Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 412  —  122. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.


     1.      Hvernig miðar vinnu að því marki í aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum að aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, verði á 90% heilsugæslustöðva í lok árs 2019, sbr. lið A3 í þingsályktun nr. 28/145?
         Vinna við þessa aðgerð er á áætlun. Fjölgun sálfræðinga á heilsugæslustöðvum um land allt hefur skilað árangri og almenn ánægja er á meðal fagfólks og skjólstæðinga með þá þjónustu. Áfram verður unnið að því að styrkja þennan þjónustuþátt og stefnt er að því að árið 2019 verði ein staða sálfræðings í heilsugæslu fyrir hverja 9.000 íbúa.

     2.      Náðist það markmið samkvæmt sama lið að fyrrgreind meðferð sálfræðinga yrði aðgengileg á 50% heilsugæslustöðva í árslok 2017? Ef svo var ekki, hvert var hlutfallið?
    Meðferð sálfræðinga var aðgengileg á yfir 50% heilsugæslustöðva í lok árs 2017. Þá höfðu öll heilbrigðisumdæmi starfandi sálfræðinga sem veittu öllum heilsugæslustöðvum í umdæminu þjónustu.

     3.      Hvernig er árangur mælanlegra markmiða sama liðar í þingsályktuninni mældur?
    Árangur aðgerðarinnar er mældur í hlutfalli heilsugæslustöðva um allt land þar sem aðgangur er að sálfræðiþjónustu. Stefnt er að því að í lok árs 2019 verði ein staða sálfræðings í heilsugæslu fyrir hverja 9.000 íbúa.

     4.      Hyggst ráðherra beita sér að öðru leyti að því að koma upp aðgengilegu kerfi fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna geðsjúkdóma og þá hvernig?
    Mikil þörf og eftirspurn er eftir geðheilbrigðisþjónustu um allt land. Nú er til skoðunar hvernig þeirri þjónustu verði best sinnt með aðkomu sálfræðinga og annarra fagaðila. Fyrstu tillögur hvað það varðar munu liggja fyrir á næstu mánuðum.

     5.      Er fyrirhugað að sálfræðiþjónusta sem veitt er utan heilsugæslustöðva verði felld undir sjúkratryggingar á kjörtímabilinu? Ef svo er, hvenær telur ráðherra að sú breyting muni koma til? Ef svo er ekki, hvers vegna?
    Mikilvægt er að allt fólk á landinu hafi aðgang að geðheilbrigðisþjónustu. Efla þarf sálfræðiþjónustu í heilsugæslu um land allt, fyrir fullorðna sem börn. Unnið er að því að efla þverfaglega teymisvinnu í heilsugæslu sem nýtist öllum skjólstæðingum vel, þar á meðal fólki sem þarf á aðstoð að halda vegna geðsjúkdóma. Áfram verður unnið eftir stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára og hugað verður að mótun stefnu til lengri tíma litið. Áfram verður einnig unnið eftir Lýðheilsustefnu en þar er lögð áhersla á forvarnir og heildræna nálgun, m.a. með samstarfi við skóla og sveitarfélög. Þá er unnið að því að nýta fjarheilbrigðisþjónustu í enn meira mæli en nú þannig að fólk hafi betri aðgang að fagaðilum þótt þeir búi ekki eða starfi í sama byggðakjarna.