Ferill 390. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 540  —  390. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum (EES-reglur, nethlutleysi, CE-merkingar á fjarskiptabúnaði).

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



1. gr.

    Á eftir 37. tölul. 3. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því: Þráðlaus fjarskiptabúnaður: Rafmagns- eða rafeindavara sem hefur þann tilgang að gefa frá sér eða taka við hátíðnibylgjum fyrir þráðlaus fjarskipti eða staðsetningarákvörðun, eða rafmagns- eða rafeindavara sem verður að bæta við aukabúnaði, svo sem loftneti, til að geta gefið frá sér eða tekið við hátíðnibylgjum fyrir þráðlaus fjarskipti eða staðsetningarákvörðun.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      6. mgr. orðast svo:
             Í samtengisamningi og samningi um aðgang að netum skal geta um þá stýringu fjarskiptaumferðar sem aðilar áskilja sér rétt til að viðhafa í almennum fjarskiptanetum og skal stýringin uppfylla skilyrði um nauðsyn og meðalhóf. Slíka samninga um samtengingu og aðgang skal senda Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar en viku eftir undirritun þeirra.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Samtenging neta og stýring fjarskiptaumferðar.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir stafliðir, b- og c-liður, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því:
              b.      tæknileg skilyrði þjónustunnar og lágmarksgæði hennar,
              c.      kröfur um upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja, mæliaðferðir og prófanir á gæðum þjónustu.
     b.      Við bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Notendur skulu eiga rétt á því að fá aðgang að upplýsingum og efni, miðla því, nota og bjóða fram þjónustu, með því að nota búnað að eigin vali, óháð staðsetningu sinni eða fjarskiptafyrirtækis eða uppruna eða áfangastað upplýsinganna, efnisins og þjónustunnar sem fer um netaðganginn.
             Fjarskiptafyrirtæki sem veitir aðgang að internetþjónustu skal meðhöndla alla fjarskiptaumferð jafnt, án mismununar, takmarkana eða truflunar og óháð sendanda eða móttakanda, því efni sem sótt er eða miðlað, þeirri þjónustu sem notuð er eða boðin fram og þeim búnaði sem er notaður.
             Þrátt fyrir 4. mgr. er fjarskiptafyrirtæki heimilt að beita umferðarstýringu á netumferð sé stýringin nauðsynleg, gagnsæ, hófleg og án mismununar.
             Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd nethlutleysis, m.a. um eftirfarandi:
              a.      leyfilegan tilgang umferðarstýringar,
              b.      skilyrði fyrir beitingu umferðarstýringar,
              c.      skilyrði fyrir framboði á sérþjónustu sem styðst við ákveðna nethögun,
              d.      vernd persónuupplýsinga við beitingu umferðarstýringar,
              e.      upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja til áskrifenda í viðskiptaskilmálum,
              f.      upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja til Póst- og fjarskiptastofnunar og eftirlitsúrræði hennar, m.a. um úttektir á framkvæmd nethlutleysis.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Gæði þjónustu og nethlutleysi.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. laganna:
     a.      1.–3. mgr. orðast svo:
             Þráðlaus fjarskiptabúnaður skal vera þannig gerður að:
              a.      hann tryggi heilsuvernd og öryggi einstaklinga og húsdýra og friðhelgi eignarréttar,
              b.      notkun hans hafi ekki truflandi áhrif á rafsegulsviðssamhæfi.
             Þráðlaus fjarskiptabúnaður skal vera þannig gerður að hann noti á skilvirkan hátt og styrki skilvirka notkun á fjarskiptatíðnirófi til að komast hjá skaðlegri truflun.
             Þráðlaus fjarskiptabúnaður innan tiltekinna flokka eða tegunda skal vera þannig gerður að hann sé í samræmi við eftirfarandi grunnkröfur:
              a.      búnaðurinn sé samvirkur við aukabúnað, einkum samræmd hleðslutæki,
              b.      búnaðurinn sé samvirkur um net við annan þráðlausan fjarskiptabúnað,
              c.      búnaðinn sé hægt að tengja við skilfleti viðeigandi tegundar á innri markaðinum,
              d.      búnaðurinn valdi ekki skaða á netinu eða virkni þess né því að netbúnaður sé misnotaður og valdi með því óviðunandi skerðingu á þjónustu,
              e.      í búnaðinum séu innbyggðar öryggisráðstafanir til að sjá til þess að persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs notandans og áskrifandans njóti verndar,
              f.      búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem tryggja vörn gegn svikum,
              g.      búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem tryggja aðgang að neyðarþjónustu,
              h.      búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem auðvelda fötluðu fólki að nota hann,
              i.      búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir til að tryggja að aðeins sé hægt að hlaða hugbúnaði niður í þráðlausa fjarskiptabúnaðinn ef sýnt hefur verið fram á að samtenging þráðlausa fjarskiptabúnaðarins og hugbúnaðarins sé í samræmi við kröfur.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Grunnkröfur þráðlauss búnaðar.

