Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 329  —  233. mál.




Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti.

Frá Ólafi Ísleifssyni.


     1.      Hversu margar fasteignir einstaklinga voru seldar nauðungarsölu árin 2008–2017? Svar óskast sundurliðað eftir árum, mánuðum, embættum og umdæmum sýslumanna.
     2.      Hversu mörg fjárnám voru gerð hjá einstaklingum árin 2008–2017 og hversu mörg þeirra reyndust árangurslaus? Svar óskast sundurliðað eftir árum, mánuðum, embættum og umdæmum sýslumanna?
     3.      Bú hversu margra einstaklinga voru tekin til gjaldþrotaskipta árin 2008–2017 og í hversu mörgum þeirra tilfella var fasteign í eigu skuldara seld eða ráðstafað til kröfuhafa? Svar óskast sundurliðað eftir árum, mánuðum, dómstólum og umdæmum þeirra?
     4.      Hversu margir einstaklingar leituðu nauðasamninga án undanfarandi gjaldþrotaskipta árin 2008–2017, í hversu mörgum þeirra tilfella var nauðasamningur staðfestur og í hversu mörgum þeirra tilfella var fasteign í eigu skuldara seld eða ráðstafað til kröfuhafa á grundvelli nauðasamnings, sundurliðað eftir árum, mánuðum, dómstólum og umdæmum þeirra?
     5.      Hversu margir einstaklingar leituðu nauðasamninga til greiðsluaðlögunar árin 2008– 2017, í hversu mörgum þeirra tilfella var slíkur samningur staðfestur og í hversu mörgum þeirra tilfella var fasteign í eigu skuldara seld eða ráðstafað til kröfuhafa á grundvelli nauðasamnings til greiðsluaðlögunar? Svar óskast sundurliðað eftir árum, mánuðum, dómstólum og umdæmum þeirra?
     6.      Hefur lögmæti málsmeðferðar í nauðungarsölumálum og lánaskilmála sem veita heimild til beinnar aðfarar eða nauðungarsölu án undangengins dóms verið rannsakað eða kannað með hliðsjón af tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum og mannréttindasáttmála Evrópu? Ef ekki, telur ráðherra koma til greina að endurskoða lög um aðför og nauðungarsölu með hliðsjón af ákvæðum sáttmálans, tilskipunarinnar og dómaframkvæmd Evrópudómstólsins?


Skriflegt svar óskast.