Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 182  —  81. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um Garðyrkjuskólann.


     1.      Hvernig miðar viðhaldi og framkvæmdum við húsnæði Garðyrkjuskólans á Reykjum, sér í lagi með tilliti til skemmda sem urðu í óveðri sl. vor?
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið í samráði við Landbúnaðarháskóla Íslands óskaði eftir því hinn 19. janúar sl. að Framkvæmdasýsla ríkisins ynni frumathugun á húsnæði Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskólans að Reykjum í Ölfusi. Athugaðar yrðu endurbætur eða endurgerð bygginga samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001, og í samræmi við verklagsreglur fjármála- og efnahagsráðuneytis um tilhögun frumathugunar. Verkefnið náði til skoðunar á endurbótum eða endurgerð á aðalbyggingum Garðyrkjuskólans og gengið var út frá þeirri forsendu að Garðyrkjuskólinn yrði áfram starfræktur á Reykjum.
    Hinn 18. júlí sl. skilaði Framkvæmdasýsla ríkisins frumathugun sinni ásamt tillögum um úrbætur á húsakosti aðalbygginga Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi.
    Í fylgiriti með fjárlögum fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir því að 70 millj. kr. renni til endurbóta og viðhalds á aðalbyggingum á Reykjum. Að hluta hafa þeir fjármunir verið nýttir til framangreindrar frumathugunar og til mest aðkallandi viðhaldsverkefna.
     *      Gert var við óveðursskemmdir sem urðu á húsnæði Garðyrkjuskólans á Reykjum síðastliðið vor. Um var að ræða bráðabirgðaviðgerð, enda áætlað að fara síðar í varanlegar endurbætur til samræmis við tillögur sem fram komu í frumathugunarskýrslu Framkvæmdasýslu ríkisins.
     *      Brunavarnir Árnessýslu athuguðu eldvarnir í aðalbyggingum skólans hinn 23. október 2015. Niðurstöður þeirrar skoðunar leiddu í ljós umtalsverða ágalla á brunavörnum. Unnið hefur verið að endurbótum á brunavörnum og lýkur þeim í október 2017.
     *      Leitað hefur verið tilboða í klæðningu á skrifstofuálmu og nauðsynlegar viðgerðir á skrifstofum. Tilboð liggja enn ekki fyrir.
     *      Í frumathugunarskýrslu er vesturálma skólans dæmd ónýt og lagt til að hún verði rifin. Niðurrif hennar er komið í ferli samkvæmt upplýsingum skólans.
     *      Áformað er að hefja nauðsynlegar endurbætur á anddyri skólans innan skamms.

     2.      Verður frekara fjármagn veitt í áframhaldandi uppbyggingu á aðstöðunni?
    Unnið er að endurbótum á grundvelli frumathugunarskýrslu Framkvæmdasýslu ríkisins, en þar er lagt til að verkefninu verði skipt í áfanga á 3–4 ára framkvæmdatíma. Heildarkostnaður við nauðsynlegar endurbætur er metinn á 170–200 millj. kr. og er endurgerð gróðurskálans langkostnaðarsamasti einstaki liður áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir áframhaldandi fjárheimild til verkefnisins í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018.

     3.      Hvers vegna fellur rekstur húsnæðis Garðyrkjuskólans ekki undir Ríkiseignir líkt og aðrar fasteignir ríkisins?
    Skólabyggingar Garðyrkjuskólans hafa til langs tíma verið í afar lélegu ástandi og nauðsynlegu viðhaldi hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Forsenda þess að Ríkiseignir taki yfir viðhald á húsnæðinu er að ástandi þess verði komið í betra horf og að því er unnið. Í framhaldi af áformuðum endurbótum verða viðræður teknar upp við Ríkiseignir um yfirtöku þeirra á fasteignunum gegn innri leigu.