Ferill 94. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 161  —  94. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2017.

1. Inngangur.
    Á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál ( SCPAR) á árinu 2017 eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykir standa upp úr og segja má að hafi verið í brennidepli.
    Nefndin lagði að venju ríka áherslu á umhverfismál og horfði sérstaklega til loftslagsbreytinga. Loftslagsbreytingar eru stærsta váin á norðurslóðum og ræddu nefndarmenn m.a. hvernig draga mætti úr hækkun hitastigs af völdum loftslagsbreytinganna sem eru tvisvar sinnum meiri á svæðinu en annars staðar í heiminum. Þá var rætt um leiðir til að virkja áheyrnaraðila Norðurskautsráðsins í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og losun kolefna. Þau vandamál sem fylgja loftslagsbreytingum verða þó ekki leyst eingöngu á norðurslóðum heldur þarf að gera alheimsátak.
    Jafnframt var formennskuáætlun Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu í brennidepli og það hvort áherslubreytingar yrðu með nýrri ríkisstjórn Donalds Trumps sem tók við sem 45. forseti Bandaríkjanna 20. janúar 2017. Einnig var áhersla lögð á mikilvægi þess að Bandaríkin fullgiltu hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna en þau hafa ein aðildarríkja Norðurskautsráðsins ekki staðfest sáttmálann og eru ítrekað hvött til þess af hinum aðildarríkjunum. Enn fremur er lögð áhersla á nauðsyn þess að viðhalda sterku alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum til að stuðla að áframhaldandi friði og stöðugleika. Versnandi samskipti milli Rússlands og Bandaríkjanna voru til umræðu en höfðu ekki áhrif á samvinnu ríkjanna um málefni norðurskautsins.
    Þá var skipaður vinnuhópur í tilefni af 25 ára afmæli þingmannaráðstefnunnar 2018 með það að markmiði að auka sýnileika og þekkingu á starfsemi nefndarinnar og að móta henni fjölmiðlastefnu á breiðum grundvelli. Vinnuhópinn skipa Ari Trausti Guðmundsson, formaður Íslandsdeildar, og Aaja Chemnitz Larsen, formaður landsdeildar Danmerkur og Grænlands. Stefnt er að gerð kynningarefnis og að aukinni notkun samfélagsmiðla með vísan í tólftu ráðstefnuyfirlýsingu þingmannanefndarinnar frá 2016 í Úlan-Úde, þar sem m.a. var lögð áhersla á mikilvægt hlutverk þingmanna á norðurslóðum í alþjóðlegu samstarfi og á mikilvægi framlaga þeirra til Norðurskautsráðsins.
    Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðunni hjá nefndinni á árinu 2017 má nefna stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins, eflingu Norðurskautsráðsins, jafnréttismál á norðurslóðum og mikilvægi þess að standa vörð um rétt íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt.

2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál (CPAR).
    Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál ( CPAR) er umræðuvettvangur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut, sem og fulltrúa ríkisstjórna, háskólastofnana og félagasamtaka sem láta sig málefni norðursins varða. Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 var hins vegar undanfari þingmannanefndar um norðurskautsmál ( SCPAR) sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnuna og fylgja eftir samþykktum hennar, sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðursins varða. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta áheyrnarfulltrúa í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið.
    Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Sérstök áhersla hefur einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, en einnig á aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Þá hefur þingmannanefndin á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að eiga frumkvæði að margs konar verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda. Í því sambandi var þingmannanefndin leiðandi í hugmyndavinnu fyrir ritun skýrslu um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum, Arctic Human Development Report ( AHDR I), sem kom út undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004, og ritun framhaldsskýrslunnar ( AHDR II) sem var gefin út seinni hluta árs 2014. Einnig hefur opnun nýrra siglingaleiða, orkuöryggi og nýting orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt hlotið aukna athygli nefndarinnar undanfarin ár.
    Áhersla hefur verið lögð á verkefni sem snúa að ýmsum málum sem snertu forgangsverkefni Norðurskautsráðsins, en ráðið byggir á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það leitt til margvíslegra sameiginlegra verkefna og stofnana. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindarannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og um varðveislu líffræðilegs fjölbreyti-leika.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment ( ACIA) . Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsóknin á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Spár skýrslunnar sýna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið íslaust að sumarlagi. Þá færast mörk gróðurlendis æ norðar með hlýnandi loftslagi. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem verða á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig hækki að jafnaði á norðurslóðum eins og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna en annars staðar kólnar þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga.
