Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 259  —  185. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum (stjórnsýsla við mannvirkjagerð o.fl.).

Frá umhverfis- og auðlindaráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „aðal- og séruppdrátta“ í 2. málsl. 5. tölul. kemur: aðaluppdrátta.
     b.      Í stað orðanna „4. mgr.“ í 11. tölul. kemur: 5. mgr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Við 2. málsl. 1. mgr. bætist: eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar.
     b.      3. málsl. 1. mgr. verður svohljóðandi: Fráveitumannvirki og dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta og breytingar á slíkum mannvirkjum eru undanþegin byggingarleyfi.

3. gr.

    Á eftir orðinu „byggingarleyfisumsókn“ í 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: og tilkynningu vegna minni háttar mannvirkjagerðar.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Aðal- og séruppdrættir“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: Aðaluppdrættir.
     b.      Í stað orðsins „iðnmeistara“ í 4. tölul. 1. mgr. kemur: húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara og rafvirkjameistara.
     c.      Í stað orðanna „4. mgr.“ í 6. tölul. 1. mgr. kemur: 5. mgr.
     d.      Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, 2. og 3. mgr., svohljóðandi:
                 Séruppdrætti og tilheyrandi greinargerðir skal yfirfara og uppdrættirnir áritaðir af leyfisveitanda til staðfestingar á samþykki áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst.
                 Undirritaðar yfirlýsingar um ábyrgð annarra iðnmeistara en þeirra sem tilgreindir eru í 4. tölul. 1. mgr. og nauðsynlegt er að komi að verkinu, sbr. 32. gr., skulu afhentar leyfisveitanda áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst. Ekki þarf þó að tilkynna um blikksmíðameistara, stálvirkjameistara, málarameistara eða veggfóðrarameistara vegna byggingar íbúðarhúss, frístundahúss, bílskúrs eða viðhalds og viðbyggingar slíkra mannvirkja til eigin nota eiganda.
     e.      1. málsl. 2. mgr. fellur brott.

5. gr.

    Í stað orðanna „4. mgr.“ í 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: 5. mgr.

6. gr.

    Á eftir orðinu „skoðunarstofur“ í 2. málsl. 2. mgr. 16. gr. laganna kemur: og byggingarstjórar.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. verður svohljóðandi: Leyfisveitanda er heimilt að beita úrtaksskoðun í stað alskoðunar samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
     b.      5. mgr. verður svohljóðandi:
                 Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með störfum hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara og gæðastjórnunarkerfum þeirra með því að fylgjast með frammistöðu þeirra í skoðunarskýrslum byggingareftirlits sem skráðar eru í gagnasafn stofnunarinnar sem og á grundvelli upplýsinga um störf þeirra sem berast Mannvirkjastofnun með öðrum hætti. Hafi hönnuðir, byggingarstjórar eða iðnmeistarar ekki hlotið vottun faggiltrar vottunarstofu á gæðastjórnunarkerfum sínum skal Mannvirkjastofnun gera úttekt á gerð og virkni kerfanna. Einnig skal Mannvirkjastofnun gera sérstaka úttekt á gerð og virkni gæðastjórnunarkerfa hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara ef ítrekað eru gerðar athugasemdir við störf þeirra í skoðunarskýrslum byggingareftirlits. Mannvirkjastofnun er heimilt að fela faggiltri skoðunarstofu að annast slíkar úttektir á gerð og virkni gæðastjórnunarkerfa. Komi í ljós við eftirlit Mannvirkjastofnunar að gæðastjórnunarkerfi uppfyllir ekki ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim skal gefa viðkomandi hönnuði, byggingarstjóra eða iðnmeistara kost á að bæta úr því nema um alvarlegt brot sé að ræða. Um alvarleg og ítrekuð brot fer samkvæmt ákvæðum 57. gr.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar verður svohljóðandi: Tilhögun ytra eftirlits með mannvirkjum.

8. gr.

    Í stað orðsins „úttektir“ í 1. málsl. 19. gr. laganna kemur: öryggis- og lokaúttektir.

9. gr.

    Í stað 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sveitarstjórn og Mannvirkjastofnun er heimilt að ákveða að skoðunarstofa annist yfirferð hönnunargagna og framkvæmd áfanga-, öryggis- og lokaúttekta. Slík skoðunarstofa skal hafa starfsleyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þriggja ára“ í b-lið 1. mgr. kemur: eins árs.
     b.      Í stað orðsins „sjö“ í c-lið 1. mgr. kemur: fimm.

11. gr.

