Ferill 92. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 159  —  92. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2017.


1. Inngangur.
    Tillaga Finna og Íslendinga um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði og umsókn Færeyinga um fulla aðild að ráðinu voru meðal þeirra mála sem voru efst á baugi í Norðurlandaráði á árinu 2017. Finnar fóru með formennsku í ráðinu og Britt Lundberg, þingmaður Miðflokks Álandseyja (Åländsk Center), gegndi embætti forseta.
    Á vorþingfundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi var m.a. fjallað um breytingar á samstarfi Norðurlanda og Bandaríkjanna eftir að Donald Trump tók við forsetaembættinu. Var þar m.a. rætt um að enn mikilvægara en áður væri að Norðurlönd legðu áherslu á sameiginleg gildi sín í samskiptum við Bandaríkin.
    Á Norðurlandaráðsþingi, sem haldið var í Helsinki í lok október og byrjun nóvember, fór fram umræða um sáttamiðlun á alþjóðavettvangi. Þar flutti ávarp og sat fyrir svörum Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og handhafi friðarverðlauna Nóbels. Hann sagði m.a. að þegar deilur kæmu upp á alþjóðavettvangi mætti nánast alltaf rekja rætur þeirra til þess að einhverjir hópar upplifðu ójöfnuð. Ahtisaari sagði jafnframt að samfélagsgerð Norðurlanda, sem byggðist á réttlæti og jöfnuði, væri sú besta sem stæði til boða og gæti verið öðrum þjóðum fyrirmynd.
    Sameiginleg tillaga Íslendinga og Finna um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði til jafns við skandinavísku málin var ítrekað rædd á vettvangi Norðurlandaráðs, en hún var upphaflega lögð fram 2016. Finnskir og íslenskir þingmenn í Norðurlandaráði sögðu það réttlætismál að jafna stöðu tungumálanna en skandinavískir þingmenn höfðu áhyggjur af auknum kostnaði við túlkun og þýðingar og að hugsanlega yrði að auka kröfur um tungumálakunnáttu starfsmanna Norðurlandaráðs og þá yrði erfiðara að finna hæfa starfsmenn. Þeir lýstu einnig áhyggjum af fordæmisgildi breytingarinnar og að í kjölfarið mundu t.d. Samar og Grænlendingar setja fram sams konar kröfur. Málinu lauk ekki á árinu heldur var ákveðið að fara nánar yfir hvaða áhrif breytingarnar hefðu á starfsemi Norðurlandaráðs og taka það fyrir á ný á Norðurlandaráðsþingi 2018.
    Annað mál sem rætt hefur verið síðan 2016 er umsókn Færeyinga um fulla aðild að Norðurlandaráði. Á vorþinginu 2017 var til umræðu minnisblað sem danska þingið hafði tekið saman um lagaleg álitaefni tengd því máli. Þar var bent á ýmis vandkvæði tengd ákvæðum í stjórnarskrá Danmerkur og einkum þó í Helsinki-sáttamálanum, grundvallarsamningi norræns samstarf. Fram hefur komið að samstarfsráðherrar Norðurlanda eru ekki tilbúnir til að breyta sáttmálanum. Á vorþinginu og einnig síðar lýstu ýmsir íslenskir þingmenn stuðningi við óskir Færeyinga. Um tíma leit út fyrir að umsókn Færeyinga yrði felld en svo fór að á Norðurlandaráðsþingi um haustið í Helsinki var samþykkt að fresta málinu til þess að færeyskum yfirvöldum gæfist tækifæri til að kanna og gefa álit sitt á ríkisréttarlegum, þjóðréttarlegum og pólitískum álitaefnum.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar tvisvar á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni, á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndarfunda þrisvar á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Fulltrúar í Norðurlandaráði eru þeir þingmenn sem eru valdir af norrænu þjóðþingunum í samræmi við tillögur þingflokka. Í ráðinu eiga sæti 87 fulltrúar. Þing Noregs og Svíþjóðar eiga tuttugu fulltrúa, Finnlands átján fulltrúa, Danmerkur sextán fulltrúa, Íslands sjö fulltrúa, Færeyja tvo fulltrúa, Grænlands tvo fulltrúa og Álandseyja tvo fulltrúa. Skipan í sendinefndir þinganna, einnig nefndar landsdeildir, skal endurspegla styrk stjórnmálaflokka á þjóðþingunum. Forseti Norðurlandaráðs kemur frá hverju ríki á fimm ára fresti. Á hefðbundnu þingi Norðurlandaráðs um mánaðamótin október/nóvember er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar eða fagráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Á stuttum þingfundi Norðurlandaráðs að vori er sérstök áhersla á ákveðið málefni. Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, norrænt frelsi og norræn vinstri græn. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fór árið 2017 að mestu fram í fjórum fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandastarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs var kosin á þingfundi 26. janúar 2017. Aðalmenn voru kosnir Valgerður Gunnarsdóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Steingrímur J. Sigfússon varaformaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Brynjar Níelsson og Teitur Björn Einarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Oddný G. Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Jóna Sólveig Elínardóttir, þingflokki Viðreisnar, og Sigurður Ingi Jóhannsson, þingflokki Framsóknarflokksins. Varamenn voru kosnir Vilhjálmur Árnason, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Haraldur Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Hanna Katrín Friðriksson, þingflokki Viðreisnar, Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingflokki Framsóknarflokksins.
    Vegna þess hversu skammt var milli kosninga til Alþingis, sem haldnar voru 28. október, og Norðurlandaráðsþings, sem fram fór 30. október til 2. nóvember, var ljóst að ekki næðist að skipa nýja Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir þingið. Í samræmi við ákvörðun forsætisnefndar Alþingis frá 5. september 2016 var ákveðið að alþingismönnum sem hlytu endurkjör og sem ættu sæti sem aðalmenn eða varamenn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir kosningarnar væri heimilt að sækja Norðurlandaráðsþing. Sama regla var látin gilda um forsætisnefndarfund Norðurlandaráðs sem haldinn var í Kaupmannahöfn 27.–28. nóvember.
    Ný Íslandsdeild Norðurlandaráðs var kosin 14. desember. Í henni sitja Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, sem er formaður, Oddný G. Harðardóttir úr þingflokki Samfylkingarinnar, sem er varaformaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Anna Kolbrún Árnadóttir úr þingflokki Miðflokksins, Ólafur Ísleifsson úr þingflokki Flokks fólksins og Vilhjálmur Árnason úr þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Helgi Þorsteinsson gegndi stöðu ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2017.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Fulltrúar Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í nefndir og embætti voru kosnir á vorþingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Stokkhólmi 3.–4. apríl 2017. Valgerður Gunnarsdóttir og Teitur Björn Einarsson voru kjörin í sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs, Steingrímur J. Sigfússon, Sigurður Ingi Jóhannsson og Oddný G. Harðardóttir í forsætisnefnd, Brynjar Níelsson í þekkingar- og menningarnefnd og eftirlitsnefnd og Jón Sólveig Elínardóttir í velferðarnefnd og kjörnefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Valgerður Gunnarsdóttir sat í stjórn Norræna menningarsjóðsins og Teitur Björn Einarsson átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans. Teitur Björn sótti einnig fund sem fulltrúar sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs áttu með norrænum Evrópuþingmönnum í Brussel 2.–3. maí. Sigurður Ingi Jóhannsson sótti fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs ráðstefnu um samstarf ESB í austri sem Norðurlandaráð, Eystrasaltsþingið, Benelúx-þingið og Vísegrad-löndin (Tékkland, Slóvakía, Pólland og Ungverjaland) héldu í sameiningu í Ríga í Lettlandi 8.–9. júní. Sigurður Ingi tók jafnframt um haustið við sem fulltrúi Norðurlandaráðs í fastanefnd þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC). Hann sótti m.a. ársfund BSPC í Hamborg 3.–5. september. Steingrímur J. Sigfússon fór fyrir hönd Norðurlandaráðs á fund þingmannanefndarinnar um norðurskautsmál sem haldinn var 16.–18. maí í Sisimiut á Grænlandi.
    Í lok apríl kom hópur rússneskra þingmanna frá héraðsþingum í Norðvestur-Rússlandi og ríkisþinginu í Moskvu í fjögurra daga heimsókn til Íslands. Þeir hittu að máli Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis, og funduðu með fulltrúum Íslandsdeilda Norðurlandaráðs, Vestnorræna ráðsins og þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál og með velferðarnefnd Alþingis. Þeir skoðuðu jafnframt Hellisheiðarvirkjun og kynntu sér starfsemi Össurar hf. og starf utanríkisráðuneytisins að málefnum norðurslóða. Heimsóknin var hluti af áætlun Norðurlandaráðs um samskipti rússneskra og norrænna þingmanna. Norðurlönd skiptast á um að taka á móti slíkum hópum.
    
Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði fimm sinnum á árinu, í febrúar, mars, maí, september og desember. Á fyrsta fundi hennar var ákveðið að fara að fyrirmynd landsdeilda Svíþjóðar og Danmerkur og bjóða framvegis fulltrúum ýmissa samstarfsaðila Íslandsdeildarinnar að sitja fundi hennar sem áheyrnaraðilar. Eftir það var fulltrúum Norðurlandaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Norræna félagsins, Norðurlandaráðs æskunnar, upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd, Norræna hússins og fleiri einstaklingum og samtökum sem tengjast norrænu samstarfi send fundarboð fyrir hvern fund. Fundir Íslandsdeildarinnar í mars, maí og september voru einkum helgaðir undirbúningi fyrir einstaka fundi Norðurlandaráðs. Á fundi nýrrar Íslandsdeildar í desember var Oddný G. Harðardóttir kjörin varaformaður. Auk reglulegra funda Íslandsdeildarinnar hélt deildin einn samráðsfund með Kristjáni Þór Júlíussyni, samstarfsráðherra Norðurlanda, í maí.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir og samræmir starf nefnda Norðurlandaráðs, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum, utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd var árið 2017 skipuð forseta, varaforseta og allt að fimmtán fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Forsetinn og varaforsetinn eru frá því landi sem verður gestgjafi hefðbundins þingfundar að hausti á því ári sem þeir sinna starfinu. Öll ríki á Norðurlöndum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefndin getur skipað undirnefndir eða vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahóp sem ræðir við norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefndin ber einnig ábyrgð á samræmingu tengsla við þjóðþing og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir.
    Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem var varamaður í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fram að kosningunum í október 2016, sótti fyrsta fund forsætisnefndarinnar á árinu sem haldinn var í Ósló 24.–25. janúar. Oddný G. Harðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Sigurður Ingi Jóhannsson voru kjörin í forsætisnefnd á vorþingi ráðsins í apríl og sátu í nefndinni fram að alþingiskosningum 28. október. Norðurlandaráðsþing var haldið í Helsinki örfáum dögum eftir kosningarnar. Á fund forsætisnefndar í tengslum við þingið komu Silja Dögg Gunnarsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé, en Kolbeinn hafði verið varamaður í Íslandsdeild fram að kosningunum. Síðasti fundur forsætisnefndarinnar fór fram í Kaupmannahöfn 27.–28. nóvember. Á þann fund komu Oddný G. Harðardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir.
    Nefndin fundaði alls sex sinnum á árinu, fjórum sinnum á sama tíma og fagnefndir ráðsins í janúar, mars, september og október, og tvisvar á eigin vegum í júní og nóvember.
    Þrjár tillögur sem afgreiddar voru úr forsætisnefnd voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu: um eflingu sáttamiðlunar sem norræns vörumerkis, um fjárhagsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar 2018 og um samstarfsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar um málefni norðurskautssvæðisins. Þá afgreiddi forsætisnefnd fjögur mál sem urðu að ákvörðunum um innri málefni: um alþjóðlega stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum 2018–2022, um norrænt samstarf á sviði sáttamiðlunar, um Dagskrá 2030 og um opinber tungumál Norðurlandaráðs.

Þekkingar- og menningarnefnd.
    Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs fer með málefni sem snerta menningu, rannsóknir og menntun, grunn- og framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu og alþýðufræðslu, þar á meðal mál sem snerta tungumálasamstarf, nýmiðla, færniþróun og nýsköpun á sviði menntamála. Nefndin vinnur einnig að málum sem snerta borgaralegt samfélag og afl og störf sjálfboðaliða. Íþróttir, tungumál, kvikmyndir og fjölmiðlar, almenn og fjölbreytileg list og menning, og menning barna og ungmenna eru jafnframt á starfssviði norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.
    Brynjar Níelsson sat í þekkingar- og menningarnefnd frá vorþingi Norðurlandaráðs í apríl. Hann sótti m.a. fund nefndarinnar í tengslum við Norðurlandaráðsþing, eftir alþingiskosningarnar. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu. Fimm tillögur sem afgreiddar voru úr þekkingar- og menningarnefnd voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu: um skýrslu um rannsóknastefnu, um framkvæmdaáætlun til að auka hreyfanleika námsmanna milli Norðurlandanna, um Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, um afnám lokunar höfundaréttarvarins efnis eftir svæðum og um söngdag Norðurlanda
    
Hagvaxtar- og þróunarnefnd.
    Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vinnur að málefnum og viðfangsefnum sem snerta vinnumarkað og vinnuumhverfi, atvinnulíf, viðskipti, iðnað, orku, baráttu gegn stjórnsýsluhindrunum, samgöngumál og öryggi í samgöngumálum. Nefndin fjallar einnig um mál sem tengjast fjármála- og atvinnustefnu, þar á meðal rammaskilyrði rannsókna, framleiðslu og viðskipta, og í framhaldi af því frjálsa för á mörkuðum og vinnumörkuðum á Norðurlöndum. Byggða- og uppbyggingarstefna, fjarskipti og upplýsingatækni eru einnig á starfssviði norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar. Íslendingar áttu engan fulltrúa í nefndinni á árinu 2017. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Átta tillögur sem afgreiddar voru úr hagvaxtar- og þróunarnefnd voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu: um norræna samstarfsáætlun um stefnu í atvinnulífi og nýsköpun 2018–2021, um innflutning flóttafólks og stefnu í vinnumarkaðsmálum, um samstarfsáætlun í vinnumálum 2018–2021, um stafræna væðingu á Norðurlöndum, um símenntun, um aukna áherslu á nám fullorðinna og símenntun, um sameiginlegar norrænar aðgerðir gegn félagslegum undirboðum í ESB, og um nýja samstarfsáætlun um orkumál 2018–2021.

