Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 223  —  150. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005 (opin gögn).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    7. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Rafræn útgáfa Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs.

    Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað skulu gefin út og þeim dreift á rafrænan hátt. Við rafræna útgáfu skal tryggja öryggi og áreiðanleika birtra upplýsinga og að þær varðveitist á varanlegan hátt og gagnasnið útgáfunnar sé opið og aðgengilegt. Rafrænni útgáfu Lögbirtingablaðs skal hagað þannig, eftir því sem tæknilega er unnt, að komið sé í veg fyrir úrvinnslu og samtengingu persónuupplýsinga sem birtar eru. Við rafræna útgáfu skal útgáfudagur tilgreindur.
    Haga skal útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs þannig að vél- og hugbúnaður sem flestra nýtist. Skulu þeir sem þess óska geta keypt Stjórnartíðindi eða Lögbirtingablað í prentuðu formi í áskrift eða fengið einstök tölublöð send gegn greiðslu kostnaðar af prentun þeirra og sendingu.
    Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað skulu vera aðgengileg á tölvutækan hátt á opinni gagnagátt, t.d. opingogn.is.
    Ráðherra mælir í reglugerð nánar fyrir um rafræna útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs, þar á meðal um gagnaöryggi, varðveislu gagna og persónuvernd.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með þessari lagabreytingu er verið að gera það að skyldu að Stjórnartíðindum og Lögbirtingablaði verði dreift á rafrænan hátt, að aðgengi að rafrænni útgáfu verði notendum að kostnaðarlausu og að allt sem birt er í þessum ritum skuli vera aðgengilegt á tölvutækan hátt á aðgengilegu og opnu gagnasniði á opinni gagnagátt.