Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 413  —  101. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um aðgerðir gegn súrnun sjávar.


     1.      Hvað líður vinnu starfshóps sem ráðherra var falið að skipa samkvæmt þingsályktun nr. 48/145, um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum?
    Vinna við að meta afleiðingar af súrnun sjávar hefur verið í gangi í tengslum við gerð 3. vísindaskýrslu um afleiðingar loftslagsbreytinga, sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið fól Veðurstofu Íslands að leiða og sérfræðingar frá stofnunum og háskólum hafa komið að. Ráðuneytið óskaði eftir því að súrnun hafsins væri sérstaklega skoðuð við gerð skýrslunnar. Í skýrslunni á að meta líkleg áhrif loftslagsbreytinga á Ísland og hafið í kringum landið og að auki að koma með ábendingar um hugsanlega aðlögun eða mótvægisaðgerðir til að bregðast við loftslagsbreytingum og einstökum áhrifaþáttum þeirra. Efnislegri vinnu við gerð skýrslunnar er lokið samkvæmt upplýsingum frá ritstjóra hennar og verið að vinna að frágangi hennar. Eðlilegt er að mati ráðuneytisins að skoða niðurstöður og ábendingar í skýrslunni og taka á grunni þess ákvörðun um næstu skref.
    Einnig liggur fyrir að unnin verður aðgerðaáætlun í loftslagsmálum; vinna við slíka áætlun var í gangi í tíð síðustu ríkisstjórnar og í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna er ákvæði um að slíka áætlun skuli vinna. Allar aðgerðir sem miða að minnkun á losun CO2 í andrúmsloftið eða upptöku CO2 úr andrúmslofti gagnast bæði almennt gegn loftslagsbreytingum og gegn súrnun sjávar. Almennt er talið að fátt eða ekkert sé hægt að gera til að hamla gegn súrnun sjávar nema að draga hnattrænt úr losun CO2. Það þyrfti því að vera skýrt hvað sérstök áætlun um súrnun sjávar ætti að fjalla um. Að mati ráðuneytisins er æskilegt að efla starf varðandi rannsóknir og vöktun á súrnun hafsins og Ísland ætti að vera leiðandi í að vekja athygli á súrnun hafsins og öðrum ógnum sem felast í loftslagsbreytingum á vistkerfi sjávar. Gera má áætlun um rannsóknir og vöktun, sem myndi byggja m.a. á niðurstöðum vísindaskýrslu um áhrif loftslagsbreytinga, sbr. svar við 2. tölulið þessarar fyrirspurnar. Einnig liggur fyrir að Ísland vill vera í fararbroddi ríkja sem vilja vekja athygli á súrnun sjávar á alþjóðavettvangi og skoða afleiðingar hennar og hugsanlegar mótvægisaðgerðir. Ísland gekk árið 2017 til liðs við hóp ríkja og annarra aðila sem vilja vinna að þessum þáttum ( OA Alliance, International Alliance to Combat Ocean Acidification). Ráðuneytið mun skoða hvernig Ísland getur unnið innan OA Alliance og á öðrum vettvangi til að vekja athygli á málefnum hafsins í tengslum við loftslagsbreytingar og súrnun.

     2.      Liggur fyrir áætlun um eflingu hafrannsókna með tilliti til súrnunar hafsins, sbr. þingsályktun nr. 48/145, eða þar að lútandi ákvæði í sáttmála ríkisstjórnarinnar?
    Hafrannsóknastofnun hefur sinnt rannsóknum og vöktun á súrnun hafsins um langa hríð en ekki mun liggja fyrir sérstök áætlun um eflingu rannsókna á þessu sviði. Ráðuneytið telur eðlilegt að slík áætlun verði unnin á Hafrannsóknastofnun, þar sem þekking er mest, en næsta víst er að efldar rannsóknir á súrnun sjávar og áhrifum hennar kalli á auknar fjárheimildir.

     3.      Er hafið samráð við vísindasamfélagið og sjávarútveginn um rannsóknir á súrnun sjávar sem boðað er í sáttmála ríkisstjórnarinnar og ef svo er ekki, hvenær er ætlunin að það hefjist?
    Eðlilegt er að vísindasamfélagið leiði starf varðandi rannsóknir á súrnun sjávar og þar er einsýnt að Hafrannsóknastofnun verði í fararbroddi og kalli aðila til samráðs.

     4.      Hve miklum fjármunum er áætlað að verja beinlínis til rannsókna á súrnun sjávar á kjörtímabilinu?
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur metið gróflega þörf á fjármunum til aukinna rannsókna á súrnun sjávar í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Hafrannsóknastofnun og komið því mati á framfæri í tengslum við gerð fjármálaáætlunar 2019–2023. Talið er að efld vöktun á súrnun sjávar kalli á útgjöld sem nemi um 50 millj. kr. árlega; þar er reiknað með kaupum á sk. kolefnismæli og mælingum víðar en nú fara fram. Efldar rannsóknir á áhrifum súrnunar á lífríki og vistkerfi gætu kallað á svipaða upphæð að auki, að mati Hafrannsóknastofnunar. Ákvörðun um ráðstöfun fjármuna liggur ekki fyrir á þessu stigi.

     5.      Hafa verið mótaðar sérstakar aðgerðir til að hamla gegn súrnun sjávar og ef svo er, í hverju felast þær einkum og hve miklu fé er áformað að verja til þeirra á kjörtímabilinu?
    Súrnun sjávar verður vegna upptöku sjávar á CO2 og eina þekkta leiðin til að hamla gegn súrnun er að draga úr losun CO2. Unnið verður markvisst að samdrætti í losun á kjörtímabilinu. Ísland mun, m.a. með þátttöku sinni í OA Alliance, fylgjast með umræðu í vísindasamfélaginu um hvort hægt sé að draga staðbundið úr súrnun á einhvern hátt með mótvægisaðgerðum, en ljóst er að vandinn í heild verður ekki leystur nema með miklum samdrætti í losun CO2 hnattrænt. Ljóst er að súrnun getur haft víðtæk áhrif á lífríki hafsins eins þótt ríki heims nái að standa við markmið Parísarsamningsins, en afleiðingar súrnunar verða því meiri og alvarlegri eftir því sem losun verður meiri.