Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 348  —  30. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um atkvæðakassa.


     1.      Hvaða gæðakröfur eru gerðar til atkvæðakassa samkvæmt lögum, reglugerðum eða öðrum vinnuferlum í kosningum til Alþingis, sveitarstjórnarkosningum og forsetakosningum?
    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá sýslumönnum og yfirkjörstjórnum við undirbúning svars þessa.
    Í 2. mgr. 69. gr. laga um kosningar til Alþingis er kveðið á um gerð atkvæðakassa, en þar segir að hann skuli þannig búinn að ekki sé unnt að ná kjörseðli úr honum án þess að opna hann og þannig að unnt sé að læsa honum. Benda má á að í ákvörðun Hæstaréttar frá 25. janúar 2011 sem fjallaði um kosningar til stjórnlagaþings var farið yfir hvaða kröfur væru gerðar til atkvæðakassa. Komst Hæstiréttur að því að við kosningar til stjórnlagaþings árið 2010 hefðu verið notaðir kassar sem ekki var unnt að læsa sem og að án mikillar fyrirhafnar hefði verið unnt að taka þá í sundur og komast að kjörseðlum sem dregið hefði úr öryggi og leynd kosninganna.
    Í 1. mgr. 41. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna er fjallað um atkvæðakassa, en þar segir að sömu atkvæðakassar skuli að jafnaði notaðir og við alþingiskosningar. Sýslumenn eða fulltrúar þeirra varðveita atkvæðakassana milli kosninga og sjá um að þeir séu til taks í tæka tíð þar sem þarf að nota þá við kosningar. Skulu kassarnir allir vera af sömu gerð, eigi minni en 31,5 sm að lengd, 21 sm að breidd og 15,7 sm á hæð, með loki á hjörum og góðri læsingu fyrir. Langs eftir miðju lokinu skal vera rifa er sé 15,7 sm löng að minnsta kosti og 6,5 mm víð að ofan en víðari að neðan.
    Í lögum um framboð og kjör forseta Íslands er vísað til laga um kosningar til Alþingis varðandi kosningaathöfnina sjálfa, sem og undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað eftir því sem við á.

     2.      Hvernig er staðið að eftirliti með því að atkvæðakassar standist gæðakröfur?
    Yfirkjörstjórnir fylgjast með því að atkvæðakassar séu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum.

     3.      Hversu margir atkvæðakassar voru notaðir í kosningum til Alþingis 2017, skipt eftir kjördæmum?
    Ráðuneytið hefur ekki haldið skrá yfir fjölda atkvæðakassa sem notaðir hafa verið í kosningum til Alþingis, hvorki á árinu 2017 né í öðrum kosningum.

     4.      Hver ber ábyrgð á geymslu og viðhaldi atkvæðakassa á milli kosninga?
    Í 1. mgr. 41. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna segir að sýslumenn eða fulltrúar þeirra skuli varðveita atkvæðakassa milli kosninga og sjá um að þeir séu til taks í tæka tíð þar sem þarf að nota þá við kosningar.
    Hvorki í lögum um kosningar til Alþingis né í lögum um framboð og kjör forseta Íslands er kveðið á um vörslu atkvæðakassa milli kosninga.
    Sá háttur hefur verið hafður á áratugum saman að kassarnir eru ýmist geymdir hjá sveitarfélögum, sýslumönnum eða hjá ráðuneytinu.

