Ferill 123. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 346  —  123. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um aðgerðaáætlun um orkuskipti.


     1.      Hvernig miðar vinnu að því markmiði þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti, nr. 18/146, að hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi verði 10% fyrir árið 2020 og 40% fyrir árið 2030? Hvert er nú hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi?
    Samkvæmt gögnum frá Orkustofnun er núverandi hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum 7,19% miðað við árið 2016. Eftirfarandi tafla sýnir þróun undanfarinna ára:

Ár 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Hlutfall 0% 0,07% 0,11% 0,13% 0,20% 0,87% 1,36% 2,10% 2,74% 6,37% 7,19%

    Miðað við framangreinda þróun er ráðgert að 10% markmiðinu verði náð fyrir árið 2020.

     2.      Hvernig miðar vinnu að því markmiði aðgerðaáætlunarinnar að hlutfall endurnýjanlegrar orku fyrir haftengda starfsemi verði 10% árið 2030 og hvert er nú hlutfall endurnýjanlegrar orku fyrir haftengda starfsemi?
    Hlutfall endurnýjanlegrar orku fyrir haftengda starfsemi er 0,1% miðað við 2017. Er það fyrst og fremst lífdísilolía sem notuð er á fiskiskip. Raforka er auk þess notuð af skipum í höfnum, en enn sem komið er hefur Orkustofnun ekki töluleg gögn um þá notkun og er hún því ekki inni í þessari tölu. Unnið er að undirbúningi verkefna í samræmi við aðgerðaáætlunina til að auka hlutfallið, m.a. um notkun raforku í höfnum.

     3.      Hvaða önnur skref, ef einhver, hyggst ráðherra taka á kjörtímabilinu til þess að draga úr notkun þjóðarinnar á jarðefnaeldsneyti?
    Unnið er eftir aðgerðaáætlun um orkuskipti sem er hluti af þingsályktun Alþingis nr. 18/146. Mörg verkefni þar eru komin vel á veg, sumum þegar lokið og önnur í undirbúningi. Þegar er búið að festa í lög ákvæði um framlengingu ívilnana fyrir hreinorkubifreiðar til 2020 og þriggja ára átaki stjórnvalda til uppbyggingar innviða fyrir rafmagnsbifreiðar er lokið. Sem dæmi um verkefni í undirbúningi má nefna raforku í höfnum, frekari innviðauppbyggingu fyrir rafbíla og endurskoðun starfsemi Orkusjóðs þannig að hann styðji enn frekar við orkuskipti.

     4.      Hefur ráðherra áform um að gera notkun umhverfisvænna orkugjafa aðgengilegri fyrir almenning og ef svo er, hverjar eru áformaðar aðgerðir að þessu marki?
    Innviðir fyrir rafmagnsbifreiðar hafa þegar notið sérstakrar styrkjaúthlutunar frá Orkusjóði, en það er mikilvægur liður í því að gera notkun rafmagnsbíla og umhverfisvænna orkugjafa aðgengilegri fyrir almenning á landsvísu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að finna áherslur um uppbyggingu dreifi- og flutningskerfis raforku og aðgengi allra landsmanna að umhverfisvænum orkugjöfum. Þegar er að störfum starfshópur sem falið var á síðasta ári að skoða sérstaklega möguleika á uppbyggingu þriggja fasa rafmagns í dreifbýli og almennum úrbótum í raforkuflutningi í hinum dreifðu byggðum. Inn á þessi mál er jafnframt komið í tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem nýverið var lögð fram á Alþingi. Lykilþáttur í að gera notkun umhverfisvænna orkugjafa aðgengilegri fyrir almenning á landsvísu eru úrbætur á flutningskerfi raforku og að tengja betur saman lykilsvæði. Með því móti verður m.a. unnt að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis til framleiðslu raforku, sbr. raforkunotkun fiskimjölsbræðslna. Áform og áherslur um þetta er að finna í framangreindri tillögu til þingsályktunar og að sama skapi verða þessi mál tekin til skoðunar innan starfshóps um gerð langtímaorkustefnu, sem ráðgert er að hefji störf innan tíðar.