Ferill 54. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 312  —  54. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um Samgöngustofu.


     1.      Hver var heildarfjöldi starfsmanna Samgöngustofu í lok árs 2016?
    Starfsmenn Samgöngustofu í lok árs 2016 voru 134. Að auki eru 10 sérfræðingar í flugi sem starfa sem verktakar.

     2.      Hver var starfsmannafjöldi þeirra stofnana og stjórnsýslusviða sem sameinuðust undir hatti Samgöngustofu 1. júlí 2013?
    Hinn 1. júlí árið 2013 var fjöldi starfsmanna alls 143 þegar búið var að taka tillit til þeirra sem nýttu biðlaunarétt. Þar af komu 42 frá Flugmálastjórn Íslands, 34 frá Siglingastofnun Íslands, 12 frá Vegagerðinni og 55 frá Umferðarstofu. Að auki komu frá Flugmálastjórn um 10 sérfræðingar í flugi sem starfa sem verktakar. Alls 14 starfsmenn kusu að nýta sér biðlaunarétt við sameiningu.

     3.      Hvernig hefur árlegur rekstrarkostnaður Samgöngustofu þróast frá árinu 2008? Óskað er eftir sundurliðun á rekstrarkostnaði þeirra stofnana og stjórnsýslusviða sem runnu inn í Samgöngustofu.

    Eftirfarandi upplýsingar miðast við rekstrarkostnað Samgöngustofu frá stofndegi hennar 1. júlí 2013, auk rekstrarkostnaðar 2014–2016. Upplýsingar um stofnanir þær sem runnu saman í Samgöngustofu eru fyrir árin 2008–2012 og tímabilið 1. janúar til 30. júní 2013. Upplýsingar fyrir Siglingastofnun fela í sér allan kostnað stofnunarinnar.

Siglingastofnun
Íslands
Umferðarstofa Flugmálastjórn
Íslands
Samtals Samgöngustofa
2008 1.158 758 478 2.395
2009 1.478 545 497 2.520
2010 1.111 507 496 2.114
2011 1.267 527 530 2.324
2012 1.102 * 553 578 2.233
2013 – fyrri 587 306 320 1.213
2013 – seinni 1.022
2014 2.141
2015 2.082
2016 2.040

    Starfsemi eftir nýrri skipan samgöngustofnana hófst 1. júlí 2013. Annars vegar varð til ein framkvæmdastofnun sem að uppistöðu til er Vegagerðin eins og hún var auk framkvæmdahluta Siglingastofnunar Íslands. Hins vegar varð til stjórnsýslustofnunin Samgöngustofa sem annast verkefni sem áður voru verkefni Umferðarstofu, stjórnsýsluverkefni Siglingastofnunar Íslands, einstöku verkefni Vegagerðarinnar og verkefni Flugmálastjórnar Íslands. Þau verkefni sem fluttust frá Vegagerðinni voru umferðareftirlit Vegagerðarinnar (sem svo var fært til lögreglu 1. janúar 2016) og öryggiseftirlit vegakerfisins auk leyfisveitinga vegna fólksflutninga og farmflutninga á landi. Þessi verkefni Vegagerðarinnar voru metin sem svo að kostnaður við þau næmi 157 millj. kr.
    Sá rekstrarkostnaður sem gefinn er upp fyrir Siglingastofnun Íslands er allur kostnaður stofnunarinnar. Rekstur stofnunarinnar var samofinn. Framkvæmdir annars vegar og stjórnsýsla hins vegar voru rekin saman og til þess ætlast að samlegð yrði sem mest. Því verður sundurgreining kostnaðarins aldrei nákvæm. Öll verkefni Vegagerðarinnar sem færðust til Samgöngustofu teljast stjórnsýsluverkefni.
    Nær ómögulegt er að rekja þróun einstakra rekstrarþátta í gegnum sameiningu stofnana þar sem forsendur breytast, svo sem hlutverk starfsmanna, samlegð og samflot með öðrum kostnaði. Þá verður að horfa til aukinna umsvifa í þjónustu og eftirliti Samgöngustofu samfara miklum vexti í fjölda og umfangi eftirlitsskyldra aðila, ekki síst vegna aukins fjölda ferðamanna. Að síðustu hafa alþjóðlegar kröfur sem skylt er að innleiða aukist til muna og verður að fylgja eftir til þess að gagnkvæm viðurkenning starfsleyfa og skírteina hagsmunaaðila haldi gildi sínu.

     4.      Hversu miklar tekjur hefur Samgöngustofa haft af starfsemi sem rekin er á samkeppnismarkaði, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 119/2012? Óskað er eftir upplýsingum um hvert ár frá 2014–2016.

    Í aðdraganda að stofnun Samgöngustofu var gerð greining á viðfangsefnum eldri stofnana og skiptingu þeirra milli lögbundinnar eftirlits- og stjórnsýslustofnunar annars vegar og framkvæmda og viðhalds hins vegar.
    Í því sambandi má einnig benda á skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2008 þar sem finna má umfjöllun um framkvæmdaverkefni annars vegar og stjórnsýsluverkefni hins vegar út frá lögbundnu hlutverki stofnananna. Þar er fjallað sérstaklega um eftirlitshlutverk þáverandi Siglingastofnunar og farið yfir þau verkefni sem stjórnvöldum ber að sinna samkvæmt alþjóðaskuldbindingum og ekki er heimilt að framselja öðrum. Þar er jafnframt fjallað um reynslu sem þá var komin af einkavæðingu á skipaskoðunum sem heimilt þótti að útvista.
    Þróun undanfarinna ára hefur verið í þá átt að aðskilja stjórnsýslu og rekstrarþætti hjá hinu opinbera. Rekstrarverkefnum hefur verið komið fyrir í öðrum stofnunum eða öðru rekstrarformi eftir því sem við verður komið. Þar má nefna rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug, skipaskoðun að hluta, bifreiðaskoðun og umferðareftirlit.
    Við stofnun Samgöngustofu og Vegagerðarinnar voru ýmsar breytingar gerðar í því skyni að aðskilja rekstrarverkefni, framkvæmdaverkefni og stjórnsýslu og vista í aðskildum stofnunum. Þannig var ýmsum rekstrar-, framkvæmda- og viðhaldsverkefnum Siglingastofnunar fyrrverandi komið fyrir hjá Vegagerðinni.
    Núna eru því verkefni Samgöngustofu eingöngu stjórnsýslu verkefni sem ber að vinna samkvæmt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum. Ekki er um að ræða verkefni sem einnig eru í einkarekstri og því ekki um slíkar tekjur að ræða.
    Samgöngustofa hefur, í góðu samstarfi við hagsmunaaðila, unnið að aukinni rafrænni stjórnsýslu í því augnamiði að auka hagkvæmni og skilvirkni, einfalda ferla og bæta þjónustu. Sem dæmi má nefna rafræn eigendaskipti ökutækja og forskráningar gerðarviðurkenndra ökutækja.