    Á eftir 3. mgr. 23. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hönnuðir skulu fara yfir eigin verk að þeim loknum og ganga úr skugga um að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt áður en hönnunargögn eru afhent byggingaryfirvöldum til yfirferðar. Skrá skal niðurstöður innra eftirlits í gæðastjórnunarkerfi hönnuðar og skal gátlisti eða önnur staðfesting á eigin yfirferð fylgja hönnunargögnunum samkvæmt því sem nánar greinir í reglugerð.

12. gr.

    6. mgr. 29. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Byggingarstjóri skal gera eftirlitsaðila viðvart um lok úttektarskyldra verkþátta með skráningu í gagnasafn Mannvirkjastofnunar. Byggingarstjóri annast sjálfur framkvæmd áfangaúttekta nema eftirlitsaðili ákveði að annast áfangaúttekt sjálfur eða tilkynni um úrtaksskoðun og skal byggingarstjóri þá vera viðstaddur úttektina, sbr. einnig 34. gr. Hann skal jafnframt tilkynna viðeigandi iðnmeisturum og hönnuðum með sannanlegum hætti um allar úttektir nema samningur þeirra á milli kveði á um annað.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      1. mgr. verður svohljóðandi:
                 Byggingarstjóri skal í gæðastjórnunarkerfi sínu halda skrá yfir alla iðnmeistara sem koma að verkum sem hann stýrir og varðveita afrit af undirrituðum ábyrgðaryfirlýsingum þeirra. Skrá skal eftir umfangi mannvirkjagerðarinnar og eðli hennar þá húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara, rafvirkjameistara, blikksmíðameistara, stálvirkjameistara, málarameistara og veggfóðrarameistara sem tekið hafa að sér að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum framkvæmdar og nauðsynlegt er að komi að viðkomandi verki, og leggja fram undirritaða ábyrgðaryfirlýsingu þeirra, sbr. 4. tölul. 1. mgr. og 3. mgr. 13. gr.
     b.      Í stað orðanna „slíka löggildingu“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: löggildingu Mannvirkjastofnunar.
     c.      Á eftir orðunum „staðfestingu á hæfni iðnmeistara“ í 6. mgr. kemur: afrit af ábyrgðaryfirlýsingum.

14. gr.

    Í stað orðanna „tilkynna það útgefanda byggingarleyfis“ í 1. mgr. 33. gr. laganna kemur: skrá það í gagnasafn Mannvirkjastofnunar.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      Á undan orðinu „eftirlitsaðili“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: byggingarstjóri eða.
     b.      Í stað 2. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, 2.–4. mgr., svohljóðandi:
                 Byggingarstjóri mannvirkis skal fyrir hönd eiganda þess sjá til þess að áfangaúttektir fari fram og tilkynna eftirlitsaðila um lok úttektarskyldra verkþátta og fyrirhugaðar áfangaúttektir með skráningu í gagnasafn Mannvirkjastofnunar. Byggingarstjóri annast áfangaúttektir í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka og skoðunarlista.
                 Útgefandi byggingarleyfis getur þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. ákveðið að eftirlitsaðili, þ.e. byggingarfulltrúi, Mannvirkjastofnun eða eftir atvikum skoðunarstofa, annist áfangaúttektir skv. 2. mgr. Slík ákvörðun getur náð til allra áfangaúttekta vegna tiltekins mannvirkis eða einungis þeirra áfangaúttekta sem lenda í úrtaki í kjölfar tilkynningar byggingarstjóra um lok úttektarskylds verkþáttar. Áfangaúttekt eftirlitsaðila skal framkvæmd í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka og skoðunarlista og er heimilt að úttekt takmarkist hverju sinni við nánar tilgreint úrtak innan þess verkþáttar sem tekinn er út.
                 Byggingarstjóri skal skrá niðurstöður eigin áfangaúttekta í gagnasafn Mannvirkjastofnunar. Honum er skylt að vera viðstaddur allar áfangaúttektir. Ef sérstaklega stendur á, t.d. vegna veikinda, getur byggingarstjóri veitt aðila með starfsleyfi byggingarstjóra skýrt og afmarkað umboð til að mæta í eða annast tilteknar áfangaúttektir. Iðnmeistari eða sá sem hann tilnefnir í sinn stað skal vera viðstaddur úttekt á þeim verkþáttum sem eru á hans ábyrgðarsviði nema um annað sé samið í samningi milli iðnmeistara og eiganda.
     c.      4. mgr. fellur brott.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 60. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 2. tölul. bætist: eða tilkynningar skv. 1. mgr. 9. gr.
     b.      Við 6. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal setja nánari ákvæði um eftirlit Mannvirkjastofnunar með starfsemi skoðunarstofa.
     c.      2. og 3. málsl. 11. tölul. falla brott.
     d.      Við bætist nýr töluliður, 12. tölul., svohljóðandi, og breytist röð töluliða samkvæmt því: Nánari ákvæði um skoðunarhandbækur og skoðunarlista um yfirferð hönnunargagna og framkvæmd áfanga-, öryggis- og lokaúttekta. Heimilt er í skoðunarhandbók og skoðunarlista að kveða á um úrtaksskoðun í stað alskoðunar og mismunandi tilhögun eftirlits og viðbrögð eftirlitsaðila eftir gerð mannvirkis, áhættu og fyrri frammistöðu viðkomandi hönnuðar, byggingarstjóra eða iðnmeistara. Í skoðunarhandbók skal koma fram yfirlit yfir þá þætti sem eru til skoðunar, ákvæði um verklag við framkvæmd skoðunar, skoðunaraðferðir, gerð skoðunarskýrslu, flokkun athugasemda og áhrif athugasemda á afgreiðslu eftirlitsaðila og framsetningu niðurstöðu. Skoðunarhandbók skal vera hluti af gagnasafni Mannvirkjastofnunar og skal birt sem fylgiskjal við reglugerð. Skoðunarlistar ásamt stoðritum skulu birtir á vef Mannvirkjastofnunar auk þess sem þeir skulu vistaðir í gagnasafni stofnunarinnar. Í skoðunarlistum skulu nánar tilgreindir þeir þættir sem skoða skal, skoðunaraðferð, samanburðarskjöl, lýsing skoðunar, staðlaðar skýringar mats og vægi athugasemda. Skoðun skal takmarkast við þá þætti sem fram koma í skoðunarlista.

