Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 516  —  181. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.


     1.      Hvaða breytinga má vænta í áherslum ráðherra í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu við gerð samgönguáætlunar?
    Endurskoðun samgönguáætlunar er að hefjast, annars vegar á langtímastefnu til tólf ára og hins vegar á aðgerðaáætlun til fjögurra ára þar sem fjallað er um einstök verkefni og kostnað við þau. Ráðherra hefur með bréfi gert samgönguráði grein fyrir áherslum sínum við gerð samgönguáætlunar 2019–2030. Aukin áhersla er lögð á umferðaröryggi og jafnframt að horft sé á samgöngur með heildstæðum hætti. Lögð er áhersla á almenningssamgöngur þar sem borgarlína er sérstaklega nefnd. Einnig er lögð áhersla á aðra samgöngumáta í þéttbýli. Við forgangsröðun á aðgerðum og framkvæmdum er öryggi vegfarenda ávallt sett í öndvegi.

     2.      Hvaða verkefni telur ráðherra brýnust fyrir höfuðborgarsvæðið og hyggst hann beita sér fyrir því að lokið verði við þau á kjörtímabilinu?
    Samgönguráð mun á næstu vikum hafa samráð um forgangsröðun í aðgerðum og framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Að því loknu hefst vinna við gerð samgönguáætlunar á því svæði.
    Í samvinnu við sveitarfélögin verður lögð áhersla á að hægt verði að greiða fyrir umferð og umferðaröryggi í samgöngum með gerð sérreina fyrir almenningssamgöngur, með lagfæringum á gatnamótum og betri umferðarstýringu. Af helstu verkefnum við lagfæringar gatnamóta má nefna gatnamótin við Kaplakrika og Reykjanesbraut við Fjarðarhraun. Þá eru í skoðun bráðabirgðaaðgerðir við gatnamót Reykjanesbrautar og Lækjargötu í Hafnarfirði.
    Af stærri verkefnum má nefna:
     *      áframhaldandi aðgerðir til að aðskilja akstursstefnur, til að mynda á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ á milli Skarhólabrautar og Hafravatnsvegar og á Suðurlandsvegi milli Vesturlandsvegar og Bæjarháls,
     *      fyrstu áfanga í breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og
     *      breikkun Reykjanesbrautar í Hafnarfirði milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar.
    Sérstakur samráðshópur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) vinnur nú að úttekt á gatnakerfinu, m.a. til að greina hvaða framkvæmdir á stofnbrautum eru brýnastar.
    Þá eru Vegagerðin og ráðuneytið þátttakendur í samráðshópi SSH um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. um borgarlínu.