Sjálfbærninefnd.
    Norræna sjálfbærninefndin vinnur að viðfangsefnum og málum sem snerta umhverfis- og náttúruvernd, náttúruauðlindir, þar á meðal nýtingu náttúruauðlinda í landbúnaði, sjávarútvegi og skógrækt. Loftslagsmál eru jafnframt mikilvægur hluti af starfi nefndarinnar, þar á meðal afleiðingar loftslagsbreytinga sem einkum má merkja á nyrstu svæðum Norðurlanda. Meðal annarra viðfangsefna nefndarinnar má nefna réttindi neytenda, fiskveiðistjórnun, stefnumótun í landbúnaði, matvæli, kjarnorkuöryggi, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbærni. Vilhjálmur Árnason sótti fund nefndarinnar í janúar. Valgerður Gunnarsdóttir sat í nefndinni frá vorþingi Norðurlandaráðs í apríl og til þingkosninganna í október. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Fimmtán tillögur sem afgreiddar voru úr sjálfbærninefnd voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu: um bann við notkun örplasts í snyrtivörum, um framfylgd við alþjóðleg loftslagsmarkmið, um minnkun plastúrgangs á Norðurlöndum, um aðgerðir sem geta stemmt stigu við mengun hafsins og hvatt neytendur og framleiðendur til að endurvinna plastúrgang, um samnorræna skrá yfir áfyllingarstöðvar, um öll Norðurlönd í NOBIL-gagnagrunninn, um samstarf um fjölgun eldsneytisstöðva, um Dagskrá 2030, um hlutverk neytenda í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, um siglingaöryggi á hafsvæðum norðurslóða, um að greiða götu deilihagkerfis á Norðurlöndum, um leiðbeiningar um hafnsögu í Eyrarsundi, um hafnsögu í Eyrarsundi, um skráningar- og eftirlitskerfi siglinga um Eyrarsund, um skilagjaldskerfi til eflingar hringrásarhagkerfinu, og um samnorrænt átak til að sýna fram á og skapa skilning á skilvirkni og gagnsemi skilagjaldskerfa á Norðurlöndum.

Velferðarnefnd.
    Norræna velferðarnefndin leggur áherslu á norræna velferðarlíkanið. Nefndin fæst m.a. við mál sem snerta umönnun barna, ungmenna og aldraðra, fötlun, áfengi, fíkniefni og misnotkun. Einnig er unnið með viðfangsefni sem tengjast jafnrétti, borgaralegum réttindum, lýðræði, mannréttindum og baráttu gegn afbrotum. Samþætting innflytjenda, fólksflutningar og flóttamenn heyra jafnframt undir nefndina og sama er að segja um húsnæðismál og málefni frumbyggja Norðurlanda. Jóna Sólveig Elínardóttir sat í velferðarnefnd frá vorþingi Norðurlandaráðs í apríl og til þingkosninganna í október. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Fimm tillögur sem afgreiddar voru úr velferðarnefnd voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu: um sameiginlegar aðgerðir Norðurlanda gegn sýklalyfjaónæmi, um aukinn hreyfanleika fólks með fötlun á Norðurlöndum, um þátttöku borgaralegs samfélags í norrænu samstarfi á sviði aðlögunar, um samnorrænar aðgerðir í aðlögunarmálum, og um vaxandi andlega vanlíðan barna og ungmenna á Norðurlöndum. Þá afgreiddi velferðarnefnd eitt mál sem varð að ákvörðun um innri málefni: um samþykkt hvítbókar: Norðurlöndin saman í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgdist fyrir hönd þingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Brynjar Níelsson var varaformaður eftirlitsnefndarinnar frá vorþingi Norðurlandaráðs í apríl. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og aukakosningum í forsætisnefnd. Silja Dögg Gunnarsdóttir sótti fund kjörnefndarinnar í janúar. Jóna Sólveig Elínardóttir átti sæti í nefndinni frá vorþingi Norðurlandaráðs í apríl og fram til þingkosninganna í október. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

5. Fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til nefndafunda fjórum sinnum árið 2017, í janúar og september og í apríl og nóvember í tengslum við þingfundi ráðsins. Á fundunum var fjallað um og afgreidd þau mál sem lögð voru til samþykktar fyrir þingfundi Norðurlandaráðs í apríl og nóvember eða fyrir forsætisnefnd milli þingfunda.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Ósló.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Stórþinginu í Ósló 24.–25. janúar sl. Á fundina fóru af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs Silja Dögg Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Á dagskrá var m.a. sameiginleg tillaga finnsku og íslensku landsdeildanna um finnsku og íslensku sem vinnutungumál í Norðurlandaráði og tillaga um ný sjónvarpsverðlaun Norðurlandaráðs. Í tengslum við fundinn fór einnig fram umræða um málefni flóttamanna.
    Tillagan um sjónvarpsverðlaun Norðurlandaráðs var rædd á fundi forsætisnefndar. Hún kom upprunalega fram árið 2015 frá Höskuldi Þórhallssyni, þáverandi forseta Norðurlandaráðs, og hefur síðan verið rædd ítrekað á vettvangi Norðurlandaráðs. Tillagan hafði verið send norrænu ríkissjónvarpsstöðvunum til umsagnar sumarið áður og var endurskoðuð nokkuð í kjölfarið. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, kynnti tillöguna og benti á mikla útbreiðslu og vinsældir norræns sjónvarpsefnis víða um lönd. Hún sagði að norrænir sjónvarpsþættir gegndu m.a. mikilvægu hlutverki við að styrkja stöðu norrænu tungumálanna. Flestir þingmanna í forsætisnefndinni tóku tillögunni vel, en ýmsir lýstu þó áhyggjum af því að fjölgun verðlauna Norðurlandaráðs gæti gjaldfellt þau sem fyrir eru. Ákveðið var að senda þekkingar- og menningarmálanefnd Norðurlandaráðs tillöguna til umsagnar.
    Á dagskrá forsætisnefndar var einnig tillaga landsdeilda Finnlands og Íslands um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði til jafns við sænsku, dönsku og norsku. Silja Dögg Gunnarsdóttir benti á að enska hefði fyrir löngu tekið sæti dönskunnar sem fyrsta erlenda tungumálið sem Íslendingar tileinki sér og að fáir íslenskir þingmenn gætu tjáð sig að neinu marki á skandinavískum málum. Nauðsynlegt væri að gera íslensku og finnsku eins hátt undir höfði og sænsku, dönsku og norsku til að tryggja jafnræði þingmanna í Norðurlandaráði. Fram hefur komið að kostnaður vegna þýðinga hefur aukist mjög á síðustu árum, en Silja Dögg benti á að enn væri þó aðeins lítill hluti fundargagna þýddur á íslensku og sýndi fundarmönnum þær fáu blaðsíður sem hún hefði fengið á íslensku til undirbúnings fyrir fundinn. Skandinavískir fulltrúar í forsætisnefnd tóku tillögunni almennt vel, en nokkrir lýstu þó áhyggjum af kostnaði og af því að komið gætu kröfur frá fleiri hópum, t.d. Grænlendingum og Sömum, um að þýða efni á tungumál þeirra. Ýmsir þingmenn bentu þó á að ekki væri víst að þörf væri á að þýða allt efni á finnsku og íslensku. Ákveðið var að senda tillöguna til umsagnar í landsdeildunum og til þekkingar- og menningarmálanefndar Norðurlandaráðs.
    Forsætisnefnd tók einnig fyrir tillögu flokkahóps hægrimanna í Norðurlandaráði um að ávallt fari fram ítarlegt mat á árangri af norrænum verkefnum þegar þeim er lokið og jafnframt að eftirlit með framkvæmd verkefna verði bætt. Ákveðið var að senda skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar fyrirspurn um verkefnavinnu á þeirra vegum.
    Tillaga flokkahópsins norrænt frelsi um að stofna sérstakan starfshóp um stefnumótun í málefnum innflytjenda var hafnað af meiri hluta nefndarmanna. Bent var á að innflytjendamál væru þegar á dagskrá velferðarnefndar Norðurlandaráðs og að ný áætlun norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu innflytjenda og flóttamanna hefði verið samþykkt á Norðurlandaráðsþingi 2016. Flokkahópurinn norrænt frelsi gerði fyrirvara við þessa niðurstöðu og málið var því tekið fyrir aftur á þingfundi Norðurlandaráðs.
    Tillaga flokkahóps hægrimanna um að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að láta rannsaka lagningu gasleiðslunnar Nord Stream 2 um Eystrasaltið með tilliti til umhverfis-, öryggis-, varnar- og utanríkismála var einnig felld í forsætisnefnd. Flokkahópur hægrimanna gerði fyrirvara við þá ákvörðun og málið var því tekið til meðferðar á þingfundi Norðurlandaráðs síðar.
    Tvær tillögur flokkahóps vinstrisósíalista og grænna, önnur um Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði og hin um sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara, voru felldar. Við umræður um síðarnefndu tillöguna benti Silja Dögg Gunnarsdóttir á að Alþingi hefði fyrir fáeinum árum samþykkt þingsályktunartillögu um stuðning við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara. Málið væri því í farvegi hvað Ísland snertir og hugsanlega því óþarfi frá hennar sjónarhóli að samþykkja ályktun þessa efnis í Norðurlandaráði. Danski þingmaðurinn Christian Juhl, sem talaði fyrir málinu fyrir hönd flokkahóps vinstrisósíalista og grænna, sagði að ályktun Íslendinga frá 2014 væri einmitt ein af ástæðum þess að málið hefði verið tekið upp í Norðurlandaráði og að Íslendingar væru að mörgu leyti í fararbroddi í þessum málum. Ýmsir þingmenn sögðu í umræðunum að málefnið væri mikilsvert en að réttast væri að ríkisstjórnir norrænu landanna sinntu því. Flokkahópur vinstrisósíalista og grænna gerði fyrirvara við ákvörðun forsætisnefndar um að vísa málinu frá og það var því tekið fyrir á þingfundi Norðurlandaráðs síðar.
    Sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs hafði m.a. til umfjöllunar tillögu um að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að banna notkun örplasts í snyrtivörum. Tillagan var samþykkt í nefndinni og síðan tekin fyrir á þemaþingi Norðurlandaráðs í apríl. Nefndin ákvað einnig að leggja til að þema umhverfisverðlauna ársins 2018 yrði „sjálfbærar lausnir“ í samgöngumálum. Enn fremur ákvað hún að láta kanna nánar hvaða fyrirkomulag hentaði best til framtíðar varðandi norræna fjármögnun græns vaxtar, en komið hafa fram hugmyndir um samruna eða nánara samstarf Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO) og Norræna þróunarsjóðsins (NDF).
    Í tengslum við nefndafundina var haldinn sameiginlegur fundur um alþjóðamál með áherslu á málefni flóttamanna. Þar hélt Jan Egeland, framkvæmdastjóri norsku flóttamannahjálparinnar, erindi. Hann sagði m.a. frá því að fjöldi flóttamanna í heiminum væru sá mesti síðan á fyrstu árunum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Tveir þriðju þeirra væru á flótta í eigin heimalandi og um 90% flóttamanna dveldu í löndum þriðja heimsins, þannig að Evrópa og hinn vestræni heimur tæki aðeins við litlum hluta þeirra. Hann sagði að það fjármagn sem alþjóðasamfélagið veitti til flóttamannamála hefði ekki aukist í takt við fjölgun þeirra. Mikið vantaði því upp á að nægilegt fjármagn væri veitt til að leysa úr vanda flóttamanna í Sýrlandi, en staðan væri þó enn verri í Jemen. Egeland sagði einnig að allt of lítil áhersla hefði verið lögð á það á síðustu árum að fyrirbyggja átök, en gríðarlegum fjármunum, margfalt meiri en farið hefðu til mannúðaraðstoðar, hefði verið varið til hernaðaraðgerða, t.d. í Írak og Afganistan. Í umræðunni í kjölfar erindis Egelands sagði Juho Eerola, þingmaður Sannra Finna, að nánast allir flóttamenn hefðu þá ósk að komast til Evrópu, og að ókleift væri að taka við svo miklum fjölda og takast á við tungumálaerfiðleika og önnur vandkvæði í tengslum við aðlögun þeirra. Hann sagðist sjálfur hafa starfað um árabil við móttöku flóttamanna í Finnlandi og flestir þeirra hefðu ekki verið frá átakasvæðum í Sýrlandi og Afganistan, heldur einstaklingar frá Nígeríu, Senegal og fleiri löndum sem hefðu verið í leit að betri lífskjörum. Egeland sagði að langflestir þeirra sem komu til Evrópu, einkum Þýskalands og Svíþjóðar, í flóttamannastraumnum mikla á árunum 2014 og 2015 hefðu verið raunverulegir flóttamenn og að það væri mýta að flestir þeirra hefðu verið efnahagslegir flóttamenn. Hann sagði að sá fjöldi flóttamanna sem hefði komið til Evrópu væri í raun ekki mjög mikill í hlutfalli við íbúafjölda álfunnar, sérstaklega ef borið væri saman við þann fjölda sem grannlönd Sýrlands hefðu tekið við, en þeir hefðu dreifst ójafnt, allt of margir farið til Þýskalands og Svíþjóðar, en ýmis önnur lönd hefðu svikist um að taka ábyrgð. Hann sagði að Evrópa gæti ekki horft fram hjá vanda átján milljóna Sýrlendinga, það kæmi þeim í koll fyrr eða síðar. Britt Lundberg, þingmaður frá Álandseyjum og forseti Norðurlandaráðs, sagði að Norðurlandaráð gæti að vísu ekki tryggt frið í heiminum en það gæti verið vettvangur til að skiptast á skoðunum og reynslu. Hún benti á að þær leiðir sem Norðurlönd hefðu farið varðandi sjálfsstjórn til handa Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi gæti orðið öðrum löndum og heimshlutum fyrirmynd og hjálpað til við að draga úr átökum og deilum.