     5.      Hvernig eru utankjörfundaratkvæði geymd á kjörstað meðan á utankjörfundaratkvæðagreiðslu stendur?
    Á Íslandi fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fram hjá sýslumönnum, í aðalskrifstofu sýslumanns eða útibúi. Sýslumaður getur ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættis fari fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofu, svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum í umdæmi hans. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur einnig farið fram á skrifstofu eða á heimili hreppstjóra.
    Erlendis fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fram í skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun hlutaðeigandi ráðuneytis. Sama ráðuneyti getur og ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis. Þá getur kjósandi, sem er í áhöfn eða farþegi um borð í íslensku skipi í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, kosið um borð í skipinu og skal þá skipstjóri eða sá sem hann tilnefnir vera kjörstjóri.
    Eins og sést þá er unnt að greiða atkvæði utan kjörfundar mjög víða, en það er síðan á ábyrgð kjósandans að koma atkvæði sínu á viðtökustað. Greiði hann atkvæði hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem hann er á kjörskrá og skilji þar eftir bréf með atkvæði sínu, skal hann sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa, en atkvæðakassinn skal innsiglaður af kjörstjóra ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn og er umboðsmönnum lista heimilt að setja á hann innsigli sín.
    Aðrir kjósendur skulu sjálfir annast og kosta sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.
    Þau atkvæðabréf sem kjörstjóri veitir móttöku skal hann skrá og tölusetja með sama hætti og skal þess getið frá hvaða kjósanda það sé og hvenær og af hverjum það hafi verið afhent. Skulu bréf þessi varðveitt í atkvæðakassanum, sbr. 66. gr. laga um kosningar til Alþingis. Atkvæðakassa ásamt skrám sendir kjörstjóri síðan hlutaðeigandi kjörstjórn svo tímanlega að kassinn sé kominn henni í hendur áður en kjörfundur er settur.
    Að öðru leyti en að framan greinir er ekki fjallað um vörslu atkvæða sem greidd eru utan kjörfundar í lögum um kosningar til Alþingis.
    Ráðuneytið óskaði eftir því við sýslumenn að þeir upplýstu hvernig þau umslög sem hafa að geyma utankjörfundaratkvæði væru geymd hjá embættunum, væru þau ekki sett í atkvæðakassa. Það skal áréttað að um er að ræða sendiumslag sem inniheldur fylgibréf og umslag með atkvæði í.
    Það er í undantekningartilvikum sem sýslumenn geyma sendiumslög með atkvæðum á annan hátt en í innsigluðum atkvæðakössum, en þau tilvik geta þó komið upp, t.d. þegar þarf að koma þeim í póst að beiðni kjósanda, en þá eru sendiumslögin í flestum tilvikum geymd með öðrum pósti sem á að fara frá viðkomandi embætti.
    Rétt er að taka fram að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í þeim tilvikum sem kjósandi er ekki á skrá í umdæminu, en óskar eftir því að sýslumaður póstleggi atkvæði hans, og ljóst að póstsendingin nær ekki á áfangastað fyrir kjördag, tekið við sendiumslögunum að beiðni kjósanda og á ábyrgð hans og keyrt þau til yfirkjörstjórna í Suðurkjördæmi og í Norðvesturkjördæmi eftir lokun kjörstaðar sýslumanns á kjördegi. Það er þó nokkuð fyrr en almenn lokun kjörstaða á kjördegi þannig að þau nái inn til yfirkjörstjórna fyrir lokun kjörfundar. Atkvæði sem þurfa að berast til yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi eru send með flugi. Það skal tekið fram að þessi sendiumslög sem atkvæðin eru í, eru ekki í innsigluðum atkvæðakössum enda áttu þau að fara í almennum pósti að beiðni kjósanda sjálfs.

     6.      Hversu margir atkvæðakassar hafa brotnað, dottið í sundur eða á annan hátt opnast á óæskilegan hátt við afhendingu, flutning eða í notkun í hverjum alþingiskosningum síðan 2013?
    Ráðuneytinu er kunnugt um að á árunum 2013–2017 hafi atkvæðakassar í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður orðið fyrir minni háttar hnjaski í fjórum tilvikum. Þá hafi, við flutning atkvæðakassa í kosningum til Alþingis árið 2016, atkvæðakassi fallið á annan atkvæðakassa inni í sendibifreið sem flutti atkvæðakassana og gekk lok kassans til þannig að ummerki voru á innsiglum kassans. Innsiglin losnuðu ekki og eftir að umboðsmenn höfðu skoðað kassann gerðu þeir ekki frekari athugasemdir um að atkvæðin væru tekin til talningar.