17. gr.

    A-liður 1. málsl. 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum verður svohljóðandi: frest til 1. janúar 2019 til að afla sér faggildingar til að yfirfara séruppdrætti og framkvæma öryggis- og lokaúttektir.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi að undanskildum ákvæðum 12. og 15. gr. sem taka gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er m.a. brugðist við yfirlýsingu ríkisstjórnar um ráðstafanir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga, dags. 28. maí 2015. Í yfirlýsingunni kom m.a. fram að markmiðið væri að lækka byggingarkostnað og einfalda stjórnsýslu við mannvirkjagerð. Jafnframt er með frumvarpi þessu brugðist við aðgerðaáætlun umhverfis- og auðlindaráðherra og ráðherra félagsmála í húsnæðismálum, en aðgerðahópur stjórnvalda í húsnæðismálum kynnti aðgerðaáætlun sína í júní 2017. Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshóp sem hafði það hlutverk að gera tillögur að breytingu á regluverki laganna þar sem umræddu markmiði yrði náð. Starfshópinn skipuðu Hafsteinn Pálsson, verkfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, William Freyr Huntingdon-Williams, lögfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Ingibjörg Halldórsdóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs Mannvirkjastofnunar, og Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Í vinnu starfshópsins við tillögur að breytingum á lögum nr. 160/2010, um mannvirki, var tekið mið af reynslu af framkvæmd laganna og af ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Megináhersla var lögð á einföldun stjórnsýslu vegna útgáfu byggingarleyfis og samþykktar byggingaráforma, einföldun eftirlits með iðnmeisturum og aukinn sveigjanleika, einföldun eftirlits á framkvæmdatíma, m.a. með því að innleiða í auknum mæli innra eftirlit í stað ytra eftirlits, svo og að skoða fyrirkomulag eftirlits með gæðakerfum, einföldun stjórnsýslu vegna hönnunargagna, einföldun á reglum um byggingarstjóra, tilnefningu umboðsmanns hans, möguleika á einföldun stjórnsýslu vegna minni háttar mannvirkjagerðar og gera almenna greiningu á framkvæmd regluverksins.
    Hinn 1. janúar 2015 tók gildi sú krafa laga um mannvirki að allir hönnuðir, byggingarstjórar og iðnmeistarar sem kæmu að byggingarleyfisskyldum framkvæmdum skyldu hafa gæðastjórnunarkerfi. Var markmiðið með kröfunni að tryggja öguð vinnubrögð þessara aðila. Innleiðing þessara breytinga hefur gengið vel og hefur meiri hluti starfandi hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara tilkynnt Mannvirkjastofnun um gæðastjórnunarkerfi sitt til skráningar í gagnasafn stofnunarinnar og fengið staðfestingu á að kerfi þeirra uppfylli settar kröfur. Innifalin í kröfunni um gæðastjórnunarkerfi er m.a. krafa um innra eftirlit og yfirferð eigin verka. Þá hafa byggingarstjórar í auknum mæli gert samning við byggingarfulltrúa um heimildir til eigin úttekta og er góð reynsla af slíku fyrirkomulagi. Innleiðing skoðunarhandbóka við eftirlit var einnig nýmæli í lögum um mannvirki sem tóku gildi 1. janúar 2015. Er þeim ætlað að stuðla að samræmdum aðferðum við framkvæmd skoðana. Þá hefur verið unnið að gerð gagnasafns Mannvirkjastofnunar sem felur m.a. í sér að tekin verði upp rafræn skráning eftirlits í auknum mæli sem veitir mun betri yfirsýn en áður og möguleika á að fylgjast með frammistöðu einstakra aðila. Með framangreindum breytingum skapast svigrúm til að ganga enn lengra í einföldun og meiri gæðum eftirlits. Með aukinni áherslu á innra eftirlit er unnt að draga úr ytra eftirliti opinberra eftirlitsaðila með tilheyrandi sparnaði. Eftirlitið verður áhættumiðaðra og þeir sem standa sig vel eru verðlaunaðir með minni afskiptum hins opinbera og þar af leiðandi minni eftirlitskostnaði. Reynslan sýnir að eftirlitsaðferðir þar sem lögð er áhersla á eigið eftirlit og umfang eftirlits ræðst af frammistöðu leiða til aukinnar ábyrgðarkenndar þeirra sem sæta eftirlitinu og minni líkur eru á frávikum. Góð reynsla er af hliðstæðum breytingum á eftirlitsaðferðum á sviði rafmagnseftirlits hér á landi. Þykir því rétt að stíga skref í þessa átt nú og miða tillögur frumvarpsins að því. Þá er einnig lögð áhersla á áframhaldandi þróun leiðbeininga, m.a. um ferli við samþykkt byggingaráforma. Starfshópurinn telur að ekki sé þörf á lagabreytingu að svo stöddu þar sem ætla verður að venjubundin framkvæmd hafi nægilega lagastoð varðandi svör við fyrirspurnum, m.a. um það hvort áform séu í samræmi við skipulag.