5. gr.

    65. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Samræmi búnaðar.

    Óheimilt er að setja á markað eða bjóða á markaði annan þráðlausan fjarskiptabúnað en þann sem uppfyllir grunnkröfur 61. gr. og hefur CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar.
    Óheimilt er að taka þráðlausan fjarskiptabúnað í notkun nema notkun hans sé í samræmi við fyrirhugaðan tilgang hans og hann uppfylli grunnkröfur 61. gr. og hafi CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar.
    Innflutningur einstaklinga eða lögaðila á notendabúnaði til eigin nota eða í öðrum tilgangi telst markaðssetning í þessu sambandi.
    Aðili sem hyggst setja á markað þráðlausan búnað á tíðnisviðum þar sem notkun hefur ekki verið samræmd á Evrópska efnahagssvæðinu skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um þessa fyrirætlun með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Einnig skal senda stofnuninni upplýsingar um eiginleika búnaðarins, þ.m.t. tíðnisvið hans, bil milli rása, mótunaraðferð og hátíðniafl. Telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á því að búnaðurinn geti truflað aðra þjónustu á viðkomandi tíðnisviði getur stofnunin bannað sölu og notkun hans.

6. gr.

    Á eftir 65. gr. laganna kemur ný grein, 65. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skyldur rekstraraðila.

    Framleiðendur þráðlauss búnaðar skulu tryggja að þráðlaus fjarskiptabúnaður sem þeir setja á markað fullnægi grunnkröfum 61. gr. og hafi CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar. Framleiðendur bera ábyrgð á að framkvæmt sé samræmismat fyrir þráðlausa fjarskiptabúnaðinn. Þá skal framleiðandi þráðlauss fjarskiptabúnaðar sem settur er á markað hér á landi tryggja að honum fylgi upplýsingar fyrir notendur á íslensku um tilætlaða notkun, helstu eiginleika og öryggismál. Þá skulu fylgja upplýsingar um framleiðslunúmer, nafn framleiðanda og skráð viðskiptaheiti hans eða vörumerki. ESB-samræmisyfirlýsing og tæknigögn skulu fylgja þráðlausa fjarskiptabúnaðinum.
    Innflytjendum er einungis heimilt að setja á markað þráðlausan fjarskiptabúnað sem uppfyllir grunnkröfur 61. gr. og hefur CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar. Skulu innflytjendur ganga úr skugga um að búnaðinum fylgi þau gögn sem framleiðanda ber að láta fylgja, sbr. 1. mgr. og reglugerð sem ráðherra setur. Þá skulu innflytjendur skrá nafn sitt og skráð viðskiptaheiti á þráðlausa fjarskiptabúnaðinn, eða ef slíkt er ekki hægt, á umbúðir hans.
    Dreifingaraðilar skulu gæta þess vandlega þegar þeir bjóða fram þráðlausan fjarskiptabúnað á markaði að hann sé í samræmi við grunnkröfur og hafi CE-merkingu því til staðfestingar. Dreifingaraðila ber að gæta þess að með búnaðinum fylgi þau gögn sem framleiðanda ber að láta fylgja, sbr. 1. mgr. og reglugerð sem ráðherra setur.
    Uppfylli framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili ekki skyldur sem kveðið er á um í 1.–3. mgr. eða reglugerð sem ráðherra setur getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt á stjórnvaldssekt skv. 74. gr. a.

7. gr.

    66. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Markaðseftirlit með þráðlausum búnaði.

