Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 94  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


Inngangur.
    Fjárlögin hafa mikla þýðingu fyrir efnahagslífið í heild sinni. Þau skapa því ákveðna umgjörð og marka stöðu til einstaka málaflokka. Ákvarðanir í fjárlögum hafa mikla þýðingu fyrir atvinnufyrirtæki og heimili.
    Umgjörðin um fjárlögin felur í sér miklar umbætur. Fagna ber lögum um opinber fjármál og fjármálaráð sem veitir umsagnir. Afgreiðsla fjárlaga nú ber þó annað árið í röð keim af fljótaskrift af hálfu Alþingis sem fer með fjárveitingarvaldið. Ástæða þessa er stjórnmálalegur óstöðugleiki með tvennum þingkosningum og stjórnarskiptum á jafnmörgum árum. Í bæði skiptin hefur þetta gerst síðla hausts og í byrjun vetrar þegar vinna þingsins við fjárlög næsta árs stendur að jafnaði sem hæst.
    Megináhersla í fjárlögum eins og nú háttar til er á fjárheimildir til málefnasviða og málaflokka í stað fjárveitinga til einstakra fjárlagaliða, eins og áður tíðkaðist. Ríkisendurskoðun hefur bent á að það frumvarp sem nú liggur fyrir víki frá gildandi fjármálastefnu þegar kemur að heildartekjum, heildargjöldum og heildarjöfnuði á næsta ári. Annað nýmæli í fjárlagaumgjörðinni eru varasjóðir í fjárlögum, og er tekið undir með Ríkisendurskoðun að vel þarf að fylgjast með notkun þessara varasjóða svo þeim sé réttilega varið og stærð þeirra sé nægileg miðað við þann tilgang sem þeim er ætlað að þjóna. Þá skal tekið undir með Ríkisendurskoðun að ráðherra setji reglur að höfðu samráði við fjárlaganefnd Alþingis um uppgjör fjárheimilda og hvernig skuli farið að við gerð útgjaldaáætlana.

Forsendur á tekjuhlið.
    Þegar litið er á tekjuhlið frumvarpsins sýnist stefna varðandi veiðigjöld í sjávarútvegi vera óljós og stendur upp á ríkisstjórn að skýra stefnu sína í þeim efnum. Þá er ýmislegt óljóst um kolefnisgjaldið og einnig varðandi fyrirkomulag og skipulagsbreytingar í kringum fjármagnstekjuskattinn. Skýra þarf nánar fyrirætlanir ríkisstjórnar í þeim efnum.

Frítekjumark og afnám á skerðingum ellilífeyris vegna atvinnutekna.
    Þingflokkur Flokks fólksins lýsir þungum áhyggjum vegna skattlagningar á lægstu tekjur. Framfærsluviðmið fyrir utan útgjöld til húsnæðis er um 225 þús. kr. á mánuði. Í nýrri grein eftir Hörpu Njáls, sérfræðings í velferðarrannsóknum og félagslegri stefnumótun, sem birtist í Morgunblaðinu 18. desember sl., er framfærsluviðmið að lágmarki 366.350 kr. þegar húsnæði er meðtalið. 1
    Lýsa verður alvarlegum áhyggjum af því að tekjur undir lágmarksframfærsluviðmiði skuli skattlagðar. Ríkissjóður reisir þannig afkomu sína að verulegu leyti á því að skattleggja tekjur sem ekki duga fyrir fæði, klæði, húsnæði og öðrum nauðþurftum. Haukur Arnþórsson hefur unnið greinargerðina Kjör aldraðra, sem fjallar um fjárhagslega stöðu aldraðra, fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Nokkrar helstu niðurstöður þeirrar rannsóknar eru teknar saman í grein Hauks í Morgunblaðinu 23. nóvember sl. Hann hefur m.a. sýnt fram á að 75% aldraðra hafa tekjur undir framfærslu. Við þetta er auðvitað ekki búandi. Fólki er haldið í viðjum fátækar.
    Flokkur fólksins hefur lagt fram hugmyndir um að hægt væri að ráðast í aðgerðir til umbóta í þessu efni með því að hækka persónuafslátt á lægstu tekjum og bæta þannig úr skák gagnvart þeim sem lakast eru settir. Á móti mætti taka upp stiglækkandi persónuafslátt þannig að hann félli t.d. niður við tekjur í kringum 1,5 millj. kr.
    Því er haldið fram að það kosti liðlega milljarð kr. að hækka almennt frítekjumark úr 25 þús. kr. í 100 þús. kr. Sú áætlun felur þó ekki í sér neitt mat á skatttekjum sem féllu til ríkisins af beinum og óbeinum sköttum. Ekki er gert ráð fyrir því að þessi breyting gæti leitt af sér aukna atvinnuþátttöku og aukna vinnu og þar með auknar skatttekjur. Það er heldur ekki rætt um að upp á yfirborðið kæmi svört vinna sem lágt frítekjumark hefur hugsanlega ýtt undir. Ekki er heldur litið til sennilegs sparnaðar í heilbrigðiskerfinu þar sem vitað er að vinna og virkur lífsstíll á efri árum stuðlar að betri heilsu. Í fyrrgreindum niðurstöðum Hauks Arnþórssonar kemur fram að afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Jafnvel sé hugsanlegt að ríkissjóður hefði fjárhagslegan hag af slíkri breytingu á almannatryggingalögum.
    Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007, um afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna (þingskjal 51, 148. löggjafarþing).

Málefni öryrkja.
    Fjárlagafrumvarpið er þannig úr garði gert að það veldur í það minnsta miklum vonbrigðum, að ekki sé sagt mikilli reiði, meðal öryrkja. Eru viðbrögð þeirra að sjálfsögðu eðlileg og skiljanleg við þær aðstæður sem búnar eru þessum hópi af hálfu stjórnvalda. Bótakerfi öryrkja einkennist af skerðingum og frádráttum þannig að öryrki getur sig nánast hvergi hrært án þess að verða refsað fyrir. Þetta rammgerða kerfi hefur reynst mynda eins konar fátæktargildru fyrir allt of marga öryrkja.
    Bætur frá almannatryggingum til öryrkja eiga að hækka um 4,7% um áramótin, eða um 6.700 kr. að teknu tilliti til skatta. Má líkja því við að blautri tusku hafi verið kastað framan í fólk með því að miða þessa hækkun við vísitölu neysluverðs en ekki launavísitölu. Framfærsluuppbótin sem skerðist krónu á móti krónu hækkar um 16%. Hámarksbætur til örorkulífeyrisþega sem búa einir hækka þannig um 7,1% og verða 300.000 kr . Með þessu eru enn auknar skerðingar á tekjulægstu lífeyrisþegana og munurinn á þeim sem búa einir og með öðrum eykst enn, eins og segir í umsögn ASÍ með fjárlagafrumvarpinu.
    Fjölmargt annað er öryrkjum óhagfellt í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hækkun fjármagnstekjuskatts snertir illa það fólk sem hefur fjármagnstekjur t.d. af leigu húsnæðis, auk þess sem slíkar tekjur koma til skerðingar á lífeyri. Núverandi reglur sem snúa að leigutekjum, hvernig þær skuli metnar og áhrif þeirra á skerðingar lífeyris, gera það að verkum að mjög óhagstætt er fyrir lífeyrisþega að leigja út íbúð. Bent er á þetta atriði í umsögn Öryrkjabandalags Íslands um fjárlagafrumvarpið. Furðu sætir að ríkisstjórnarmeirihlutinn vilji með þessum hætti leggja stein í götu fólks sem bæði hefði vilja og getu til að leigja út íbúðarhúsnæði á tímum þegar skortur er á slíku.
    Svipað má segja um söluhagnað eigna, svo sem sumarhúsa, sem og verðbætur. Hvort tveggja kemur til skerðingar lífeyris. Flokkur fólksins andmælir hækkun fjármagnstekjuskatts sem leggst þungt á eldri borgara og styður það að frítekjumark vegna fjármagnstekna verði hækkað. Þetta viðmið hefur ekki breyst frá 2009. Leigutekjur af einni íbúð ættu að vera undanþegnar fjármagnstekjuskatti eins og Öryrkjabandalag Íslands hefur lagt áherslu á.
    Flokkur fólksins ítrekar að barnabætur skipta miklu fyrir barnafjölskyldur, ekki síst hjá öryrkjum sem eiga börn og búa við lágar tekjur. Barnabætur eru skammarlega lágar. Viðmiðunarfjárhæð fyrir einstæða foreldra þarf að hækka og hún á ekki að vera undir lágmarkslaunum 2017.
    Af hálfu Öryrkjabandalagsins hefur verið bent á að greiðslur sem einstaklingur fær á grundvelli laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, til að koma til móts við sérstök útgjöld á grundvelli sérstakra aðstæðna, séu skattlagðar eins og um launatekjur væri að ræða. Þetta þýðir að uppbætur, styrkir og aðrar greiðslur til að mæta kostnaði vegna sjúkdóma og fötlunar, eða af sérstökum aðstæðum, nema ekki nema rúmlega 60% af þeirri fjárhæð sem metið hefur verið að þurfi til að mæta þeim útgjöldum. Þær uppbætur sem hér eiga við eru m.a.:
     a.      Umönnunarkostnaður sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiða ekki.
     b.      Sjúkra- eða lyfjakostnaður og kostnaður vegna kaupa á heyrnartæki sem sjúkratryggingar greiða ekki.
     c.      Húsaleigukostnaður sem fellur utan húsaleigubóta.
     d.      Vistunarkostnaður á dvalarheimilum og stofnunum svo og á sambýlum og áfangastöðum sem fengið hafa starfsleyfi frá ráðuneyti eða reka sambærilega starfsemi.
     e.      Rafmagnskostnaður vegna súrefnissíunotkunar.
    Það að litið sé á þessar greiðslur sem tekjur hefur þau keðjuverkandi áhrif að hjá tekjulágum einstaklingum lækka vegna þessa liðir eins og húsnæðisbætur, sérstakur húsnæðisstuðningur og barnabætur.
    Öryrkjabandalagið hefur dregið fram að tekjuskattur af þessum uppbótum á lífeyri árið 2016, sem greiddar hafa verið í þessu skyni, nemi samtals 46 millj. kr. Má telja með ólíkindum að litið sé svo á að ríkissjóður geti ekki án þessara skatttekna verið.
    Vaxtabætur geta ráðið úrslitum fyrir tekjulágt fólk sem í býr í landi með jafnhátt vaxtastig og ríkir á Íslandi. Fjölmargir tekjulágir, og þar með öryrkjar, fara á mis við vaxtabætur vegna þess að eignastofnar fyrir útreikning vaxtabóta eru lágir og hafa staðið óbreyttir frá 2010. Með hækkandi fasteignamati telst þetta fólk ekki skulda nægilega mikið í eign sinni. Flokkur fólksins tekur undir það álit Öryrkjabandalags Íslands að eignastofn fyrir vaxtabætur þurfi að hækka árlega í samræmi við þróun fasteignamats. Sömuleiðis þarf að uppfæra eignamörk í samræmi við hækkun fasteignamats. Þessa þætti og fleiri sem Öryrkjabandalagið bendir á í umsögn sinni og snerta vaxtabætur þarf að lagfæra.
    Virðisaukaskatt á lyfseðilsskyldum lyfjum og hjálpartækjum fyrir fatlað fólk og aldraða ber að afnema.
    Flokkur fólksins vill hvetja fólk til að bæta efnalega afkomu sína í samræmi við stefnu Öryrkjabandalagsins um aukna atvinnuþátttöku öryrkja. Ekki ber að leggja hindranir fyrir það fólk sem vill og getur aflað sér tekna, t.d. með hlutastörfum, þó að það sé á örorkubótum. Það á skilyrðislaust að mæta þessum einstaklingum strax með því að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna í samræmi við hækkun á launavísitölu frá 2009.