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Líkt og fram kemur í 1. kafla var ástæða þessarar endurskoðunar laga um mannvirki yfirlýsing ríkisstjórnar frá 28. maí 2015 um ráðstafanir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga, dags. 28. maí 2015, og aðgerðaáætlun stjórnvalda í húsnæðismálum, dags. 2. júní 2017. Þar kom m.a. fram að markmiðið væri að lækka byggingarkostnað og einfalda stjórnsýslu við mannvirkjagerð. Við endurskoðunina var ákveðið að taka mið af reynslu af framkvæmd laganna og af ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpi þessu er að finna ýmis nýmæli og breytingar á lögum um mannvirki sem hafa það að markmiði að lækka byggingarkostnað og einfalda stjórnsýslu við mannvirkjagerð. Auk þess eru lagðar til nokkrar breytingar í þeim tilgangi að skerpa á eða skýra frekar tiltekin ákvæði laganna.
    Í fyrsta lagi er lagt til að lagastoð verði treyst frekar vegna minni háttar framkvæmda sem eru tilkynningarskyldar samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012.
    Lögð er til sú breyting í frumvarpinu að ekki sé gerð krafa um að allir séruppdrættir vegna mannvirkjagerðar liggi fyrir við útgáfu byggingarleyfis eða að ábyrgðaryfirlýsing stálvirkjameistara, blikksmíðameistara, málarameistara og veggfóðrarameistara þurfi að liggja fyrir við útgáfu byggingarleyfis.
    Mælt er fyrir um að Mannvirkjastofnun hafi eftirlit með störfum hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara og gæðastjórnunarkerfum þeirra á grundvelli niðurstaðna skoðunarskýrslna vegna eftirlits með mannvirkjagerð.
    Aukin áhersla er lögð á innra eftirlit hönnuða og skráningu niðurstaðna eftirlits í gæðastjórnunarkerfi og einnig er aukin áhersla lögð á gæðastjórnun og ábyrgð byggingarstjóra.
    Lagt er til að meginreglan verði sú, frá og með 1. janúar 2019, að byggingarstjóri annist áfangaúttektir í stað leyfisveitanda og að úrtaksskoðanir verði framkvæmdar af byggingarfulltrúa, Mannvirkjastofnun eða skoðunarstofu. Einnig er lagt til að byggingarstjóri geti í sérstökum tilvikum veitt öðrum umboð til að mæta í eða annast tilteknar áfangaúttektir.
    Lagt er til að leyfisveitanda verði heimilt við eftirlitsstörf sín að beita úrtaksskoðun í stað alskoðunar.
    Að lokum er lagt til að krafa um faggildingu vegna áfangaúttekta verði felld niður í ljósi þess að byggingarstjórum er falið það verkefni að meginstefnu til og aðkoma leyfisveitenda er aðeins þegar um úrtaksskoðanir er að ræða til að halda uppi ytra eftirliti með verkum byggingarstjóra eða þegar hann ákveður að annast allar áfangaúttektir á tilteknu verki.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá né alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst hagsmuni framkvæmdaraðila við mannvirkjagerð og aðila sem starfa að framkvæmd mannvirkjamála.
    Starfshópurinn fékk á fund sinn í upphafi árs 2017 ýmsa aðila sem starfa að framkvæmd mannvirkjamála til samráðs og kynningar, en í þeim hópi voru fulltrúar frá Arkitektafélagi Íslands, Byggingafræðingafélagi Íslands, Félagi byggingarfulltrúa, Samtökum iðnaðarins og Verkfræðingafélagi Íslands.
    Óskað var eftir athugasemdum við efni frumvarpsins með almennri kynningu og auglýsingu sem birtist m.a. á vef ráðuneytisins í lok sumars 2017. Ráðuneytinu bárust athugasemdir frá ýmsum byggingarfulltrúaembættum, fagfélögum, samtökum sem og einkaaðilum á sviði mannvirkjagerðar. Flestar athugasemdir fjölluðu um málefni sem að mati ráðuneytisins heyrir frekar undir byggingarreglugerð. Auk athugasemda voru gerðar ýmsar tillögur að frekari breytingum á lögunum, en umræddar tillögur voru aðrar en þær afmörkuðu breytingar sem að er stefnt að sinni. Þá fékk Mannvirkjastofnun framangreindar athugasemdir til umsagnar. Vert er að taka fram að gerð var efnisleg breyting í framhaldi af yfirferð umsagna er bárust, en fallið var frá því að fella úr gildi löggildingarkröfu iðnmeistara.

