Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 268  —  73. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um samkeppni í mjólkuriðnaði og stuðning við hann.


     1.      Var lagt mat á væntanleg áhrif á samkeppni á dagvörumarkaði áður en lög nr. 85/2004, um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, voru sett og mjólkuriðnaði veittar margvíslegar undanþágur frá samkeppnislögum?
    Með frumvarpi til breytinga á lögum nr. 99/1993 var stefnt að því að eyða þeirri réttaróvissu sem skapast hafði um það að gildandi búvörulög tryggðu ekki með nægjanlegri vissu að samráð, samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaði væri undanskilið gildissviði samkeppnislaga í samræmi við ætlun löggjafans. Mikill fjárhagsvandi hafði einkennt flest svið landbúnaðar og var slíkur vandi ekki einskorðaður við Ísland því að svipuð fjárhagsvandræði steðjuðu að bændum í nágrannalöndum okkar og víða um heim. Á Íslandi hafði mikið verið fjallað um orsakir vandans og ýmislegt nefnt í því sambandi en einkum þó:
          að þróun smásöluverðs landbúnaðarafurða færi hækkandi þrátt fyrir lækkandi afurðaverð til bænda og
          að óheft samkeppni við sölu landbúnaðarafurða, miðað við þáverandi markaðsaðstæður, tryggði hvorki sanngjarnt verð til framleiðenda né neytenda.
    Í ljósi þessa var það almennt álit framleiðenda að almenn hagfræðileg rök um að samkeppni í viðskiptum efldu hagvöxt þyrftu að víkja fyrir markmiðum búvörulaga og sérstöðu landbúnaðarins, enda gæti það fyrirkomulag einnig orðið neytendum og þjóðfélaginu í heild til góða, til lengri tíma litið. Bent er á að markmið búvörulaga voru (og eru enn) m.a. að vernda byggðastefnu og tryggja að landbúnaðarvörur, sérstaklega ferskar mjólkurafurðir, sem eru dagvörur, yrðu í boði á viðráðanlegu verði fyrir alla landsmenn. Grundvöllur þess þótti vera að verðlagning ferskra mjólkurafurða hefði bein áhrif á útgjöld nær allra heimila í landinu og því var talið nauðsynlegt að tryggja ákveðið hámarksheildsöluverð á þeim til allra smásala, óháð staðsetningu á landinu.
    Skorað hafði verið á þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra að taka samkeppnislögin til endurskoðunar með tilliti til sérstöðu íslenskrar búvöruframleiðslu. Sú leið var hins vegar ekki talin heppileg, m.a. á grundvelli þess að samkeppnislögin væru almenn lög. Til þess að kanna tengsl laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (búvörulaga), nr. 99/1993, og samkeppnislaga fól þáverandi landbúnaðarráðherra þeim Árna Vilhjálmssyni hæstaréttarlögmanni og Eiríki Tómassyni prófessor að skrifa álitsgerð um efnið og gera tillögur til breytinga á búvörulögum. Sérstaklega var þeim falið að leggja mat á hvernig hægt væri að tryggja virka samkeppni í framleiðslu og sölu búvara án þess að hagsmunir bænda og íslensks landbúnaðar væru fyrir borð bornir. Vísað er til álitsgerðar ofangreindra aðila um samkeppnisumhverfi í landbúnaði og stöðu búvöruframleiðslu gagnvart samkeppnislögum frá apríl 2004.
    Í megindráttum var það niðurstaða endurskoðunar á búvörulögum að í ljósi skuldbindandi samninga ríkisins við framleiðendur um styrki og að teknu tilliti til markaðsaðstæðna gæti verið nauðsynlegt að lögfesta skýr ákvæði í búvörulög sem undanskildu ákveðna þætti verðmyndunar á heildsöluverði gildissviðs samkeppnislaga. Hins vegar þótti ljóst með hliðsjón af auknum alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins um lækkun tolla og styrkja til landbúnaðar, m.a. innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), að samkeppni á innanlandsmarkaði mundi harðna mikið í náinni framtíð.
    Í frumvarpinu var því fylgt landbúnaðarstefnu búvörulaga eins og hún kemur fram í 1. gr. þeirra. Birtust þar glögglega markmið um að tryggja jöfnuð á milli framleiðenda og viðunandi kjör bænda. Jafnframt kom þar fram sú stefna löggjafans að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar yrði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggði ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu.
    Í 51. gr. búvörulaga er sérstaklega vikið að markmiðum X. kafla laganna sem fjallaði á þeim tíma um framleiðslu og greiðslumark mjólkur á árunum 1998–2005. Samkvæmt greininni voru markmiðin m.a. að skapa rekstrarumhverfi fyrir framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða sem leiddi af sér aukna hagkvæmni, bætta afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu og jafnframt að viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefði milli framleiðslu og eftirspurnar. Í samræmi við framangreind sjónarmið var í frumvarpinu miðað við að ákveðnum greinum búvörulaganna yrði breytt til þess að gera afurðastöðvum í mjólkuriðnaði kleift að mæta harðnandi samkeppni erlendis frá þar sem líklegt þótti að tollar mundu lækka á samkeppnisvörum í kjölfar skuldbindinga ríkisins vegna samninga aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og þeirrar stefnu stjórnvalda að verðlagning á landbúnaðarvörum yrði gefin frjáls þegar markaðsaðstæður sköpuðust til þess að verðmyndun gæti orðið á grundvelli framboðs og eftirspurnar. Þar til markaðurinn gæti talist þroskaður í þeim skilningi var miðað við að starfsemi afurðastöðva í mjólkuriðnaði yrði undanskilin gildissviði samkeppnislaga en á móti yrði heildsöluverð helstu mjólkurafurða ákveðið af verðlagsnefnd eins og hafði verið. Var það talið líklegt til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu hjá afurðastöðvunum án þess að verð nauðsynjavara til neytenda mundi hækka.