Tannlækningar aldraðra og lífeyrisþega.
    Í fjárlagafrumvarpinu eru áform um að hækka endurgreiðsluhlutfall á tannlækningum fyrir lífeyrisþega og aldraða. Það vekur hins vegar furðu að framkvæmd þessara áforma þurfi að bíða fram á mitt næsta ár. Þetta verður sérstaklega undarlegt í ljósi þess að viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga sem stuðst er við hefur ekki breyst frá árinu 2002 fyrir utan hækkun um 5,9% árið 2014. Verðlag hefur hins vegar hækkað um ríflega 100% frá árinu 2002. Í umsögn ASÍ um fjárlagafrumvarpið kemur fram að könnun verðlagseftirlits samtakanna hafi leitt í ljós að gjaldskrár tannlækna séu nú að meðaltali 150–200% hærri en viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga. Tannheilsu lífeyrisþega og aldraðra er háski búinn af þeirri stefnu sem fylgt hefur verið með því að láta viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga standa því sem næst óbreytta. Stíga hefði þurft fastar og ákveðnar til jarðar en ríkisstjórnin boðar; aðgerðir þyrftu að koma fyrr og fjárhæðin sýnist ekki hrökkva eins langt og efni standa til.

Húsnæðisliður vísitölunnar.
    Meðan almennt verðlag, eins og það er mælt af Hagstofu Íslands, hefur farið lækkandi á umliðnum misserum, hefur húsnæðisliður vísitölu neysluverðs hækkað verulega, sumpart vegna stefnu meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur sem einkennist af lóðaskorti og tilheyrandi hækkun á fasteigna- og leiguverði. Þetta rekur sig gegnum húsnæðisliðinn og hefur valdið tilflutningi á verðmætum frá heimilum landsmanna til fjármálastofnana og skaðað húsnæðiskaupendur og leigutaka. Þessar fjárhæðir sem lagðar eru með þessum hætti á heimilin hlaupa á tugum milljarða kr. og svara til verðmætis alls þorskafla úr sjó á hverju ári undanfarin ár. Vandamálið er viðurkennt í stjórnarsáttmála hinnar nýju ríkisstjórnar en stórhugur hennar í málinu reynist ekki meiri en svo að hún segir að hefja eigi skoðun á þessum húsnæðislið. Engar aðgerðir eru boðaðar til að fella þennan lið brott en látið duga að hefja skoðun.

Áhrif kolefnisskatts á vísitöluna og skuldir heimila
    Gert er ráð fyrir að hækkun kolefnisskatts um 50% leiði til 0,03% hækkunar á vísitölu neysluverðs. Þessi hækkun virðist ekki umtalsverð við fyrstu sýn. Lán til heimila nema um 2.000 milljörðum kr. og þorri þeirra er verðtryggður. Þetta þýðir að kolefnisskatturinn mun hækka skuldir heimila gagnvart lánastofnunum um 500–600 millj. kr. Hvenær tóku heimilin þessi aukalán vegna hækkunar kolefnisgjalds? Þetta dæmi sýnir hve víðtæka skuldbindingu lántakar undirgangast með verðtryggðu láni og varnarleysi þeirra að sitja uppi með auknar skuldir upp á ríflega hálfan milljarð kr. sökum þess eins að ríkisstjórn áformar aðgerðir í loftslagsmálum. Af hverju eru fjármálastofnunum réttar 500–600 millj. kr. auknar kröfur á heimilin? Hvað hafa þær unnið til að eignast slíkar aukalegar kröfur á fólkið í landinu? Hvar eru mótvægisaðgerðir í þágu heimilanna?