Þemaþing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    Þemaþing Norðurlandaráðs fór fram í þinghúsinu í Stokkhólmi dagana 3.–4. apríl. Fulltrúar Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á fundinum voru Valgerður Gunnarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sigurður Ingi Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir, Jóna Sólveig Elínardóttir, Teitur Björn Einarsson og Vilhjálmur Árnason, auk Helga Þorsteinssonar ritara.
    Á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs urðu miklar umræður um umsókn Færeyinga um fulla og sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði. Danska þingið hafði tekið saman minnisblað um lagaleg atriði í tengslum við slíka aðild. Þar var bent á ýmis vandkvæði tengd ákvæðum í stjórnarskrá Danmerkur og einkum þó í Helsinki-sáttamálanum, grundvallarsamningi norræns samstarf. Fram hefur komið að samstarfsráðherrar Norðurlanda eru ekki tilbúnir til að breyta sáttmálanum. Henrik Dam Kristensen, formaður landsdeildar Danmerkur, sagði að forsætisnefndin mætti ekki komast að þeirri niðurstöðu að það væri í höndum Færeyinga og Dana að leysa þetta mál, vandinn fælist fyrst og fremst í Helsinki-sáttmálanum. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri-grænna og varaformaður landsdeildar Íslands, sagði afstaða Norðurlandaráðs í þessu máli benti til þess að Norðurlandaráð væri orðið íhaldssamara og varfærnara en áður. Hann benti á að Færeyingar hefðu lagt sams konar umsókn fram áður og þá hefði henni verið betur tekið, en síðan þá hefðu Færeyjar tekið miklum framförum og fengið aukna sjálfsstjórn. Hann velti því upp hvort ekki væri hægt að breyta Helsinki-sáttmálanum þannig að sjálfstjórnarsvæðin gætu tekið við að fullu á þeim sviðum norræns samstarfs sem heyrðu undir þau sjálf samkvæmt sjálfstjórnarfyrirkomulagi á hverjum stað. Ýmsir þingmenn bentu á að hafa þyrfti í huga hvaða áhrif það hefði á kröfur annarra hópa, t.d. Sama, ef Færeyingum yrði veitt full aðild. Hans Wallmark, formaður sænsku landsdeildarinnar, sagði að horfa þyrfti á heildarmyndina varðandi framtíð norræns samstarfs og benti á stöðu Slésvíkur og Holstein og danska minni hlutans þar, líklegan áhuga Breta, og þá ekki síst Skota, á nánara samstarfi í kjölfar útgöngu Bretlands úr ESB, og svo framvegis. Færeyska þingkonan Ruth Vang taldi þó ekki rétt að bera Færeyinga saman við aðra hópa í þessu sambandi. Hún sagði jafnframt að ef markmiðið væri að ná góðri sátt í þessu máli mætti ekki byggja allt á „ísköldum“ lagalegum rökum. Að tillögu Britt Lundberg, forseta Norðurlandaráðs, var ákveðið að fresta endanlegri ákvörðun í málinu og fela skrifstofu Norðurlandaráðs að fara yfir svonefnt Álandseyjaskjal sem lýsir stöðu sjálfstjórnarsvæðanna í norrænu samstarfi og kanna hvort þar væri svigrúm til að styrkja stöðu Færeyja í Norðurlandaráði án þess að gengið væri gegn ákvæðum Helsinki-sáttmálans.
    Í tengslum við þemaþingið var haldin umræða um nýjar forsendur í samstarfi Norðurlanda við Bandaríkin eftir að Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Meðal þátttakenda voru Margot Wallström, utanríkis- og samstarfsráðherra Svíþjóðar, Frank Bakke-Jensen, samstarfsráðherra Noregs og Nina Fellmann, samstarfsráðherra Álandseyja. Í máli margra kom fram að nú væri enn mikilvægara en áður að leggja áherslu á sameiginleg gildi Norðurlanda í samskiptunum við Bandaríkin. Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að reynslan sýndi að þegar Norðurlöndin töluðu einum rómi á alþjóðavettvangi legðu önnur lönd við hlustir.

Sumarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs á Álandseyjum 27.–28. júní.
    Fulltrúar Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á sumarfundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs, sem fram fór á Álandseyjum 27.–28. júní, voru Steingrímur J. Sigfússon, Oddný G. Harðardóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Daginn fyrir fund forsætisnefndarinnar fundaði sérstakur vinnuhópur um alþjóðamál í Maríuhöfn, höfuðstað Álandseyja. Steingrímur J. Sigfússon var meðal þátttakenda. Forsætisnefndin kom síðan saman á eyjunni Silverskär, sem er tæpa fjörtíu kílómetra norður af Maríuhöfn.
    Fyrir upphaf forsætisnefndarfundarins á Silverskär var haldin stutt námsstefna um sáttamiðlun. Þar fluttu erindi og sátu fyrir svörum finnski þingmaðurinn Pekka Haavisto og Kjell-Åke Nordquist, forstöðumaður Friðarstofnunarinnar á Álandseyjum. Fyrsta mál á dagskrá forsætisnefndarinnar var einmitt tillaga flokkahóps miðjumanna um að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að efla sáttamiðlun sem norrænt vörumerki, með því að forsætisráðherrar landanna settu það á dagskrá sína, að gerð yrði úttekt á tækifærum Norðurlanda í varnar- og öryggismálum í anda Stoltenberg-skýrslunnar um varnar- og öryggismál, að komið yrði á fót norrænu háskólanámi á þessu sviði og að stofnað yrði skjalasafn á Norðurlöndum þar sem safnað yrði gögnum um sáttamiðlun frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Tillagan var samþykkt með örfáum breytingum, m.a. þeirri að sjónum yrði beint sérstaklega að málefnum minnihlutahópa.
    Umsókn Færeyinga um fulla aðild að Norðurlandaráði var til umræðu í forsætisnefnd, en hún var upphaflega lögð fram árið 2016. Danska þingið vann greinargerð um málið þar sem fram kom að ákvæði Helsinki-sáttmálans, grundvallarsamnings norræns samstarfs, stæðu í vegi fyrir því að hægt væri að veita Færeyingum og öðrum sjálfstjórnarsvæðum fulla aðild því samkvæmt samningnum væri aðild bundin við fullvalda ríki. Ekki hefur verið vilji til þess innan forsætisnefndar að breyta samningnum. Á fundi Norðurlandaráðs í apríl 2017 var ákveðið að athuga hvort hægt væri að styrkja stöðu Færeyja í Norðurlandaráði innan ramma gildandi reglna. Niðurstaðan var sú að möguleikarnir væru nú þegar fullnýttir. Steingrímur J. Sigfússon gagnrýndi ósveigjanleika Norðurlandaráðs varðandi það að breyta Helsinki-sáttmálanum og veita Færeyingum fulla aðild. Hann lagði jafnframt áherslu á að ekki mætti líta þannig á að þetta mál varðaði eingöngu innbyrðis samskipti Færeyinga og Dana og dró í efa að fullkannað væri hvort hægt væri að veita Færeyingum aukin réttindi miðað við gildandi reglur. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á að fyrr á fundi forsætisnefndar, í tengslum við umræður um sáttamiðlun, hefði verið rætt um það hvernig Norðurlönd gætu verið öðrum löndum fyrirmynd hvað varðaði að leita sátta og standa vörð um réttindi minnihlutahópa. Umsókn Færeyja væri einmitt mál sem reyndi á þetta og mikilvægt væri að leysa úr því á jákvæðan hátt. Britt Lundberg, þingmaður frá Álandseyjum og forseti Norðurlandaráðs, sagði að þingið á Álandseyjum styddi umsókn Færeyja, en taldi ekki fært að verða við henni vegna ákvæða í Helsinki-sáttmálanum. Meiri hluti forsætisnefndar ákvað að hafna tillögu Færeyinga vegna ákvæða Helsinki-sáttmálans, en vísaði jafnframt til viðræðna milli Færeyinga og Dana um að styrkja þátttöku þeirra fyrrnefndu í norrænu samstarfi sem hafnar voru að frumkvæði norrænu ráðherranefndarinnar.
    Töluverður umræður urðu um sameiginlega tillögu landsdeilda Finnlands og Íslands um að finnska og íslenska yrðu vinnutungumál í Norðurlandaráði til jafns við skandinavísku málin. Fyrir lágu drög að nefndaráliti forsætisnefndar um að auka þýðingar á fundargögnum og styrkja almennt stöðu finnsku og íslensku í starfi Norðurlandaráðs. Fulltrúar Finna og Íslendinga í forsætisnefndinni héldu þó fast í þá kröfu að starfsreglum Norðurlandaráðs yrði breytt þannig að finnska og íslenska hefðu jafna stöðu á við skandinavísku málin, en að framkvæmdinni yrði að mestu frestað um nokkur ár þannig að breytingin hefði ekki kostnaðaraukningu í för með sér fyrst um sinn. Skiptar skoðanir voru um þá tillögu og töldu ýmsir af þingmönnum skandinavísku landanna að þeir hefðu ekki umboð frá landsdeildum sínum til að samþykkja svo róttæka breytingu. Meiri hluti forsætisnefndarmanna sem voru á fundinum, þar á meðal Britt Lundberg, forseti Norðurlandaráðs, ákvað þó að fresta ákvörðun í málinu til að gefa Finnum og Íslendingum tækifæri til að koma með mótaða tillögu að breytingum á drögum að nefndaráliti. Meðal annarra mála sem rædd voru á fundi forsætisnefndarinnar var tillaga um ný sjónvarpsverðlaun Norðurlandaráðs, um mat á árangri af norrænum verkefnum, um eftirlit á landamærum norrænu ríkjanna og nýjar leiðbeiningar um samstarf Norðurlanda við granna í vestri.
    
