Ferill 15. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 15  —  15. mál.
Flutningsmenn.




Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl.


Frá Hönnu Katrínu Friðriksson, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Þorsteini Víglundsyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Loga Einarssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Halldóru Mogensen, Ásmundi Friðrikssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Ara Trausta Guðmundssyni og Rósu Björk Brynjólfsdóttur.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um aðdraganda að útgáfu á starfsleyfi til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík og aðkomu stjórnvalda að málinu, eftirfylgni og úrræðum. Skoðað verði hvernig staðið hafi verið að:
     a.      mati á umhverfisáhrifum vegna verksmiðjunnar,
     b.      veitingu starfsleyfis,
     c.      eftirliti með starfseminni og nauðsynlegum aðgerðum í tengslum við það eftirlit.
    Einnig verði skoðað hvort og þá hvaða lærdómur hefur verið dreginn af málinu og hvort kröfum og verkferlum hafi verið breytt hjá viðeigandi stofnunum.
    Skýrslunni verði skilað til Alþingis fyrir 1. apríl 2018.

Greinargerð.

    Þessi beiðni um skýrslu var áður flutt á 147. löggjafarþingi (26. mál) og er nú endurflutt.
    Stóriðjustarfsemi á Íslandi hefur frá upphafi vega hlotið ýmiss konar ívilnun af hálfu stjórnvalda, til að mynda í formi skattaívilnana og hagstæðs raforkuverðs. Þá hefur starfsemi af þessum toga löngum verið umdeild í ljósi sjónarmiða sem varða umhverfisvernd og mengunarvarnir, nú síðast að því er varðar starfsemi Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík. Í ljósi þess að verulegir ágallar virðast hafa verið á undirbúningi og framkvæmd þess verkefnis, sérstaklega með hliðsjón af neikvæðum áhrifum á umhverfi og nærsamfélag starfseminnar, fara flutningsmenn fram á, með vísan til laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um aðdraganda að útgáfu á starfsleyfi til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík og aðkomu stjórnvalda að málinu og þeirri atburðarás sem síðan hefur orðið, eftirfylgni og úrræðum. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að slík skoðun fari fram, ekki síst til að draga fram hvort samfélagslegur ávinningur réttlæti umræddar ívilnanir stjórnvalda til starfsemi af þessu tagi.
    Skýrslubeiðni þessi felur í sér ósk um stjórnsýsluendurskoðun skv. 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga en slík endurskoðun snýst um mat á frammistöðu þeirra aðila sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með. Markmið stjórnsýsluendurskoðunar er að stuðla að úrbótum. Í 3. mgr. 6. gr. laganna er kveðið á um að stjórnsýsluendurskoðun geti einnig falið í sér mat á því hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála.
    Á þeim tíma sem kísilverksmiðja Sameinaðs sílikons hf. hefur starfað í Helguvík hefur ítrekað komið í ljós að verksmiðjan mengar meira en gert var ráð fyrir í umhverfismati. Þá hefur reksturinn verið stöðvaður um óákveðinn tíma á meðan unnið skyldi að úrbótum. Flutningsmenn telja því rétt að við vinnslu skýrslunnar verði m.a. eftirfarandi atriði skoðuð sérstaklega með tilliti til mengunaráhrifa:
     1.      Hverjar eru skyldur stjórnvalda við útgáfu starfsleyfis og hvernig var staðið að veitingu slíks leyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík?
     2.      Er losun verksmiðjunnar umfram það sem íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar heimila og ef svo er, hver heimilar umframlosun og á hvaða forsendum?
     3.      Hverjar eru skyldur stjórnvalda til að hafa eftirlit með umræddri starfsemi og hvernig var staðið að eftirliti með verksmiðjunni eftir að starfsemi hófst?
     4.      Hvernig hefur verið staðið að athugun á áhrifum mengunar frá verksmiðjunni á heilsufar íbúa?
    Í ljósi framangreinds er það mat flutningsmanna að mikilvægt sé að kannað verði ítarlega hvort fagleg vinnubrögð hafi verið viðhöfð í hvívetna á öllum stigum ferilsins sem leiddi að ákvarðanatöku, hvort koma hefði mátt í veg fyrir skaðleg áhrif af starfseminni og hvort lagarammi um slíkar framkvæmdir og ívilnanir sé nægilega skýr. Að mati flutningsmanna er einnig mikilvægt að læra af fortíðinni, sérstaklega til þess að löggjafinn geti metið hvort reglur séu nægilega skýrar og/eða hvort farið hafi verið að lögum til að fyrirbyggja að slík mál komi upp aftur.
    Flutningsmenn telja því, með vísan til umfangs málsins og þess að málið er fordæmalaust, ríka nauðsyn á að ríkisendurskoðandi geri úttekt á málinu enda sérstaklega gert ráð fyrir því í 3. mgr. 6. gr. laganna að stjórnsýsluendurskoðun geti falið í sér mat á því hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að vinnu við skýrsluna verði hraðað og henni verði skilað til Alþingis eigi síðar en 1. apríl 2018.