Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 519  —  198. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.


     1.      Hvernig hefur framkvæmd þingsályktunar nr. 63/145 um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019 undið fram með tilliti til þeirra fimm áhersluatriða eða stoða sem ályktunin byggist á, þ.e.:
                  a.      samfélagsins,
                  b.      fjölskyldunnar,
                  c.      menntunar,
                  d.      vinnumarkaðar,
                  e.      flóttafólks?

    Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019 var samþykkt á Alþingi í september árið 2016. Áætlunin er byggð upp af fimm stoðum sem eru samfélagið, fjölskyldan, menntun, vinnumarkaður og flóttafólk. Í áætluninni eru 30 samþykktar aðgerðir sem stuðla allar að því að tryggja jöfn tækifæri allra landsmanna, óháð einstaklingsbundnum þáttum og aðstæðum. Aðgerðirnar eru á ábyrgð fjögurra ráðuneyta: velferðarráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, samgönguráðuneytisins (áður innanríkisráðuneytisins) og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
    Framkvæmdaáætlunin var unnin í velferðarráðuneyti og á vegum innflytjendaráðs á árunum 2014–2016 í samráði við sérfræðinga og hagsmunaaðila. Hún felur í sér kortlagningu á helstu úrlausnarefnum í málefnum innflytjenda og gerir ráð fyrir víðtæku samstarfi ýmissa aðila sem vinna að málefnum innflytjenda. Framkvæmd áætlunarinnar og forgangsmál eru ákveðin í samráði við innflytjendaráð enda er fagleg stefnumótun í málaflokknum og eftirlit með framkvæmd hennar eitt af meginhlutverkum ráðsins.
     Aðgerðum lokið.
    Tveimur aðgerðum er þegar lokið, önnur þeirra fellur undir stoðina flóttafólk og snýr að rannsókn á stöðu og líðan þess en niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar í febrúar árið 2017 og gefnar út í skýrslunni Greining á þjónustu við flóttafólk. Hin aðgerðin snýr að bættu eftirliti með vinnustöðum. Hún var framkvæmd með samningi við Vinnumálastofnun og fellur undir stoð vinnumála.
     Aðgerðir sem er að hluta lokið.
    Fyrsta hluta aðgerðar sem snýr að mælingum á viðhorfum almennings til innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins er lokið. Aðgerðin fellur undir samfélagsstoðina og snýr að því að leggja fyrir spurningar um málefni er varða innflytjendur og fjölmenningarsamfélagið. Áætlað er að framkvæma hana við upphaf áætlunarinnar og aftur við lok hennar og mögulega einnig á miðju tímabili. Niðurstöður fyrsta hluta aðgerðarinnar liggja fyrir í skýrslu sem gefin var út í maí árið 2017.
     Aðgerðir sem komnar eru vel á veg.
    Fjórar aðgerðir eru komnar vel á veg. Ein þeirra snýr að launagreiningu á kjörum innflytjenda til þess að kanna hvort marktækur munur sé á launum erlendra og íslenskra ríkisborgara á vinnumarkaði sem ekki skýrist af öðru en uppruna. Samningur við Hagstofu Íslands um að taka að sér könnunina er í yfirlestri og fellur aðgerðin að vinnumarkaðsstoðinni. Hinar aðgerðirnar sem eru komnar vel á veg snúa að þeirri stoð er varðar flóttafólk. Nefnd um málefni flóttafólks var skipuð í mars árið 2017 til að kortleggja núverandi þjónustu við þá sem fengið hafa alþjóðlega vernd hér á landi eftir að hafa komið til Íslands á eigin vegum. Nefndin vinnur að tillögum um samræmt móttökukerfi fyrir flóttafólk. Í þessu skyni hefur nefndin fjallað um þrjár aðgerðir úr framkvæmdaáætluninni. Ein þeirra snýr að móttöku flóttafólks eftir að umsókn um alþjóðlega vernd hefur verið samþykkt, önnur fjallar um fræðslu og ráðgjöf fyrir flóttafólk og sú þriðja um að auðvelda flóttafólki að komast inn á vinnumarkaðinn.
     Stöðumat aðgerða og samræming við önnur verkefni sem hafa verið unnin.
    Undanfarnar vikur hafa fulltrúar ráðuneytanna í innflytjendaráði yfirfarið stöðu þeirra aðgerða sem eru á ábyrgð þeirra út frá öðrum verkefnum sem þegar hafa verið unnin. Verið er að meta hvort breyta þurfi áherslum einhverra aðgerða með tilliti til annarra verkefna sem hafa þegar verið framkvæmd.