6. Mat á áhrifum.
    Meginákvæði frumvarpsins lúta að því að einfalda stjórnsýslu við mannvirkjagerð og lækka byggingarkostnað. Þannig er mælt fyrir um að skerpt verði á eftirliti Mannvirkjastofnunar með hönnuðum, byggingarstjórum og iðnmeisturum. Leyfisveitanda er heimilt samkvæmt frumvarpinu að beita úrtaksskoðun í stað alskoðunar. Mannvirkjastofnun mun með kerfisbundinni framkvæmd og skráningu byggingareftirlits fá samræmdar upplýsingar um vinnubrögð einstakra aðila og getur því gripið fljótt til aðgerða gagnvart þeim sem ítrekað fá alvarlegar athugasemdir. Aukin áhersla er einnig lögð á innra eftirlit hönnuða og skráningu niðurstaðna innra eftirlits í gæðastjórnunarkerfi. Umfang eftirlits mun minnka bæði hjá Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúum um leið og ábyrgð hönnuða og byggingarstjóra eykst. Gert er ráð fyrir að með þessum breyttu starfsaðferðum geti kostnaður byggingarfulltrúa lækkað. Mannvirkjastofnun getur meðan á innleiðingu nýrra verkferla stendur orðið fyrir nokkurri útgjaldaaukningu en ætlað er að hún rúmist innan fjárheimilda stofnunarinnar. Til lengri tíma litið gæti kostnaður stofnunarinnar vegna þessa lækkað. Því er ekki gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi kostnaðaráhrif á ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-lið er lagt til að horfið verði frá þeirri kröfu að allir séruppdrættir þurfi að liggja fyrir áður en byggingarleyfi er gefið út en sú krafa var nýmæli í lögum nr. 160/2010. Lagt er til að einungis sé skylt að leggja fram aðaluppdrætti fyrir útgáfu byggingarleyfis. Áfram er þó skilyrði að ljúka þarf allri hönnun áður en framkvæmt er, sem þýðir að ekki má hefja framkvæmdir við verkþátt fyrr en séruppdrættir sem að honum snúa hafa verið lagðir fram hjá leyfisveitanda og þeir áritaðir um samþykki. Þetta er sama fyrirkomulag og var við lýði í gildistíð eldri skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Tilgangur breytingarinnar er að veita aukinn sveigjanleika og koma í veg fyrir óþarfa tafir við upphaf framkvæmda. Gert er ráð fyrir að þessi breyting sé til þess fallin að lækka byggingarkostnað í einhverjum tilvikum.
    Í b-lið er tilvísun uppfærð til samræmis við 11. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Markmið a-liðar er að styðja við núgildandi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 varðandi tilkynningarskyldar framkvæmdir.
    B-liður greinarinnar felur í sér breytta röðun orða en ekki neina efnislega breytingu.

Um 3. gr.

    Markmið greinarinnar er að styðja við núgildandi regluverk varðandi tilkynningarskyldar framkvæmdir.

Um 4. gr.