Fundir Norðurlandaráðs í Hörpu í Reykjavík 19.–20. september 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Valgerður Gunnarsdóttir formaður, Steingrímur J. Sigfússon varaformaður, Jóna Sólveig Elínardóttir, Oddný G. Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Teitur Björn Einarsson, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Silja Dögg Gunnarsdóttir varamaður leysti Sigurð Inga af á hluta fundanna.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ræddi sameiginlega tillögu Finna og Íslendinga um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði til jafns við skandinavísku málin, en sú tillaga hefur ítrekað verið til umfjöllunar á fundum nefndarinnar og mætt þar töluverðri andstöðu sænskra, norska og danskra þingmanna. Finnar og Íslendingar höfðu lagt fram málamiðlunartillögu þess efnis að tillagan yrði samþykkt en framkvæmd hennar yrði frestað í nokkur ár þannig að enginn kostnaður hlytist af fyrst um sinn. Meiri hluti fundarmanna vildi hafna því að skilgreina finnsku og íslensku sem vinnutungumál en bæta stöðu þeirra í starfi Norðurlandaráðs með því að auka þýðingar. Sumir þeirra bentu á að kanna þyrfti betur hugsanleg áhrif tillögunnar, t.d. varðandi tungumálakunnáttu starfsmanna á skrifstofu Norðurlandaráðs og kostnað almennt. Finnski þingmaðurinn Erkki Tuomioja sagði þá frestun á framkvæmdinni sem fælist í málamiðlunartillögunni gefa Norðurlandaráði tíma til að fara yfir alla hagnýta þætti. Svo fór að engin málamiðlunarlausn fannst og tillaga Íslendinga og Finna var felld með sex atkvæðum gegn fimm. Nokkra athygli vakti að forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg, sem er þingmaður frá Álandseyjum, greiddi atkvæði gegn tillögunni. Finnsku og íslensku þingmennirnir gerðu sameiginlegan fyrirvara við niðurstöðu forsætisnefndar og málið kom því til umræðu og atkvæðagreiðslu á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki 31. október – 2. nóvember.
    Á fundi forsætisnefndar var jafnframt samþykkt tillaga flokkahóps jafnaðarmanna um að hvetja norrænu ráðherranefndina til að leitast við að efla áhrif Norðurlanda á vettvangi G20-landanna í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins á Norðurlöndum. Samþykktar voru fimm tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun norræns samstarfs sem beint var til norrænu ráðherranefndarinnar. Tillögurnar ganga m.a. út á að vinna að banni gegn notkun svartolíu við siglingar á norðurslóðum, að láta gera úttekt á þeim ráðstöfunum sem Grænland, Danmörk, Ísland, Noregur og Færeyjar hafa gert á hafsvæðum á norðurslóðum til að auka siglingaöryggi, að finna leiðir til að draga úr lokun höfundaréttarvarins efnis eftir svæðum (geoblocking) á Norðurlöndum, sérstaklega efnis sem sýnt er á ríkissjónvarpsstöðvunum, og að efla samstarf Norðurlanda varðandi heilbrigðisþjónustu fyrir flóttabörn sem koma einsömul til landanna. Samþykkt var áætlun um alþjóðastarf Norðurlandaráðs 2018–2020. Samkvæmt henni hyggst Norðurlandaráð m.a. beita sér fyrir því að sendiráð landanna verði í auknum mæli hýst í sameiginlegu húsnæði. Í alþjóðastarfinu hyggst Norðurlandaráð leggja sérstaka áherslu á svið þar sem Norðurlönd eru í fremstu röð, t.d. málefni barna, kvenna, kynferðislegra minnihlutahópa, fatlaðra og frumbyggja. Jafnframt var samþykkt samstarfsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar um málefni norðurslóða fyrir tímabilið 2018–2021, en þar eru sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna höfð að leiðarljósi. Sigurður Ingi Jóhannsson var á fundinum kjörinn fulltrúi Norðurlandaráðs í fastanefnd þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC) fyrir tímabilið 2017–2019.

Norðurlandaráðsþing í Helsinki 30. október – 2. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið Brynjar Níelsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Silja Dögg Gunnarsdóttir, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Einnig komu á þingið Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, og Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra. Kristján Þór var jafnframt staðgengill forsætisráðherra á þinginu. Steingrímur J. Sigfússon, starfandi forseti Alþingis, sótti fund norrænna þingforseta í tengslum við Norðurlandaráðsþing.
    Í tengslum við þingið var haldinn umræðufundur helgaður skýrslu um framtíðarsamstarf Norðurlanda í orkumálum sem Jorma Ollila, fyrrverandi framkvæmdastjóri Nokia, tók saman fyrir norrænu ráðherranefndina og skilaði af sér fyrr á þessu ári. Meðal þátttakenda á umræðufundinum voru Andris Piebalgs, fyrrverandi framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í orkumálum, og Kimmo Tiilikainen, orkumálaráðherra Finnlands. Á fundinum kom fram að Norðurlönd væru í fararbroddi á alþjóðavettvangi varðandi það að halda losun gróðurhúsalofttegunda í lágmarki við orkuframleiðslu. Losun í tengslum við samgöngur væri á hinn bóginn mikil í löndunum og þar þyrfti verulega að taka til hendinni. Þátttakendur í umræðunni voru sammála um að þörf væri á aukinni samræmingu og samráði við mótun orkustefnu norrænu landanna, m.a. á sviði orkuöryggis.
    Á þinginu var haldin sérstök umræða um sáttamiðlun á alþjóðavettvangi. Þar flutti Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og handhafi friðarverðlauna Nóbels, ávarp og sat fyrir svörum. Ahtisaari sagði að þegar alvarleg staða kæmi upp á alþjóðavettvangi ætti það sér nánast alltaf rætur í því að einhverjir hópar upplifðu ójöfnuð. Það ætti t.d. við um flóttamannavanda síðustu ára, stöðu Róhingja í Mjanmar, deilurnar um Norður-Kóreu og vaxandi fylgi öfgahópa í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum. Ahtisaari sagði að samfélagsgerð Norðurlanda, sem byggðist á réttlæti og jöfnuði, væri sú besta sem stæði til boða og gæti verið öðrum þjóðum fyrirmynd. Hann sagði að norræn samfélagsgerð og gildi hefðu verið honum leiðarljós í öllu starfi hans að sáttamiðlun á alþjóðavettvangi og grundvöllur þess árangurs sem hann hefði náð. Hann sagði að norrænn bakgrunnur hans hefði einnig kennt honum mikilvægi trausts sem væri ein af grundvallarforsendum þess að samfélög gætu eflst og þróast. Hann hvatti að lokum þingmenn til að standa vörð um þau gildi sem væru undirstaða norrænnar samfélagsgerðar og nefndi þar sérstaklega jöfnuðinn.
    Ráðgert var að tekin yrði til atkvæðagreiðslu á þinginu sameiginleg tillaga landsdeilda Finna og Íslendinga í Norðurlandaráði um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í ráðinu til jafns við skandinavísku málin. Málið hafði verið til umfjöllunar í forsætisnefnd Norðurlandaráðs um nokkurt skeið og meiri hluti skandinavískra þingmanna hafði myndast í nefndinni fyrir því að hafna tillögu Finna og Íslendinga en að bjóða í staðinn upp á að fundargögn yrðu þýdd í auknum mæli og að heimilt yrði að leggja fram þingmannatillögur á finnsku og íslensku. Krafan um að styrkja stöðu finnskunnar í norrænu samstarfi hefur verið mikið hitamál í Finnlandi og mikið hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum. Ljóst þótti að ef óskum Finna og Íslendinga yrði hafnað yrðu viðbrögðin hörð í Finnlandi, ekki síst frá þingmönnum og stuðningsmönnum flokks Sannra Finna, en einnig frá öðrum hópum. Undir lok þingsins hófust óformlegar umræður um málamiðlunartillögu þess efnis að fresta ákvörðun í málinu þannig að tími gæfist til að skilgreina betur hvað fælist í hugtakinu vinnutungumál og hvaða hagnýtu og fjárhagslegu afleiðingar það hefði að jafna stöðu tungumálanna. Þegar kom að atkvæðagreiðslu á síðasta degi þingsins leit út fyrir að nýja málamiðlunartillagan yrði samþykkt án fyrirvara, en það var forsenda þess að hægt yrði að aflýsa atkvæðagreiðslu um upprunalegu tillöguna. Þá kom upp í ræðustól Simon Elo, þingmaður Blárrar framtíðar, en það er flokkur sem klofnaði út úr flokki Sannra Finna í júní sl. Elo hafði verið á ferðalagi erlendis og var nýkominn heim til Finnlands og hafði því ekki tekið þátt í þinginu fyrstu dagana, en nú lýsti hann því yfir að hann hygðist gera fyrirvara við málamiðlunartillöguna til að knýja fram atkvæðagreiðslu um upprunalegu tillöguna. Aðrir þingmenn úr ýmsum flokkahópum og frá ýmsum löndum stóðu upp og gagnrýndu þessa ákvörðun harðlega. Elo stóð þó fastur á sínu, allt þar til íslensku fulltrúarnir Kolbeinn Óttarsson Proppé og Silja Dögg Gunnarsdóttir tóku til máls. Kolbeinn sagðist styðja frestunartillöguna, að ekkert tapaðist á því að bíða í eitt ár, og benti á að vegna nýafstaðinna þingkosninga væri íslenska landsdeildin á þinginu fámenn og því væru færri til að greiða atkvæði með tillögunni um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumáli. Silja Dögg tók síðan undir þetta sjónarmið. Elo ákvað, með vísan til röksemda Íslendinga, að draga fyrirvara sinn til baka. Tillagan um frestun málsins var síðan samþykkt. Að atkvæðagreiðslunni lokinni var haldinn fjölsóttur blaðamannafundur þar sem fulltrúar forsætisnefndar og landsdeilda Finnlands og Ísland sátu fyrir svörum. Silja Dögg kom þar fram fyrir Íslands hönd.
    Umsókn Færeyinga um fulla aðild að Norðurlandaráði, sem einnig hefur verið til umræðu í forsætisnefnd alllengi, fór á líkan veg og tillagan um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði. Meiri hluti forsætisnefndar Norðurlandaráðs hafði samþykkt að leggja til að tillögunni yrði hafnað og við upphaf þingsins leit út fyrir að það yrði niðurstaðan. Daginn áður en málið var tekið til umfjöllunar lögðu Færeyingar fram nýja tillögu um að málinu yrði frestað til þess að færeyskum yfirvöldum gæfist tækifæri til að kanna og gefa álit sitt á ríkisréttarlegum, þjóðréttarlegum og pólitískum álitaatriðum, til viðbótar við skýrslu um þessi mál sem danska þjóðþingið hefur tekið saman. Umræðan um málið á síðasta degi þingsins einkenndist almennt af sáttavilja. Silja Dögg Gunnarsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé lýstu yfir afgerandi stuðningi við óskir Færeyinga. Kolbeinn sagði Íslendinga alltaf standa með frændum sínum Færeyingum, ekki síst vegna þess að Færeyingar stæðu alltaf með Íslendingum. „Jenis av Rana talaði hér um að það væri í anda Norðurlanda að rétta minnihlutahópum hjálparhönd og ég er alveg sammála því. Færeyingar hafa hins vegar sýnt það í verki að þeir rétta líka meirihlutahópum hjálparhönd, en þeir hafa stutt Ísland á erfiðum stundum þegar áföll hafa dunið yfir,“ sagði Kolbeinn m.a. Hann benti einnig á að traust væri eitt af viðfangsefnum Norðurlandaráðsþings að þessu sinni og að hann treysti engum betur en Færeyingum sjálfum til að taka ákvörðun um þessi mál. Silja Dögg vísaði í máli sínu til þess að sáttamiðlun hefði verið til umfjöllunar á þinginu og sagði: „Ég sjálf hef verið svo heppin að læra sáttamiðlun og þar eru þrjú lykilorð: að hlusta, að leita lausna og ná sátt á milli aðila.“ Hún sagði að ný málamiðlunartillaga Færeyinga væri mjög hófsöm og sanngjörn og því sjálfsagt að styðja hana. Svo fór að frestunartillaga Færeyinga var samþykkt mótatkvæðalaust.
    
Forsætisnefndarfundur í Kaupmannahöfn 27.–28. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn þau Oddný G. Harðardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Fundurinn fór fram í danska þinginu í Kristjánsborgarhöll.
    Mánudaginn 27. nóvember fundaði forsætisnefnd Norðurlandaráðs með fulltrúum forsætisnefndar Eystrasaltsþingsins, samstarfsstofnunar þjóðþinga Eistlands, Lettlands og Litháen. Í upphafi fundarins hélt Henrik Ø. Breitenbach, forstöðumaður miðstöðvar um varnarmálarannsóknir við stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla, erindi um öryggis- og varnarmál á Eystrasaltssvæðinu. Breitenbach sagði að í þessu samhengi væri eðlilegast að líta á Norðurlönd, Eystrasaltsríkin og Pólland sem eina heild sem sögulega séð hefði mótast af því að vera umkringd stórveldum; Bretlandi í vestri, Þýskalandi í suðri og Rússlandi í austri. Hann sagði að Rússland hefði á síðustu árum hætt að vera „góður granni“ sem fylgdi eðlilegum viðmiðum í samskiptum ríkja. Hann taldi þó ekki rétt að tala um Rússland sem óvin Vesturlanda en að Rússar beittu ýmsum aðferðum til að grafa undan styrk og samstöðu Evrópuríkja. Breitenbach sagði að vestræn ríki þyrftu að standa vörð um viðmiðið um sjálfsákvörðunarrétt ríkja og koma í veg fyrir að Rússar fengju að ráða utanríkisstefnu nágrannalanda sinna.
    Á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs þriðjudaginn 28. nóvember var m.a. rætt um framkvæmd Norðurlandaráðsþings sem haldið var í Helsinki í lok október og byrjun nóvember. Silja Dögg Gunnarsdóttir lýsti sérstakri ánægju með það hvernig leyst hefði verið úr málum annars vegar varðandi tillögu Íslendinga og Finna um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði til jafns við skandinavísku málin og hins vegar umsókn Færeyinga um fulla aðild að Norðurlandaráði. Í báðum tilvikum leit lengi vel út fyrir að tillögurnar yrðu felldar, en á síðustu stundu náðist samkomulag um að fresta afgreiðslu málanna og leita nánari upplýsinga í því skyni að finna málamiðlunarlausnir. Silja Dögg var aftur á móti óánægð með hversu litla umfjöllun þingið hefði fengið í íslenskum fjölmiðlum og hvatti upplýsingadeild Norðurlandaráðs til að leita leiða til að bæta úr þessu. Hún benti á að enginn íslenskur starfsmaður væri í upplýsingadeildinni.
    Erfiðlega gekk að fá ráðherra til að taka þátt í þinginu og m.a. varð að fella niður fyrirhugaðan fyrirspurnatíma varnarmálaráðherra Norðurlanda vegna þess að enginn þeirra var til staðar til að svara fyrirspurnum. Danski þingmaðurinn Bertel Haarder velti því upp hvort Norðurlandaráð þyrfti að stofna sérstaka utanríkismála- og varnarmálanefnd, m.a. í því skyni að fá ráðherra þessara málaflokka til að taka þátt í þingunum. Finnski þingmaðurinn Erkki Tuomioja hvatti einnig til þess að reynt yrði að fá formenn stjórnmálaflokka í norrænu löndunum til að koma á Norðurlandaráðsþing, t.d. með því að gera þá að varamönnum í sendinefnum landanna.
    Ákveðið var á forsætisnefndarfundinum að þema vorþings Norðurlandaráðs sem haldið yrði á Akureyri í apríl 2018 yrði málefni hafsins, en umhverfis- og öryggismál tengd hafsvæðum eru meðal meginviðfangsefna í formennskuáætlun Norðmanna fyrir Norðurlandaráð árið 2018.
    Forsætisnefndin samþykkti, með lítils háttar breytingum, tillögu flokkahóps hægrimanna um að hvetja norrænu ráðherranefndina til að láta gera úttekt á samstarfi Norðurlanda á sviði heildarvarna, viðbragða við hættuástandi og dreifingaröryggis matvæla og kanna möguleika á að efla það samstarf. Tillaga frá norrænum vinstri grænum um kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi tók miklum breytingum í meðförum forsætisnefndar en samþykkt var að lokum að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að halda áfram að samhæfa aðgerðir sem miða að kjarnorkuafvopnun. Samþykkt var tillaga um að mæla með því við norrænu ráðherranefndina að kanna og efla samstarf Norðurlanda á sviði deilihagkerfis og kanna hvort hafa þurfi samráð milli landanna um reglugerðir á þessu sviði til að koma í veg fyrir að stjórnsýsluhindranir verði til. Einnig var samþykkt að hvetja norrænu ráðherranefndina til að halda námsstefnu eða hringborðsumræður um félagsleg undirboð og til að vinna að því að norræn stjórnvöld móti sameiginlega stefnu um aðgerðir gegn félagslegum undirboðum innan ESB. Samþykkt var tillaga frá sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs sem miðar að því að efla skilagjaldskerfi til að stuðla að framgangi hringrásarhagkerfisins.
    Forsætisnefndarfundurinn í Kaupmannahöfn var síðasti fundurinn sem Britt Lundberg stýrði sem forseti Norðurlandaráðs. Lundberg er þingmaður Miðflokksins á Álandseyjum og fyrrverandi ráðherra og þingforseti. Michael Tetzschner, þingmaður norska Hægriflokksins, tók við embættinu um áramót.

6. Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins í Hamborg.
    Árleg þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins (Baltic Sea Parliamentary Conference, BSPC) var haldin í Hamborg 3.–5. september. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fóru á ráðstefnuna Brynjar Níelsson og Teitur Björn Einarsson, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Sigurður Ingi Jóhannsson sótti ráðstefnuna sem fulltrúi forsætisnefndar Norðurlandaráðs. Ráðstefnan fór fram í ráðhúsi Hamborgar. Helstu viðfangsefni hennar voru lýðræðisleg þátttaka á tímum stafrænnar tækni, vísindi og rannsóknir og sjálfbær ferðamennska. Carola Veit, forseti BSPC og forseti fylkisþingsins í Hamborg, setti ráðstefnuna og ræddi þær hættur sem steðjuðu að lýðræði í heiminum vegna minnkandi kosningaþátttöku víða um lönd og lítils trausts á stjórnmálamönnum og fjölmiðlum. Sífellt fleiri fengju fréttir að miklu leyti af samfélagsmiðlum þar sem menn sæju fyrst og fremst stutt og einföld skilaboð sem féllu vel að þeim skoðunum sem þeir hefðu fyrir.
    Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra sagði frá formennsku Íslendinga í Eystrasaltsráðinu 2016–2017, en áherslur hennar voru lýðræði, jafnrétti og réttindi barna. Hann sagði m.a. frá fundi utanríkisráðherra aðildarríkja Eystrasaltsráðsins og fulltrúa Evrópusambandsins sem Íslendingar boðuðu til í júní sl. í Reykjavík. Sá fundur þótti merkur að því leyti að utanríkisráðherrar landanna höfðu þá ekki komið saman í nokkur ár. Jafnframt rifjaði Guðmundur Árni upp fund sem haldinn var í desember 2016 í Norræna húsinu í tilefni af 25 ára afmæli sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna, en hann sóttu m.a. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Íslands. Hans Olsson sendiherra kynnti formennskuáætlun Svía í Eystrasaltsráðinu 2017–2018, þar sem lögð var áhersla á sjálfbærni og sérstaklega sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Hann nefndi að Svíar mundu hafa jafnrétti kynjanna að leiðarljósi í öllu starfi sínu. Alexander Shishlov, umboðsmaður mannréttinda í Sankti Pétursborg í Rússlandi og fyrrverandi þingmaður, flutti erindi í tengslum við umræðu um lýðræði á tímum stafrænnar tækni. Hann fjallaði m.a. um mikilvægi þess að allir hefðu greiðan aðgang að upplýsingum og hvernig hægt væri að nýta stafræna tækni til að koma í veg fyrir kosningasvindl. Hann sagði að í Rússlandi væri lýðræðisvandinn t.d. fólginn í veikri stöðu stjórnarandstöðunnar og því að engin raunveruleg skoðanaskipti væru leyfð í fjölmiðlum. Þýski prófessorinn Jobst Fiedler fjallaði um popúlisma í stjórnmálum og leiðir til að auka traust og áhrif almennings. Hann varaði þó við að litið væri á þjóðaratkvæðagreiðslur sem allsherjarlausn á þessum vanda, þær hefðu marga galla og gætu ekki komið í stað ákvarðana kjörinna þinga. Á ráðstefnunni var kynnt lokaskýrsla vinnuhóps um sjálfbæra ferðamennsku sem starfað hafði næstliðin tvö ár. Í skýrslunni er hvatt til þess að rutt verði burt hindrunum sem standa í vegi fyrir ferðalögum yfir landamæri á Eystrasaltssvæðinu, að ýtt verði undir sjálfbærar samgöngur og grunnkerfi ferðamennsku, að löndin markaðssetji svæðið sem eina heild og að ungu fólki verði auðveldað að ferðast um svæðið, t.d. með farmiðum í ferjusiglingar að fyrirmynd interrail-miða í lestir í Evrópu. Álandseyjar tóku við formennsku í þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins á fundinum og árleg ráðstefna samtakanna verður næst haldin í Maríuhöfn á Álandseyjum.

7. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fimm, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þús. danskar kr.
    Verðlaun ráðsins 2017 voru afhent 1. nóvember við hátíðlega athöfn í Finlandia-húsinu í Helsinki í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Afhending verðlaunanna var með þeim hætti að öllum tilnefndum var boðið til athafnarinnar og tilkynnt um verðlaunahafa og verðlaun afhent samtímis. Vinningshafar verðlauna Norðurlandaráðs árið 2016 afhentu verðlaunin, verðlaunastyttuna Norðurljós.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað árlega síðan 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af málum Norðurlanda. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk og verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og málum nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Bókmenntaverðlaunin 2017 komu í hlut danska rithöfundarins Kirsten Thorup fyrir skáldsöguna Erindring om kærligheden („Minning um ástina“, óþýdd). Formaður dómnefndar, Sunna Dís Másdóttir, afhenti verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2017 hefur sent frá sér fjölda frábærra skáldsagna með samfélagslega skírskotun. Í skáldsögunni Erindring om kærligheden eftir Kirsten Thorup er dregin upp mynd af Töru, sem réttir hvað eftir annað hjálparhönd til hinna jaðarsettu í samfélaginu. Án þess að hafa ætlað sér það eignast hún dótturina Siri, en það verkefni reynist henni erfitt. Hér er rakin átakanleg og miskunnarlaus atburðarás í blæbrigðaríkri frásögn þar sem tekist er á við viðfangsefni á borð við réttindi og skyldur, hið persónulega og hið pólitíska – og ekki síst styrk og gjald ástarinnar. Erindring om kærligheden er kolsvört skáldsaga, full visku. Hún leggur net sín í hið sammannlega dýpi á þann hátt sem aðeins sannar bókmenntir geta gert.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár en frá 1990 hafa þau verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi.
    Finnski hljómsveitarstjórinn Susanna Mälkki hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2017. Bróðir hennar, Mikko Mälkki, og Kim Kuusi, meðlimur dómnefndar, tóku við verðlaununum fyrir hennar hönd. Verðlaunahafi síðasta árs, Pekka Kuusisto, afhenti verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Susanna Mälkki er fjölhæfur og einlægur listamaður í fremstu röð. Hún er jafnvíg á sígilda tónlist og samtímatónlist og þekkt fyrir að fara eigin leiðir á sígilda sviðinu. Hún er einn fremsti hljómsveitarstjóri heims.
    Susanna Mälkki rýnir í og víkkar út hljóðheiminn og litbrigði tónanna í hverju verki sem hún stjórnar. Hún endurtúlkar hefðbundin meistaraverk tónlistarsögunnar með frumlegum og nútímalegum hætti og kemur hlustandanum reglulega á óvart með nýrri og ferskri nálgun á ýmis smáatriði og hljóðmynstur.
    Áður en Susanna Mälkki sneri sér að hljómsveitarstjórn átti hún farsælan feril sem sellóleikari, en sú reynsla hefur nýst henni framúrskarandi vel við hljómsveitarstjórnina. Fyrir henni felst hlutverk stjórnandans fyrst og fremst í samstarfi við tónlistarfólk og tónskáld.
    Susanna Mälkki er aðalstjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í Helsinki, helsti gestastjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í Los Angeles, gestastjórnandi hljómsveita í fremstu röð um allan heim og sannur meistari á sviði norrænnar nútímatónlistar. Hún færir nýja orku og ný sjónarhorn inn á starfssvið sitt og heldur ávallt einbeitingunni á hinu mikilvægasta af öllu: tónlistinni. Þannig er hún öðrum innblástur og nýskapandi fyrirmynd, sem er ómetanlegt fyrir framtíð nútímatónlistar og sígildrar tónlistar.“

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar.
    Finnska fyrirtækið RePack hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2017 fyrir starf sitt að þróun endurnýtanlegra umbúða og skilakerfis fyrir rafræn viðskipti. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Rafrænum viðskiptum vex fiskur um hrygg á Norðurlöndum og er þess vænst að umfang þeirra tvöfaldist á fáeinum árum. Þessi þróun hefur ýmsar afleiðingar fyrir umhverfið, ekki síst vegna mikillar notkunar á einnota umbúðum. Dómnefndin tekur gagnrýna afstöðu til sívaxandi neyslu en fagnar því jafnframt að finnska fyrirtækið RePack hafi nú leyst vandann að hluta með því að þróa hagnýtar endurnýtanlegar umbúðir og skilakerfi fyrir rafræn viðskipti.
    Fyrirtækið RePack hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2017 fyrir að skapa með vöru sinni gott og umhverfisvænt viðskiptatækifæri, sem er aðgengilegt og nýstárlegt, og fyrir að vekja athygli á endurnýtingu, óhóflegri auðlindanotkun og myndun úrgangs. RePack starfar með neytendum að því að minnka úrgang. Umbúðapokar fyrirtækisins eru framleiddir úr endurnýttum plastpokum og hægt er að nota þá aftur að minnsta kosti 20 sinnum. 75% allra poka er skilað aftur gegnum skilakerfið. Verkefnið er rekið á markaðskjörum og það verður unnt að breiða út til ýmissa annarra landa og atvinnugreina, umhverfinu í hag.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi þess árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda, og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki.
    „Little Wing“ (Tyttö nimeltä Varpu) eftir finnska leikstjórann og handritshöfundinn Selmu Vilhunen og framleiðendurna Kaarle Aho og Kai Nordberg hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2017. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Í Little Wing fangar Selma Vilhunen stórbrotnar og sammannlegar tilfinningar með látlausum stílbrögðum og sýnir að sem leikstjóri og handritshöfundur býr hún yfir óvenju mikilli næmni. Vilhunen leikur sér á hugvitsamlegan hátt að dæmigerðri framsetningu á stúlkum og ungum konum í kvikmyndum og í hvert sinn sem áhorfandinn skynjar yfirvofandi ógn við söguhetjuna Varpu lætur Vilhunen hana sveigja fimlega hjá klisjunum, bæði í bókstaflegri og yfirfærðri merkingu. Varpu er indæl og dugmikil stelpa sem flakkar um í heimi þar sem persónurnar fá að vera raunverulegar manneskjur með góðar og slæmar hliðar, og þar sem umhverfið í kringum þær gegnir hlutverki leiktjalda en fær aldrei að verða ráðandi þema. Í Little Wing hefur dómnefndin séð svipmyndir hreinnar orku og kvikmyndalegs mikilfengleika, og okkur langar að sjá meira.“

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta skipti árið 2013. Verðlaunin skulu veitt á hverju ári fyrir bókmenntaverk sem er skrifað fyrir börn og ungmenni á einu af tungumálum norrænu landanna. Bókmenntaverkin geta verið í formi ljóða, prósa, leikrits, samspil texta og mynda, eða annað verk sem uppfyllir miklar bókmenntalegar og listrænar kröfur.
    Sænski höfundurinn Ulf Stark, sem nú er látinn, og finnski myndskreytirinn Linda Bondestam hlutu barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina „Djur som ingen sett utom vi“ („Dýr sem enginn hefur séð nema við“, óþýdd). Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Djur som ingen sett utom vi er afurð norrænnar samvinnu eins og hún gerist allra best. Í sameiningu hafa Ulf Stark rithöfundur og Linda Bondestam myndabókahöfundur skapað alveg einstaka bók. Litskrúðugar myndskreytingarnar og hin gagnorðu og dapurlegu ljóð um dýrin sem enginn þekkir mynda heild þar sem hinstu rök tilverunnar eru undir. Ulf Stark, sem hlýtur verðlaunin að sér látnum, hefur lagt alla sína lífsspeki í textana í bókinni. Þeir eru þannig eins konar bókmenntaleg erfðaskrá, en í textunum er jafnframt horft fram á veginn af miklu umburðarlyndi. Myndskreytingar Lindu Bondestam með djúprauðum himni og ákaflega blágrænum skógum, hafi og fjöllum vitna um listamann sem tekst að hitta á hinn rétta tón skýrleika í hverju verki. Hér er á ferðinni mikilfengleg ljóðræna og stórkostleg myndlist í verki sem er heilsteypt, undursamlegt og fullt af lífsþrótti.“

8. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2018.
    Noregur fer með formennsku í Norðurlandaráði 2018. Michael Tetzschner er forseti ráðsins 2018 og Martin Kolberg varaforseti.
    Árið 2018 fer vorþing Norðurlandaráðs fram dagana 9.–10. apríl á Akureyri og aðalþingfundur ráðsins verður haldinn 29. október – 1. nóvember í Osló.
    Helstu áhersluatriði í formennskuáætlun Norðmanna árið 2018 eru norrænt samstarf um heilbrigðis-, mennta- og varnarmál og um málefni hafsins.

