Ferill 99. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 183  —  99. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ástu Guðrúnu Helgadóttur um undanþágur frá afborgunum námslána.


     1.      Hverjar eru vinnureglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN, við mat á hvort umsækjandi fái undanþágu frá afborgun námslána?
    Samkvæmt grein 8.5.1 í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2017–2018 er heimilt að veita undanþágu vegna verulegra fjárhagsörðugleika. Þar segir:
    „Sjóðsstjórn er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, þungunar eða umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagslegum örðugleikum hjá lánþega. Almennt er miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþega eru yfir 3.790.000 kr. og árstekjur hjóna/sambúðarfólks eru yfir 7.580.000 kr. vegna tekna ársins á undan. Ef umsækjandi er ekki með skattalega heimilisfesti á Íslandi og tekjur hans eru í erlendum gjaldmiðli, skal miða við kaupgengi á gjalddaga afborgunar.
    Með lánshæfu námi er átt við að nám umsækjanda uppfylli skilyrði 1. kafla úthlutunarreglna um lánshæfi náms og að námsmaður uppfylli skilyrði 2. kafla um námsframvindu.
    Óvinnufær vegna örorku telst sá sem hefur rétt til örorkulífeyris samkvæmt skilgreiningu Tryggingastofnunar. Með umönnun barna og/eða maka er átt við að umönnunin hafi áhrif á möguleika umsækjanda til atvinnu.
    Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddag afborgunar.“
    Þá hefur stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna samþykkt eftirfarandi vinnureglur við afgreiðslu á umsóknum um undanþágu:

Tilfelli 1:
    –     Umsókn og öll umbeðin gögn hafa borist LÍN.
    –     Ástand 1 hefur varað í 2 til 4 mánuði fyrir gjalddaga (skilyrði uppfyllt) .
    –     Tekjur 2 greiðanda eru undir 3.790.000 kr. / tekjur greiðanda og maka undir 7.580.000 kr. árið 2016.
    Hægt að samþykkja undanþágu.

Tilfelli 2:
    –     Umsókn komin og öll umbeðin gögn komin.
    –      Ástand1 hefur varað í 1–1,99 mánuði (skilyrði ekki uppfyllt).
    –      Tekjur2 greiðanda undir 3.790.000 kr. / tekjur greiðanda + maka undir 7.580.000 kr. árið 2016.
    Synjað með vísun til stjórnar í synjunarbréfinu.

Tilfelli 3:
    –     Umsókn og umbeðin gögn komin.
    –      Ástand1 hefur varað í 4 mánuði (skilyrði uppfyllt).
    –      Tekjur2 greiðanda yfir 3.790.000 kr. / tekjur greiðanda + maka yfir 7.580.000 kr.
    Beðið um frekari gögn. Staðfestingarblað til fjármálastofnunar fer með bréfinu. Fjármálastofnunin þarf að fylla út og undirrita blaðið og því er síðan komið til LÍN.
    Frekari gögn eru:
    –     Staðfesting frá viðskiptabanka eða öðru fjármálafyrirtæki um að önnur lán hafi verið í frystingu í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga.
    –     Tillaga frá umboðsmanni skuldara um að þörf sé að veita undanþágu vegna verulegra fjárhagsörðugleika (greiðsluerfiðleikamat).
    –     Afrit af greiðsluerfiðleikamati þarf að fylgja með staðfestingunni.
    Ef gögnin sýna ekki verulega fjárhagsörðugleika, sbr. framangreint, er umsókn synjað með vísun til stjórnar í synjunarbréfinu.

Tilfelli 4:
    –      Ástand1 1–1,99 mánuðir (skilyrði ekki uppfyllt).
    –      Tekjur2 greiðanda yfir 3.790.000 kr. / greiðanda + maka yfir 7.580.000 kr.
    Synjað með vísun til stjórnar í synjunarbréfinu.

     2.      Er tekið tillit til félagslegrar stöðu umsækjenda, þ.m.t. fjölda barna á framfærslu einstaklings eða sambúðarfólks, þegar litið er á heildartekjur þeirra á ársgrundvelli?
    Ekki er horft á fjölda barna viðkomandi þegar metið er hvort veita eigi undanþágu frá afborgun eða ekki. Við heildarmat á því hvort veita eigi undanþágu eða ekki er hins vegar tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem veikinda barna, mikils lækniskostnaðar o.s.frv.

     3.      Hversu margir umsækjendur hafa á ári hverju frá og með 2013:
                  a.      fengið neitun um undanþágu frá afborgun námslána eingöngu á grundvelli gr. 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN, þ.e. að árstekjur einstaklings hafi verið yfir 3.790.000 kr. eða árstekjur hjóna/sambúðarfólks yfir 7.580.000 kr.,
                  b.      fengið neitun um undanþágu frá afborgun námslána m.a. á grundvelli þess að árstekjur þeirra hafi verið of miklar, og
                  c.      fengið undanþágu þrátt fyrir að vera með tekjur yfir viðmiðunarmörkum?

