Ferill 70. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 267  —  70. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um samkeppni með landbúnaðarvörur.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig hafa stjórnvöld brugðist við skýrslu Samkeppniseftirlitsins „Leiðbeining um samkeppni á dagvörumarkaði“ að því er varðar leiðbeiningar um aðgerðir í landbúnaði í 12 liðum til að efla samkeppni með landbúnaðarvörur og tryggja betur hagsmuni neytenda?
     2.      Ef ekki hefur nú þegar verið brugðist við tilmælum sem koma fram í skýrslunni, hyggjast stjórnvöld gera það og þá hvernig?
     3.      Hafi ekki verið brugðist við einhverjum framangreindra tilmæla og sé ekki á stefnuskrá stjórnvalda að gera það, hvaða rökstuðningur liggur að baki þeirri ákvörðun?


    Umrædd skýrsla Samkeppniseftirlitsins, Leiðbeining um samkeppni á dagvörumarkaði -Staða samkeppninnar 2015, var birt 10. mars 2015. Ekki er vitað til þess að stjórnvöld hafi frá þeim tíma tekið skýrsluna til sérstakrar skoðunar eða beitt sér fyrir þeim breytingum sem þar eru lagðar til. Við endurskoðun búvörusamninga á árinu 2018 munu þær ábendingar skýrslunnar koma til umfjöllunar.
    Í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 102/2016, um breytingu á búvörulögum o.fl., er kveðið á um að stofnaður verði samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skuli aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skuli henni lokið eigi síðar en árið 2019.
    Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar Alþingis um frumvarp það er varð að fyrrgreindum lögum kemur fram að nauðsynlegt þyki að við endurskoðun búvörusamninganna árið 2019 verði rýnt í markmið samninganna og laganna, metið hvernig til hafi tekist og eftir atvikum lagðar til breytingar með hliðsjón af því. Var lögð áhersla á að við endurskoðunina yrði nýju fyrirkomulagi fylgt sem miðaði að því að minnka sveiflur og óvissu og færa aðferðafræði og ferla stefnumörkunar í fastara form. Jafnframt þótti þörf á breiðari samstöðu um starfsskilyrði í landbúnaði og því nauðsynlegt að fleiri aðilar hefðu tækifæri til að koma að þróun landbúnaðarstefnunnar. Tiltekið var að við endurskoðunina skyldi einna helst horft til markmiða samninganna, sérstöðu landbúnaðarins hvað varðar samkeppnishæfni, loftlags- og umhverfismála, upplýsingagjafar til neytenda, upprunamerkinga, tengsl atvinnuvega, samkeppnismála og starfsumhverfis og afkomu bænda. Af framangreindu er ljóst að hluti þeirra ábendinga sem fram koma í umræddri skýrslu Samkeppniseftirlitsins verða teknar til skoðunar á vettvangi samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga. Þær ábendingar sem eftir standa verða teknar til skoðunar í ráðuneytinu.
    Enn fremur er bent á að í september 2015 var áritaður samningur á milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Um er að ræða viðamikinn samning um afnám og/eða lækkun tolla auk þess sem bættur er markaðsaðgangur fyrir ýmsar (viðkvæmar) vörur í formi stækkaðra tollkvóta. Samningur þessi tekur gildi 1. maí nk.
    Að öðru leyti en fyrr greinir er vísað til stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.