    Norðurskautsráðið hefur í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur er leitað leiða til þess að draga úr mengun á norðurslóðum og auka enn á samstarf og skuldbindingar ríkjanna. Á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk í maí 2011 var undirritaður fyrsti bindandi samningur aðildarríkjanna um leit og björgun á norðurslóðum (SAR). Samningurinn er sögulegur þar sem um er að ræða fyrsta alþjóðasamninginn milli aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Jafnframt má segja að samningurinn sé fordæmisgefandi og vísir að frekari samningsgerð og nánara samstarfi milli ríkja ráðsins. Talið hefur verið brýnt að bregðast við aukinni umferð á hafi og í lofti og við annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, og við aukinni hættu á slysum. Í samningnum eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem hvert ríkjanna átta ber ábyrgð á og kveðið er á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir. Þá var á leiðtogafundi ráðsins í Kiruna í Svíþjóð árið 2013 undirritaður samningur milli norðurskautsríkjanna átta um gagnkvæma aðstoð vegna olíumengunar í hafi.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Íslandsdeild var kosin á þingfundi 26. janúar 2017. Aðalmenn voru kosnir Ari Trausti Guðmundsson, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Njáll Trausti Friðbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Óli Björn Kárason, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Haraldur Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Hinn 14. desember var ný Íslandsdeild kosin og gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið samkvæmt þingsköpum. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn eru Ari Trausti Guðmundsson, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Líneik Anna Sævarsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Björn Leví Gunnarsson, þingflokki Pírata. Varamenn eru Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Smári McCarthy, þingflokki Pírata.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeildin kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og nefndarmenn fá jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.

4. Fundir þingmannanefndar um norðurskautsmál 2017.
    Þingmannanefndin hélt fjóra fundi á árinu og tók Íslandsdeild þátt í þeim öllum. Hér á eftir verður gerð stuttlega grein fyrir því sem fram fór á fundum þingmannanefndarinnar.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Anchorage 23. febrúar 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru stefna Bandaríkjanna í norðurskautsmálum og framkvæmd formennskuáætlunar þeirra í Norðurskautsráðinu. Formaður þingmannanefndarinnar, Eirik Sivertsen frá Noregi, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var erindi Cathy Cahill, framkvæmdastjóra miðstöðvar fyrir þróun ómannaðra loftfara í Alaska ( ACUASI). Hún sagði markmið miðstöðvarinnar vera að framkvæma bestu mögulegu rannsóknirnar á kerfum fyrir ómönnuð loftför fyrir ríkisstjórnir og vísindasamfélagið, með sérstaka áherslu á norðurslóðir. Hún sagði að miðstöðin mundi þróa, prófa og nýta ómönnuð loftför til að skapa efnahagslegan og félagslegan ábata fyrir Alaska.
    Næst á dagskrá var kynning Juliu L. Gourley, sendiherra norðurslóða í Bandaríkjunum, á framgangi formennskuáætlunar Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu. Hún sagði áhersluatriði formennskunnar vera umhverfismál, viðbrögð við áhrifum loftslagsbreytinga og bætt efnahags- og lífsskilyrði á norðurslóðum, meðal annars með því að auka hlut hreinnar, endurnýjanlegrar orku í samfélögum á svæðinu, auka fjárfestingar í vatns- og holræsakerfum á afskekktum svæðum, og með því að bæta vatnsöryggi og forvarnir gegn sjálfsvígum, auk þess sem gerð yrði úttekt á fjarskiptainnviðum á norðurslóðum. Jafnframt yrði áhersla lögð á stjórnun Norður-Íshafsins og aukið eftirlit með súrnun sjávar. Áhersla hefði verið lögð á öflugt Norðurskautsráð í framtíðinni, sterkari og virkari stofnun sem tækist á við þau viðfangsefni sem hún stæði frammi fyrir. Þá áréttaði hún að ekki hefðu neinar breytingar verið boðaðar á formennskuáætluninni þegar Donald Trump tók við sem 45. forseti Bandaríkjanna 20. janúar 2017. Finnland tæki við formennsku af Bandaríkjunum í Norðurskautsráðinu í maí 2017.
    Einnig kynnti Mike Sfraga, framkvæmdastjóri Wilson Center, heimskautamiðstöðvar, starfsemi og áherslur miðstöðvarinnar. Jafnframt svaraði hann spurningum nefndarmanna um mögulegar áherslubreytingar með nýrri ríkisstjórn í Bandaríkjunum. Hann fullvissaði nefndarmenn um að stöðugleiki yrði áframhaldandi forgangsatriði varðandi norðurskautsmál. Þá taldi hann líklegt að áhersla yrði lögð á framkvæmd þeirra atriða sem Trump hefði sett í forgang í kosningabaráttunni, t.d. orku- og atvinnumál.
