Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 327  —  143. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um vímuefnaneyslu.


     1.      Hefur ráðherra hafið undirbúning að breytingum á lögum um ávana- og fíkniefni á þá leið að afnema fangelsisrefsingu fyrir vörslu á neysluskömmtum, sbr. tillögur í skýrslu starfshóps frá árinu 2016 um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu?
    Fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna. Þar kemur jafnframt fram að styrkja þurfi aðgerðir gegn fíkniefnasölum, innflutningi og framleiðslu fíkniefna og jafnframt að tryggja fíklum viðunandi meðferðarúrræði. Að því er stefnt á þessu kjörtímabili, enda hefur heilbrigðisráðherra lagt sérstaka áherslu á skaðaminnkun og telur það samræmast illa hugmyndum um skaðaminnkun að það varði fangelsisrefsingu að lögum að vera neytandi fíkniefna. Í athugasemdum við nefnda tillögu að breytingum á lögum um ávana- og fíkniefni, sem varðar afnám fangelsisrefsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum, leggur starfshópurinn til að áður en ráðist verði í þær breytingar verði gert áhættumat á áhrifum þeirra og farið yfir reynslu þeirra þjóða sem farið hafa þessa leið. Liður í undirbúningi að breytingum á lögum um ávana- og fíkniefni er að gera slíkt áhættumat. Með hliðsjón af því hyggst heilbrigðisráðherra hefja vinnu við gerð áhættumats og mun ráðast af niðurstöðu þess hvort frumvarp til laga um breytingu á lögunum verði lagt fram.

     2.      Hyggst ráðherra vinna að því að koma öðrum tillögum í niðurstöðum starfshópsins, sem heyra undir málefnasvið heilbrigðisráðherra, í framkvæmd á kjörtímabilinu?
    Vinna er hafin í velferðarráðuneytinu við undirbúning að opnun neyslurýmis fyrir langt leidda vímuefnaneytendur, líkt og lagt var til í skýrslu heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum og samfélaginu í heild, í samstarfi við Reykjavíkurborg. Með tilkomu neyslurýmis verður einstaklingum sem sprauta sig í æð tryggður aðgangur að hreinum sprautubúnaði, nálaskiptiþjónustu og gjaldfrjálsri grunnheilbrigðisþjónustu.
    Þá er unnið að útfærslu á þeirri tillögu sem lýtur að aðgengi að hreinum sprautubúnaði og nálaskiptiþjónustu í samstarfi við sóttvarnalækni og Landspítalann. Liður í átaksverkefni um upprætingu lifrarbólgu C er að dreifa nálum, sprautum og smokkum til þeirra sem sprauta fíkniefnum í æð. Það hefur hingað til verið í höndum Landspítala að sjá um dreifingu til þeirra fíkniefnaneytenda sem leita til spítalans vegna verkefnisins. Vilji stendur til þess að tryggja áframhaldandi þjónustu og skipuleggja dreifingu nála, sprautna og smokka á landsvísu. Ráðherra telur jafnframt mikilvægt að tekin verði upp skaðaminnkandi nálgun í fangelsum, þannig að einstaklingar í refsivist njóti sömu réttinda til skaðaminnkunar og aðrir, og mun beita sér fyrir því í samvinnu við fangelsisyfirvöld.
    Jafnframt skal þess getið að endurskoðun skipulags heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni er hafin í ráðuneytinu. Í þeirri vinnu verður m.a. annars skilgreint hvers konar heilbrigðisþjónusta verði veitt á hverjum stað, þar með talið hvar veita skuli fráhvarfsmeðferð vegna fíknar. Skipulag annarra meðferðarúrræða fyrir einstaklinga í vímuefnavanda verður einnig endurskoðað samhliða þeirri vinnu.
    Loks er það verkefni næstu missera að koma öðrum tillögum starfshópsins í farveg.