    Eins og kemur fram í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagslegum örðugleikum hjá lánþega. Ekki er veitt undanþága frá afborgun eingöngu á grundvelli þess að viðkomandi sé með tekjur undir viðmiðunarmörkum sem stjórn LÍN notar við mat á veitingu undanþágu. Ekki eru skráðar upplýsingar fyrir hverja tegund undanþágu, á hvaða forsendum umsókn er samþykkt eða henni hafnað. Hins vegar voru þeir taldir sem voru yfir tekjum en gátu ekki sýnt fram á verulega greiðsluerfiðleika með einhverjum öðrum hætti og var því hafnað, sbr. eftirfarandi töflu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Fjöldi umsækjenda um undanþágu sem hafnað var árin 2013–2017.

Ár 2017
Fjöldi umsókna 2.911
Samþykktar umsóknir 1.664
Synjað / dregið til baka 1.150
Þar af synjað vegna gagnaleysis / frekari gagna* 294
Umsóknir í vinnslu 97
Ár 2016
Fjöldi umsókna 3.051
Samþykktar umsóknir 1.841
Synjað / dregið til baka 1.210
Þar af synjað vegna gagnaleysis / frekari gagna* 402
Ár 2015
Fjöldi umsókna 3.619
Samþykktar umsóknir 2.018
Synjað / dregið til baka 1.601
Þar af synjað vegna gagnaleysis / frekari gagna* 619
Ár 2014
Fjöldi umsókna 4.118
Samþykktar umsóknir 2.572
Synjað / dregið til baka 1.546
Þar af synjað vegna gagnaleysis / frekari gagna* 608
Ár 2013
Fjöldi umsókna 4.267
Samþykktar umsóknir 3.045
Synjað / dregið til baka 1.222
Þar af synjað vegna gagnaleysis / frekari gagna* 286
*     Umsækjendur sem voru yfir tekjum og gátu ekki sýnt fram á verulega greiðsluerfiðleika með einhverjum öðrum hætti.
Heimild: Lánasjóður íslenskra námsmanna, 2017.

     4.      Á hvaða lagalegu forsendum telur LÍN sig geta neitað umsækjanda um undanþágu á grundvelli árstekna?
    Í 6. mgr. 8. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna er heimild til handa stjórn sjóðsins til að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu. Í greininni segir að stjórn sé heimilt að veita undanþágu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
    Hugtakið verulegir fjárhagsörðugleikar sem tilgreint er í greininni er matskennt og er LÍN óheimilt að afnema það mat að öllu leyti með setningu verklagsreglna. En þótt óheimilt væri að afnema skyldubundið mat að öllu leyti, þá er engu að síður rökrétt og eðlilegt að notast við verklagsreglur í einhverjum mæli þegar beita þarf skyldubundnu mati til að samræma framkvæmd matsins. Í grein 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN er til dæmis kveðið á um að miðað sé við að þær ástæður sem valda fjárhagsörðugleikum skuli að jafnaði hafa varað a.m.k. fjóra mánuði. Einnig er tilgreint að almennt séu undanþágur ekki veittar ef árstekjur lánþega eru yfir 3.790.000 kr. eða árstekjur hjóna/sambúðarfólks yfir 7.580.000 milljónum.
    Þessar verklagsreglur eru ætlaðar til fyllingar á þeim skilyrðum sem nefnd eru í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Ef lánþegi uppfyllir skilyrði þessara verklagsreglna fær hann sjálfkrafa veitta undanþágu og þarf þá ekki að framkvæma nánara mat á aðstæðum hans. Ef lánþegi uppfyllir ekki skilyrðin er honum veitt færi á að sýna fram á verulega fjárhagsörðugleika með öðrum hætti og þá helst ef hann er í greiðsluerfiðleikaúrræði hjá viðskiptabanka eða umboðsmanni skuldara. Ef lánþegi er ekki í slíku greiðsluerfiðleikaúrræði en tiltekur eitthvert annað atriði sem stjórn telur að geti skipt máli um mat á verulegum fjárhagsörðugleikum er óskað gagna því til stuðnings.

     5.      Hvernig samrýmist 4. mgr. gr. 8.5.1 úthlutunarreglna LÍN, um að að jafnaði sé miðað við að ástæður þær sem valdi örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar, 6. mgr. 8. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, þar sem segir að stjórn sjóðsins sé heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara?
    Í grein 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN eru tilgreind þau skilyrði sem sjóðurinn styðst við þegar metið er hvort umsókn um undanþágu frá afborgun verður samþykkt. Þar segir, eins og fram kom í svari við 4. lið, að miðað sé við að ástæður hafi „að jafnaði“ varað í fjóra mánuði fyrir gjalddaga. Séu bæði skilyrði uppfyllt, þ.e. hafi tiltekið ástand varað í fjóra mánuði fyrir gjalddaga og umsækjandi er undir tekjuviðmiðum úthlutunarreglna, er umsókn samþykkt og þarf þá ekki að fara fram frekara mat á högum umsækjanda.
    Í þeim tilfellum þegar lánþegi uppfyllir tiltekið skilyrði en það hefur ekki varað í fjóra mánuði fyrir gjalddaga þarf að ráðast í frekara mat á aðstæðum lánþega. Almennt er undanþága þó samþykkt ef lánþegi er undir tekjuviðmiðum og ástand uppfyllt í tvo mánuði eða lengur.