     2.      Hafa stjórnvöld lagt mat á áhrif þessara undanþágna eftir að lögin voru sett?
    Stjórnvöld hafa ekki lagt mat á áhrif þessara undanþágna eftir að lögin voru sett. Þó er rétt að taka fram að ráðuneytið fékk þá Árna Vilhjálmsson hrl. og Eirík Tómasson prófessor til að vinna álitsgerð um samkeppnisumhverfi í landbúnaði og stöðu búvöruframleiðslu gagnvart samkeppnislögum árið 2004, sem vísað er til í svari við 1. tölul.

     3.      Hvernig hefur innflutningur á mjólk og mjólkurafurðum þróast á sama tíma og hvert er umfang hans í hlutfalli við innlenda framleiðslu?
    Á mynd 1 má sjá þróun á samanlögðu magni innfluttra mjólkurvara frá árinu 2004 til ársins 2017. Mynd 2 sýnir þróun á verðmæti samanlagðs innflutnings fyrir sama tímabil. Innflutningur ársins 2017 miðast við tímabilið desember 2016 til nóvember 2017, þar sem gögn fyrir desember 2017 eru enn ekki tiltæk. Innflutningur helst nokkuð stöðugur mestallt tímabilið en eykst nokkuð árið 2017. Ostar og ystingar eru nálægt 90% af verðmæti innflutnings öll árin. Í viðauka I má finna ítarlega töflu með tölulegum upplýsingum um: 1) magn innfluttra mjólkurvara, 2) verðmæti innflutnings á hafnarbakka erlendis í krónum á verðlagi hvers tíma (e. FOB) og 3) verðmæti innflutnings með flutningskostnaði til Íslands í krónum á verðlagi hvers tíma (e. CIF).




Mynd 1. Samanlagður innflutningur mjólkurvara (magn).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Heimild: Hagstofa Íslands, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, útreikningar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Mynd 2. Samanlagður innflutningur mjólkurvara (verðmæti).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Heimild: Hagstofa Íslands, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, útreikningar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