Alþingi, 11. janúar 2018.

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
form.
Oddný G. Harðardóttir,
varaform.
Anna Kolbrún Árnadóttir.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Ólafur Ísleifsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Vilhjálmur Árnason.


Fylgiskjal I.


Tilmæli Norðurlandaráðs og ákvarðanir um innri málefni árið 2017.

Tilmæli.
          Tilmæli 1/2017/holdbar: Bann við notkun örplasts í snyrtivörum.
          Tilmæli 2/2017/kultur: Skýrsla um rannsóknastefnu.
          Tilmæli 3/2017/velfærd: Sameiginlegar aðgerðir Norðurlanda gegn sýklalyfjaónæmi.
          Tilmæli 4/2017/hållbart: Framfylgd við alþjóðleg loftslagsmarkmið.
          Tilmæli 5/2017/medborger: Aðgerðir gegn nýjum gerðum mansals.
          Tilmæli 6/2017/medborger: Aðgerðir gegn mansali á hælisleitandi börnum og myndun bandalaga í baráttunni gegn mansali.
          Tilmæli 7/2017/hållbart: Minnkun plastúrgangs á Norðurlöndum.
          Tilmæli 8/2017/hållbart: Aðgerðir sem geta stemmt stigu við mengun hafsins og hvatt neytendur og framleiðendur til að endurvinna plastúrgang.
          Tilmæli 9/2017/tillväxt: Norræn samstarfsáætlun um stefnu í atvinnulífi og nýsköpun 2018–2021.
          Tilmæli 10/2017/velfærd: Aukinn hreyfanleiki fólks með fötlun á Norðurlöndum.
          Tilmæli 11/2017/velfærd: Þátttaka borgaralegs samfélags í norrænu samstarfi á sviði aðlögunar.
          Tilmæli 12/2017/velfærd: Samnorrænar aðgerðir í aðlögunarmálum.
          Tilmæli 13/2017/välfärd: Vaxandi andleg vanlíðan barna og ungmenna á Norðurlöndum.
          Tilmæli 14/2017/holdbart: Samnorræn skrá yfir áfyllingarstöðvar.
          Tilmæli 15/2017/holdbart: Öll Norðurlönd í NOBIL-gagnagrunninn.
          Tilmæli 16/2017/holdbart: Samstarf um fjölgun eldsneytisstöðva.
          Tilmæli 17/2017/kultur: Framkvæmdaáætlun til að auka hreyfanleika námsmanna milli Norðurlandanna.
          Tilmæli 18/2017/tillväxt: Innflutningur flóttafólks og stefna í vinnumarkaðsmálum.
          Tilmæli 19/2017/kultur: Nordplus 2018–2022.
          Tilmæli 20/2017/vækst: Samstarfsáætlun í vinnumálum 2018–2021.
          Tilmæli 21/2017/medborger: Innleiðing á rafrænu auðkennakerfi á Norðurlöndum.
          Tilmæli 22/2017/medborger: Samræmd notkun rafrænna auðkenna á Norðurlöndum.
          Tilmæli 23/2017/tillväxt: Stafræn væðing á Norðurlöndum.
          Tilmæli 24/2017/kultur: Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
          Tilmæli 25/2017/presidiet: Efling sáttamiðlunar sem norræns vörumerkis.
          Tilmæli 26/2017/præsidiet: Fjárhagsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar 2018.
          Tilmæli 27/2017/hållbart: Dagskrá 2030.
          Tilmæli 28/2017/hållbart: Hlutverk neytenda í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
          Tilmæli 29/2017/præsidiet: Samstarfsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar um málefni norðurskautssvæðisins: „Norrænt samstarf um norðurskautssvæðið 2018–2021“.
          Tilmæli 30/2017/holdbart: Siglingaöryggi á hafsvæðum norðurslóða.
          Tilmæli 31/2017/kultur: Afnám lokunar höfundaréttarvarins efnis eftir svæðum.
          Tilmæli 32/2017/hållbart: Að greiða götu deilihagkerfis á Norðurlöndum.
          Tilmæli 33/2017/hållbart: Leiðbeiningar um hafnsögu í Eyrarsundi.
          Tilmæli 34/2017/hållbart: Hafnsaga í Eyrarsundi.
          Tilmæli 35/2017/hållbart: Skráningar- og eftirlitskerfi siglinga um Eyrarsund.
          Tilmæli 36/2017/tillväxt: Símenntun.
          Tilmæli 37/2017/tillväxt: Aukin áhersla á nám fullorðinna og símenntun.
          Tilmæli 38/2017/vækst: Sameiginlegar norrænar aðgerðir gegn félagslegum undirboðum í ESB.
          Tilmæli 39/2017/holdbart: Skilagjaldskerfi til eflingar hringrásarhagkerfinu.
          Tilmæli 40/2017/holdbart: Samnorrænt átak til að sýna fram á og skapa skilning á skilvirkni og gagnsemi skilagjaldskerfa á Norðurlöndum.
          Tilmæli 41/2017/kultur: Söngdagur Norðurlanda.
          Tilmæli 42/2017/vækst: Ný samstarfsáætlun um orkumál 2018–2021.

Ákvarðanir um innri málefni.
          IB 1/2017/velfærd: Samþykkt hvítbókar: Norðurlöndin saman í baráttunni við sýklalyfjaónæmi.
          IB 2/2017/presidiet: Stefna Norðurlandaráðs í alþjóðamálum 2018–2022.
          IB 3/2017/presidiet: Norrænt samstarf á sviði sáttamiðlunar.
          IB 4/2017/presidiet: Dagskrá 2030.
          IB 5/2017/presidiet: Opinber vinnutungumál Norðurlandaráðs.


Fylgiskjal II.


Formennskuáætlun Finna í Norðurlandaráði 2017.


„SAMAN“
Þemu formennskuársins.
    Finnar gegna formennsku í Norðurlandaráði á árinu 2017. Formennskulandið semur áætlun um þau verkefni sem sett verða í forgang á árinu.

     Þrjú meginþemu formennskuáætlunar Finnlands eru Menntun á Norðurlöndum, Hrein orka á Norðurlöndum og Samstarfsnet á Norðurlöndum.
    Menntun á Norðurlöndum felur í sér að áhersla er lögð á norræna þekkingu og menntun, alþýðufræðslu og alþýðumenningu. Hrein orka á Norðurlöndum felur í sér eflingu á norrænum orkumörkuðum og líforku og að Norðurlöndin vinni saman að því að fylgja eftir ákvörðunum sem teknar voru á loftslagsráðstefnu SÞ í París. Samstarfsnet á Norðurlöndum beinir kastljósinu að málefnum norðurslóða, frjálsri för og farartálmum á Norðurlöndum. Þverlægt þema formennskuáætlunarinnar er afnám stjórnsýsluhindrana. Þema aldarafmælis sjálfstæðis Finnlands „Saman“ er áberandi í formennskuáætluninni.

Afnám stjórnsýsluhindrana.
    Frjáls för innan Norðurlanda er mikilvæg og er nátengd hagvexti og auknu atvinnustigi. Finnar leggja mikla pólitíska áherslu á afnám stjórnsýsluhindrana á formennskuárinu. Hvernig á að afnema stjórnsýsluhindranir, hvernig má koma í veg fyrir að nýjar hindranir myndist og hvernig á að upplýsa þjóðþingin og ráðuneyti landanna um þetta málefni? Markmiðið með frjálsri för er að auðvelda daglegt líf Norðurlandabúa.

Saman.
    Sambúð Finnlands og annarra norrænna landa hefur verið friðsamleg um tveggja alda skeið. Finnar fagna aldarafmæli sjálfstæðis landsins á árinu 2017 þegar þeir gegna formennsku í Norðurlandaráði. Sem sjálfstætt ríki er Finnland sjálfsagður aðili að norrænu samstarfi. Norrænu frændþjóðirnar eiga eftir að heyra um sögu Finnlands og fagna afmælisárinu með Finnum. Eins verða Finnar fræddir um hve mikilvægt norrænt samstarf er Finnlandi enn þann dag í dag.
    Norðurlandaráð tekst á við æ fleiri málefni á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála. Rétt eins og formennskuríki fyrri ára undirstrika Finnar mikilvægi norrænnar stefnu í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum. Norðurlandaráð gegnir mikilvægu hlutverki við að koma þessum málum áleiðis og spurningin er hvernig Norðurlöndin geta átt nánara samstarf á umræddum sviðum. Bjóða mætti þróunarsamstarfsráðherrum Norðurlanda á þing ráðsins til umræðna um hvernig brugðist er við hnattvæðingu og hvernig þétta megi samstarf norrænna ráðherra á sviði þróunarsamstarfs.

Menntun á Norðurlöndum.
    Eitt af því sem einkennir öll samfélög Norðurlanda er gott aðgengi að þekkingu og menningu. Sameiginlegt með löndunum er fjölbreytt og lifandi menningar- og listalíf, félagsstarfsemi almennings, öflugt lýðræði, jöfnuður og jafnrétti.
    Þökk sé norrænu samstarfi geta þúsundir skólanema og námsfólks, fræðimenn, listafólk og annað starfsfólk í menningargreinum myndað samstarfsnet og ferðast um Norðurlönd á hverju ári. Hreyfanleika í norrænu mennta- og menningarsamstarfi ber að efla með afnámi stjórnsýsluhindrana sem hamla frjálsri för og með því að hvetja ungmenni sérstaklega til að taka þátt í norrænum mennta- og menningarsamskiptum.
    Ástandið í málefnum flóttafólks er norrænum samfélögum hvatning til að leita nýrra lausna og starfsaðferða sem tryggja velferð allra samfélagsþegna. Nám og menntun eru lykilþættir í aðgerðum gegn jaðarsetningu og tæki til að greiða fyrir aðlögun fólks. Menntun er einkum mikilvæg fyrir framtíð barna og ungmenna sem koma hingað fylgdarlaus. Einnig er hægt að efla aðlögun með menningu, listum og íþróttum. Allir Norðurlandabúar, einnig þeir sem eru nýkomnir, geta tekið þátt í sjálfboða- og menningarstarfi og fundið til norrænnar samkenndar.
    Stafræn tækni hefur skapað mörg ný sóknarfæri í náms- og menningarumhverfi Norðurlanda. Tæknin eykur aðgengi að menningu og listum og býður upp á nýjar leiðir og frelsi til að skapa, njóta og neyta menningar. Með eflingu stafrænnar tækni í skólum, nýjum kennsluaðferðum og nýstárlegu námsumhverfi munu Norðurlönd halda áfram að vera meðal fremstu þjóða á sviði náms og menntunar.

Markmið á formennskuárinu:
     1.      Að þrýsta á ríkisstjórnir Norðurlanda að afnema stjórnsýsluhindranir sem tengjast gagnkvæmri viðurkenningu á starfsréttindum og beita sér fyrir samræmdri innleiðingu tilskipunar ESB um viðurkenningu starfsréttinda.
     2.      Að greina stjórnsýsluhindranir sem starfsfólk í menningargeira verður fyrir og taka ákvörðun um frekari aðgerðir.
     3.      Að afnema stjórnsýsluhindranir á sviði fullorðinsmenntunar í Finnlandi.
     4.      Að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að skiptast á bestu kennsluaðferðum fyrir börn og ungmenni í áhættuhópum.
     5.      Að hvetja norræna háskóla til að fjölga samnorrænum námsbrautum.