     6.      Hversu margir umsækjendur um undanþágu frá greiðslu hafa árlega frá og með 2013 fengið:
                  a.      neitun um undanþágu á þeim forsendum að örðugleikar þeirra hafi ekki varað í fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar, og
                  b.      undanþágu frá afborgun þrátt fyrir að örðugleikar þeirra hafi ekki varað í fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar?

    Í eftirfarandi töflu má sjá fjölda umsókna um undanþágu frá afborgun annars vegar og hins vegar fjölda veittra undanþága. Ekki er hægt að svara þessari spurningu með ítarlegri hætti.

Undanþágur frá afborgunum.

2013 2014 2015 2016
Lánshæft nám:
Fjöldi undanþágubeiðna 2.036 1.246 1.061 783
Fjöldi veittra undanþága 1.166 1.096 783 645
Nám – umsækjandi ekki á námslánum:
Fjöldi undanþágubeiðna 703 662 613
Fjöldi veittra undanþága 322 246 246
Veikindi:
Fjöldi undanþágubeiðna 169 175 202 189
Fjöldi veittra undanþága 120 112 127 126
Örorka:
Fjöldi undanþágubeiðna 613 627 600 595
Fjöldi veittra undanþága 552 485 450 495
Atvinnuleysi:
Fjöldi undanþágubeiðna 748 661 532 384
Fjöldi veittra undanþága 531 353 272 213
Umönnun barna:
Fjöldi undanþágubeiðna 506 514 382 324
Fjöldi veittra undanþága 231 151 114 84
Annað:
Fjöldi undanþágubeiðna 193 192 180 163
Fjöldi veittra undanþága 36 52 26 32
Heimild. Lánasjóður íslenskra námsmanna, 2017

     7.      Er það skilningur LÍN að til þess að veita undanþágu frá afborgun skv. 6. mgr. 8. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna þurfi viðkomandi að uppfylla eitt þeirra skilyrða sem nefnd eru í greininni og auk þess skilyrði um árstekjur lánþega í 2. mgr. 1. mgr. gr. 8.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins? Á hvaða lagalegu forsendum byggist það?
    Í 6. mgr. 8. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námssmanna segir m.a.: „Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.“
    Samkvæmt orðalagi ákvæðisins þurfa hinar upptöldu ástæður að valda verulegum fjárhagsörðugleikum. Bæði skilyrðin þurfa því að eiga við og orsakasamband þarf að vera á milli þeirra. Við mat á því hvort lánþegi sé í verulegum fjárhagsörðugleikum er í miklum mæli horft til tekna lánþega.
1    Þegar vísað er í ástand í vinnureglunum er átt við ástæðu þess að viðkomandi sækir um undanþágu. Ekki er nóg að hafa einvörðungu lágar tekjur eða eiga í fjárhagsörðugleikum, heldur þarf annað ástand að koma til sem veldur fjárhagslegum örðugleikum eins og það er kallað. Ástand getur verið: Atvinnuleysi / umönnun barna, veiks maka / fæðingarorlof / veikindi / örorka / lánshæft nám / aðrar sambærilegar ástæður (svo sem fangelsisvist eða áfengismeðferð).
2    Tekjur. Miðað er við 3.790.000 kr. hjá einstaklingi. Höfð er hliðsjón af lágmarkslaunum BHM (árslaun 3.656.916 kr. + 82.000 kr. í desemberuppbót + 46.500 kr. í orlofsuppbót = 3.785.416 kr. ). Hingað til hefur þessi viðmiðunarfjárhæð verið það lág að greiðanda hefur ekki reiknast tekjutengd afborgun. Hins vegar hafa samningsbundar launahækkanir undanfarinna ára gert það að verkum að viðmiðunartalan er orðin hærri og reiknast greiðanda með þessi árslaun tekjutengd afborgun að fjárhæð 142.125 kr.
         Ef um hjón er að ræða er miðað við að samanlagðar tekjur hjóna / sambúðarfólks fari ekki yfir 7.580.000 kr. á árinu 2016. Upp geta komið tilfelli þar sem tekjur greiðanda eru hærri en 3.790.000 kr. en tekjur maka lágar eða engar. LÍN samþykkir t.d. undanþágu ef tekjur greiðanda eru 5 millj. kr. og tekjur maka 2 millj. kr. = 7 millj. kr., þ.e. samanlagaðar tekjur eru undir 7.580.000 kr.