    Mynd 3 sýnir innflutning mjólkurvara í hlutfalli við innlenda framleiðslu í kílóum. Oft er betra að líta á markaðsverð í þessu samhengi frekar en magn, en ekki liggja fyrir upplýsingar um verðmæti innlendrar framleiðslu á smásölugrunni og því er hér horft til magns. Þá ber að hafa í huga að flokkar mjólkurvara eru fjölbreyttir. Draga má þá ályktun að kílóverð innfluttra osta sé að jafnaði hærra en innlendra osta. Þegar litið er til innflutnings í kílóum er innflutningur ekki mikill á flestum mjólkurvörum í samanburði við innlenda framleiðslu. Innflutningur osta sker sig helst úr, en hann er á bilinu 3–5% af innlendri framleiðslu í kílóum talið. Árið 2017 hækkar sama hlutfall í 8%. Leiða má að því líkum að hlutfall verðmæti innflutnings sé þó eitthvað hærra en í magni talið. Algengt er að heild- og smásalar nýti tollkvóta eða flytji inn ýmsar tegundir mjólkurvara sem takmarkað framboð er af hér á landi, t.d. ýmsir sérostar. Árið 2013 var nokkuð flutt inn af smjöri, en lítið önnur ár. Rétt er að hafa í huga að í tölum um framleiðslu eru vörur sem fluttar eru út. Nokkuð er flutt út af smjöri, mjólkurdufti og öðrum mjólkurvörum, þannig að meira er framleitt hér á landi en það sem innlendir framleiðendur setja á íslenskan markað. Í framleiðslutölurnar vantar hins vegar tölur um mjólkurvörur sem unnar eru heima (seldar beint frá bónda). Í viðauka II má finna töluleg gögn um innlenda framleiðslu og innflutning sem liggja til grundvallar útreiknings á hlutfalli innflutnings.

Mynd 3. Innflutningur mjólkurvara – hlutfall magns innflutnings af innlendri framleiðslu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Heimild: Hagstofa Íslands, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, útreikningar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

     4.      Hvernig hefur verðþróun mjólkur og helstu mjólkurafurða verið á sama tíma? Óskað er sundurliðaðra upplýsinga um verðþróun mjólkur og helstu mjólkurafurða í samanburði við þróun:
                  a.      vísitölu neysluverðs án húsnæðis,
                  b.      verðs á matvöru almennt,
                  c.      verðs annarrar drykkjarvöru, þ.e. gosdrykkja, vatns og ávaxtasafa,
                  d.      verðs á kjötvöru,
                  e.      verðs á grænmeti?

    Upplýsingar um verðþróun má finna í töflum 1–5 hér á eftir. Verðþróun er sýnd á vísitöluformi þar sem notast er við árið 2004 sem grunnár og segja tölurnar til um hlutfallslega verðbreytingu miðað við vísitölu neysluverðs og verð á annarri matvöru (upptalinni í stafliðum 4. tölul.). Verðgögn eru fengin frá Hagstofu Íslands og miða þau við smásöluverð úr verslunum. Mjólkurvörur lækka almennt í verði miðað við aðrar vörur fyrstu ár tímabilsins en hækka nokkuð eftir árið 2013. Miðað við gosdrykki, vatn og ávaxtasafa hafa mjólkurvörur hækkað þónokkuð. Verð á ostum hækkar minnst, en verð á mjólk og jógúrt mest. Athygli er vakin á að smásöluálagning á mjólkurvörum er frjáls en opinber verðlagning gildir um ákveðnar mjólkurvörur (þ.e. grunnvörur, svo sem nýmjólk, undanrennu, rjóma, smjör og brauðosta). Verðsamanburður þessi nær því bæði til breytinga á heildsölu- og smásöluverði.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Heimildir taflna 1–5: Hagstofa Íslands, útreikningar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

     5.      Hvernig hefur stuðningur við mjólkuriðnað þróast á gildistíma laga nr. 85/2004 sem hlutfall af stuðningi við landbúnað alls?
    Kúabændur fá greiðslur frá ríkinu, en mjólkuriðnaðurinn sem slíkur fær engan beinan stuðning úr ríkissjóði. Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, metur stuðning hins opinbera við bændur, annars vegar með beinum greiðslum úr ríkissjóði og hins vegar markaðsstuðning. Sá síðarnefndi felst í því að neytendur greiða hærra verð fyrir búvörur en þeir mundu gera ef ekki væru tollar á innfluttum búvörum. Það verð sem íslenskir bændur fá fyrir framleiðslu sína er borið saman við áætlað verð á innfluttri mjólk á sama framleiðslustigi.
    Í töflu 6 má sjá að stuðningur við kúabændur á föstu neysluverði minnkar nokkuð árin 2007, 2010 og 2013, en eykst síðan töluvert undir lok tímabilsins. Í viðauka III má finna sambærilega töflu þar sem gildi fyrir öll árin 2004 til 2016 koma fram. Í lok tímabilsins munar ekki mjög miklu á stuðningi við kúabændur og því sem var árið 2004, ef mælt er á föstu neysluverði. Í svari við 6. tölul. fyrirspurnarinnar kemur fram að greiðslur úr ríkissjóði minnka með tímanum á föstu neysluverði. Af þessu má álykta að markaðsstuðningur hafi aukist, en við mat OECD á markaðsstuðningi hafa ýmsar breytur áhrif, svo sem þróun gjaldmiðla og heimsmarkaðsverð á mjólkurvörum. Með öðrum orðum eykst munur á verði á mjólk frá íslenskum bændum og innflutningsverði undir lok tímabilsins miðað við fyrstu árin. Þá sýnir taflan mat OECD á hlut opinbers stuðnings við kúabændur af tekjum þeirra. Opinber stuðningur er 75–80% af tekjum bænda fyrstu árin, hlutfallið lækkar í 50–60% árið 2007, en hækkar aftur í um 70% síðustu árin. Í töflunni sést einnig að stuðningur við kúabændur er jafnan nálægt helmingi þess stuðnings sem rakinn verður til einstakra búvara (e. PSE). Því gefur neðsta línan (sjá feitletrað) í töflunni sennilega bestu mynd af hlut kúabænda í heildarstuðningi við landbúnað.


Tafla 6. Stuðningur við landbúnað.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Efnahags- og framfarastofnunin, OECD.

     6.      Hvernig hafa greiðslur til bænda og afurðastöðva þróast á föstu verðlagi á sama tímabili? Óskað er eftir sundurliðun eftir tegundum greiðslna.
    Kúabændur fá greiðslur frá ríkinu, en afurðastöðvar fá engan beinan stuðning úr ríkissjóði. Í töflu 7 má sjá að greiðslur úr ríkissjóði til kúabænda lækkuðu nokkuð frá árinu 2004 til ársins 2010 miðað við fast neysluverð, en síðan hafa greiðslurnar lítið breyst. Alls lækka framlögin um tæp 20% frá árinu 2004 til ársins 2016 á föstu neysluverði.

Tafla 7. Framlög til bænda á föstu verði.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimildir: Ríkisreikningur, Hagstofa Íslands, útreikningar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.



Viðauki I – Innflutningur á mjólkurvörum, magn og verðmæti.

Innflutt magn (kg) 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017*
Mjólk og sýrðar mjólkurvörur 58.800 16.000 48.000 59.980 54.147 59.527 44.673 61.539 61.406 49.342 45.058 50.033 52.368 230.304
Rjómi 12.700 5.400 4.000 3.845 4.207 2.962 2.998 3.528 1.340 10.262 15.661 15.992 16.245 16.447
Smjör og annað viðbit - - 100 - 20 30 24 50 71 89.021 121 173 678 4.086
Ostur og annar ystingur 146.900 190.100 173.100 203.341 201.493 151.724 143.935 143.916 162.632 227.700 250.749 265.532 326.669 504.293
Mjólkurduft og kjörnuð mjólk 800 2.400 2.600 3.997 7.832 3.190 6.564 8.953 10.136 14.131 16.695 10.996 11.115 20.067
Aðrar mjólkurvörur 2.600 1.000 10.300 27.462 8.230 2.619 1.500 52 4.124 16.571 11.816 18.164 27.046 27.033
Alls 218.400 211.500 225.200 267.166 259.867 214.243 191.630 209.033 225.449 376.325 311.589 331.730 395.960 755.130

FOB verð (kr.)

2004

2005

2006

2007

2008

2009

2010

2011

2012

2013

2014

2015

2016
2017*
Mjólk og sýrðar mjólkurvörur 6.142.000 1.594.000 5.731.000 7.043.320 9.909.526 15.081.344 10.635.598 14.930.470 16.215.843 12.609.864 12.411.355 15.865.764 19.258.307 53.781.599
Rjómi 2.311.000 1.035.000 792.000 728.509 1.112.786 1.282.702 1.335.820 2.071.218 2.134.073 5.309.760 7.027.328 7.613.725 7.016.202 5.607.029
Smjör og annað viðbit 25.000 63.000 177.000 - 18.556 41.340 29.568 77.296 78.064 63.853.587 218.279 138.243 730.683 2.085.805
Ostur og annar ystingur 86.230.000 99.162.000 97.734.000 127.308.596 170.433.006 175.887.361 163.880.087 182.452.726 209.906.382 294.133.764 313.486.721 318.647.858 337.670.853 430.548.805
Mjólkurduft og kjörnuð mjólk 800 2.400 2.600 3.997 7.832 3.190 6.564 8.953 10.136 14.131 16.695 10.996 11.115 20.067
Aðrar mjólkurvörur 2.600 1.000 10.300 27.462 8.230 2.619 1.500 52 4.124 16.571 11.816 18.164 27.046 27.033
Alls 94.708.000 101.854.000 104.434.000 135.080.425 181.473.874 192.292.747 175.881.073 199.531.710 228.334.362 375.906.975 333.143.683 342.265.590 364.676.045 492.023.238

CIF verð (kr.)

2004

2005

2006

2007

2008

2009

2010

2011

2012

2013

2014

2015

2016
2017*
Mjólk og sýrðar mjólkurvörur 7.950.000 1.926.000 6.636.000 8.716.844 12.125.494 17.345.549 12.185.902 17.601.240 19.347.499 14.943.912 14.279.759 18.199.906 21.699.361 63.183.767
Rjómi 2.964.000 1.484.000 1.143.000 1.219.230 1.664.288 1.799.192 2.070.560 2.870.717 3.014.458 6.944.490 8.743.798 9.142.480 8.491.053 7.370.991
Smjör og annað viðbit 41.000 86.000 217.000 19.394 59.988 36.149 90.452 92.874 64.965.087 255.130 161.466 791.539 2.299.913
Ostur og annar ystingur 100.589.000 113.674.000 114.593.000 148.870.366 192.927.103 189.061.925 174.962.465 193.029.178 221.890.173 311.010.272 332.902.087 338.469.596 359.700.206 465.722.223
Mjólkurduft og kjörnuð mjólk 241.000 1.058.000 1.204.000 1.993.957 5.360.383 2.857.702 4.706.381 7.797.036 9.155.479 11.992.313 14.048.677 10.069.556 8.968.381 9.779.409
Aðrar mjólkurvörur 812.000 261.000 1.286.000 3.208.737 1.492.141 1.228.995 316.471 18.670 2.203.685 9.740.299 7.061.093 9.967.128 23.008.399 13.810.799
Alls 111.544.000 117.170.000 122.589.000 158.806.440 206.736.279 208.266.654 189.255.076 213.591.587 244.345.004 397.863.761 356.180.774 365.973.448 390.682.159 538.576.894
*des. 2016–nóv. 2017
Heimild: Hagstofa Íslands, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, útreikningar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Viðauki II – Innflutningur og framleiðsla á mjólkurvörum í kílóum.

Innlend framleiðsla, kg 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017*
Mjólk og sýrðar mjólkurvörur 47.941.575 47.416.944 47.220.891 47.040.484 47.803.019 49.767.731 47.496.121 45.679.876 44.596.291 44.597.003 43.818.568 43.564.194 43.401.757 43.363.608
Rjómi 2.237.050 2.326.335 2.370.848 2.396.038 2.447.918 2.311.958 2.320.441 2.401.533 2.462.209 2.664.002 2.965.274 3.375.113 4.205.568 2.824.948
Smjör og annað viðbit 1.933.141 2.198.369 2.168.596 2.504.004 2.598.928 2.444.614 2.372.909 2.376.063 2.486.331 2.206.904 2.162.137 3.226.742 3.553.540 2.385.000
Ostur og annar ystingur 4.265.128 4.436.904 4.702.550 4.910.805 5.086.439 4.993.241 5.250.787 5.492.714 5.876.350 5.776.627 5.910.340 6.065.151 6.258.818 6.311.000
Mjólkurduft og kjörnuð mjólk 877.090 661.563 647.155 857.098 1.479.822 1.223.946 1.271.961 1.200.108 1.244.971 913.088 943.251 840.963 1.114.508 1.186.000
Aðrar mjólkurvörur 3.499.320 4.705.173 4.121.035 3.815.803 3.711.118 3.588.731 3.179.547 3.412.464 3.690.994 3.833.844 3.674.935 3.424.442 4.560.891 3.328.000

Innflutningur, kg
2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017*
Mjólk og sýrðar mjólkurvörur 58.800 16.000 48.000 59.980 54.147 59.527 44.673 61.539 61.406 49.342 45.058 50.033 52.368 230.304
Rjómi 12.700 5.400 4.000 3.845 4.207 2.962 2.998 3.528 1.340 10.262 15.661 15.992 16.245 16.447
Smjör og annað viðbit - - 100 - 20 30 24 50 71 89.021 121 173 678 4.086
Ostur og annar ystingur 146.900 190.100 173.100 203.341 201.493 151.724 143.935 143.916 162.632 227.700 250.749 265.532 326.669 504.293
Mjólkurduft og kjörnuð mjólk 800 2.400 2.600 3.997 7.832 3.190 6.564 8.953 10.136 14.131 16.695 10.996 11.115 20.067
Aðrar mjólkurvörur 2.600 1.000 10.300 27.462 8.230 2.619 1.500 52 4.124 16.571 11.816 18.164 27.046 27.033

Hlutfall, %
2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017*
Mjólk og sýrðar mjólkurvörur 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 1%
Rjómi 1% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 1% 0% 0% 1%
Smjör og annað viðbit - - 0% - 0% 0% 0% 0% 0% 4% 0% 0% 0% 0%
Ostur og annar ystingur 3% 4% 4% 4% 4% 3% 3% 3% 3% 4% 4% 4% 5% 8%
Mjólkurduft og kjörnuð mjólk 0% 0% 0% 0% 1% 0% 1% 1% 1% 2% 2% 1% 1% 2%
Aðrar mjólkurvörur 0% 0% 0% 1% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 1% 1% 1%
*des. 2016–nóv. 2017
Heimild: Hagstofa Íslands, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, útreikningar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Viðauki III – Stuðningur við kúabændur og heildarstuðningur við landbúnað (OECD).

Á verðlagi hvers árs 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Stuðningur við mjólkurframleiðslu (m.kr.)1 6.867 7.097 7.295 6.017 7.265 8.010 7.360 7.781 8.827 7.275 9.966 12.730 12.116
Heildarstuðningur við einstaka vörur (e. PSE, m.kr.)2 13.566 14.547 16.544 15.183 16.124 14.678 15.481 16.095 18.926 17.901 22.401 26.190 26.858
Miðað við fast neysluverð 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Stuðningur við mjólkurframleiðslu (m.kr.)1 12.967 12.880 12.401 9.739 10.460 10.297 8.977 9.126 9.842 7.809 10.484 13.176 12.330
Heildarstuðningur við einstaka vörur (e. PSE, m.kr.)2 25.617 26.400 28.124 24.575 23.214 18.869 18.882 18.878 21.103 19.215 23.566 27.108 27.333
% stuðningur af tekjum bænda 77% 79% 75% 54% 60% 58% 49% 51% 58% 45% 58% 70% 71%
% stuðningur við mjólkurframleiðslu af PSE 51% 49% 44% 40% 45% 55% 48% 48% 47% 41% 44% 49% 45%
1 Mælikvarði á tilfærslur frá neytendum og skattgreiðendum til bænda, vegna framleiðslutengds stuðnings frá hinu opinbera (e. Producer single commodity transfers).
2 Mælikvarði á tilfærslur frá neytendum og skattgreiðendum vegna stuðnings við framleiðslu búvara, óháð eðli stuðnings, m.a. stuðningur vegna búvörusamninga og markaðsstuðningur (e. Producer Support Estimate).

Heimild: Efnahags- og framfarastofnunin, OECD.