Ferill 124. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 171  —  124. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur um kröfur um menntun opinberra starfsmanna sem fara með valdheimildir, stjórnsýsluaðgerðir og löggæslu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða kröfur eru gerðar um fræðslustig og menntun þeirra lögreglumanna, tollvarða, fangavarða, starfsmanna sýslumannsembætta og starfsmanna Landhelgisgæslu Íslands sem fara með valdheimildir, stjórnsýsluaðgerðir og löggæslu?

    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá viðeigandi embættum vegna fyrirspurnarinnar og er svar þetta unnið í samræmi við þær upplýsingar sem bárust.
    Það skal þó tekið fram að störf þau sem óskað er eftir upplýsinga um eru afar eðlisólík og eru því gerðar mismunandi kröfur til fræðslustigs og menntunar. Verður svarinu því skipt upp í töluliði og fjallað um hvert starf sérstaklega.

     1.      Lögreglumenn.
    Með lögum nr. 61/2016, um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, var menntun lögreglu færð á háskólastig og Lögregluskóli ríkisins lagður niður. Þá var mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu sett á fót en hlutverk setursins er að sjá um starfsnám lögreglunema auk þess að sinna sí- og endurmenntun lögreglu. Meginmarkmið laganna var að stuðla að vandaðri og faglegri menntun lögreglumanna en markmiðið í menntunar- og þjálfunarmálum lögreglunnar er að tryggja að lögreglan geti á hverjum tíma tekist á við mikilvægustu verkefni sín; að tryggja réttaröryggi borgaranna og grundvallarhagsmuni ríkisins. Mikilvægt er að lögreglan hafi góða þekkingu á þeim kröfum sem til hennar eru gerðar og leggi sig fram í hvívetna við vandasöm störf.
    Hver sá sem skipaður er lögreglumaður skal annaðhvort hafa lokið prófi frá fyrrverandi Lögregluskóla ríkisins eða 120 eininga diplómanámi í lögreglufræðum, þ.m.t. starfsnámi á vegum lögreglunnar, sbr. 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.
    Í a–d-lið 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga eru sett fram skilyrði til að fá inngöngu í starfsnám hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar. Samkvæmt því þarf viðkomandi nemi að vera íslenskur ríkisborgari, 20 ára eða eldri og hafa hreinan sakarferil. Síðastnefnda skilyrðið gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því það var framið en viðkomandi má þó ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta. Nemi þarf einnig að vera andlega og líkamlega heilbrigður, standast læknisskoðun trúnaðarlæknis og hafa lokið stúdentsprófi eða annarri sambærilegri menntun. Þá getur ráðherra sett nánari kröfur um hæfni á grundvelli tillagna frá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu, m.a. um menntun, starfsþjálfun, tungumálakunnáttu og líkamlega færni, sbr. e-lið ákvæðisins. Í reglugerð nr. 221/2017 hefur ráðherra sett fram nánari kröfur um hæfni, sbr. e-lið 1. mgr. 38. gr. laganna. Er þar m.a. kveðið á um að nemi skuli hafa staðist kröfur um þrek og styrk samkvæmt viðmiðum sem mennta- og starfsþróunarsetur setur og hafa gild almenn ökuréttindi, sbr. e- og f-lið 6. gr. reglugerðarinnar.

     2.      Tollverðir.
    Málefni tollstjóra heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, sbr. b-lið 4. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 15/2017, og verður því að beina fyrirspurn um kröfur um fræðslustig og menntun tollvarða til fjármála- og efnahagsráðherra.

     3.      Fangaverðir.
    Fangelsismálastofnun sér til þess að fangaverðir hljóti viðhlítandi menntun og þjálfun í fangavarðafræðum þegar þörf er á, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016. Forstjóri Fangelsismálastofnunar skipar fangaverði til fimm ára í senn, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Skal fangavörður hafa lokið námi í fangavarðafræðum en leggja má að jöfnu sambærilegt nám sem viðurkennt er af Fangelsismálastofnun, að fenginni umsögn stjórnar Fangavarðafélags Íslands, svo sem ef menn hafa lokið sambærilegu námi erlendis. Heimilt er að ráða fangavörð tímabundið til afleysinga enda hafi hann setið undirbúningsnámskeið í fangavörslu og staðist bakgrunnsskoðun samkvæmt 10. gr. laganna, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.
    Samkvæmt reglugerð nr. 347/2007 um menntun fangavarða skal fangavarðanám vera 9 mánuðir, en námið samanstendur af kennslu og starfsnámi. Umsækjendur um námið skulu vera á aldrinum 20–45 ára og mega ekki hafa gerst brotlegir við refsilög en það gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því það var framið. Þá skulu umsækjendur vera andlega og líkamlega heilbrigðir samkvæmt læknisskoðun trúnaðarlæknis, hafa lokið a.m.k. tveggja ára almennu framhaldsnámi eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri og hafa gott vald á íslensku auk kunnáttu í ensku eða einu Norðurlandamáli. Ef sérstaklega stendur á er heimilt að víkja frá skilyrðum um aldur og menntun. Þá skal enn fremur við mat á umsækjendum í fangavarðaskólann einkum horft til þeirra eiginleika sem sérstaklega þykja eftirsóknarverðir, svo sem heiðarleika, mannúðar, samskiptahæfni og hversu vel umsækjendur eru að öðru leyti til starfsins fallnir. Í náminu sjálfu er svo lögð áhersla á fræðslu í lögum um fullnustu refsinga, reglugerðum þeim tengdum, stjórnsýslulögum og evrópskum fangelsisreglum auk almennrar fræðslu um mannréttindi og þjálfun í að annast fólk af virðingu.
    Áður en einstaklingur er skipaður, settur eða ráðinn til starfa hjá Fangelsismálastofnun eða í fangelsum ríkisins skal hann, að fengnu samþykki, undirgangast bakgrunnsathugun sem felst í öflun upplýsinga úr skrám og upplýsingakerfum hjá lögreglu og öðrum yfirvöldum, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um fullnustu refsinga. Við mat á því hvort skipa, setja eða ráða skuli fangavörð til starfa þarf því að leggja heildstætt mat á það hvort hann hafi hæfni og trúverðugleika til þess að vinna hjá Fangelsismálastofnun eða í fangelsum ríkisins.
    Í 11. gr. laga um fullnustu refsinga er kveðið á um heimild til valdbeitingar. Starfsmönnum fangelsa og Fangelsismálastofnunar er hér veitt heimild til að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir sérstökum skilyrðum fyrir valdbeitingu og er um tæmandi talningu að ræða. Í 2. mgr. 11. gr. er lögfest meðalhófsregla sem kveður á um að aldrei megi ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni.