    Í a-lið er lögð til breyting til samræmis við 1. gr. frumvarpsins, sbr. skýringar við þá grein.
    Í b-lið er lögð til breyting sem felur í sér færri ábyrgðaryfirlýsingar iðnmeistara í upphafi verks. Með breytingunni verður þess eingöngu krafist að lagðar verði fram undirritaðar ábyrgðaryfirlýsingar húsasmíðameistara, pípulagningameistara, múrarameistara og rafvirkjameistara þegar sótt er um byggingarleyfi. Tilgangurinn er að takmarka skráningu við þá iðnmeistara sem þörf er á við upphaf mikils meiri hluta byggingarskyldra framkvæmda og með það að markmiði að draga úr kostnaði framkvæmdaraðila við upphaf verks. Þá er einnig verið að bregðast við ábendingum þess efnis að iðnmeistarar séu stundum skráðir ábyrgir fyrir verki til málamynda og komi í reynd ekki að framkvæmdunum, heldur séu nýir iðnmeistarar skráðir seinna á verkið með tilheyrandi kostnaði. Markmiðið er því að styðja við skilvirka stjórnsýslu, koma í veg fyrir tvíverknað og draga úr byggingarkostnaði. Ávallt er þörf á að þeir iðnmeistarar sem nauðsynlegt er að komi að verki undirriti og leggi fram ábyrgðaryfirlýsingu áður en verkþættir er krefjast fagþekkingar þeirra eru framkvæmdir.
    Í c-lið er tilvísun uppfærð til samræmis við 11. gr. frumvarpsins.
    Í d-lið er áréttuð sú skylda að séruppdrættir hafi verið lagðir fram og áritaðir af leyfisveitanda áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst. Sama gildir um ábyrgðaryfirlýsingu hlutaðeigandi iðnmeistara og má því ekki hefja vinnu við verkþátt fyrr en hún hefur verið afhent leyfisveitanda.
    Í e-lið er lagt til að ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna falli brott þar sem gert er ráð fyrir því að eingöngu þurfi að leggja fram aðaluppdrætti þegar sótt er um byggingarleyfi. Ekki verður þó heimilt að hefja framkvæmdir við einstaka verkþætti fyrr en séruppdrættir hafa verið samþykktir vegna þeirra, sbr. 1. gr. frumvarpsins og a-lið þessarar frumvarpsgreinar.

Um 5. gr.

    Hér er tilvísun uppfærð til samræmis við 11. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Greinin felur í sér nýmæli í ljósi nýs ábyrgðarhlutverks byggingarstjóra við framkvæmd áfangaúttekta, sbr. 15. gr. frumvarpsins. Með breytingunni mun leyfisveitandi m.a. hafa eftirlit með að úttektir sem byggingarstjórar annast fari fram og beitir þvingunarúrræðum í samræmi við ákvæði laganna ef fyrirmælum um úrbætur er ekki sinnt eða vanrækt er að láta lögbundna úttekt fara fram.

Um 7. gr.

    Í a-lið greinarinnar kemur fram heimild leyfisveitanda til að beita úrtaksskoðun í stað alskoðunar, með tilliti til nánari ákvæða í reglugerð. Í þessu felst aukin heimild leyfisveitanda til þess að haga eftirliti eftir þörfum. Samhliða ábyrgð byggingarstjóra á áfangaúttektum, sbr. 15. gr. frumvarpsins, er talin þörf á því að heimila úrtaksskoðanir af hálfu leyfisveitanda, en í úrtaksskoðun felst skoðun á tilteknum verkþáttum sem eftir sem áður falla undir áfangaúttektir.
    Í b-lið er skerpt á ákvæðum um eftirlitshlutverk Mannvirkjastofnunar með hönnuðum, byggingarstjórum og iðnmeisturum án þess að um efnisbreytingu sé að ræða. Samkvæmt gildandi lögum hafa byggingarfulltrúar eftirlit með mannvirkjagerðinni sjálfri en Mannvirkjastofnun með hönnuðum, byggingarstjórum og iðnmeisturum. Stofnunin gefur út löggildingu og starfsleyfi þessara aðila, gerir úttekt á gæðastjórnunarkerfum þeirra og getur svipt þá löggildingu eða starfsleyfi ef þeir brjóta af sér. Mannvirkjastofnun hefur ekki bein afskipti af hönnuðum, byggingarstjórum og iðnmeisturum í daglegum störfum þeirra heldur fær upplýsingar um þau í gegnum eftirlit byggingarfulltrúanna. Í gildandi byggingarreglugerð er gert ráð fyrir að byggingarfulltrúar tilkynni stofnuninni um þá aðila sem brjóta af sér, en reynslan sýnir að það er ekki gert nema í undantekningartilvikum. Með kerfisbundinni framkvæmd og skráningu byggingareftirlits í gagnasafn Mannvirkjastofnunar á grundvelli skoðunarhandbóka fær stofnunin beinar og samræmdar upplýsingar um vinnubrögð einstakra aðila. Í skoðunarhandbókum og gagnasafninu verða athugasemdir flokkaðar eftir alvarleika og getur stofnunin þá gripið til aðgerða gagnvart þeim sem fá ítrekað alvarlegar athugasemdir. Í fyrstu snýr eftirlitið einkum að því að krefjast úrbóta á gæðastjórnunarkerfi hins brotlega enda benda ítrekuð frávik til þess að einhverju sé áfátt í innra eftirliti viðkomandi aðila og yfirferð eigin verka. Ef þær aðgerðir duga ekki til getur stofnunin veitt áminningu eða svipt aðila löggildingu í samræmi við ákvæði 57. gr. eins og verið hefur. Þetta er sama fyrirkomulag og verið hefur við lýði á sviði rafmagnseftirlits og gefist vel.
    Í c-lið greinarinnar er aðeins kveðið á um breytt heiti greinarinnar og þarfnast liðurinn því ekki tiltekinnar skýringar.

