Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 189  —  120. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um rannsóknir á örplasti í lífverum sjávar í Norður-Atlantshafi.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hefja samstarf við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um rannsóknir á örplasti í sjávarlífverum og útbreiðslu plastmengunar í Norður-Atlantshafi.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2017 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 1. september 2017 í Reykjavík.
    Sjávarútvegur er grundvallaratvinnugrein á Vestur-Norðurlöndum og því mikilvægt að standa vörð um auðlindir sjávar. Plastmengun í hafi ógnar vistkerfi sjávar og getur haft langtímaáhrif á sjávarlífverur og þar með afkomu landanna.
    Talið er að um 8 milljónir tonna af plastúrgangi endi í heimshöfum ár hvert og að sú tala nái 17 milljónum tonna árlega árið 2025. Plastmengun hefur ekki aðeins áhrif á þeim stað sem úrgangurinn fer í hafið því plastið dreifist með hafstraumum. Sums staðar safnast úrgangurinn í eins konar eyjar og stærri plastúrgangur getur verið til ama fyrir sjávardýr og sjófugla. Plastið brotnar að lokum niður í örplast og einnig skolast örplast á haf út frá landi. Örplast kemur m.a. frá bíldekkjum, húðvörum og tannkremi.
    Þörf er á auknum rannsóknum á því hvort örplast finnist í fæðukeðju sjávar og hvaða afleiðingar það hafi. Einnig þurfa stjórnvöld að grípa til ráðstafana til að draga úr plastmengun og áhrifum hennar á umhverfið.
    Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, það fjórtánda af sautján, fjallar um líf í vatni. Markmið hljóðar svo: „Eigi síðar en árið 2025 verði komið í veg fyrir og verulega dregið úr hvers kyns mengun sjávar, einkum frá starfsemi á landi, þ.m.t. rusl í sjó og mengun af völdum næringarefna.“ Í stofnsáttmála Vestnorræna ráðsins segir enn fremur að Færeyjar, Grænland og Ísland hafi sameiginlega áhuga á því að varðveita og stjórna nýtingu lifandi auðlinda landanna og að verndun þessara auðlinda sé mikilvæg fyrir matvælaframleiðslu í heiminum.
    Í ljósi þessa er skorað á ríkisstjórnina að hefja samstarf við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um rannsóknir á örplasti í sjávarlífverum og útbreiðslu plastmengunar í Norður-Atlantshafinu. Söfnun sýna og greining á þeim gæti farið fram í samvinnu hafrannsóknastofnana landanna þriggja.