Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 37  —  37. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (stafrænt kynferðisofbeldi).

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Birgir Þórarinsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Jón Steindór Valdimarsson, Jón Þór Ólafsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Smári McCarthy, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 210. gr. b laganna kemur ný grein, 210. gr. c, svohljóðandi:
    Hver sem af ásetningi dreifir mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
    Sé brot framið af stórkostlegu gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 árum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt bann við beitingu stafræns kynferðisofbeldis og refsing lögð við þeirri hegðan að dreifa mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans að viðurlögðu 6 ára fangelsi.
    Með tækniframförum síðastliðinna ára og áratuga hefur það fæst verulega í aukana að mynd- og hljóðefni sem inniheldur nekt eða kynlífsathafnir einstaklinga sé dreift á internetinu, án þess að efnið hafi nokkurn tíma verið ætlað til dreifingar, án leyfis þeirra sem koma fram í efninu og jafnvel án þeirra vitundar. Slíkt efni hefur stundum verið kallað „hefndarklám“ eða „hrelliklám“. Sú orðanotkun verður þó ekki talin lýsandi fyrir þann verknað sem henni er ætlað að lýsa, m.a. vegna þess að verknaðurinn felur ekki endilega í sér þann tilgang að hefna eða hrella, sem og að hugmyndir fólks um hvað teljist til kláms eru æði misjafnar. Því er hér fjallað um verknaðinn sem stafrænt kynferðisofbeldi.

Núgildandi löggjöf.
    Í íslenskum lögum hefur verið í gildi bann við dreifingu kláms og er það að finna í 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þegar efni sem inniheldur kynlífsathafnir er dreift án leyfis þeirra sem fram í því koma, er dreifingin strangt til tekið brot á 210. gr. almennra hegningarlaga. Beiting ákvæðisins í baráttunni gegn stafrænu kynferðisofbeldi er þó nokkrum vandkvæðum háð.
    Í fyrsta lagi er skilgreining hugtaksins „klám“ í skásta falli óljós, umdeild og misjöfn eftir viðhorfum til kynlífs. Hinn almenni borgari er því ekki fær um að meta hvenær um sé að ræða klám samkvæmt lögum og hvenær ekki. Þrátt fyrir að orðið sjálft sé ævafornt og bæði dómstólar og fræðimenn hafi í gegnum tíðina reynt að varpa fram skilgreiningu sem allir skilja á sama hátt, er það samt sem áður tilfellið að engin skilgreining liggur fyrir sem sameinar skilning dómstóla, fræðimanna og almennings. Ekki er líklegt að sú staða breytist í náinni framtíð.
    Í öðru lagi felur stafrænt kynferðisofbeldi ekki endilega í sér eiginlegt klám samkvæmt neinni af þeim fjölmörgu skilgreiningum sem finna má úr ýmsum áttum. Þótt erfitt hafi reynst að skilgreina hugtakið ríkir víðast hvar samhugur um að myndefni sem sýnir nekt án kynlífsathafna teljist vart til kláms nú á dögum jafnvel þótt nekt hafi eflaust í fyrri tíð þótt klámfengin í eðli sínu. Þó telja flutningsmenn þessa frumvarps við hæfi að dreifing efnis sem sýnir nekt einstaklinga án kynlífsathafna verði refsiverð ef efnið var ekki ætlað til dreifingar af þeim sem fram í því koma.
    Í þriðja lagi er refsiramminn í gildandi ákvæði of lágur til þess að endurspegla alvarleika brotsins. Á sama tíma hlýtur þó að þykja ótækt að hækka refsisammann fyrir dreifingu klámefnis sem er ætlað til dreifingar af þeim sem fram í því koma.
    Í framkvæmd hefur 210. gr. almennra hegningarlaga ekki verið beitt þegar einstaklingar eru ákærðir fyrir dreifingu eða birtingu efnis sem varða mundi við 1. gr. þessa frumvarps. Svo virðist sem hin almenna grein sem ákæruvaldið hefur notast við sé 209. gr. sem fjallar um blygðunarsemisbrot, en hún ber öll þess merki að hafa verið sett til höfuðs annars konar hegðun en þeirri sem hér er lagt til að verði gerð refsiverð. Er því þörf á sérstöku ákvæði sem tilgreinir brotið með skýrum hætti og inniheldur refsiramma í takt við alvarleika brotsins.