Löggæslan.
    Lítið ber á því í nýju fjárlagafrumvarpi að ríkisstjórnin hyggist efla löggæslu í landinu þó að í stjórnarsáttmálanum sé talað um öfluga löggæslu. Staðreyndin er sú að löggæslan hefur búið við fækkun lögreglumanna frá því löngu fyrir hrun og það á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað og komur ferðamanna til landsins hafa margfaldast. Þá er áberandi hve hlutur löggæslunnar úti á landi er fyrir borð borinn.
    Óhætt mun að fullyrða að fjárveitingar til löggæslu séu alls ekki nægilegar til að tryggja lögreglunni þær starfsaðstæður sem nauðsynlegar eru í þjóðfélagi samtímans. Brýn og aðkallandi þörf er á fjölgun lögreglumanna og ekki bara nú, heldur á mörgum undanförnum árum eins og fjölmargar skýrslur bera með sér, sjá t.d. skýrslu innanríkisráðuneytisins árið 2012 um stöðu lögreglunnar þar sem helsti vandi lögreglunnar var talinn vera fækkun lögreglumanna. Svo má benda á ummæli Snorra Magnússonar formanns Landssambands lögreglumanna frá sumrinu 2017, en þar sagði hann um ástand fjárveitinga til lögreglu að „hægt og sígandi sé ástandið orðið þannig að það er löngu orðið grafalvarlegt“. Nauðsynlegt er að gefa vel í til fjárveitinga til lögregluembættanna, svo að þeim verði gert kleift að ráða til sín fleiri til löggæslustarfa.
    Lögreglan er stoð undir lýðræðisskipan samfélagsins. Verði hún of veik til þess að takast á við það hlutverk sitt að halda uppi lögum og reglu í samfélaginu bitnar það á rétti fólks til lífs, frelsis, mannhelgi og persónulegs öryggis. Einnig bitnar það á öryggi ríkisins og samfélagsins í heild. Of veikburða lögregla skapar því sérstaka áhættu fyrir öryggi samfélagsins og brýnt er að grípa til aðgerða sem miða að því að styrkja lögregluna til þess að takast á við það hlutverk sitt að tryggja réttaröryggi borgaranna og grundvallarhagsmuni ríkisins. Þá gegnir lögreglan ekki síður mikilvægu hlutverki á sviði neyðarþjónustu vegna slysa og náttúruhamfara og er ein af grunnstoðum í almannavörnum eins og fjölmörg dæmi sanna á undanförnum árum.
    Þannig þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi grunnhlutverks lögreglunnar sem er að tryggja öryggi borgarana, koma í veg fyrir afbrot og rannsaka þau, en einnig þjónustu-, aðstoðar-, og hjálparhlutverk hennar auk samstarfshlutverk hennar sem tengist öðrum stofnunum þjóðfélagsins á fjölmarga vegu.
    Margvíslegar breytingar hafa orðið í samfélaginu síðustu áratugi. Aukin alþjóðavæðing og stóraukin ferðalög og fólksflutningar landa á milli hefur haft í för með sér að störf lögreglu almennt eru orðin erfiðari og margslungnari en fyrr. Samkvæmt skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem kynnt var í október, er varað við fyrirsjáanlegri þróun skipulegrar glæpastarfsemi, þar á meðal alþjóðlegrar glæpastarfsemi sem hingað teygi anga sína, fíkniefnasölu, mansal, vændi o.fl. Deildin telur að framhald verði á þeirri þróun og í reynd sé um viðvarandi ástand að ræða. Þá hefur hún undanfarin ár varað við aukinni hættu á voðaverkum einstaklinga og ljóst er að á engan hátt er hægt að útiloka að á Íslandi verði framin hryðjuverk eða aðrir stórfelldir ofbeldisglæpir. Hryðjuverk og önnur illvirki hafa á liðnum árum tekið á sig sífellt grimmdarlegri mynd. Hér mætti benda á fjölmörg nýleg og nærtæk dæmi um voðaverk sem allir þekkja.
