Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 180  —  31. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um þróun lántöku til skólagjalda.


     1.      Hver hefur þróun lántöku til skólagjalda verið síðustu tíu ár og hver er helsta ástæðan fyrir lántöku til skólagjalda?
    Eftirfarandi tafla og línurit sýna þróun lána til skólagjalda eftir árum í millj. kr. frá skólaárinu 2006–2007 fram til skólaársins 2015–2016, á verðlagi ársins 2016. Mikil hækkun hefur orðið á lánum til skólagjalda á tímabilinu vegna náms erlendis og sérnáms hér á landi. Lán vegna skólagjalda til háskólanáms hér á landi eru aftur á móti nokkuð stöðug. Heildarupphæð þessara lána hefur lækkað á síðustu tveimur árum vegna fækkunar nemenda sem þiggja námslán.
    Eins og fram kemur í töflunni veitti Lánasjóður íslenskra námsmanna 2.482 lán vegna skólagjalda 2015–2016. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki undir höndum upplýsingar um ástæður þess að hver og einn umsækjenda þessara lána ákvað að sækja um.

Yfirlit yfir veitt lán til skólagjalda LÍN frá 2006 til 2015 í m.kr., á verðlagi ársins 2016.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Línurit er sýnir þróun lána til skólagjalda LÍN frá 2006 til 2015 í millj. kr., á verðlagi ársins 2016.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hefur ráðherra metið með einhverjum hætti áhrif hærri lána á möguleika ungs fólks til t.d. húsnæðiskaupa?
    Endurgreiðslur námslána hefjast tveimur árum eftir námslok. Árleg endurgreiðsla námslána er í tvennu lagi, annars vegar er föst greiðsla sem innheimt er í mars og hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimt er í september. Viðbótargreiðslan miðast við 3,75% af tekjustofni greiðanda samkvæmt skattframtali ársins á undan. Frá viðbótargreiðslu dregst fasta greiðslan sem greidd var á gjalddaga lánsins í mars. Þá er hægt að dreifa greiðslu hvorrar afborgunar fyrir sig í 6 mánuði.
    Þar sem fyrirkomulag endurgreiðslna námslána er eins og að framan greinir hefur fjárhæð námsláns engin áhrif á árlega upphæð afborgunar. Árleg fjárhæð afborgunar námsláns ræðst af tekjum viðkomandi, en lánstími ræðst af fjárhæð námsláns þannig að fjárhæð námsláns hefur tiltölulega takmörkuð áhrif á möguleika ungs fólks til húsnæðiskaupa.