Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 351  —  250. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum.


Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp fulltrúa sveitarfélaga á Suðurnesjum og fimm sérfræðinga úr forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti til að vinna tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun á svæðinu. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. september 2018. Forsætisráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.

Greinargerð.

    Það er löngu tímabært að tekið sé á málefnum Suðurnesjabúa með skipulögðum hætti og gerð sé aðgerðaáætlun til að styrkja samfélagið þar sem íbúar eru um 25.000 og hafa undanfarinn rúman áratug orðið fyrir miklum áföllum sem reynst hefur erfitt að yfirvinna. Brotthvarf varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli árið 2006 eftir 55 ára veru olli straumhvörfum í atvinnulífi á Suðurnesjum þegar um 600 störf voru lögð niður. Suðurnesin urðu illa úti í efnahagshruninu en atvinnuleysi jókst gríðarlega í aðdraganda hrunsins og kjölfar þess og segja má að þar hafi annað áfall dunið yfir svæðið.
    Nú er staðan hins vegar sú að íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár, eða um tæplega 5.000 manns á sex árum, en hlutfallslega mest síðastliðin tvö ár. Slíkri fólksfjölgun fylgja óhjákvæmilega margvíslegar áskoranir fyrir samfélagið á svæðinu. Stór hluti nýrra íbúa er af erlendu bergi brotinn, talar ekki íslensku og þarfnast af þeim sökum meiri þjónustu og aðstoðar ýmissa félagslegra innviða en ella væri.
    Heilbrigðisþjónusta og aðrir félagslegir innviðir stóðu veikir fyrir þegar herða tók á fólksfjölguninni. Samhliða fjölgun íbúa á svæðinu, sem skýrist fyrst og fremst af stórauknum ferðamannastraumi til landsins og fjölgun starfa í tengslum við millilandaflug, hefur húsnæðisskortur gert vart við sig.
    Fjöldi íbúa á Ásbrú, þar sem bandarískir hermenn dvöldu á meðan herinn var hér á landi, hefur tvöfaldast á undanförnum sex árum. Bandaríkjaher yfirgaf herstöðina sem varð við það hverfi í Reykjanesbæ, þó að með lögum sem sett voru 2006 hafi bæjarfélaginu verið skylt að gefa ríkinu afslátt af fasteignagjöldum. Sá afsláttur taldi í árslok 2016 rúman hálfan milljarð króna en á sama tíma hefur ríkið selt eignir sem herinn skildi eftir fyrir marga milljarða króna.
    Í úttekt sem ráðgjafarfyrirtækið Aton vann fyrir Reykjanesbæ á fjárveitingum til ríkisstofnana á Suðurnesjum koma fram skýrar tölulegar upplýsingar um að fjárframlög á hvern íbúa fari hratt lækkandi á Suðurnesjum. Flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu þykir ótækt að á sama tíma og nauðsynlegt er að ráðast í bætur á vegum og almenningssamgöngum og auka við í menntun, til nýsköpunar og til uppbyggingar félagslegra innviða vegna framangreindra áskorana í tengslum við fólksfjölgun og vaxandi hlutfall erlendra íbúa á svæðinu sé staðan sú að ríkisframlög á hvern íbúa til heilbrigðismála og löggæslu, svo dæmi séu tekin, dragist saman. Flutningsmenn tillögunnar eru meðvitaðir um að sveitarfélögin á Suðurnesjum vilja bjóða alla íbúa velkomna, jafnt innlenda sem erlenda, og veita þeim fyrsta flokks þjónustu. Það verður þó ekki gert án þess að ríkið sláist með í för. Hafa ber í huga að fólksfjölgunin kemur til vegna atvinnugreinar sem öll þjóðin nýtur góðs af.
    Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að skipaður verði starfshópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga sem fari heildstætt yfir stöðu sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum með tilliti til þess sem að framan hefur verið rakið. Samfélagsleg áhrif fólksfjölgunarinnar verði könnuð og sérstakt mat lagt á hvort fjárframlög til ríkisstofnana á svæðinu hafi fylgt þróun mála á Suðurnesjum, hvort sem er félagslegri eða efnahagslegri.