    Mikilvægt er að lögreglunni verði gert kleift að skipuleggja störf sín á grundvelli kerfisbundinnar greiningar á þróun mála hérlendis og erlendis þar sem reynt er að nálgast brot og önnur löggæsluvandamál með það fyrir augum að fyrirbyggja þau. Loks verður að hafa í huga að ógnir eru ekki eingöngu fyrirséðar. Lögreglan verður einnig að vera það öflug að hún geti tekist á við óþekktar ógnir sem geta komið upp fyrirvaralaust. Lögreglan þarf því að vera nægilega öflug á sviði öryggismála og svo sveigjanleg svo hún hafi burði til þess að bregðast við hættum sem ekki gera boð á undan sér.
    Samkvæmt skýrslu sem skilað var til innanríkisráðherra 13. mars 2013 og lögð var fram til kynningar á Alþingi vantaði þá 236 lögreglumenn í lögreglulið landsins. Byggðist skýrslan á vinnu nefndar sem skipuð var á grundvelli þingsályktunar frá Alþingi 19. júní 2012.
    Grundvallarniðurstaða nefndarinnar var að stórefla þyrfti lögregluna. Í skýrslunni kemur fram forgangsröðun innan lögreglu og þar var efst á blaði fjölgun almennra lögreglumanna, þ.e. lögreglumanna sem annast útköll og almennt lögreglueftirlit. Þá mat ríkislögreglustjóri að lögreglumenn þyrftu að vera að lágmarki 860 í landinu. Þar kom fram að fjöldi lögreglumanna á árinu 2007 hafi verið 712 en þeim hafi fækkað í 624 á árinu 2012 eða um 88 lögreglumenn. Í skýrslunni kemur fram að talið sé að uppsöfnuð þörf fyrir fjölgun lögreglumanna úti á landi sé 79 manns og nauðsynlegt sé að fjölga lögreglumönnum á landinu öllu um 236 manns til ársins 2017 eða um nálega 38%.
    Og hver hefur svo þróunin verið? Lögreglumenn voru 629 á árinu 2016 og eru því nánast jafnmargir og fjórum árum fyrr, þegar skýrslan var gerð. Enn vantar því rúmlega 230 lögreglumenn. Á sama tíma hefur lögreglumönnum fækkað enn frekar ef miðað er við fjölda lögreglumanna á íbúa. Árið 2007 voru 1,6 lögreglumenn á hverja 1.000 íbúa en á árinu 2016 voru þeir orðnir 1,4 á hverja 1.000 íbúa. Þá hefur komum ferðamanna til landsins fjölgað með ævintýralegum hætti. Komum farþega um Keflavíkurflugvöll fjölgaði á átta ára tímabili frá 2009 til þessa dags úr 1,8 millj. í 8,9 millj. samkvæmt áætluðum tölum fyrir yfirstandandi ár, eða næstum um 500%.
    Nauðsynlegt er að fjárveitingar til lögreglu hækki svo nægi til að lögreglumönnum verði a.m.k. fjölgað til samræmis við það sem nefnd á vegum innanríkisráðuneytisins taldi vera nauðsynlegt á árinu 2012. Unnt væri að fallast á að slík fjölgun yrði tekin í einhverjum skrefum, en ríkisstjórnin virðist ekki hafa gert neina áætlun þar um.