    Formaður nefndarinnar spurði Sfraga hver staðan væri varðandi fullgildingu Bandaríkjanna á hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna en Bandaríkin hafa ein aðildarríkja Norðurskautsráðsins ekki staðfest sáttmálann en ítrekað verið hvött til þess af hinum aðildarríkjunum. Hafréttarsáttmálinn nær yfir viðskipti með sjávarafurðir, umhverfismál og nýtingu sjávarafla, auk þess sem í honum eru skilgreind landgrunnsréttindi, landhelgi og efnahags-lögsaga ríkja með strönd við sjó. Sfraga sagði samstöðu um að sáttmálinn yrði lagður til grundvallar við lausn mála á norðurskautinu og svo yrði áfram. Stjórn Obama hefði lagt áherslu á samvinnu í málefnum Norðurskautsins og á það að fullgilda hafréttarsáttmálann en Sfraga sagði of snemmt að slá því föstu hvort stjórn Trumps væri á sama máli.
    Þá var rætt um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja. Formaður upplýsti nefndarmenn um að fyrirhugað væri að hann sækti fund æðstu embættismanna Norðurskautsráðsins í Juneau í Alaska, 9.–10. mars 2017. Hann kynnti drög að yfirlýsingu sem hann mundi leggja fram sem formaður nefndarinnar og samþykktu nefndarmenn hana samhljóða. Þá tók Ari Trausti Guðmundsson til máls, hann kynnti sig sem nýjan formann Íslandsdeildar og greindi frá niðurstöðum þingkosninganna á Íslandi í október 2016 og frá skipun nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar 10. janúar 2017. Jafnframt kynnti hann helstu áherslur varðandi norðurslóðamál á Íslandi, en þverpólitísk samstaða hefur verið um málaflokkinn og hann er einn af forgangsatriðum nýrrar ríkisstjórnar. Íslendingar munu taka við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnum um mitt ár 2019 og er undirbúningur fyrir það verkefni nú þegar hafinn.
    Ari Trausti lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að ríki beindu sjónum sínum að aðlögun norðurslóðastefnu sinnar og ykju enn frekar alþjóðlegt samstarf um loftslagsbreytingar. Í framhaldinu sköpuðust umræður um skaðleg áhrif loftslagsbreytinga fyrir íbúa á norður- slóðum og á heimsvísu og voru nefndarmenn sammála um að norðurskautsríkin bæru ríka ábyrgð á því að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Sisimiut 16.–18. maí 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru loftslagsmál og sjálfbær þróun á norðurslóðum, norðurslóðastefna Grænlands og hvernig gera mætti starf þingmannanefndarinnar skilvirkara. Formaður þingmannanefndarinnar, Eirik Sivertsen frá Noregi, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning grænlensku þingkonunnar Aaju Chemnitz Larsen á stjórnmálaástandinu á Grænlandi og á helstu verkefnum. Larsen greindi frá niðurstöðum rannsókna á hopun hafíss, einnig frá auknum ferðamannastraumi og efnahagslegum horfum. Þá ræddu nefndarmenn hvernig best væri að ná þeim markmiðum sem sett voru fram í ráðstefnuyfirlýsingu þingmannanefndarinnar í Úlan-Úde í júní 2016. Larsen sagði mikilvægt að auka sýnileika og metnað þingmannanefndarinnar og lagði til að hún mundi nýta sér samfélagsmiðla til að ná því markmiði. Ari Trausti Guðmundsson tók undir orð Larsen og sagði flesta Íslendinga þekkja Norðurskautsráðið en öðru máli gegndi um þingmannanefndina. Hann lagði til að settur yrði á stofn starfshópur sem skoðaði þetta sérstaklega. Þá benti hann jafnframt á að ráðstefnuyfirlýsingar nefndarinnar væru langar og almennar, það drægi úr vægi þeirra og gerði eftirfylgni erfiðari. Nefndarmenn voru sammála Ara Trausta og samþykktu að koma á fót vinnuhópi með það að markmiði að auka sýnileika og þekkingu á starfsemi nefndarinnar og ráðstefnu hennar. Jafnframt var ákveðið að vinnuhópinn skipuðu Ari Trausti og Aaja Chemnitz Larsen frá Grænlandi, auk þess sem framkvæmdastjóri nefndarinnar og ritari kanadísku landsdeildarinnar kæmu að vinnu hópsins.
