Ferill 138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 210  —  138. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um brottfall laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, nr. 10/2001, með síðari breytingum.

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



1. gr.

    Lög um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, nr. 10/2001, með síðari breytingum, falla úr gildi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lög um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, nr. 10/2001, með síðari breytingum, verði felld úr gildi þar sem Hitaveita Suðurnesja er ekki lengur starfandi. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að höfðu samráði við Orkustofnun, HS Orku hf. og HS Veitur hf.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með lögum nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, var m.a. kveðið á um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja í tvö aðskilin og sjálfstæð fyrirtæki sem hefðu sjálfstæðar stjórnir fyrir 1. júlí 2009.
    Í framhaldi af samþykkt laganna var Hitaveita Suðurnesja hf. lögð niður árið 2008, en við hlutverki hennar tóku tvö sjálfstæð fyrirtæki, HS Orka hf. og HS Veitur hf. Á hluthafafundi þann 1. desember 2008 var nafni Hitaveitu Suðurnesja hf. breytt í HS Orku hf. og síðan haldinn stofnfundur fyrir nýtt félag, HS Veitur hf.
    Þar sem Hitaveita Suðurnesja hf. er ekki lengur starfandi þarf að fella úr gildi lög um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, nr. 10/2001. Í lögunum er að finna almenn ákvæði um starfsemi Hitaveitu Suðurnesja, auk ýmissa sérákvæða, sem eiga ekki lengur við, til að mynda undanþágu frá lögum um hlutafélög, ákvæði um rétt starfsmanna Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar á störfum hjá hinu nýja félagi og um biðlaunarétt, auk heimildar til ríkisstjórnarinnar til að leggja hlutafélaginu til hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Suðurnesja. Einnig er í lögunum að finna ákvæði um einkaleyfi félagsins til starfrækslu hitaveitu. Þá var í lögunum upphaflega að finna undanþágur frá skattskyldu og stimpilgjöldum, en þær undanþágur voru síðar felldar burt úr lögunum.
    Ekki er talin þörf á sérlögum um HS Veitur hf. eða HS Orku hf. þar sem starfsemi þeirra fellur undir gildandi lög og ekki er talin þörf á sérákvæðum eða undanþágum frá þeim lögum. Sett verður reglugerð um hitaveitustarfsemi HS Veitna hf. á grundvelli orkulaga, nr. 58/1967. Vatnsveitustarfsemi félagsins fellur undir lög um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, og raforkustarfsemi undir raforkulög, nr. 65/2003. Starfsemi HS Orku hf. fellur undir raforkulög, nr. 65/2003.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að lög um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, nr. 10/2001, með síðari breytingum, falli úr gildi. Verði frumvarpið að lögum mun það ekki hafa áhrif á HS Orku hf. eða HS Veitur hf.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekki er tilefni til að kanna sérstaklega samræmi frumvarpsins við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá snerta ákvæði frumvarpsins ekki skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við HS Veitur hf., HS Orku hf. og Orkustofnun.

6. Mat á áhrifum.
    Samþykkt frumvarpsins mun ekki hafa nein áhrif á almannahagsmuni, helstu hagsmunaaðila eða stjórnsýslu ríkisins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum hefur það engin áhrif á tekjur eða gjöld ríkissjóðs.