Bakgrunnsupplýsingar:
    1) Að þrýsta á ríkisstjórnir Norðurlanda að afnema stjórnsýsluhindranir sem tengjast gagnkvæmri viðurkenningu á starfsréttindum og beita sér fyrir samræmdri innleiðingu tilskipunar ESB um viðurkenningu starfsréttinda.
    Margar starfsgreinar á Norðurlöndum lúta reglum sem ýmist eru settar af starfsstéttinni sjálfri eða yfirvöldum. Ólíkar reglur og kröfur skapa stjórnsýsluhindranir sem hefta frjálsa för vinnuaflsins um Norðurlönd. Við lausn slíkra mála skiptir nútímavæðing tilskipunar 2005/36/EB um viðurkenningu á menntun og hæfi miklu máli. Samráð yfirvalda og þingmanna landanna um innleiðingu tilskipunarinnar er einnig afar mikilvægt. Þá skiptir sköpum að löndin greini hvert öðru frá breytingum á löggjöf og starfsháttum í löndunum af völdum tilskipunarinnar.
    Umsjón: Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin og stjórnsýsluhindranahópur Norðurlandaráðs.

    2) Að greina stjórnsýsluhindranir sem starfsfólk í menningargeira verður fyrir og taka ákvörðun um frekari aðgerðir.
    Margt starfsfólk í menningargeira er lausráðið og starfar þvert á landamæri Norðurlanda. Í starfi norrænu ráðherranefndarinnar að afnámi stjórnsýsluhindrana hefur sjónum verið beint að vanda sem skapast hefur milli Svíþjóðar og Danmerkur vegna skattlagningar á starfsfólk í menningargeira. Að öðru leyti er lítið vitað um stjórnsýsluhindranir sem starfsfólk í menningargreinum finnur fyrir. Finnar munu á formennskuárinu vinna könnun á umfangi þeirra stjórnsýsluhindrana sem starfsfólk í menningargeira finnur fyrir og taka ákvörðun um frekari aðgerðir.
    Umsjón: Norræna þekkingar- og menningarnefndin.

    3) Að afnema stjórnsýsluhindranir á sviði fullorðinsmenntunar í Finnlandi.
    Um er að ræða stjórnsýsluhindrun á sviði menntamála sem lengi hefur verið reynt að finna lausn á. Hindrunin felst í námsstyrk til fullorðinsmenntunar í Finnlandi fyrir starfsfólk á landamærasvæðum. Réttur á námsstyrk til fullorðinsmenntunar er áður háður því að viðkomandi einstaklingur hafi verið lífeyristryggður í Finnlandi undanfarin átta ár. Nú hefur verið úrskurðað að telja megi starfsár erlendis með í tilskilið átta ára tímabil. Ófullnægjandi má teljast að líklega verði áfram miðað við fullorðinsnám sem stundað er í Finnlandi. Sú lausn sem nú er lögð til þykir ekki fullnægjandi og því er áfram þörf á pólitískum þrýstingi. Finnska landsdeildin í Norðurlandaráði fer því fram á samráð við þann ráðherra í Finnlandi sem fer með þessi mál um hvernig ryðja megi umræddri hindrun úr vegi.
    Umsjón: Landsdeild Finnlands í Norðurlandaráði,

    4) Að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að skiptast á bestu kennsluaðferðum fyrir börn og ungmenni í áhættuhópum.
    Menntun og menning eru mikilvæg tæki til aðlögunar. Á formennskuárinu á Norðurlandaráð að styðja við þróun námsleiða fyrir börn og ungmenni í áhættuhópum. Til dæmis mætti halda norræna ráðstefnu þar sem löndin kynntu bestu kennsluaðferðir fyrir börn og ungmenni í áhættuhópum, m.a. hælisleitendur á Norðurlöndum undir lögaldri. Að sjálfsögðu ber að skoða markmið þetta (og t.d. skipulagningu ráðstefnu) í ljósi samstarfsáætlunar um aðlögun flóttafólks og innflytjenda sem samstarfsráðherrarnir hafa ýtt úr vör. Einnig mætti nýta stafræna tækni og nýstárlegt námsumhverfi sem og tækifæri til aðlögunar sem felast í ýmsu sjálfboða- og menningarstarfi.
    Umsjón: Norræna þekkingar- og menningarnefndin og norræna velferðarnefndin.

    5) Að hvetja norræna háskóla til að fjölga samnorrænum námsbrautum.
    Norrænir háskólar bjóða nú þegar upp á ýmsar samnorrænar meistaranámsbrautir. Allt frá árinu 2007 hafa um 25 slíkar námsbrautir orðið að veruleika og á árinu 2016 var ákveðið að festa norrænu meistaranámsáætlunina í sessi. Norræna meistaranámsáætlunin er góður grunnur fyrir samstarf norrænna háskóla en einnig er þörf á norrænni bakkaláráætlun, það er norrænni áætlun fyrir grunnnám á háskólastigi. Á formennskuárinu mun Norðurlandaráð hefja umræðu um stofnun norrænnar áætlunar fyrir grunnnám á háskólastigi.
    Umsjón: Norræna þekkingar- og menningarnefndin og Landsdeild Finnlands í Norðurlandaráði.

Hrein orka á Norðurlöndum.
    
Norðurlöndin eru í fararbroddi í þróun orkumarkaðar, umhverfisvænnar orku og nýtingu endurnýjanlegrar orku. Þrátt fyrir öfluga þróun á Norðurlöndum er hægt að þróa orkumarkaði enn frekar sem og framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Kalt veðurfar og orkukrefjandi iðnaður á Norðurlöndum gera það að verkum að stöðugleiki í orkuframleiðslu skiptir afar miklu máli. Einkum í skógræktarlöndunum Finnlandi og Svíþjóð þar sem öflug tengsl eru milli skógræktar og líforkuframleiðslu.
    Markmiðið með norrænu orkumálasamstarfi er að tryggja stöðugt og öruggt orkuframboð, sjálfbæran hagvöxt og velferð og bregðast við áskorunum í loftslags- og umhverfismálum. Samstarfið á einnig að felast í því að markaðssetja norræna styrkleika og orkulausnir á alþjóðlegum mörkuðum, einkum innan ESB.
    Norræni raforkumarkaðurinn er til eftirbreytni í Evrópu. Mikilvægi norræns samstarfs á eftir að aukast, einkum hvað varðar raforkumarkaðinn og afhendingaröryggi raforku. Áhrifa mun m.a. gæta vegna Orkusambands ESB og nýja raforkumarkaðslíkansins. Þverlæg og svæðisbundin markmið Orkusambandsins gera m.a. ráð fyrir svæðisbundinni samhæfingu við mótun orku- og loftslagsstefnu landanna. Markmiðið með nýja raforkumarkaðslíkaninu er að kanna svæðisbundið afhendingaröryggi orku. Norðurlöndin verða að leggja fram sameiginleg sjónarmið sín varðandi þróun raforkumarkaðar Evrópu.
    Auk þess að efla norrænan raforkumarkað er þörf á þéttriðnum flutningskerfum raforku milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna og jafnframt innanlands. Enn eru töluverðir flöskuhálsar í flutningskerfunum, m.a. milli Finnlands og Svíþjóðar og milli Svíþjóðar og Noregs. Þriðja riðstraumskerfið milli Norður-Finnlands og Svíþjóðar er afar mikilvæg viðbót við norrænu raforkukerfin. Fjárfestingar í dreifikerfum eru óhjákvæmilegar ef viðhalda á góðu afhendingaröryggi, draga úr verðmun á milli svæða og auka samþættingu endurnýjanlegrar orku.
    Jorma Ollila, fyrrverandi framkvæmdastjóri Nokia, vinnur nú að gerð stefnumarkandi úttektar á því hvernig þróa megi norrænt samstarf í orkumálum til næstu fimm til tíu ára. Hann ráðgerir að ljúka verkinu í byrjun ársins 2017. Orkuhópur sem Norðurlandaráð skipaði á árinu 2015 hefur metið þörfina á nýjum samstarfsverkefnum í orkumálum. Orkuhópurinn beindi sjónum að orkunýtni, til að mynda orkunýtni í orkukrefjandi iðnaði og sjávarútvegi á Norðurlöndum og rafvæðingu samgangna. Í skýrslu vinnuhópsins kemur fram að augljóslega sé hægt að ná fram norrænu notagildi á ákveðnum sviðum. Til að mynda mætti skapa sameiginlegan raforkumarkað (þar á meðal smásölumarkað), bæta orkunýtni og auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa svo að eitthvað sé nefnt.
    Mikilvægt er að fylgja loftslagssamningnum frá París eftir. Umhverfis- og loftslagsmálaráðherrar Norðurlanda hafa skuldbundið sig til að leggja sig alla fram við að hrinda Parísarsamkomulaginu í framkvæmd. Ráðherrarnir ýttu nýjum verkefnum úr vör í þeim tilgangi að styðja við eftirfylgni loftslagsráðstefnunnar og gáfu út opinbera yfirlýsingu þess efnis að Norðurlöndin styddu alþjóðlega umhverfisstjórnun. Gagnlegt væri í tengslum við loftslagsráðstefnur Sameinuðu þjóðanna að standa áfram að sameiginlegum skála Norðurlanda, Nordic Climate Solutions. Skálinn vakti athygli í París og mætti jafnvel þróa hugmyndina enn frekar. Norðurlöndin geta sýnt meiri metnað í losunarmálum. Norðurlandaráð gæti á alþjóðlegum vettvangi þingmanna mælt fyrir markmiði um 1,5 stig (hlýnun andrúmsloftsins).

Markmið á formennskuárinu:
    1.     Að þrýsta á ríkisstjórnir Norðurlanda að fylgja tillögum Samtaka eftirlitsstofnana með orkufyrirtækjum á Norðurlöndum (NordREG) í þá veru að ná smásölumarkaði raforku í löndunum og efla enn frekar samstarf um þróun heildsölumarkaðar raforku á Norðurlöndum.
    2.     Að ná norrænu samkomulagi um mikilvægi sjálfbærniviðmiða fyrir líforku og miðla boðskapnum á vettvangi ESB.
    3.     Að vinna saman að því að framfylgja markmiðum loftslagssamkomulagsins frá París.

Bakgrunnsupplýsingar:
    1) Að þrýsta á ríkisstjórnir Norðurlanda að fylgja tillögum Samtaka eftirlitsstofnana með orkufyrirtækjum á Norðurlöndum (NordREG) í þá veru að ná smásölumarkaði raforku í löndunum og efla enn frekar samstarf um þróun heildsölumarkaðar raforku á Norðurlöndum.
    Þétt norrænt samstarf í orkumálum byggist á langri og góðri reynslu. Er hún skýrt dæmi um greinilegt norrænt notagildi. Norðurlöndin vinna saman að því að samræma norrænan raforkumarkað, m.a. út frá tillögum Samtaka eftirlitsstofnana með orkufyrirtækjum á Norðurlöndunum (NordREG). Unnt og æskilegt er að efla samstarfið enn frekar. Þróun norræns smásölumarkaðar og heildsölumarkaðar raforku eru mikilvæg markmið fyrir neytendur og atvinnulíf á Norðurlöndum. Um alllangt skeið hefur verið leitast við að skapa sameiginlegan markað en undirbúningur smásölumarkaðar hefur ekki gengið að óskum. Samræma verður lög og reglugerðir ef takast á að ryðja hindrunum úr vegi fyrirtækja sem stunda raforkuviðskipti á norrænum markaði. Leggja verður áherslu á að hraða því ferli. Auk þess að efla norrænan raforkumarkað þurfum við þéttriðin flutningskerfi milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna og einnig í löndunum sjálfum. Fjárfestingar í dreifikerfi eru óhjákvæmilegar ef tryggja á gott afhendingaröryggi, draga úr verðmun milli svæða og auka samþættingu endurnýjanlegrar orku.
    Umsjón: Norræna sjálfbærninefndin og norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin

    2) Að ná norrænu samkomulagi um mikilvægi sjálfbærniviðmiða fyrir líforku og miðla boðskapnum á vettvangi ESB.
    Norðurlöndin eiga að beita sér sameiginlega fyrir því að ESB taki í notkun sambærileg og bindandi sjálfbærniviðmið fyrir allar tegundir líforku og sem fjalla um uppruna líforkunnar. Þannig verður auðveldara að sjá þörfina fyrir og gerir það fyrirtækjum kleift að nýta auðlindirnar á hagkvæman hátt og til lengri tíma litið.
    Umsjón: Norræna sjálfbærninefndin.

    3) Að vinna saman að því að framfylgja markmiðum loftslagssamkomulagsins frá París.
    Tryggja verður öfluga þátttöku Norðurlanda í áframhaldandi samningaviðræðum SÞ um loftslagsmál, m.a. með sameiginlegum sýningarskála Norðurlanda, Nordic Climate Solutions. Norðurlöndin eru í forystu hvað varðar losunarmarkmið og geta látið meira að sér kveða í væntanlegum loftslagsviðræðum. Norðurlöndin geta vakið athygli á sér sem brautryðjendum á sviði hreinnar orkuframleiðslu.
    Umsjón: Norræna sjálfbærninefndin.

