Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 513  —  175. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um tímabundna ráðningarsamninga.


     1.      Er ráðherra kunnugt um það hversu algengt það sé á vinnumarkaði að farið sé í kringum markmið og ákvæði laga um tímabundna ráðningu starfsmanna, nr. 139/2003, þannig að starfsfólki sé sagt upp störfum reglulega og það endurráðið hjá sama atvinnurekanda að a.m.k. sex vikum liðnum?
    Í lögum nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, er ekki kveðið sérstaklega á um opinbert eftirlit með framkvæmd laganna. Ráðherra er því ekki kunnugt um hvort og þá hversu algengt slíkt athæfi, sem lýst er í þessum lið fyrirspurnarinnar, viðgengst á íslenskum vinnumarkaði þar sem hvorki liggja fyrir opinberar upplýsingar né gögn sem varpað gætu ljósi á slíkt.
    Lögin gera ráð fyrir að starfsmenn geti krafist skaðabóta úr hendi vinnuveitanda ef sá síðarnefndi virðir ekki ákvæði laga um tímabundna ráðningu starfsmanna, sbr. 8. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að slíkum málum sé vísað til almennra dómstóla sem meti hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Svo virðist þó sem ágreiningur um ætlaða misnotkun af þessu tagi hafi ekki oft komið til kasta dómstóla.

     2.      Telur ráðherra að með 2. mgr. 5. gr. laga um tímabundna ráðningu starfsmanna, eins og þeim var breytt með lögum nr. 84/2009, hafi verið innleidd með fullnægjandi hætti tilskipun ráðsins 1999/70/EB, um rammasamninginn um tímabundna ráðningu?
    Með lögum nr. 84/2009, um breytingu á lögum nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, var 2. mgr. 5. gr. laganna breytt þannig að nýr ráðningarsamningur telst taka við af öðrum samningi sé hann framlengdur eða ef nýr tímabundinn ráðningarsamningur kemst á milli sömu aðila innan sex vikna frá lokum gildistíma eldri samnings, í stað þriggja vikna.
    Fram kemur í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 84/2009 að breytingin hafi verið gerð í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA við þágildandi 2. mgr. 5. gr. laganna. Stofnunin gerði athugasemdir í kjölfar dóms Evrópudómstólsins í máli nr. C-212/02 Adeneler frá 4. júlí 2006. Í dómi sínum komst Evrópudómstóllinn að því að reglur sem kveða á um að nýr ráðningarsamningur verði ekki talinn taka við af eldri samningi þegar lengri tími en 20 virkir dagar líða milli þess að samningar milli sömu aðila eru gerðir væru í andstöðu við tilgang tilskipunar ráðsins 1999/70/EB, um rammasamninginn um tímabundna ráðningu, sem er að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum.
    Með breytingarlögunum frá 2009 er áfram lögð áhersla á þá meginreglu sem gildir á íslenskum vinnumarkaði um að starfsmenn eru ráðnir ótímabundið enda ríkir hér ákveðinn sveigjanleiki í ráðningum sem ætlað er að auðvelda fyrirtækjum að bregðast við sveiflum í starfsemi þeirra. Með hliðsjón af framangreindu þóttu sex vikur hæfilegur tími til þess að ná markmiði laganna um að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum.
    Það er því mat ráðherra að með 2. mgr. 5. gr. laga um tímabundna ráðningu starfsmanna, eins og þeim var breytt með lögum nr. 84/2009, hafi tilskipun ráðsins 1999/70/EB, um rammasamninginn um tímabundna ráðningu, verið innleidd með fullnægjandi hætti.

     3.      Hyggst ráðherra skoða hvort lengja þurfi tímamörk þau sem fram koma í 2. mgr. 5. gr. laganna, til að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum?
    Ráðherra leggur áfram áherslu á þá meginreglu sem lengi hefur gilt á innlendum vinnumarkaði um að starfsmenn eru ráðnir ótímabundið. Á sama tíma hefur ákveðinn sveigjanleiki í ráðningum ríkt hér í þeim tilgangi að auðvelda fyrirtækjum á innlendum vinnumarkaði að bregðast við sveiflum í starfsemi sinni. Var það mat löggjafans á árinu 2009 að sex vikur þætti hæfilegur tími í þessu sambandi til þess að ná markmiði laganna um að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum.
    Ráðherra vill ávallt vera vakandi yfir framkvæmd laga um tímabundna ráðningu starfsmanna sem og hugsanlegum vanköntum sem kunna að vera á lögunum. Það er jafnframt ljóst að vinnumarkaðurinn er að taka miklum breytingum, m.a. samhliða væntanlegum áhrifum 4. iðnbyltingarinnar, þar á meðal vegna áframhaldandi tækniframfara og hnattvæðingar. Þessar breytingar fela m.a. í sér auknar kröfur um formlega menntun og færni starfsfólks sem og aukinn sveigjanleika í ráðningarformum, svo sem í formi tímabundinna ráðninga og verktakasamninga. Mikilvægt er að fylgjast vel með þessari þróun og hefur ráðherra óskað eftir samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins um þessi mál og þá eftir atvikum hvernig haganlegast er að bregðast við þannig að við getum sameiginlega staðið vörð um einkenni íslensks vinnumarkaðar á sama tíma og stuðlað er að því að íslenskt atvinnulíf verði samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði.