Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 411  —  158. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um þjónustu við börn með athyglisbrest og ofvirkni (ADHD).


     1.      Hver var afrakstur starfshóps um meðferð og þjónustu við börn með athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) og skyldar raskanir sem skipaður var af heilbrigðisráðherra 27. maí 2016? Hvers vegna hefur starfshópurinn ekki lokið störfum í ljósi þess að áætlað var að hann skilaði niðurstöðum sínum í september árið 2016?
    Drög að skýrslu liggja nú fyrir og er áætlað að lokaskýrslu verði skilað innan skamms. Ástæður tafa á skilum eru annir þeirra sem hafa haldið utan um starf hópsins en þeir hafa verið í öðrum störfum samhliða því að vera í starfshópnum.

     2.      Er þjónusta við börn með athyglisbrest og ofvirkni ekki lengur í forgangi hjá ráðherra?
    Börn með athyglisbrest og ofvirkni eiga svo sannarlega, eins og aðrir sem eiga við heilbrigðisvanda að stríða, að fá eins fullnægjandi þjónustu og unnt er að veita. Þjónusta vegna geðraskana er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar en athyglisbrestur og ofvirkni fellur undir þann málaflokk.

     3.      Hyggst ráðherra kalla starfshópinn saman á ný til að ljúka þeirri vinnu sem hafin var?
    Eins og fyrr segir er hópurinn að vinna að því að ganga frá lokaskýrslu og skýrslan verður afhent innan tíðar.

     4.      Er á annan hátt unnið að málefnum barna með athyglisbrest og ofvirkni í ráðuneytinu?
    Sú þjónusta sem veitt er börnum með athyglisbrest og ofvirkni á vegum heilbrigðisþjónustunnar er að stærstum hluta hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem rekur Þroska- og hegðunarstöðina. Þar fá börn greiningu og í framhaldi greiningar er veitt ráðgjöf til foreldra og kennara. Á undanförnum árum hafa fjárframlög til starfseminnar verið aukin tímabundið til þess að stytta bið eftir þjónustu stöðvarinnar. Biðtími eftir greiningu hefur styst verulega. Hins vegar hefur beiðnum sem berast til stöðvarinnar einnig fjölgað mikið. Fjárframlögin hafa verið tímabundin og er áætlað að endurmeta stöðuna þegar umræddur starfshópur hefur skilað niðurstöðum. Þá ber einnig að geta þess að sálfræðiþjónusta í heilsugæslu hefur verið styrkt verulega í samræmi við geðheilbrigðisáætlun. Þar geta foreldrar og börn fengið stuðning, hvort sem um er að ræða hegðunarvanda, athyglisbrest eða annað sem varðar vellíðan barna.
    Mikil áhersla er lögð á að samræma þjónustu þeirra stofnana velferðarráðuneytisins sem sinna greiningu og meðferð barna með ADHD, það er Þroska- og hegðunarstöðvarinnar, Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og Barna- og unglingageðdeildar. Mikilvægt er að börn fái þjónustu á því þjónustustigi sem best hentar hverju sinni og að ekki verði rof á meðferð þó farið sé á milli þjónustustiga.