Um 8. gr.

    Í greininni felst sú breyting að öryggis- og lokaúttektir eru sérstaklega tilteknar í stað almennrar tilvísunar í úttektir. Ástæða þess er sú breyting sem er lögð til í 12. gr. frumvarpsins og felst í því að meginábyrgð á áfangaúttektum er færð til byggingarstjóra. Ekki er gert ráð fyrir að Mannvirkjastofnun eða byggingarfulltrúar þurfi faggildingu til að annast þær áfangaúttektir sem lenda í úrtaki og þessir opinberu aðilar annast sjálfir. Áfram þurfa skoðunarstofur ávallt faggildingu til að taka að sér opinber verkefni, þ.m.t. framkvæmd áfangaúttekta, sbr. 19. gr. laganna og 9. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Um er að ræða orðalagsbreytingu til skýringar á þeim eftirlitsþáttum sem skoðunarstofur taka að sér fyrir hönd sveitarstjórnar og Mannvirkjastofnun ber ábyrgð á.

Um 10. gr.

    Með greininni er lagt til að dregið verði úr kröfum um lágmarksstarfsreynslu skoðunarmanna II og III að lokinni löggildingu. Með þessu er brugðist við ábendingum þess efnis að kröfur varðandi starfsreynslu séu í reynd fullmiklar og geti eftir atvikum orðið til þess að erfitt reynist að finna viðeigandi skoðunarmann. Rétt þykir að draga úr kröfum um lágmarksstarfsreynslu, m.a. með tilliti til þess að umræddir aðilar hafi þegar hlotið löggildingu sem felur einnig í sér kröfur um starfsreynslu.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að bætt verði við nýrri málsgrein í 23. gr. laganna um framkvæmd innra eftirlits hönnuða og skyldur þeirra við yfirferð eigin verka. Með greininni er mikilvægi innra eftirlits og gæðastjórnunarkerfa hönnuða áréttað og skýrt kveðið á um skyldu þeirra til að ganga úr skugga um að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt áður en hönnunargögn eru afhent byggingaryfirvöldum til yfirferðar. Markmiðið er einnig að stuðla að skilvirkri stjórnsýslu við yfirferð hönnunargagna.

Um 12. gr.

    Í greininni er kveðið á um að byggingarstjóri skuli gera eftirlitsaðila viðvart um lok úttektarskyldra verkþátta með skráningu í gagnasafn Mannvirkjastofnunar. Greinin felur einnig í sér þá breytingu að meginreglan verði sú að byggingarstjóri beri ábyrgð á framkvæmd áfangaúttekta nema ef eftirlitsaðili tilkynnir um úrtaksskoðun. Í 15. gr. frumvarpsins er jafnframt gert ráð fyrir að útgefandi byggingarleyfis geti ákveðið að hann sjálfur eða skoðunarstofa annist tilteknar áfangaúttektir, sjá nánar skýringar við 15. gr. Tilgangurinn með 12. gr. frumvarpsins er að einfalda stjórnsýsluna með aukinni áherslu á innra eftirlit byggingarstjóra, enn fremur að skýra frekar hlutverk og skerpa á ábyrgð byggingarstjórans þar sem áhersla er lögð á fagleg vinnubrögð í ljósi aðkomu hans og tilgangs.

Um 13. gr.

    Markmiðið með a-lið greinarinnar er að draga úr opinberri stjórnsýslu með því að auka og treysta á hlutverk byggingarstjóra. Efni og inntak þessa liðar tengist beint 7. gr. frumvarpsins. Í þessu felst ábyrgð byggingarstjórans til að halda skrá í gæðastjórnunarkerfi sínu yfir þá iðnmeistara sem að verkinu koma.
    Í b-lið greinarinnar er um orðalagsbreytingu að ræða til skýringar.
    Í c-lið er tiltekið að iðnmeistarar skulu halda utan um ábyrgðaryfirlýsingar sínar í gæðastjórnunarkerfi til samræmis við a-lið greinarinnar.