Samstarfsnet á Norðurlöndum.
    Bættar samgöngur og innviðir á nyrstu svæðum Norðurlanda í samþættu og efldu samstarfi skapa ný skilyrði fyrir hagvöxt, bættar forsendur ferðaþjónustu og öflugri viðbúnað. Löndin eiga að fleyta samstarfi um samgöngur og innviði áleiðis ásamt öðrum aðilum á Norðurlöndum. Í ferðaþjónustu ber að ræða hvernig Norðurlöndin geta orðið sameiginlegur áfangastaður ferðafólks og leggja áherslu á sameiginlega aðgerðir til að efla ferðaþjónustu án þess að stefna sjálfbærni og umhverfinu í hættu.
    Samgöngur og vinnumarkaðir eru þeir áhersluþættir öðrum fremur sem tengjast frjálsri för. Hvernig geta Norðurlöndin unnið saman að bættum samgöngum milli landa og greitt fyrir frjálsri för á vinnumarkaði? Góðar samgöngur gagnast einnig ferðaþjónustunni.
    Afnám stjórnsýsluhindrana er eitt mikilvægasta samstarfssvið Norðurlanda til eflingar frjálsri för vinnuaflsins og aukinni atvinnu á svæðinu. Formennska Finnlands í norrænu ráðherranefndinni hefur sett stjórnsýsluhindranir í forgang og efnir í desember 2016 til ráðherrafundar í Tornio þar sem fjallað verður um stjórnsýsluhindranir. Fundinn sækja einnig fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og atvinnulífsins á Norðurlöndum. Norðurlandaráð fylgist grannt með starfi að afnámi stjórnsýsluhindrana og hvetur ríkisstjórnir Norðurlanda og norrænu ráðherranefndina til þess að hrinda í framkvæmd ákvörðunum sem teknar eru um stjórnsýsluhindranir. Í Norðurlandaráði starfar sérstakur stjórnsýsluhindranahópur en hlutverk hans er að ryðja stjórnsýsluhindrunum úr vegi og samræma starf innan ráðsins að afnámi stjórnsýsluhindrana.
    Skilvirkt starf að afnámi stjórnsýsluhindrana er undir því komið að skipulagið sé skilvirkt. Í Finnlandi hefur ráðgjafarnefnd Norræna félagsins sérhæft sig í afnámi stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndum. Nefndina skipa fulltrúar ýmissa stjórnsýslustofnana og ráðuneyta auk ráðgjafarþjónustu. Ráðgjafarnefndin heldur einnig utan um undirbúningsfundi innanlands í aðdraganda funda í norræna stjórnsýsluhindranaráðinu. Starf ráðgjafarnefndarinnar hefur gefið góða raun og gæti það nýst sem fyrirmynd fyrir skipulag starfs að afnámi stjórnsýsluhindrana víðar á Norðurlöndum.
    Á árinu 2017 mun Norðurlandaráð fylgjast grannt með því hvernig starfi norrænu ríkisstjórnanna og ráðherranefndarinnar miðar í þá átt að hrinda í framkvæmd tillögum skýrslu þeirrar sem Poul Nielson vann um norrænt samstarf um vinnumál í framtíðinni. Finnar munu á formennskuárinu beita sér sérstaklega fyrir því að fyrstu tillögu skýrslunnar sem fjallar um stjórnsýsluhindranir verði hrint í framkvæmd.
    Áhugi á norðurslóðum fer vaxandi á Norðurlöndum sem og víðar um heim. Hraðar breytingar á svæðinu eru áskorun fyrir íbúana en einnig stjórnvöld sem verða að bregðast við nýjum umhverfislegum, efnahagslegum og pólitískum áskorunum sem eru innbyrðis nátengdar. Sá hluti norðurslóða sem tilheyrir Norðurlöndum er um margt ólíkur þeim svæðum sem tilheyra Norður-Ameríku og Rússlandi. Svæðið er þróað, innviðir virka – einkum miðað við íbúafjölda – og efnahagsleg starfsemi er háþróuð.
    Norðurslóðir og samstarf um málefni norðurskautssvæðisins er Norðurlöndum mikilvægt af ýmsum ástæðum og hafa mörg formennskulönd á undanförnum árum beint kastljósinu að málefnum þessum í áætlunum sínum. Samstarf um málefni norðurslóða fer fram innan vébanda Norðurskautsráðsins þar sem öll Norðurlöndin eiga sæti. Full ástæða er til að ræða þann virðisauka sem felst í norrænu samstarfi um málefni norðurslóða, m.a. auknu upplýsingaflæði milli þingmanna í Norðurlandaráði og þingmanna norðurskautssvæðanna.
    Norðurlöndin geta rutt brautina varðandi þróun og stjórnun norðurslóða. Sameiginlegt markmið Norðurlanda gæti verið að sjá Norðurskautsráðinu fyrir tækjum til þess að þróa svæðið. Skýr, afmörkuð og áþreifanleg markmið, sem öll löndin eiga sameiginleg, gætu greitt fyrir þeim stefnumarkmiðum Finna í málefnum norðurslóða að norðurslóðir verði friðarsvæði.
    Sameiginleg stefna Norðurlanda í málefnum norðurslóða (Samstarfsáætlun um málefni norðurskautssvæðisins 2015–2017) er nú í gildi en verður endurskoðuð á árinu 2017. Norðurlandaráð á að taka virkan þátt í gerð nýrrar stefnu og hafa áhrif á innihald hennar og framkvæmd.
    Á árinu 2017 gegna Finnar formennsku í Norðurlandaráði en einnig Norðurskautsráðinu. Finnar gegna formennsku í samstarfi ríkisstjórnanna um málefni norðurslóða á næstu tveimur árum (2017–2018). Á sama tímabili kemur formennskuáætlun Finna í málefnum norðurslóða til framkvæmdar. Nýtt stefnuskjal ESB í málefnum norðurslóða var gert opinbert í apríl 2016 og því geta Norðurlönd beitt sér á vettvangi ESB.
    
Markmið á formennskuárinu:
     1.      Að beita sér fyrir þróun innviða og samgönguleiða sem hafa í för með sér nýjan hagvöxt og viðbúnað á norðurslóðum.
     2.      Að standa fyrir hringborðsumræðu með norrænum ráðherrum sem hafa umsjón með samgöngum og innviðum.
     3.      Að hraða afnámi stjórnsýsluhindrana með því að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda og norrænu ráðherranefndina til þess að hrinda í framkvæmd ákvörðunum sem teknar eru um stjórnsýsluhindranir og jafnframt að greina frá störfum ráðgjafarnefndarinnar.
     4.      Að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda og norrænu ráðherranefndina til þess að hrinda í framkvæmd fyrstu tillögu skýrslu Pouls Nielson um vinnumál og sem varðar stjórnsýsluhindranir.
     5.      Að standa að sameiginlegu málþingi með fulltrúum Norðurlanda í Norðurskautsráði með yfirskriftinni „Norrænt samstarf um málefni norðurslóða“.

Bakgrunnsupplýsingar:
    1) Að beita sér fyrir þróun innviða og samgönguleiða sem hafa í för með sér nýjan hagvöxt og viðbúnað á norðurslóðum.
    Paavo Lipponen vann skýrslu um málefni norðurslóða (Nordliga visioner, 2015) en þar leggur hann til að opnað verði fyrir flugsamgöngur, járnbrautir, þjóðvegi og upplýsingatæknibrautir til norðurslóða. Umræddar leiðir verði að vera öruggar og þjóna atvinnurekstri sem og samfélaginu almennt. Í skýrslu sem unnin var á skrifstofu ráðherrans, Tillväxt från norr (Hagvöxtur úr norðri) (1/2015), er lögð áhersla á mikilvægi frjálsrar farar fagmenntaðs starfsfólks og fyrirtækjareksturs þvert á landamæri fyrir þróun á þessum svæðum.
    Samgönguinnviðir á norðurslóðum kalla á fjármögnun norrænu landanna, samstarf innan ESB og hlutafjármögnun fjármálastofnana og ýmissa sjóða ESB. Norðurlandaráð gæti stutt við framkvæmd tiltekinna verkefna með því að taka þátt í greiningu og uppfærslu á samgönguáætlun fyrir Barentssvæðið sem þegar liggur fyrir. Einnig gæti nánara samstarf við Evrópuþingið og aukið samstarf Norðurlanda á vettvangi ESB skapað virðisauka fyrir samstarfsnet á norðurslóðum.
    Umsjón: Landsdeild Finnlands í Norðurlandaráði, norræna hagvaxtar- og þekkingarnefndin og stjórnsýsluhindranahópur Norðurlandaráðs.
    
    2) Að standa fyrir hringborðsumræðu með norrænum ráðherrum sem hafa umsjón með samgöngum og innviðum.
    Afar brýnt er að efna til hringborðsumræðna Norðurlandaráðs og samgöngu- og innviðaráðherra Norðurlanda eigi fyrrnefnd markmið að ná fram að ganga.
    Umsjón: Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin.
    
    3) Að hraða afnámi stjórnsýsluhindrana með því að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda og norrænu ráðherranefndina til þess að hrinda í framkvæmd ákvörðunum sem teknar eru um stjórnsýsluhindranir og jafnframt að greina frá störfum ráðgjafarnefndarinnar.
    Frjálst flæði almennings, vinnuafls og upplýsinga ásamt hagvexti og aukinni atvinnu eru helstu markmið norrænnar samvinnu. Sífellt leynast þó ljón á veginum og því verður finnska formennskan að halda áfram starfi að afnámi stjórnsýsluhindrana og beita sér fyrir frjálsri för vinnuafls og aukinni atvinnu. Formennska Finnlands í norrænu ráðherranefndinni á árinu 2016 boðar í desember til ráðherrafundar í Tornio þar sem stjórnsýsluhindranir verða á dagskrá. Fundinn sækja einnig fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og atvinnulífsins á Norðurlöndum. Norðurlandaráð fylgist grannt með starfi að afnámi stjórnsýsluhindrana og hvetur ríkisstjórnir Norðurlanda og norrænu ráðherranefndina til þess að hrinda í framkvæmd ákvörðunum sem teknar eru um stjórnsýsluhindranir.
    Í Finnlandi er það ráðgjafarnefnd Norræna félagsins sem sér um að miðla upplýsingum um stjórnsýsluhindranastarfið milli ráðuneyta, opinberra trygginga- og lífeyrisstofnana, miðstöðvar alþjóðlegra samskipta (CIMO), menntamálayfirvalda, skattyfirvalda og þjóðskrár. Finnland hyggst á formennskuárinu kynna skipulag og starfshætti ráðgjafarnefndarinnar með það fyrir augum að starf hennar að afnámi stjórnsýsluhindrana geti orðið öðrum löndum til eftirbreytni.
    Umsjón: Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin, stjórnsýsluhindranahópur Norðurlandaráðs og landsdeild Finnlands í Norðurlandaráði.
    
    4) Að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda og norrænu ráðherranefndina til þess að hrinda í framkvæmd fyrstu tillögu skýrslu Pouls Nielson um vinnumál og sem varðar stjórnsýsluhindranir.
    Norræna ráðherranefndin fól Poul Nielson, fyrrverandi ráðherra í Danmörku og framkvæmdastjóra hjá ESB, að vinna stefnumarkandi úttekt á norrænu samstarfi um vinnumál. Í skýrslunni er að finna tillögur sem geta eflt norræn markmið um að auka atvinnu, draga úr atvinnuleysi, auka atvinnuþátttöku og bæta vinnuumhverfi. Greiningin felur einnig í sér úttekt á þríhliða samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda á Norðurlöndum. Poul Nielson leggur til að auk þess starfs sem fram fer innan stjórnsýsluhindranaráðsins, verði kannað hvort ákveðinn fjöldi útvalinna einstaklinga geti unnið saman að því að finna sérsniðnar lausnir milli þeirra kerfa sem fyrir eru. Slík rannsókn færi eingöngu fram sem samnorrænt verkefni með beinum stuðningi stjórnvalda.
    Umsjón: Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin og stjórnsýsluhindranahópur Norðurlandaráðs.
    
    5) Að standa að sameiginlegu málþingi með fulltrúum Norðurlanda í Norðurskautsráði með yfirskriftinni „Norrænt samstarf um málefni norðurslóða“.
    Finnar gegna formennsku í Norðurskautsráðinu auk Norðurlandaráðs á árinu 2017. Ástæða er til að kanna samlegðaráhrif og skörun í samstarfi Norðurlandaráðs og þingmannasamstarfi á norðurslóðum. Á sameiginlegu málþingi fari fram umræða með fulltrúum Norðurlanda í Norðurskautsráði og jafnvel fulltrúum utanríkismálanefnda þjóðþinganna um „Norrænt samstarf um málefni norðurslóða“. Markmiðið með málþinginu verður að ræða norrænt samstarf um málefni norðurskautssvæðisins, þar á meðal aukið upplýsingaflæði.
    Umsjón: Landsdeild Finnlands í Norðurlandaráði og forsætisnefnd Norðurlandaráðs.

Framkvæmd formennskuáætlunarinnar.
    Formennskuáætlunin er markviss áætlun þar sem greint er frá þeim árangri sem stefnt er að því að ná á formennskuárinu og verkaskiptingu hinna ýmsu markmiða. Á árinu 2017 efnir forseti Norðurlandaráðs til fyrsta fundar um framkvæmd áætlunarinnar og í lok árs verður árangur áætlunarinnar metinn. Nefndir Norðurlandaráðs, þar á meðal formenn og ritarar nefndanna og norrænu flokkahóparnir, vinna saman að framkvæmd áætlunarinnar.