Bann við stafrænu kynferðisofbeldi.
    Það að birta mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðan einstaklinga án þeirra samþykkis er brot gegn friðhelgi einstaklings og ein gerð kynferðisofbeldis. Mikil vitundarvakning hefur orðið undanfarin misseri vegna slíks ofbeldis, sem áður var nefnt „hefndarklám“ eða „hrelliklám“. Af þeirri umræðu sem hefur farið fram verður að telja ljóst að framleiðsla, birting og dreifing slíks hljóð- eða myndefnis sé ekki klám í nútímalegum skilningi flests fólks, heldur form kynferðisofbeldis. Það er skylda samfélagsins að viðurkenna ofbeldið og að tryggja að við beitingu þess séu í gildi viðurlög. Í því felst viðurkenning á stöðu brotaþola og fordæming á háttsemi brotamanna. Beiting stafræns kynferðisofbeldis getur haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Þá er það sérstaklega varhugavert í ljósi þess að ofbeldið fer fram fyrir opnum tjöldum og hefur þannig áhrif á samfélagslega stöðu brotaþola.
    Þau brot sem féllu undir þessa refsiheimild hljóta nú meðferð samkvæmt öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga. Dæmi er um að Hæstiréttur hafi kveðið upp dóma í málum sem samkvæmt frumvarpi þessu yrðu skilgreind sem mál sem varða stafrænt kynferðisofbeldi. Þar má m.a. nefna dóma Hæstaréttar í málum nr. 242/2007 og nr. 312/2015, en í málunum voru ákærðu sakfelldir fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga. Sú grein fjallar um brot gegn blygðunarsemi viðkomandi. Í síðara málinu var einnig ákært fyrir brot gegn 233. gr. b, en greinin fjallar um móðgun eða smánun á hendur maka, fyrrverandi maka eða öðrum nákomnum. Ljóst er að sú grein getur komið til álita í þeim lagaramma sem nú gildir um slík mál, þó að ekki hafi verið dæmt eftir henni í þessum umrædda dómi. Séu þau tengsl á milli aðila ekki til staðar er möguleiki á því að 234. gr. almennra hegningarlaga yrði beitt, en hún fjallar um ærumeiðingar. Við beitingu 234. gr. er almenna reglan að höfða þurfi einkarefsimál.
    Hvað varðar þessar refsiheimildir verður að líta til þess að engin þeirra er sett með það í huga að sporna gegn beitingu stafræns kynferðisofbeldis. Engin þessara greina kveður beint á um refsingu vegna stafræns kynferðisofbeldis og felur því beiting þeirra í sér að ekki er refsað fyrir hið raunverulega ofbeldisverk, heldur fyrir tengdan verknað. Þessi beiting á greinum sem hafa upprunalega annan tilgang leiðir til þess að refsiheimildir verða óskýrari og óskilvirkari. Sérstaklega má benda á að samkvæmt 209. gr., þeirri grein sem dæmt var eftir í áðurnefndum dómum Hæstaréttar, er refsiverða hegðunin að særa blygðunarsemi manna með lostugu athæfi eða að verða til opinbers hneykslis. Bersýnilega er orðalag þetta úrelt og afar óheppilegt sem gildandi refsiheimild fyrir beitingu stafræns kynferðisofbeldis. Þá fjallar 233. gr. b, sem áður hefur verið ákært eftir, um móðgun eða smánun nákomins einstaklings. Þó að sú háttsemi geti vissulega falist í beitingu kynferðisofbeldis er það ekki sú háttsemi sem ætti að bera þyngstu viðurlögin heldur ofbeldið sjálft. Það sama á við um 234. gr. hegningarlaga sem fjallar um ærumeiðingar. Þá sætir brot gegn 234. gr. hegningarlaga ekki ákæru skv. 242. gr. og er því nauðsyn að höfða einkarefsimál sem verður að teljast ótækt þegar um alvarlegt ofbeldismál er að ræða.
    Með því að gera stafrænt kynferðisofbeldi refsivert skv. 210. gr. c verður það hluti af XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot. Með því er tryggt að slík brot muni ávallt sæta rannsókn þegar grunur er um brot og ákæru þegar sönnunargögn teljast nægileg.
    Nauðsynlegt er að alvarleg brot á borð við stafrænt kynferðisofbeldi hljóti eigin refsiákvæði með möguleika á beitingu þyngri viðurlaga en er að finna við klám-, blygðunarsemis- og ærumeiðingabrotum. Í núgildandi hegningarlögum er ekki að finna bein viðurlög við beitingu stafræns kynferðisofbeldis.
    Lagt er til að ný grein bætist við almenn hegningarlög, nr. 19/1940, 210. gr. c, sem geri refsivert það athæfi að dreifa mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklinga án samþykkis þeirra. Með breytingu þessari verður sú háttsemi gerð refsiverð að dreifa slíku efni, en með dreifingu er átt við að einstaklingur grípi til aðgerða sem stuðli að því að aðrir geti fengið aðgang að, séð eða fengið afrit af efninu. Samkvæmt greininni verður það skilyrði fyrir birtingu slíks efnis að fyrir dreifingunni liggi samþykki. Þannig verður refsivert að dreifa slíku efni af ásetningi ef samþykki þeirra einstaklinga sem koma fyrir í efninu liggur ekki fyrir. Með samþykki er átt við skýrt samþykki sem einstaklingur gefur til kynna með virkum hætti. Með mynd- eða hljóðefni er átt við hvers konar ljósmyndir, myndbönd, upptökur, eða hvers konar margmiðlunarefni sem kann að vera möguleiki á að framleiða.
    Lagt er til að hámarksrefsing vegna slíkra brota verði 6 ár þegar um er að ræða ásetning. Ljóst er að stafrænt kynferðisofbeldi hefur alvarlegar afleiðingar og með beitingu þess er vegið með mjög alvarlegum hætti að persónu og frelsi þolandans.
    Þó kann að vera að fólk hafi í sínum fórum efni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun annarra með samþykki fyrir þeirri vörslu án þess að efnið sé ætlað til dreifingar. Mikilvægt er að ábyrgð þess sem hefur efnið í sínum fórum, jafnvel með samþykki þeirra sem fram í því koma, á því að vernda efnið gegn dreifingu sé ótvíræð og er því lagt til að refsing við dreifingu þess af stórkostlegu gáleysi varði sektum eða fangelsi allt að 3 árum.