    Enn fremur var rætt um það með hvaða hætti bæri að fagna 25 ára afmæli þingmannanefndarinnar sem er árið 2018. Kom fram hugmynd um að útbúa bækling eða hefja upplýsingaherferð á samfélagsmiðlum til að kynna áhersluatriði og starf nefndarinnar. Var ákveðið að ákvörðun yrði tekin á næsta fundi þingmannanefndarinnar um frekari útfærslu auk þess sem rætt yrði nánar um þau þemu sem tekin yrðu fyrir á næstu ráðstefnu nefndarinnar árið 2018.
    Því næst ræddi Eirik Sivertsen, formaður nefndarinnar, stuttlega um ráðstefnuna Hringborð norðurslóða ( Arctic Circle) sem haldin var í Reykjavík 13.–16. október 2017 en hann átti erindi á ráðstefnunni sem formaður nefndarinnar. Ari Trausti lagði til að næsti fundur yrði haldinn í Reykjavík 11.–12. október 2017 svo nefndarmenn gætu í beinu framhaldi sótt Hringborð norðurslóða og nýtt þannig ferðina til Íslands og sameinað fundina. Þá greindi hann stuttlega frá hugsanlegu samstarfsverkefni við Háskóla Sameinuðu þjóðanna um fræðsluverkefni um réttindi og menningu frumbyggja á norðurslóðum, þar sem frumbyggjar yrðu fengnir til að miðla þekkingu sinni.
    Að lokum var rætt um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja. Framkvæmdastjóri nefndarinnar, Samu Paukkunen, sagði mikilvægt að unnið yrði út frá ráðstefnuyfirlýsingu síðasta árs til þess að starf nefndarinnar yrði sem skilvirkast. Bryndís Haraldsdóttir, formaður Vestnorræna ráðsins, sagði það afar ánægjulegt og mikilvægt fyrir ráðið að hafa fengið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og að unnið væri af kappi við að móta stefnu ráðsins í norðurslóðamálum og að því hvernig best væri að nýta áheyrnaraðildina. Í framhaldinu tók Jørn Dohrmann, Evrópuþingmaður, til máls og sagði mikilvægt fyrir Evrópusambandið að fá áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og enn væri unnið að því. Þá greindi hann frá því að fyrirhugað væri að halda fimmtu þingmannaráðstefnu hinnar norðlægu víddar (e. Northern Dimension Parliamentary Forum) í Brussel í október eða nóvember 2017. Norðlæga víddin er samstarfsvettvangur Evrópusambandsins, Íslands, Noregs og Rússlands. Á ráðstefnunni kynna fulltrúar aðildarríkjanna m.a. stefnur ríkjanna fyrir svæðið auk þess sem rædd eru fyrir fram ákveðin þemu sem eru brýn fyrir svæðið. Þá sagði hann mikilvæga áfanga hafa náðst á samstarfsvettvanginum varðandi umhverfismál árið 2017 en það sæi fyrir endann á tveimur stórum verkefnum. Annað verkefnið sneri að hreinsun frárennslisvatns frá rússneskum borgum í Eystrasaltið og hitt að flutningi kjarnorkuúrgangs frá Barentshafi til vinnslustöðva.
    Þá lagði Eirik Sivertsen til að nefndin leitaði eftir fleiri tækifærum til að kynna áhersluatriði sín og að nefndarmenn tækju til máls fyrir hönd nefndarinnar ef tækifæri gæfist, bæði
í Evrópu og Bandaríkjunum. Sameinuðu þjóðirnar gætu verið nýr vettvangur, Alþjóðasiglingamálastofnunin, eða aðrar stofnanir. Þá áréttaði hann að þau vandamál sem fylgja loftslagsbreytingum yrðu ekki leyst eingöngu á norðurslóðum heldur þyrfti alþjóðlegt átak til. Loftslagsbreytingar væru stærsta váin á svæðinu og minnti hann nefndarmenn á að hækkun hitastigs af völdum loftslagsbreytinga væri tvisvar sinnum meiri á norðurslóðum en annars staðar í heiminum. Þá lagði Sivertsen til að vinna nefndarinnar færðist að hluta til yfir í vinnuhópa sem þrír til fjórir þingmenn skipuðu og hefðu skilgreind verkefni og markmið. Þannig gæti starf nefndarinnar orðið árangursríkara og skilvirkara. Nefndarmenn voru sammála tillögum formanns og bætti Aaja Chemnitz Larsen við að hún vildi gjarnan bæta innleiðingu þróunarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (svokölluð „SDGs“) við vinnu nefndarinnar.
