Ferill 60. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 204  —  60. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy og Birni Leví Gunnarssyni um launafl.


     1.      Hversu mikið launafl fer til spillis á ári á Íslandi og hvernig hefur sú orkusóun þróast undanfarin ár?
    Launafl í raforkukerfinu er tilkomið af ákveðinni þörf vegna álags. Launafl sem slíkt skilar engri vinnu eða orku, ólíkt raunafli. Nefna má sem dæmi rafmótora sem þurfa launafl til segulmögnunar svo þeir geti snúist og sinnt sínu hlutverki. Launaflið er framleitt í virkjunum eða staðbundið, t.d. með þéttum. Launafl í raforkukerfi hefur jákvæð áhrif á spennu. Verði launaflsframleiðslan í kerfinu meiri en eftirspurnin hefur það þau áhrif að spennan hækkar og erfiðara getur orðið að stýra kerfinu. Skortur á launafli hefur gagnstæð áhrif, þ.e. spenna lækkar. Ekki er því unnt að tala um að launafl fari til spillis, eða um orkusóun í því sambandi, þar sem launafl skilar engri vinnu eða orku.

     2.      Hversu margar MVArh (MWh launafls) eru vegna stóriðju á ári? Eru til sundurliðuð gögn eftir verksmiðjum?
    Þegar rætt er um hlutfall raunafls og launafls er oft miðað við svokallaðan aflstuðul. Í samningum við notendur flutningskerfisins (stórnotendur, dreifiveitur og orkuframleiðendur) eru ákvæði um aflstuðulinn og hver hámarksúttekt (eða innmötun) launafls sé. Algengt er að viðmiðunargildi aflstuðuls í slíkum samningum sé 0,98, samanber netmála Landsnets B4. Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er ekki unnt að tala um orku þegar fjallað er um launafl. Stóriðjan sem slík veldur ekki vandræðum með jafnvægi launafls í flutningskerfinu. Þar eru launaflsvirki (þéttavirki og síur) sem framleiða það launafl sem til þarf svo ákvæðum flutningssamninga um aflstuðul sé fullnægt.

     3.      Kemur til greina að leggja fram frumvarp um launaflsjöfnun til að draga úr orkusóun, á borð við það sem hefur verið gert í Finnlandi þar sem tekin hefur verið upp sú regla að notendur greiði fyrir launafl umfram ákveðið þak?
    Ekki hefur komið til skoðunar að leggja fram frumvarp um launaflsjöfnun. Bent er á að þegar er tekið á launaflsjöfnun í fyrrnefndum netmála Landsnets B4 gagnvart stórnotendum og í gjaldskrá Landsnets gagnvart dreifiveitum. Netmáli Landsnets um tengingu vinnslueininga (netmáli D1) tekur jafnframt á þessu gagnvart orkuframleiðendum.