Heilbrigðismál.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðuð ný heilbrigðisstefna þess efnis að íslenska heilbrigðiskerfið eigi að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum og allir landsmenn eigi að njóta góðrar þjónustu án tillits til efnahags eða búsetu.
    Fögur orð af hálfu ríkisstjórnarinnar fá ekki ýkja mikla stoð í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018. Ráðamenn Landspítalans kannast ekki við að frumvarpið feli í sér stórsókn í heilbrigðismálum. Sjúkrahúsið á Akureyri telur sig vanta um 200 millj. kr. meira en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir og stjórnendur þess lýsa áhyggjum af því að hjúkrunarfræðingar stofnunarinnar, dæmigerð kvennastétt, sé að dragast aftur úr í kjörum. Stjórnendur heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni segja rekna sveltistefnu gagnvart stofnunum þeirra. Mjög þungt hljóð er í stjórnendum þessara mikilvægu heilbrigðisstofnana um land allt. Fé skortir í rekstur og ófá dæmi eru um að tæki á stofnunum á landsbyggðinni séu eldri en 20 ára. Bent er á af hálfu þessara aðila að í starfsemi stofnananna séu verulegar brotalamir sökum fjárskorts sem hafi m.a. leitt til minna framboðs á þjónustu og erfiðra mönnunarvandamála í starfseminni. Þeir lýstu komu sinni á fund fjárlaganefndar Alþingis sem neyðarkalli vegna sinna mála. Heimsóknin fæli í sér neyðaróp frá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.
    Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) hafa gert grein fyrir mjög alvarlegum rekstrarvanda sjúkrahússins á Vogi. Samtökin starfrækja m.a. göngudeild með um 30.000 heimsóknum ári. Þau telja sig þurfa um 250 millj. kr. viðbótarframlag vegna innbyggðs halla í rekstri. Þar af séu 150 millj. kr. sem vanti í sjúkrahúsþjónustu og 100 millj. kr. í rekstur göngudeildar.
    Þetta lauslega yfirlit sýnir svo ekki verður um villst að verulega skortir á að í fjárlagafrumvarpinu felist umtalsverðar efndir á þeim fyrirheitum sem gefin hafa verið um uppbyggingu innviða í íslensku heilbrigðiskerfi.