    Ígor K. Tsjernýsjenkó frá Rússlandi sagði frá því að fjögur samfélög í Norður-Rússlandi hefðu stuttu áður verið skilgreind sem norðurskautssvæði og átta til viðbótar sæktust eftir slíkri skilgreiningu. Þá tók Ari Trausti Guðmundsson til máls og bauð nefndarmenn velkomna til næsta fundar nefndarinnar í Reykjavík og Svartsengi 11.–12. október 2017 og á ráðstefnuna Hringborð norðurslóða í Reykjavík 13.–15. október 2017.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Svartsengi 12. október 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar, og Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Helstu mál á dagskrá voru tillögur vinnuhóps um fjölmiðlastefnu og aukinn sýnileika nefndarinnar og gerð kynningarefnis í tilefni af 25 ára afmæli þingmannaráðstefnunnar árið 2018, samstarfsverkefni við Háskóla Sameinuðu þjóðanna um fræðsluverkefni um réttindi og menningu frumbyggja á norðurslóðum, endurnýtanlegir orkugjafar og áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi. Formaður þingmannanefndarinnar, Eirik Sivertsen frá Noregi, stýrði fundinum.     
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Ásgeirs Margeirssonar, framkvæmdastjóra HS Orku, á nýtingu jarðvarma á Íslandi auk þess sem fundargestir fengu leiðsögn um jarðvarmavirkjun HS Orku í Svartsengi. Ásgeir lagði áherslu á að án endurnýjanlegrar orku væri losun Íslendinga á koltvísýringi töluvert meiri. Ef hitaveitu nyti ekki við þyrftu Íslendingar að nota olíu til húshitunar og þá væri losunin mun meiri. Fjárhagslegur ávinningur fyrir heimilin í landinu væri einnig umtalsverður.
    Þá hélt dr. Kristján Leósson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, erindi um skipulag, reynslu og niðurstöður starfseminnar. Hann benti á veikleika varðandi rafmagnsframleiðslu hér á landi þar sem ekki væri nógu góð nýting á því mikla rafmagni sem framleitt væri. Hann sagði auknar fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun á þessu sviði ákjósanlegar með stuðningi við fólk sem vill stofna fyrirtæki á grundvelli nýsköpunarhugmynda.
    Næst á dagskrá var fyrirlestur dr. Þorsteins Þorsteinssonar, sérfræðings á sviði jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, um áhrif og horfur loftslagsbreytinga á Íslandi á 21. öldinni. Hann sagði merki um loftslagsbreytingar á Íslandi m.a. sýnilegar í hopun jökla en þeir hefðu minnkað um 10 rúmkílómetra á ári sem hefði áhrif á hækkun yfirborðs sjávar í heiminum. Þá mundi hitastig hækka á næstu 50 til 100 árunum og hafa þyrfti í huga að sú hækkun væri 2–3 sinnum hraðari á norðurslóðum en annars staðar í heiminum. Hann taldi því þurfa að kappkosta að hitastigið hækkaði ekki um meira en tvær gráður til ársins 2100. Þá taldi hann að Ísland yrði orðið jöklalaust eftir 200 ár en þangað til væri möguleiki á enn frekari virkjun jarðvarma og huga þyrfti vel að þeim tækifærum sem í henni fælust.
    Í ljósi þess að á árinu 2018 fagnar þingmannanefndin 25 ára afmæli sínu og með vísan í ráðstefnuyfirlýsingu nefndarinnar frá 2016 í Úlan-Úde var tekin ákvörðun á fundi nefndarinnar sem haldinn var á Grænlandi í maí 2017 um að setja á fót vinnuhóp með það að markmiði að auka sýnileika og þekkingu á starfsemi nefndarinnar og ráðstefnu hennar. Í ráðstefnuyfirlýsingunni frá 2016 var m.a. lögð áhersla á mikilvægt hlutverk þingmanna á norðurslóðum í alþjóðlegu samstarfi og á framlag þeirra til Norðurskautsráðsins. Vinnu-hópinn skipa Ari Trausti Guðmundsson og Aaja Chemnitz Larsen frá Grænlandi, auk þess sem framkvæmdastjóri nefndarinnar og ritari kanadísku landsdeildarinnar koma að vinnu hópsins. Markmið vinnuhópsins er að nefndin vinni að stefnu varðandi fjölmiðla á breiðum grundvelli.
    Larsen kynnti hugmyndir hópsins og varpaði fram hugleiðingum um samfélagsmiðla og hvernig hægt væri að nýta þá betur í þágu nefndarinnar. Hún bað nefndarmenn um að velta því fyrir sér og senda framkvæmdastjóra nefndarinnar tillögur fyrir næsta fund. Jafnframt lagði hún til að nefndarmenn nýttu sér sameiginlegt myllumerki ( hashtag) þegar vísað væri í málefni nefndarinnar á samfélagsmiðlum, t.d. #arcticmatters, og voru nefndarmenn samþykkir því. Tekin var ákvörðun um að stofna Facebook- og Twitter-síður fyrir þingmannanefndina.
    Enn fremur ræddi Ari Trausti um hvernig hægt væri að nýta hefðbundna miðla betur, t.d. með greinaskrifum og fréttatilkynningum um störf nefndarinnar. Annað hvert ár, þegar ráðstefna er ekki haldin, gæti t.d. hvert aðildarríki tekið saman helstu áhersluatriði nefndarinnar og sent fjölmiðlum. Formaður nefndarinnar benti á að þingmannanefndin væri ekki með skrifstofu og því þyrftu landsdeildirnar að skipta með sér verkum kæmi til aukins vinnuframlags.
    Enn fremur kynnti Ari Trausti hugsanlegt samstarfsverkefni við Háskóla Sameinuðu þjóðanna um fræðsluverkefni um réttindi og menningu frumbyggja á norðurslóðum. Nefndarmenn höfðu fengið til upplýsingar einblöðung um verkefnið og hvernig mögulegt væri að koma því í framkvæmd. Háskóli Sameinuðu þjóðanna var settur á stofn árið 1975 til að styrkja alþjóðlegt samstarf á milli Sameinuðu þjóðanna, háskóla og annarra sem stunda vísindarannsóknir, með sérstakri áherslu á þróunarríkin. Markmið skólans er m.a. að tengja vísindamenn víðs vegar að úr heiminum og að efla rannsóknir á málefnum sem eru ofarlega á baugi hjá Sameinuðu þjóðunum, annars vegar á umhverfismálum og sjálfbærri þróun og hins vegar á friði og góðum stjórnunarháttum. Á Íslandi starfa fjórir skólar innan vébanda Háskóla Sameinuðu þjóðanna: Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn.
    Ari Trausti lagði áherslu á að þekking frumbyggja væri margvísleg og að þeir hefðu margt fram að færa, t.d varðandi nýtingu náttúruauðlinda á sjálfbæran hátt. Venjan væri að miðla þekkingu til þeirra varðandi nútímastarfshætti og tækni en hann sæi fyrir sér að snúa dæminu við í þessu verkefni og fá frumbyggjana til að miðla þekkingu. Ekki væri víst að þessi aðkoma hentaði starfsemi Sameinuðu þjóðanna en það væri þess virði að láta reyna á það. Larsen tók undir orð Ara Trausta og benti á að áhugavert væri að bera saman hefðbundna þekkingu frumbyggja við vísindalegar niðurstöður, t.d. varðandi veiðar. Katri Kulmuni frá Finnlandi benti á að einnig væri hægt að kanna hvort hægt væri að koma á svipuðu samstarfi við Norðurskautsráðið. Sivertsen, formaður nefndarinnar, lagði áherslu á mikilvægi þess að auka vitneskju um frumbyggja og málefni norðurslóða. Vert væri að virkja Háskóla norðurslóða í því tilliti og Norðurskautsráðið. Þá lagði hann til að hugmynd Ara Trausta yrði unnin frekar og í framhaldinu kannað hvort Sameinuðu þjóðirnar hefðu áhuga á að taka þátt. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að læra af frumbyggjum og óskuðu eftir því að Ari Trausti útfærði hugmyndina nánar og málið yrði aftur rætt á næsta fundi nefndarinnar.
    Að lokum var rætt um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja. Framkvæmdastjóri nefndarinnar, Samu Paukkunen, sagði næstu ráðstefnu nefndarinnar verða haldna í Norður-Finnlandi 16.–19. september 2018. Þá sagði Kulmuni frá góðum framgangi formennskuáætlunar Finnlands í Norðurskautsráðinu en landið tók við formennsku í maí 2017 til tveggja ára. Larry Bagnell frá Kanada greindi frá nýrri stefnu í varnarmálum þar sem áhersla er lögð á leitar- og björgunarmál. Þá sagði hann frá nýju verndarsvæði á hafi sem er stærra að flatarmáli en Ísland, en inúítar munu áfram hafa þar rétt til hefðbundinna veiða (á ísbjörnum, rostungum og selum). Bandaríska öldungadeildarþingkonan Lisa Murkowski sagði nýja stjórn Bandaríkjanna ekki skýra þegar kæmi að norðurslóðamálum og erfitt væri að átta sig á hvernig mál mundu þróast. Hún sagði Donald Trump Bandaríkjaforseta tala um stór verkefni varðandi uppbyggingu innviða og ljóst væri að þörfin væri mikil í Alaska.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Helsinki 24. nóvember 2017.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál, og Bylgja Árnadóttir, starfandi ritari. Helsta verkefni fundarins var að ræða áherslur næstu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin verður haustið 2018. Önnur mál á dagskrá voru viðskiptahindranir og fríverslun á norðurslóðum, formennska Finna í Norðurskautsráðinu og tillaga að frumbyggjaskóla. Formaður þingmannanefndarinnar, Eirik Sivertsen frá Noregi, stýrði fundinum.
    Gestir fundarins voru Tero Vauraste, formaður Efnahagsráðs norðurslóða, og Aleksi Härkönen, sendiherra Finnlands fyrir málefni norðursljóða. Tero Vauraste kynnti Arctic Economic Council fyrir nefndarmönnum. Um er að ræða sjálfstæð samtök sem starfrækt hafa verið í þrjú ár og í þeim eru þátttakendur frá öllum átta norðurskautsríkjunum. Samtökin eru opin öllum sem áhuga hafa á starfseminni, þar á meðal fyrirtækjum sem hafa starfsemi á norðurslóðum. Vauraste ræddi einnig um viðskiptahindranir og fríverslun á norðurslóðum. Hann sagði viðskiptahindranir færast í aukana og nefndi sem dæmi viðskiptaþvinganir ESB og fleiri landa gagnvart Rússlandi og fyrirætlanir Bretlands um að draga sig út úr ESB. Nýir fríverslunarsamningar væru í auknum mæli gerðir við lönd í austri, t.d. fríverslunarsamningur Íslands við Kína. Vauraste benti á að umhverfi fríverslunarsamninga væri flókið á norðurslóðum, sum landanna tilheyrðu ESB, tvö Evrópska efnahagssvæðinu, Norður-Ameríkuríkin væru aðilar að NAFTA og síðan væri það Rússland. Að mati sérfræðinga Efnahagsráðs norðurslóða væri afnám viðskiptaþvingana nauðsynlegt til að stuðla að sjálfbærri þróun á norðurskautssvæðinu. Vauraste sagði brýna þörf á að gera rannsókn á því hvar stærstu hindranirnar væri að finna í viðskiptum milli ríkjanna á norðurslóðum. Vauraste benti á að íbúar norðurslóða, og þar af leiðandi skattgreiðendur, væru fáir og gætu illa staðið undir þeirri uppbyggingu sem þörf væri á. Þess vegna væri nauðsynlegt að laða að erlenda fjárfestingu.
    Aleksi Härkönen sagði fundarmönnum frá reynslu Finnlands af tveggja ára formennsku í Norðurskautsráðinu sem hófst í maí 2017. Hann benti á að Finnland hefði áður gegnt formennsku í ráðinu, árin 2000–2002, en sagði verkefnið mun umfangsmeira í þetta skiptið. Ýmsar ástæður væru fyrir því, fyrst og fremst sú að Norðurskautsráðið hefði aukið umsvif sín. Þrír alþjóðasáttmálar hefðu litið dagsins ljós, einn um leit og björgun, annar um viðbrögð við olíuleka og sá þriðji um samvinnu á vettvangi vísinda. Norðurslóðir stæðu auk þess frammi fyrir alvarlegri áskorunum, einna helst loftslagsbreytingum. Härkönen benti á að mest væri fjallað um hopun íshellunnar en ekki væri búið að rannsaka í þaula mögulegar afleiðingar af þiðnun sífrera. Versnandi alþjóðleg samskipti væru áhyggjuefni en Härkönen sagði þau ekki enn hafa haft áhrif á samvinnu um málefni norðurskautsins. Hann nefndi sem dæmi að Bandaríkin og Rússland hefðu unnið saman að tillögu á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um skipaferðir á Beringssundi.
    Härkönen sagði það ekki hlutverk formennskuríkis Norðurskautsráðsins að breyta algjörlega áherslum. Mikilvægt væri að tryggja samfellu og að ráðið setti sér langtímamarkmið. Þema formennsku Finna væri sameiginlegar lausnir og með því væri vísað til Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Í umræðum um loftslagsbreytingar sagði Härkönen ljóst að málefnið væri það stærsta sem Norðurskautsráðið stæði frammi fyrir og að það þyrfti að skoða í tengslum við alla starfsemi ráðsins. Nú þegar Bandaríkjastjórn hefði lýst því yfir að hún mundi ekki fullgilda Parísarsamkomulagið væri óljóst hver stefna stjórnarinnar væri og ekki síður hvernig það hefði áhrif á starf Norðurskautsráðsins. Enn hefði þó engin breyting orðið á þátttöku Bandaríkjamanna í starfsemi ráðsins.
