Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 182  —  113. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.


Flm.: Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Andrés Ingi Jónsson, Karl Gauti Hjaltason.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta fram fara endurskoðun á XXV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs í því skyni að meiðyrðalöggjöf uppfylli skilyrði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eins og ákvæðinu hefur verið beitt í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu.
    Ráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingu á XXV. kafla almennra hegningarlaga á 149. löggjafarþingi.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 146. löggjafarþingi (522. mál) í svipaðri mynd og hún er nú, en hlaut ekki afgreiðslu.
    Ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs eru komin til ára sinna og með tilvísun til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á sviði mannréttinda og í þjóðfélaginu almennt, t.d. með samfélagsmiðlunum, telja flutningsmenn tilefni til að taka ákvæði meiðyrðalöggjafarinnar til endurskoðunar.
     Sumum ákvæðum meiðyrðalöggjafarinnar er sjaldan eða aldrei beitt og svo virðist sem dómstólar beiti ekki þeim refsingum sem ákvæðin mæla fyrir um og hefur verið vísað til tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar í því samhengi.
    Undanfarið hefur verið mikil umræða um tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks. Í október 2017 gaf Mannréttindastofnun út skýrslu um dóma Mannréttindadómstóls Evrópu um tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks á Íslandi 2012–2017 sem unnin var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Á þeim árum hafa fallið átta dómar Mannréttindadómstóls Evrópu er varða brot á vernd tjáningarfrelsis fjölmiðlafólks á Íslandi. Öll málin eiga það sammerkt að varða ummæli í garð nafngreindra einstaklinga um að þeir hefðu framið refsivert athæfi, væru undir rannsókn um slíka háttsemi eða tengdust glæpastarfsemi. Niðurstaða innlendra dómstóla var að um aðdróttanir væri að ræða sem vörðuðu við 235. gr. almennra hegningarlaga þar sem það fjölmiðlafólk sem stefnt var fyrir dóm í umræddum tilvikum hefði ekki haft nægjanlegar heimildir til stuðnings ummælunum. Í öllum tilvikum var fjölmiðlafólkinu gert að greiða stefnendum miskabætur og málskostnað auk þess sem hin umdeildu ummæli voru dæmd dauð og ómerk. Í sex tilvikum dæmdi Mannréttindadómstóllinn íslenska ríkinu í óhag en í tveimur tilvikum var íslenska ríkið sýknað. Þannig komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að íslenskir dómstólar hefðu ekki gætt að meðalhófi við beitingu 235. gr. almennra hegningarlaga líkt og áskilið er í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaða framangreindrar skýrslu er m.a. sú að þeir annmarkar sem Mannréttindadómstóll Evrópu benti á hafi ekki lotið að ágöllum á 235. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæðið sem slíkt stríddi ekki gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu heldur var það beiting íslenskra dómstóla á ákvæðinu sem samræmdist ekki framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.
    Í tveimur síðustu tilvikunum komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að íslenskir dómstólar hefðu gætt að meðalhófi við beitingu 235. gr. almennra hegningarlaga. Í niðurstöðu skýrslunnar er bent á að dómarnir beri með sér að íslenskir dómstólar hafi að einhverju marki haft meiri hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins en áður að þessu leyti.
    Flutningsmenn benda á að hafa verður í huga að miðlun upplýsinga og skoðana um þjóðfélagsleg málefni og öflug starfsemi fjölmiðla er hornsteinn hvers lýðræðislegs samfélags. Nauðsynlegt er að beiting ákvæða meiðyrðalöggjafarinnar samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra ákvæða og því mikilvægt að við endurskoðun meiðyrðalöggjafarinnar sé gætt að því að sjálfstæði fjölmiðla verði tryggt og í fullkomnu samræmi við kröfur stjórnarskrár og skuldbindingar samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum, svo sem mannréttindasáttmála Evrópu.