Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 178  —  28. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ástu Guðrúnu Helgadóttur um brottfall úr framhaldsskólum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvert hefur verið brottfall nemenda úr framhaldsskólum frá 2007 samkvæmt skilgreiningu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á brottfalli úr framhaldsskólum? Svar óskast sundurliðað eftir ári og skóla og eftir því hvort nemendur hófu nám til stúdentsprófs til þriggja eða fjögurra ára.

    Skilgreining OECD á brotthvarfi gerir ekki ráð fyrir því að greint sé milli skóla en aðeins hvort nemendur ljúka námi í einhverjum skóla á tilteknu tímabili. Í íslensku skólakerfi er ekki óalgengt að nemendur hefji nám í einum skóla en ljúki námi af námsbraut í öðrum skóla. Þannig gæfu brotthvarfstölur eftir skóla ekki rétta mynd af því hversu stór hluti af ákveðnum innritunarhópi lyki námi. Sundurgreining eftir skóla liggur því ekki fyrir. Könnun Hagstofu á brotthvarfi fyrir OECD greinir heldur ekki nemendur eftir því hvers konar námsbraut þeir hófu nám á, að öðru leyti en því að innritunarhópunum er skipt upp eftir bóknámi og starfsnámi í samræmi við flokkunarstaðal OECD (ISCED) sem Hagstofa styðst við.
    Sú könnun á brotthvarfi sem Hagstofa gerði síðast árið 2011 tók til nýnema sem innrituðust í framhaldsskóla haustið 2004. Þeim hópi var fylgt eftir og athugað hvort nemendur hafi lokið námi fjórum, sex og sjö árum eftir innritun. Einnig var athugað hversu margir höfðu horfið úr námi eða væru enn við nám, sjá töflu 1.

Tafla 1. Brautskráningarhlutfall og brottfall af framhaldsskólastigi nýnema 2004.
Fjórum árum eftir innritun Sex árum eftir innritun Sjö árum eftir innritun
Alls Karlar Konur Alls Karlar Konur Alls Karlar Konur
Nýnemar alls 4.830 2.424 2.406 4.830 2.424 2.406 4.830 2.424 2.406
Brautskráðir úr almennu bóknámi 1.836 722 1.114 2.364 988 1.376 2.471 1.038 1.433
Brautskráðir úr verk- og starfsnámi 580 287 293 881 463 418 995 517 478
Brautskráðir alls 2.161 911 1.250 2.810 1.271 1.539 2.961 1.343 1.618
Hlutfall brautskráðra 44,7% 37,6% 52,0% 58,2% 52,4% 64,0% 61,3% 55,4% 67,2%
Brottfallnir 1.331 762 569 1.429 831 598 1.316 788 528
Hlutfall brottfallinna 27,6% 31,4% 23,6% 29,6% 34,3% 24,9% 27,2% 32,5% 21,9%
Enn í námi 1.338 751 587 591 322 269 553 293 260
Heimild: Hagstofa Íslands.

    Tafla 1 sýnir að fjórum árum eftir innritun, árið 2008, höfðu 44,7% lokið námi og 27,6% horfið úr námi án þess að ljúka lokaprófi, 1.331 nemandi af 4.830 nemendum sem hófu nám. Sjö árum eftir innritun, árið 2011, var hlutfall brottfallinna 27,2%.
    Hagstofa hefur ekki gert könnunina síðan 2011. Mennta- og menningarmálaráðuneytið beitti sér fyrir því með sérstökum samningi við Hagstofu að könnunin yrði gerð á ný. Ekki er von á nýjum tölum fyrr en í byrjun næsta árs.
    Skólasókn nemenda getur gefið ákveðna vísbendingu um hvort breytingar hafi orðið á brotthvarfi. Hagstofa tekur saman tölur um skólasókn nemenda á framhaldsskólastigi eftir aldri, sem hlutfall af mannfjölda á sama aldri. Tafla 2 sýnir skólasókn nemenda 16–20 ára sem hlutfall af mannfjölda fyrir árin 2007–2014. Tölurnar sýna að hlutfall nemenda á þessum aldri sem sækir skóla hefur verið nánast óbreytt á þessum árum. Það gefur ekki ástæðu til að ætla að miklar breytingar hafi orðið á brautskráningu og brotthvarfi nemenda á þessum aldri frá 2009. Ekki er þó hægt að fullyrða um það fyrr en niðurstöður nýrrar könnunar liggja fyrir.

Tafla 2. Skólasókn á framhaldsskólastigi eftir aldri sem hlutfall af mannfjölda 2007–2014.
Aldur 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014
16 ára 93,1 93,5 95,4 95,0 95,2 95,5 95,2 95,4
17 ára 83,3 84,8 89,8 88,3 89,8 89,9 88,9 89,1
18 ára 77,0 75,0 80,4 81,6 82,4 81,7 82,5 81,0
19 ára 68,3 69,4 71,7 71,0 72,4 69,4 68,5 69,8
20 ára 35,3 36,1 37,7 35,0 36,8 33,0 31,5 31,7
Heimild: Hagstofa Íslands.