    Samu Paukkunen, framkvæmdastjóri þingmannanefndarinnar, kynnti stuttlega næstu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin verður dagana 16.–19. september 2018. Ráðstefnan fer fram í þingi Sama í Inari í Finnlandi. Rætt var um möguleg áhersluefni fyrir yfirlýsingu ráðstefnunnar og einnig umræðuefni fyrir málstofur. Í umræðum sagðist Ari Trausti Guðmundsson vilja leggja megináherslu á velferð, nýsköpun og þekkingarmiðlun. Hann stakk upp á því að sú aðferðafræði sem þróuð hefði verið á Íslandi við forvarnir gegn áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna yrði rædd í málstofu. Mikill árangur hefði náðst í þessum efnum á síðustu áratugum á Íslandi. Einnig væri hægt að ræða ríkisstyrkta nýsköpun með þátttöku Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Varðandi þekkingarmiðlun benti Ari Trausti á að því meira sem almenningur vissi um loftslagsbreytingar og umhverfisvá, því meiri þrýstingur skapaðist á stjórnmálamenn að fjármagna rannsóknir. Mikilvægt væri því að fræða almenning um norðurslóðir og loftslagsmál. Tiina Sanila-Aikio, þingmaður Samaþingsins, sagðist styðja áherslu á velferðarmál og benti á verkefni um forvarnir gegn sjálfsmorðum sem starfrækt væri í Inari.
    Eirik Sivertsen formaður dró umræður saman og lagði til að áhersluefni næstu ráðstefnu þingmannanefndarinnar yrðu fjögur. Í fyrsta lagi stafrænt norðurskaut, þ.e. hvernig ætti að búa norðurslóðir undir hina svokölluðu fjórðu iðnbyltingu og hvernig hægt væri að tryggja að íbúar norðurskautsins gætu tekið þátt í hinum stafræna heimi. Í öðru lagi loftslags-breytingar á norðurslóðum, hvernig hægt væri að draga úr þeim og lifa með afleiðingum þeirra, sér í lagi þiðnun sífrera. Í þriðja lagi samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja, hvernig tryggja mætti að íbúar norðurskautsins nytu góðs af auknum umsvifum á svæðinu og að fyrirtæki fylgdu alþjóðlegum stöðlum við störf sín á þessu viðkvæma svæði. Í fjórða lagi velferð og þá einna helst hvaða nýjungar mætti nýta til að tryggja velferð íbúa norðurskautsins. Sivertsen sagði einnig mikilvægt að í yfirlýsingu ráðstefnunnar kæmi fram skýr stuðningur við Parísarsamkomulagið.
    Rætt var um þátttöku þingmannanefndarinnar á samfélagsmiðlum en henni átti að hleypa af stokkunum skömmu eftir fundinn. Framkvæmdastjórinn tilkynnti nefndinni að vefsvæði hefði verið stofnað á Twitter og Facebook en á fyrri fundi hafði nefndin samþykkt notkunina á myllumerkinu #arcticmatters.
    Ari Trausti Guðmundsson kynnti stuttlega hugmynd sína að fræðsluverkefni frumbyggja á norðurslóðum sem lögð var fyrir nefndina á síðasta fundi hennar. Fyrirmynd frumbyggjaskólans yrði Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna hér á landi. Kennslan færi fram á sumarnámskeiðum þar sem frumbyggjar kenndu fræðimönnum, fjölmiðlafólki eða öðrum áhugasömum um menningu sína og miðluðu þekkingu sinni á nýtingu náttúruauðlinda. Ari Trausti bað nefndarmenn að íhuga nokkra þætti varðandi hugmyndina, þar á meðal fýsileika hennar, fjármögnun og staðsetningu skólans og val á þátttakendum. Rætt var um mögulega skörun við starf Háskóla norðurslóða og Katri Kulmuni frá Finnlandi benti á að háskólinn skipulegði vettvangsferðir á norðurslóðir. Ákveðið var að framkvæmdastjóri þingmannanefndarinnar bæri hugmyndina undir ýmsa mögulega samstarfsaðila, þar á meðal Norðurskautsráðið og Háskóla norðurslóða.
    Að lokum var rætt um málefni norðurslóða innan einstakra aðildarríkja. Ígor K. Tsjernýsjenkó frá Rússlandi sagði frá nýjum lögum um norðurslóðasvæði Rússlands. Norðurslóðasvæði eru sérstaklega skilgreind í lögunum og þar verða í boði aukin fjárfestingartækifæri og stuðningur við félagsleg verkefni.

Alþingi, 19. janúar 2018.

Ari Trausti Guðmundsson,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
varaform.
Björn Leví Gunnarsson.