Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 297  —  164. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um stefnu stjórnvalda um innanlandsflug.


     1.      Hver er stefna stjórnvalda varðandi hlut innanlandsflugs í almenningssamgöngum og hvernig er ætlunin að innleiða hana og framfylgja henni?
    Í tillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2015–2026 kemur fram að innanlandsflug er hluti af samofnu grunnneti almenningssamgangna. Til grundvallar liggur viðmið um ferðatíma í samgönguáætlun þess efnis að sem flestir landsmenn eigi þess kost að sækja sér nauðsynlega opinbera þjónustu á höfuðborgarsvæðinu á innan við 3,5 klst. með því að nýta sér samþættar almenningssamgöngur.
    Flugleiðir innan lands eru ekki ríkisstyrktar nema þar sem farþegar eiga þess ekki kost að ferðast með öðrum hætti með tilliti til viðmiðs um ferðatíma og flug verður ekki rekið sökum markaðsbrests. Grunnnet flugvalla miðast við ofangreinda þætti. Ríkið á innanlandsflugvellina en rekstur þeirra er á vegum Isavia ohf. á grundvelli þjónustusamnings.

     2.      Hver er stefna stjórnvalda um eignarhald, rekstur, viðhald og uppbyggingu innanlandsflugvalla?
    Í lögum nr. 102/2006, um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, segir m.a. í 3. gr. um stofnhlutafé félagsins: „Ráðherra er heimilt að leggja til félagsins eignir sem notaðar eru í þágu Alþjóðaflugþjónustunnar, skrifstofuhúsnæði og nauðsynlegan búnað flugvalla, annan en fasteignir á flugvöllum og flugbrautir. Jafnframt er ráðherra heimilt að ákveða að félagið yfirtaki réttindi, skuldir og skuldbindingar vegna flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstrar við stofnun þess.“ Í 5. gr. um tilgang félagsins segir: „Tilgangur félagsins skal vera að annast rekstur og uppbyggingu flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. flugumferðarþjónustu, fjarskipta- og leiðsögukerfa, að annast rekstur og uppbyggingu flugvalla, svo og aðra skylda starfsemi.“
    Flugstoðir ohf., síðar Isavia, var stofnað samkvæmt framangreindum lögum, nr. 102/2006, og heimildir til að leggja félaginu til eignir voru nýttar. Samkvæmt lögum nr. 153/2009, um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar, var Isavia ohf. stofnað og sér, sem kunnugt er, um rekstur þessara þátta flugþjónustunnar.
    Stefna stjórnvalda hefur verið að draga úr rekstrarkostnaði flugrekenda með það að markmiði að halda farmiðaverði niðri. Í því skyni hefur rekstur flugvallanna verið fjármagnaður að tveimur þriðju hlutum af ríkissjóði en að einum þriðja af þjónustugjöldum sem flugrekendur greiða. Vegna þess að framlag ríkisins hefur ekki verið verðtryggt hefur þróunin verið sú að framlag ríkisins hefur í vaxandi mæli farið í rekstur flugvallanna en viðhald og uppbygging þeirra hefur liðið fyrir.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir innleiðingu svonefndrar „skoskrar leiðar“, sem felst í niðurgreiðslu á flugfargjöldum til íbúa tiltekinna svæða, eða sambærilegum aðgerðum til að gera innanlandsflug að hagstæðari kosti en nú er fyrir íbúa á landsbyggðinni eins og vikið er að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?
    Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er kveðið á um að unnið verði að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Starfshópar á vegum ráðuneytisins sem fjallað hafa sérstaklega um innanlandsflug hafa skoðað möguleika á að niðurgreiða flugið. Í sáttmálanum er jafnframt kveðið á um að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um land allt. Vinna stendur nú yfir við mótun heildrænnar, samþættrar stefnu á sviði almenningssamgangna í lofti, á sjó og landi sem mun hafa áhrif á aðgerðir í innanlandsflugi.
    Eins og fram hefur komið niðurgreiðir ríkið nú þegar þjónustugjöld flugvalla og auk þess býður ríkið út nokkrar flugleiðir. Einnig kemur til greina að niðurgreiða flugfargjöld fyrir íbúa tiltekinna svæða. Í nokkrum löndum er boðið upp á slíka fyrirgreiðslu, m.a. á Kanaríeyjum og í Skotlandi. Útfærslan er mismunandi en byggist á styrkjareglum um sértæka styrki til handa íbúum til þess að jafna aðgengi þeirra að þjónustu. Slíkar leiðir hafa m.a. verið skoðaðar á grundvelli kynjaðar fjárlagagerðar í þeim tilgangi að styrkja stöðu kvenna á landsbyggðinni.
    Ráðherra hyggst beita sér fyrir aðgerðum til að gera innanlandsflug að hagstæðari valkosti en nú er. Tillögur ráðherra munu byggjast á niðurstöðum þeirra starfshópa sem fjallað hafa um efnið og munu þær jafnframt taka mið af heildrænni stefnu um almenningssamgöngur í lofti, á sjó og landi.