er að horfa á daglegt, vikulegt eða mánaðarlegt flökt. Þá er slíkt flökt reiknað yfir ákveðið tímabil og oft sem staðalfrávik daglegra, vikulegra eða mánaðarlegra hlutfallslegra breytinga.

     2.      Hver er ástæða gengisflökts krónunnar gagnvart helstu viðskiptagjaldmiðlum þjóðarinnar síðustu mánuði? Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir ástæðum breytinga í hverjum mánuði.
    Hefðbundin milliríkjaviðskipti og fjármagnsviðskipti yfir landamæri hafa áhrif á gengi krónunnar en einnig gjaldeyrisviðskipti á milli innlendra aðila sem hafa áhrif á viðskipti á gjaldeyrismarkaði. Slík viðskipti geta t.d. átt rætur að rekja til áhættuvarna. Væntingar geta því haft töluverð áhrif á gengið til skemmri tíma litið og þar með á gengisflökt, enda er gengi gjaldmiðla öðrum þræði eignaverð. Þessi áhrif eru yfirleitt meiri þegar fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti eru óheft en þegar þau eru heft. Af þessum sökum er engin leið að gefa tæmandi skýringar á gengisflökti á hverjum tíma enda óþarft þar sem færa má fyrir því rök að hóflegt gengisflökt sé ekki skaðlegt.
    Spurt er um gengisflökt „síðustu mánuði“ og þá er hentugt að líta til tímabilsins frá mars sl. þegar sú mikilvæga breyting varð að höft á fjármagnsflutninga voru losuð nánast að fullu. Viðbúið var að um leið og innlendum fyrirtækjum og heimilum varð heimilt að eiga nánast óheft viðskipti með gjaldeyri myndi flökt í gengi krónunnar aukast og það gekk eftir. Sérstaklega bar á þessu fyrstu vikurnar eftir losun hafta. Einstaklingar og fyrirtæki hafa nú heimildir til að eiga gjaldeyrisviðskipti af öðrum ástæðum en vegna vöru- og þjónustuviðskipta og afleiðuviðskipti vegna áhættuvarna eru nú heimil. Á sama tíma og meira frjálsræði einkennir gjaldeyrismarkaðinn hefur Seðlabankinn dregið úr inngripum sínum á gjaldeyrismarkaði, sbr. yfirlýsingar peningastefnunefndar bankans þar um, enda var gjaldeyrisforði orðinn nægilega stór og losun fjármagnshafta að mestu að baki.
    Meginástæður aukins gengisflökts á síðastliðnu vori og sumri má því rekja til losunar fjármagnshafta, minni viðskipta Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði og leitar markaðarins að nýju jafnvægi í kjölfar þessara breytinga. Dregið hefur úr gengisflökti á síðustu vikum.
    Ekki er efni til þess að gera sérstaklega grein fyrir ástæðum breytinga í hverjum mánuði fyrir sig enda skipta þær í sjálfu sér litlu.

     3.      Til hvaða aðgerða hefur Seðlabanki gripið mánaðarlega vegna þessa?
    Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans í maí sl. sagði m.a.: „Seðlabankinn hefur dregið úr inngripum á gjaldeyrismarkaði í ljósi rúmrar forðastöðu enda er gengishækkunin talin endurspegla undirliggjandi efnahagsþróun. Seðlabankinn mun eftir sem áður grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að draga úr sveiflum eftir því sem hann telur tilefni til.“ Þessari stefnu hefur bankinn fylgt og hefur síðustu mánuði bæði selt og keypt gjaldeyri á millibankamarkaði til þess að vinna gegn óhóflegum gengissveiflum, sbr. töfluna hér á eftir.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Því má bæta við að á miðju ári 2016 lagði Seðlabankinn sérstaka bindiskyldu á tilgreindar tegundir fjármagnsinnflæðis. Bindiskyldan hefur virkað eins og vænst var og án efa komið í veg fyrir að gengi krónunnar hækkaði meira en varð á seinni hluta ársins 2016 og þannig dregið úr gengissveiflum.

     4.      Hafa stjórnvöld gripið til annarra aðgerða vegna gengisflökts og þá hverra?
    Þau stjórntæki sem tiltæk eru til að bregðast við gengisflökti eru fyrst og fremst á hendi Seðlabanka Íslands. Af hans hálfu hefur ekki verið gripið til annarra aðgerða en þeirra sem að framan greinir vegna gengisflökts.

     5.      Hvaða aðstæður þurfa að vera fyrir hendi til að ráðherra telji rétt að gripið sé til aðgerða til að verjast gengisflökti?
    Mat á því hvort gripið sé til aðgerða vegna gengisflökts eru á hendi Seðlabanki Íslands. Bankinn hefur gripið inn í gjaldeyrismarkað ef vísbendingar hafa verið um að markaðurinn væri óstöðugur og breytingar eltu hver aðra án sýnilegs tilefnis. Hann mun halda því áfram. Að því slepptu eru að mati Seðlabankans sérstakar aðgerðir ekki nauðsynlegar nema gengisflökt raski verð- og/eða fjármálastöðugleika. Samkvæmt lögum er það hlutverk peningastefnunefndar Seðlabankans að bregðast við ef gengisflökt ógnar verðstöðugleika. Bankinn telur ekki að gengisflökt síðustu mánaða hafi verið af því tagi og umfangi að það raski verð- eða fjármálastöðugleika.