     4.      Starfsmenn sýslumannsembætta.
    Um skipun sýslumanna og ráðningu starfsmanna sýslumannsembætta fer samkvæmt lögum nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Kröfur um menntunar- og fræðslustig sýslumanna er að finna í 3. gr. laganna og þar segir í f-lið 2. mgr. að sýslumaður þurfi að hafa lokið fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verði jafngilt. Í 2. mgr. 5. gr. sömu laga kemur fram að sömu menntunarkröfur eru gerðar til löglærðra fulltrúa sýslumanns. Nánari hæfisskilyrði er að finna í 2. mgr. 3. gr. en þar segir að sýslumaður þurfi auk almennra hæfisskilyrða til að hljóta skipun í embætti á vegum ríkisins, að hafa náð 30 ára aldri, vera íslenskur ríkisborgari, vera þannig á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu, vera lögráða og hafa aldrei misst forræði á búi sínu og hafa ekki gerst sekur um refsivert athæfi sem svívirðilegt er að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem rýrt gæti það traust sem sýslumenn verða almennt að njóta. Þessi skilyrði gilda einnig um fulltrúa sýslumanns, að því undanskildu að þurfa að hafa náð 30 ára aldri, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
    Hvað varðar stjórnsýslugerðir sem sýslumaður fer með, þá byggjast þær heimildir m.a. á lögum um aðför, nr. 90/1989, lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, og lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Samkvæmt framangreindum lögum fer sýslumaður eða fulltrúi hans með framkvæmd fyrrnefndra gerða, þá fer enn fremur um hæfi sýslumanna og fulltrúa þeirra til að fara með nefndar aðfarargerðir eftir reglum laga um hæfi dómara til að fara með einkamál í héraði, eftir því sem við getur átt.

     5.      Starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands.
    Um starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands fer samkvæmt lögum nr. 52/2006, um Landhelgisgæslu Íslands. Í 2. gr. laganna kemur fram að ráðherra skipar forstjóra Landhelgisgæslunnar til fimm ára í senn. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna fara forstjóri, löglærðir fulltrúar hans, áhafnir skipa og loftfara Landhelgisgæslunnar, sprengjusérfræðingar og yfirmenn í stjórnstöð og vaktstöð siglinga með lögregluvald. Ekki er nánar tilgreint hvaða menntun eða þjálfun forstjóri skuli hafa en löglærðir fulltrúar hans skulu samkvæmt orðanna hljóðan hafa lögfræðimenntun. Ráðherra hefur sett reglugerð nr. 1171/2008 um starfsemi sprengjusérfræðinga, hæfisskilyrði og menntun, sbr. 2. mgr. 15. gr. laganna. Landhelgisgæsla Íslands gefur út starfsleyfi til starfsmanna sem uppfylla kröfur reglugerðarinnar. Sprengjusérfræðingar skulu þjálfaðir samkvæmt lágmarksstaðli Atlantshafsbandalagsins er tilgreinir kröfur sem gerðar eru til starfsfólks sem starfar við sprengjueyðingu (NATO STANAG 2389). Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslu Íslands er það í framkvæmd þannig að þeir starfsmenn í áhöfnum skipa og loftfara Landhelgisgæslunnar og yfirmenn í stjórnstöð og vaktstöð siglinga sem bera ábyrgð á meðferð lögregluvalds hjá Landhelgisgæslunni skulu hafa lokið 4. stigi varðskipadeildar Fjöltækniskólans. Aðrir áhafnarmeðlimir sem koma að framkvæmd lögregluvalds og stjórnsýsluvalds hafa fengið þjálfun í samræmi við verksvið sitt. Ef stýrimaður sem sinnir löggæsluverkefni hefur ekki lokið 4. stigi hefur reglan verið sú að málið sé afgreitt í beinu samráði og á ábyrgð vakthafandi 4. stigs ábyrgðaraðila á stjórnstöð (framkvæmdastjóra aðgerðarsviðs eða staðgengli hans). Þá er kveðið á um að landhelgisgæslumenn skuli hljóta grunnþjálfun í notkun lögreglutaka, sjálfsvörn og vopnaburði auk sérstakrar þjálfunar í notkun fallbyssa, sbr. 2. gr. reglna um valdbeitingu handhafa lögregluvalds hjá Landhelgisgæslu Íslands og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá 6. júlí 2007, sbr. einnig 3. gr. vopnalaga, nr. 16/1998, og 8. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands.