Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 434  —  157. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um reglugerðarlokanir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Eru ákvarðanir um reglugerðarlokanir á veiðisvæðum til lengri tíma teknar til endurskoðunar og ef svo er, þá hvernig?

    Þegar reglugerðarlokunum er beitt hefur að öllu jöfnu verið lokað með skyndilokunum á viðkomandi svæði ítrekað, jafnvel í áraraðir á sama svæði. Tillaga um reglugerðarlokun kemur þá frá Hafrannsóknastofnun í samráði við Fiskistofu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að loka viðkomandi svæði með reglugerð, annaðhvort yfir ákveðið tímabil eða ótímabundið, enda sé sýnt að um viðvarandi ástand sé að ræða. Ráðuneytið tekur því næst endanlega ákvörðun um lokun með útgáfu reglugerðar.
    Hafrannsóknastofnun eða Fiskistofa koma ekki með tillögu að endurskoðun á slíkum reglugerðarhólfum. Aðilar í sjávarútvegi geta hins vegar óskað eftir því til ráðuneytisins að slík svæði séu könnuð. Framkvæmd á slíkri endurskoðun fylgir ákveðnu ferli. Í upphafi meta Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa hvort ástæða sé til að kanna viðkomandi reglugerðarhólf, oftast með því að skoða fyrirliggjandi gögn, svo sem úr rannsóknaleiðöngrum, eða önnur eldri gögn. Ef ekki liggja fyrir sterk rök fyrir því að hafna beiðni um könnun á reglugerðarhólfi er hún heimiluð með því veiðarfæri sem óskað er eftir í beiðninni.
    Að fenginni heimild frá ráðuneytinu er Landhelgisgæslu tilkynnt hvenær athugun viðkomandi fiskiskips fer fram. Um borð í fiskiskipi verður að vera a.m.k. einn eftirlitsmaður frá Fiskistofu en veiðistaðir innan reglugerðarhólfs eru ákvarðaðir af sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar. Eftir að könnun er lokið er gögnum komið til Hafrannsóknastofnunar. Veiðieftirlitshópur Hafrannsóknastofnunar og veiðieftirlit Fiskistofu funda um niðurstöðu svo fljótt sem auðið er og gera tillögu til ráðuneytisins um hvort opna eigi reglugerðarhólfið, breyta því eða halda óbreyttu. Ráðuneytið tekur síðan endanlega ákvörðun um hvort breytingar á reglugerð sé þörf eða hún felld úr gildi.