Ferill 192. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 266  —  192. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um lágskattaríki.

Flm.: Smári McCarthy, Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Jón Þór Ólafsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja á 149. löggjafarþingi fyrir Alþingi frumvarp þar sem:
     1.      skilgreining á lágskattaríki verði víkkuð út þannig að hún taki til ríkja og lögsagnarumdæma sem veita íslenskum stjórnvöldum að staðaldri ekki upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir framkvæmd skattalöggjafar,
     2.      ráðherra verði falið að birta leiðbeinandi lista yfir ríki og lögsagnarumdæmi sem líkleg eru til að teljast lágskattaríki,
     3.      kveðið verði á um tilkynningarskyldu til skattyfirvalda um beina og óbeina eignarhlutdeild í lögaðilum í lágskattaríkjum, og
     4.      mælt verði fyrir um greiðslu eftirlitsgjalds í ríkissjóð vegna beinnar og óbeinnar eignarhlutdeildar í lögaðilum í lágskattaríkjum.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var flutt á 147. löggjafarþingi (120. mál) en var ekki afgreidd og er hún því endurflutt óbreytt.
    Með tillögunni er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp með tilgreindum breytingum á lagareglum um lágskattaríki. Í fyrsta lagi er lagt til að skilgreining á lágskattaríki verði víkkuð út þannig að hún verði ekki bundin við svæði þar sem tekjuskattur af hagnaði aðila er lægri en tveir þriðju hlutar þess skatts sem hefði verið lagður á hér, sbr. gildandi 2. mgr. 57. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, heldur taki einnig til svæða sem að staðaldri veita íslenskum stjórnvöldum ekki nauðsynlegar upplýsingar fyrir framkvæmd skattalöggjafar. Skattaskjól eru oft nýtt í þágu svokallaðs „skattalegs hagræðis“, en ekki síður til að fela eignir og tekjur. Eðlilegt er að skilgreining á lágskattaríki, og þau réttaráhrif sem við hana eru bundin, nái einnig til skattaskjóla sem nýtt eru í slíkum tilgangi.
    Í öðru lagi er lagt til að ráðherra birti leiðbeinandi lista yfir ríki og lögsagnarumdæmi sem líkleg eru til að falla undir skilgreiningu á lágskattaríki. Áður var kveðið á um það í 7. mgr. 57. gr. a laga um tekjuskatt að ráðherra birti lista yfir lönd og svæði sem skattlagning samkvæmt greininni tæki til. Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti slíkan lista í desember 2010 en „með þeim fyrirvara að hann [teldist] hvorki bindandi né tæmandi talinn þar sem endanlegt skatthlutfall þeirra félaga, sjóða eða stofnana sem [hefðu] þar skattalega heimilisfesti, [lægi] ekki fyrir nema eftir nákvæma yfirferð skattyfirvalda“. Fyrirmælin voru felld brott með lögum nr. 45/2013 með vísan til þess að listinn gæti ekki orðið bindandi eða tæmandi þar sem endanlegt skatthlutfall aðila lægi ekki fyrir fyrr en eftir yfirferð skattyfirvalda. Með tilliti til þessa er hér ekki lagt til að ráðherra birti endanlegan lista yfir lágskattaríki. Ljóst er þó að sum svæði eru öllu líklegri en önnur til að falla að skilgreiningunni og gagnlegt er fyrir skattaðila og almenning að hafa upplýsingar um hver þau eru. Því er lagt til að ráðherra birti leiðbeinandi lista um þau.
    Í þriðja lagi er lagt til að skattyfirvöldum skuli tilkynnt um beina og óbeina eignarhlutdeild í lögaðilum í lágskattaríkjum. Í 1. mgr. 90. gr. laga um tekjuskatt segir að í skattframtali skuli greina frá þeim atriðum sem máli skipta við skattálagningu, þar á meðal eignum, og eigendum lögaðila í lágskattaríkjum ber að skila með skattframtali sérstakri skýrslu eiganda í lögaðila á lágskattasvæði. Í skattframtali er þó aðeins greint frá eignum í árslok. Með því að mæla fyrir um tilkynningarskyldu um beina og óbeina eignarhlutdeild í lögaðilum í lágskattaríki verður skattyfirvöldum auðveldað að gera sér grein fyrir stöðunni hverju sinni. Það ætti að auðvelda skatteftirlit sem er sérstaklega þýðingarmikið þegar kemur að lágskattaríkjum.
    Í fjórða lagi er lagt til að greiða skuli sérstakt eftirlitsgjald í ríkissjóð vegna beinnar og óbeinnar eignarhlutdeildar í lögaðilum í lágskattaríkjum. Slíkri eignarhlutdeild fylgir óhjákvæmileg þörf á miklu og flóknu skatteftirliti. Eðlilegra er að viðkomandi aðilar standi undir kostnaði vegna þess en almennir skattgreiðendur.