Nýtt þjóðarsjúkrahús – fullfjármögnuð mistök.
    Ríkisstjórnin daufheyrist við áskorunum um að endurmeta staðarval nýs þjóðarsjúkrahúss. Staðsetning við Hringbraut er reist á úreltum forsendum um byggingarmagn og aðkomuleiðir, gerir ráð fyrir þungaflutningum um grónar íbúðargötur og að nýjar byggingar tengist húsum þjökuðum af raka og myglu. Bygging spítala nær landfræðilegri miðju höfuðborgarsvæðisins væri án efa mun ódýrari og hentugri kostur. En spítalinn er fullfjármagnaður og undirbúningur virðist þykja of langur og kostnaðarsamur til að staðsetningu hans megi endurmeta. Fullfjármögnuð mistök gæti verið yfirskrift þessa verkefnis þegar þjóðinni ríður á að fá vel heppnað sjúkrahús á besta stað með greiðum aðkomuleiðum.

Um framkvæmd fjárlaga.
    Lög um opinber fjármál kveða á um að fjármála- og efnahagsráðherra hafi umsjón og eftirlit með því að skipting fjárheimilda í fjárveitingar, framkvæmd fjárlaga, fjárreiður ríkisaðila og fjárstýring séu í samræmi við þau lög, fjárlög og fjáraukalög.
    Þá segir að hver ráðherra beri ábyrgð á og hefur virkt eftirlit með framkvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði. Hann ber ábyrgð á að ráðstöfun fjárheimilda sé innan þess ramma sem Alþingi ákveður.
    Forstöðumaður stofnunar í A-hluta, eða eftir atvikum stjórn, ber ábyrgð gagnvart hlutaðeigandi ráðherra á að starfsemin skili tilætluðum árangri og að rekstur og afkoma sé í samræmi við fjárveitingar og áætlanir sem samþykktar hafa verið.
    Hver ráðherra skal hafa reglubundið eftirlit með fjárhag ríkisaðila í A-hluta sem málefnasviði hans tilheyra og greina og bregðast við áhættu og veikleikum í rekstri. Ef hætta er á að útgjöld verði umfram fjárveitingar skal hann leita leiða til að lækka gjöld innan ársins, millifæra fjárveitingar innan málaflokka eða nýta varasjóði þannig að útgjöld verði ekki umfram fjárveitingar.
    Fjármála- og efnahagsráðherra skal upplýsa ríkisstjórn og fjárlaganefnd Alþingis, eins oft og ástæða er til og eigi sjaldnar en ársfjórðungslega, um framkvæmd fjárlaga og fjárhagslega framvindu ríkissjóðs.
    Hver ráðherra skal skila greinargerð til fjármála- og efnahagsráðherra um samanburð raunútgjalda og fjárheimilda fyrir þá málaflokka sem undir hann heyra fyrir hvern ársfjórðung þar sem byggt er á útgefnu uppgjöri ríkissjóðs fyrir sama tímabil. Ef markverð frávik eru milli raunútgjalda og fjárheimilda, eða ef ástæða er til að ætla að svo verði, skal hlutaðeigandi ráðherra án tafar gera fjármála- og efnahagsráðherra grein fyrir ástæðum þess og þeim ráðstöfunum sem hann hefur gripið til eða hyggst grípa til í því skyni að koma í veg fyrir frávik milli raunútgjalda og fjárheimilda.
    Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2017 koma fram frávik, m.a. að fjárhæð 1,2 milljarðar kr. undir liðnum 10.10 Réttindi einstaklinga. Lagt er til að fjárheimild málaflokksins hækki um 2.469,2 millj. kr. sem skýrist af þremur tilefnum. Í fyrsta lagi eru 2,417,6 millj. kr. framlög til málefna útlendinga vegna verulegrar fjölgunar umsókna um alþjóðlega vernd. Samanstanda þau af 116,4 millj. kr. framlagi til kærunefndar útlendingamála, 143,6 millj. kr. framlagi til Útlendingastofnunar og 2.157,6 millj. kr. framlagi til hælisliðar.
    Í ljósi þessarar gríðarlegu framúrkeyrslu upp á ríflega 1.200 millj. kr. sem líkja má við sístreymi úr ríkissjóði og nemur að jafnaði um 100 millj. kr. á mánuði, er eðlilegt að spurt sé hvort réttilega hafi verið brugðist við í samræmi við lög um opinber fjármál. Rétt er að árétta fyrrgreinda lögboðna skyldu ráðherra til að grípa til viðeigandi ráðstafana. Hlýtur það að eiga við um svo mikil frávik sem hér um ræðir.
    Ekki er að sjá að gripið hafi verið tímanlega til þeirra aðgerða sem ráðherra eru tiltækar og snerta varasjóði, millifærslur og beitingu viðeigandi reglugerða eða að breyta þeim tímanlega. Með slíkum aðgerðum hefði mátt spara ríkissjóði umtalsverð útgjöld á sama tíma og ekki þykir að dómi stjórnarmeirihlutans vera til fé til brýnna samfélagslegra verkefna.
    Á fundi fjárlaganefndar kom fram í máli fulltrúa dómsmálaráðuneytis að mikil óvissa ríkir um hvernig þessi málaflokkur muni þróast, m.a. í ljósi tilhæfulausra umsókna. Verður á vettvangi fjárlaganefndar gengið eftir upplýsingum um framkvæmd fjárlaga í þessum málaflokki og öðrum þar sem hætta er á umtalsverðum frávikum frá fjárlögum.
    Loks verður að gera alvarlegar athugasemdir við að mál séu tekin undir fjáraukalög sem að réttu lagi ættu frekar heima í fjárlögum.

Gjaldatillögur stjórnarmeirihluta við 2. umræðu.
    Gjaldatillögur stjórnarmeirihluta við 2. umræðu liggja nú fyrir. Þær eru til bóta svo langt sem þær ná en í flestum tilfellum hrökkva þær skammt. Alvarlegast er að daufheyrst er við ákalli aldraðra og öryrkja um viðunandi hækkun lífeyrisgreiðslna almannatrygginga. Haldið er fast við 4,7% hækkun og tengsl við vísitölu neysluverðs frekar en launavísitölu og tengja þannig við almenna launaþróun í landinu.
    Þessi framkoma stjórnarflokkanna við aldraða og öryrkja má heita forkastanleg og er í engu samræmi annars vegar við boðaða stefnu í stjórnarsáttmála um það markmið að skapa sátt um að einfalda bótakerfi almannatrygginga og efla samfélagsþátttöku, og hins vegar gildandi rétt 1. málsl. 69. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.

Alþingi, 21. desember 2017.

Ólafur Ísleifsson.


1    Harpa Njáls. Er einbeittur vilji til að leysa fólk út úr fátæktargildrunni? Morgunblaðið, 18. desember 2017.