    Í því samhengi má nefna að Fjölmenningarsetur hefur kortlagt móttökuáætlanir sveitarfélaga með skýrslu sem kom út í mars árið 2017. Jafnframt vinnur setrið að því að safna upplýsingum um stöðu aðgerða framkvæmdaáætlunarinnar frá fulltrúum hlutaðeigandi ráðuneyta í innflytjendaráði enda er það eitt af hlutverkum þess að hafa eftirlit með framgangi verkefna sem fram koma í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur ýmis verkefni er snúa að börnum af erlendum uppruna sem sum hafa skírskotun í aðgerðir í framkvæmdaáætluninni. Þar hefur verið unnið markvisst að jöfnum tækifærum barna til náms með það að markmiði að fleiri nemendur nái lágmarksviðmiðum í lestri og lesskilningi. Unnið hefur verið að margvíslegum aðgerðum í formi ráðgjafar, stuðnings, lesskimunar og aukins samstarfs við foreldra. Jafnframt liggur fyrir samþykkt verkefnaáætlun í mennta- og menningarmálaráðuneytinu með það að markmiði að auka vægi móðurmálskennslu hjá nemendum af erlendum uppruna í leik-, grunn- og framhaldsskólum og styrkja stoðir kennslunnar. Framtíðarsýnin í Hvítbók um umbætur í menntun sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út árið 2014 er að ungt fólk á Íslandi hafi sömu möguleika til þess að lifa og starfa í síbreytilegum heimi og jafnaldrar í löndum sem við viljum bera okkur saman við. Til að svo megi verða þurfi að veita nemendum á Íslandi tækifæri til menntunar í menntakerfi sem standist samanburð við það sem best gerist erlendis. Markmið var sett um að 60% nemenda í stað 44% lykju námi úr framhaldsskóla á tilsettum tíma og að eflt yrði formlegt samráð ráðuneytis og aðila vinnumarkaðarins um starfsmenntun. Undanfarin ár hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið, í samstarfi við framhaldsskólana, beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr brotthvarfi. Það er því ljóst að mörg verkefni eru unnin innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem falla að þeim aðgerðum sem eru á ábyrgð þess í framkvæmdaáætluninni.
    Vinnumálastofnun hefur lagt áherslu á einstaklingsmiðaða þjónustu við fólk í atvinnuleit, þar með talið innflytjendur og flóttafólk. Þannig er einstaklingum tryggð viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Áhersla er lögð á að erlendir atvinnuleitendur sem hafa aðgang að innlendum vinnumarkaði hafi sömu tækifæri og íslenskir atvinnuleitendur til atvinnuþátttöku. Vinnumálastofnun hefur m.a. haft framkvæmdaáætlunina til hliðsjónar í störfum sínum frá því að hún var samþykkt og unnið áfram að ýmsum verkefnum sem tengjast aðgerðum áætlunarinnar.
    Í fjármálaáætlun velferðarráðuneytisins fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir framkvæmd sjö aðgerða sem snúa að samfélagsstoðinni, fjölskyldustoðinni og vinnumálum. Innflytjendaráð hefur sammælst um að setja aðgerðir sem snúa að kynningarherferð, hvatningarverðlaunum og málþingi innflytjenda í forgang. Velferðarráðuneytið hefur lagt ríka áherslu á að hrinda í framkvæmd aðgerð um fræðslu til starfsfólks ríkis og sveitarfélaga.

     2.      Hvernig hefur kostnaðaráætlun vegna einstakra þátta framkvæmdaáætlunarinnar gengið eftir?
    Samtals er áætluð 101 millj. kr. fyrir allar aðgerðir áætlunarinnar. Að auki er gert ráð fyrir 100 millj. kr. aukafjárveitingu vegna samþættingar þjónustu við flóttafólk á yfirstandandi ári og samræmda móttökukerfisins sem unnið er að.
    Tvær aðgerðir hafa verið fjármagnaðar að fullu fyrir 11 millj. kr. og er búið að fjármagna eina aðgerð að hluta fyrir 600.000 kr. Fyrir árið 2018 eru áætlaðar 25 millj. kr. í verkefni áætlunarinnar.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur fjármagnað verkefni sem tengjast áætluninni og unnið er að því að tengja þau við aðrar aðgerðir áætlunarinnar á sviði menntamála.