Ferill 36. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 36  —  36. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (sjálfvirk gagnagreining).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 11. gr. a laganna kemur ný grein, 11. gr. b, svohljóðandi:
    Heimilt er án endurgjalds að gera rafræn eintök af verki sem nýtur höfundaréttar, enda sé tilgangur slíkra eintaka að útbúa sjálfvirkar gagnagreiningar og vinnsla málfræðilegra og tölfræðilegra upplýsinga. Óheimilt er að nota slík eintök í öðrum tilgangi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Framboð rafrænna gagna, þar á meðal vísindagreina, fer ört vaxandi. Áætlað er að fleiri en 2,5 milljónir ritrýndra fræðigreina á ensku séu nú birtar á hverju ári. Fyrir vikið er orðið erfitt fyrir rannsakendur að komast sjálfir yfir allt efni á tilteknu rannsóknarsviði. Þess í stað notast þeir í auknum mæli við sjálfvirka gagnagreiningu tölva (e. „data mining“ eða „data analysis“) til að sækja gagnlegar upplýsingar úr stórum gagnasöfnum. Sjálfvirk gagnagreining gerir rannsakendum einnig kleift að finna ýmiss konar fylgni og mynstur sem ella væri erfitt að greina.
    Sjálfvirk gagnagreining krefst þess almennt að gerð séu afrit af þeim gögnum sem á að skoða. Torsótt væri fyrir rannsakendur að afla í hvert sinn samþykkis fyrir því frá öllum rétthöfum efnis í gagnasafni sem geta hæglega hlaupið á þúsundum. Því er aðkallandi að veita undanþágu frá einkarétti höfunda til eintakagerðar vegna sjálfvirkrar gagnagreiningar í þágu tækniþróunar og vísindarannsókna.
    Miklar framfarir hafa verið á undanförnum árum í máltækni. Ein helsta hindrun sem máltækni stendur frammi fyrir er takmarkaður aðgangur að efni fyrir tölvur til úrvinnslu. Þetta frumvarp leggur til að hægt verði að gera rafræn eintök af verkum sem njóta höfundaréttar til þess að vinna úr þeim málfræðilegar og tölfræðilegar upplýsingar.