Um 14. gr.

    Greinin fjallar um framkvæmd iðnmeistaraskipta og er ætlað að draga úr opinberri stjórnsýslu. Í stað þess að tilkynna leyfisveitanda sérstaklega um iðnmeistaraskipti er lagt til að byggingarstjóri skrái slík skipti í gagnasafn Mannvirkjastofnunar, sem leyfisveitandi hefur aðgang að.

Um 15. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á 34. gr. laganna, sem fjallar um áfangaúttektir. Tilgangurinn er að auka ábyrgð byggingarstjóra á framkvæmd áfangaúttekta með áherslu á innra eftirlit hans, sem leiðir til einfaldari stjórnsýslu.
    Í a-lið er sú breyting lögð til að byggingarstjóri bætist við sem aðili sem framkvæmir áfangaúttektir auk eftirlitsaðila.
    Í b-lið er lagt til að meginreglan verði sú að byggingarstjóri annist framkvæmd áfangaúttekta og er þar með skerpt á ábyrgð hans sem fulltrúa eiganda við mannvirkjagerð. Þá er kveðið á um heimild leyfisveitanda til að láta eftirlitsaðila framkvæma áfangaúttekt. Þannig hafi leyfisveitandi beina aðkomu að áfangaúttektum vegna tiltekins mannvirkis ef þörf þykir á. Í slíkum tilvikum er honum heimilt að nýta þjónustu skoðunarstofa. Að lokum er lagt til að þegar sérstaklega stendur á er byggingarstjóra heimilt að tilkynna um umboðsmann til þess að annast, eða eftir atvikum mæta í, áfangaúttektir fyrir hans hönd. Þannig sé reynt að koma í veg fyrir stöðvun eða tafir á framkvæmdartíma, t.d. vegna veikinda.
    Í c-lið er 4. mgr. 34. gr. felld brott enda færist ábyrgð og framkvæmd áfangaúttekta að mestu leyti til byggingarstjórans. Því er ekki þörf á sértækri heimild fyrir hann til að framkvæma áfangaúttektir.

Um 16. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á 60. gr. laganna, sem fjallar um setningu reglugerða.
    Í a-lið er verið að styðja við núgildandi regluverk varðandi tilkynningarskyldar framkvæmdir. Með breytingunni skal kveða á um í reglugerð um hönnunargögn, byggingarlýsingar, skýrslur um innra og ytra eftirlit, greinargerðir og önnur gögn sem skila þarf vegna umsóknar um tilkynningarskyldar framkvæmdir, líkt og með almenn byggingarleyfi.
    Samkvæmt 6. tölul. 60. gr. laga um mannvirki setur ráðherra m.a. reglugerð um skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis til handa faggiltri skoðunarstofu, gildistíma starfsleyfis, starfsemi skoðunarstofu, hæfi skoðunarmanna o.fl. Ástæða þykir til að skýrt sé að ráðherra hafi heimild til að setja í reglugerð ákvæði um eftirlit Mannvirkjastofnunar með starfsemi skoðunarstofa. Er sú breyting því lögð til í b-lið 16. gr. frumvarpsins.
    Í d-lið, sem er nýmæli, er að finna ákvæði sem tekur m.a. til þess sem er fellt brott í c-lið.
    Í d-lið eru sett fram með ítarlegri hætti en áður fyrirmæli um nánari ákvæði í reglugerð um skoðunarhandbækur og skoðunarlista um yfirferð hönnunargagna og framkvæmd áfanga-, öryggis- og lokaúttekta.

Um 17. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á ákvæði laganna til bráðabirgða hvað varðar úttektir sem þurfa faggildingu. Í greininni er tiltekið að eingöngu öryggis- og lokaúttektir heyra undir faggildingarkröfu laganna, en krafan um faggildingu vegna áfangaúttekta er felld niður í ljósi þess að byggingarstjórum er falið það verkefni að meginstefnu til og aðkoma leyfisveitenda er aðeins þegar um úrtaksskoðanir er að ræða til að halda uppi ytra eftirliti með verkum byggingarstjóra eða þegar hann ákveður að annast allar áfangaúttektir á tilteknu verki. Að öðru leyti er vísað til þess sem segir framar í greinargerðinni.

Um 18. gr.

    Lagt er til að lögin taki þegar gildi að undanskildum ákvæðum 12. og 15. gr. um aukið hlutverk byggingarstjóra. Lagt er til að þau ákvæði taki gildi 1. janúar 2019. Sú breyting kallar á að komin verði reynsla af notkun á rafrænu gagnasafni Mannvirkjastofnunar auk þess sem þörf er á að kynna vel og undirbúa innleiðingu umræddra lagabreytinga.