    Póst- og fjarskiptastofnun fer með markaðseftirlit með þráðlausum fjarskiptabúnaði og rekstraraðilum hans. Skal stofnunin að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu taka til meðferðar mál er varða markaðseftirlit með þráðlausum fjarskiptabúnaði og skyldum rekstraraðila. Í því skyni skal stofnunin hafa ótakmarkaðan aðgang að sölustöðum slíks búnaðar.
    Ef þráðlaus fjarskiptabúnaður, sem uppfyllir ekki grunnkröfur 61. gr. og reglugerðar sem ráðherra setur, er settur á markað, fluttur inn eða honum dreift, getur stofnunin krafist þess að sala hans og/eða notkun verði þegar í stað stöðvuð, búnaðurinn verði kyrrsettur eða haldlagður og að rekstraraðilar grípi til aðgerða til úrbóta. Póst- og fjarskiptastofnun getur einnig, að undangengnu mati, takmarkað að þráðlaus fjarskiptabúnaður sé settur á markað, fluttur inn eða honum dreift af ástæðum sem tengjast almannaöryggi, almannaheilbrigði og almannahagsmunum. Getur stofnunin jafnframt krafist aðgerða af hálfu rekstraraðila til úrbóta í slíkum tilvikum.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur gert kröfu um að rekstraraðilar afhendi stofnuninni sundurliðaðar upplýsingar og teikningar af búnaði sem settur hefur verið á markað eða ráðgert er að setja á markað. Með slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.

8. gr.

    Á eftir 66. gr. laganna kemur ný grein, 66. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Reglugerð um eftirlit með markaðssetningu og samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar.

    Ráðherra skal setja reglugerð um eftirlit með markaðssetningu og samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Í reglugerðinni skal m.a. kveða á um kröfur sem gerðar eru til þráðlauss fjarskiptabúnaðar, heimildir til að bjóða þráðlausan búnað fram á markaði og notkun hans, frekari skyldur framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar, samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar og samræmismatsstofur, CE-merkingu, markaðseftirlit og samstarf yfirvalda.

9. gr.

    Á eftir 74. gr. laganna kemur ný grein, 74. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Stjórnvaldssektir.

    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á fjarskiptafyrirtæki sem ítrekað beitir ólögmætri stýringu fjarskiptaumferðar eða takmarkar með ólögmætum hætti aðgang notanda til þess að sækja sér, nota og miðla efni eða þjónustu á internetinu óháð staðsetningu sinni eða fjarskiptafyrirtækisins og uppruna eða áfangastað efnis eða þjónustu, sbr. 3.–5. mgr. 41. gr. Sekt getur numið allt að 10.000.000 kr. Við ákvörðun sektar skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots og tekna fjarskiptafyrirtækis af broti þegar það á við.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á rekstraraðila sem brýtur gegn ákvæðum 1. og 2. mgr. 65. gr. og 65. gr. a og ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur skv. 66. gr. a. Við ákvörðun um fjárhæð stjórnvaldssektar skv. 2. mgr. skal stofnunin hafa hliðsjón af alvarleika brotsins, hvað það hefur staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins og hvort mögulega hefði mátt koma í veg fyrir lögbrotið með stjórnun og eftirliti. Loks ber að líta til þess hver fjárhagslegur styrkleiki hins eftirlitsskylda aðila er. Stjórnvaldssektir geta numið frá 10.000 kr. til 10.000.000 kr. Sektin skal þó ekki vera hærri en sem nemur 3% af veltu síðasta almanaksárs hjá hlutaðeigandi aðila.
    Ákvarðaðar stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar og renna þær til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Gjalddagi stjórnvaldssektar er 15 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin og reiknast dráttarvextir frá þeim tíma verði vanskil á greiðslu hennar.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

11. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á 12. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, með síðari breytingum:
     a.      Við greinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með sama hætti eru stjórnvaldssektir sem Póst- og fjarskiptastofnun ákvarðar skv. 74. gr. a í lögum um fjarskipti aðfararhæfar.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Sektir og innheimta.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, til þess að tryggja lagastoð vegna innleiðingar reglna sem stafa af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði fjarskipta, í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.
    Um er að ræða innleiðingu á eftirfarandi gerðum:
     a.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2015/2120/EB frá 25. nóvember 2015 um ráðstafanir varðandi opinn netaðgang og um breytingu á tilskipun 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu og reglugerð (ESB) nr. 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum innan sambandsins. Oftast er vísað til reglugerðarinnar sem TSM-reglugerðarinnar (e. Telecoms Single Market) og verður það sömuleiðis gert í skýringum við frumvarp þetta.
     b.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/53/ESB frá 16. apríl 2014, um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða þráðlausan fjarskiptabúnað fram á markaði, svokölluð RED-tilskipun.
    Frumvarpið er unnið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti (áður innanríkisráðuneyti) í samráði við Póst- og fjarskiptastofnun. Frumvarpið var unnið í tveimur áföngum, annars vegar varðandi TSM-reglugerðina og hins vegar vegna RED-tilskipunarinnar og stóð upphaflega til að leggja fram tvö frumvörp, sem hafa nú verið sameinuð í eitt frumvarp til einföldunar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Innleiðing TSM-reglugerðarinnar og RED-tilskipunarinnar kallar á breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.
    2. og 3. gr. frumvarpsins snúa að því að tryggja lagastoð vegna innleiðingar á TSM-reglugerðinni að því er varðar nethlutleysi, en það eru reglur sem eiga að stuðla að vernd hins opna internets. Reglur um nethlutleysi eru nýmæli sem kalla á lagasetningu til þess að tryggja fullnægjandi lagastoð fyrir innleiðingu TSM-reglugerðarinnar, enda hefur hvergi í íslenskri löggjöf verið fjallað um nethlutleysi.
    TSM-reglugerðin er óvenjuleg fyrir þær sakir að hún hefur að geyma ákvæði um tvö ólík efnisatriði, annars vegar nýjar heildstæðar reglur um nethlutleysi og hins vegar breytingar á einstökum ákvæðum í reglum um reiki. Ákvæðin um nethlutleysi eru orðuð með heildstæðum hætti, en ákvæðin sem varða reiki eru orðuð sem breytingarákvæði. Þau ákvæði reglugerðarinnar er varða reiki á fjarskiptanetum hafa þegar verið innleidd í íslenskan rétt með reglugerð ráðherra nr. 558/2016 um breytingu á reglugerð nr. 1174/2012 um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Evrópska efnahagssvæðisins, en þar er um að ræða áframhaldandi reglugerðarsetningu í þeim málaflokki sem þegar á sér lagastoð í fjarskiptalögum, sbr. 35. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003.
    Þetta gerir það að verkum að ekki er fýsilegt að innleiða TSM-reglugerðina með heildstæðum hætti, þó svo að efnisákvæði reglugerðarinnar séu innleidd orðrétt í íslenskan rétt. Sú innleiðing sem lögð er til í frumvarpinu tekur mið af þessu. Ekki þykir þörf á að setja sérstök lög um nethlutleysi. Til að tryggja samhengi og skýrleika er talið best að innleiða ákvæði nethlutleysis í tengslum við skyld ákvæði í fjarskiptalögum. Til að þetta falli að regluverkinu er talið fara best á því að innleiða meginákvæði TSM-reglugerðarinnar um nethlutleysi í fjarskiptalög en setja lagastoð fyrir önnur ákvæði TSM-reglugerðarinnar sem hægt verður að innleiða að fullu samkvæmt orðanna hljóðan með reglugerð ráðherra, líkt og almennt tíðkast við innleiðingu Evrópureglugerða.
    Í 1. og 4.–8. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, sem miða að því að innleiða reglur um CE-merkingar á fjarskiptabúnaði til samræmis við RED-tilskipunina, þ.e. tilskipun 2014/53/EB. RED-tilskipunin er ný heildartilskipun og með henni er einnig felld úr gildi tilskipun 1999/5/EB, um fjarskiptabúnað og endabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra, svokölluð R&TTE-tilskipun.
    Hin nýja tilskipun tók gildi í aðildarríkjum Evrópusambandsins 13. júní 2016 og var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 89/2016 og birt 12. maí 2016 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 27. Samkvæmt tilskipuninni áttu aðildarríki að hafa innleitt hana fyrir 12. júní 2016 en 13. júní skyldi fyrirrennari hennar, R&TTE-tilskipunin, falla úr gildi. Hin nýja tilskipun gerir þó ráð fyrir eins árs aðlögunartímabili frá gildistöku hennar þar sem búnaður sem settur er á markað fyrir 13. júní 2016 þarf að fullnægja kröfum R&TTE, búnaður sem settur er á markað frá 13. júní 2016 fram til 12. júní 2017 þarf að uppfylla annaðhvort kröfur R&TTE- eða RED-tilskipunarinnar, og búnaður sem settur er á markað eftir 12. júní 2017 þarf að uppfylla hinar nýju kröfur RED-tilskipunarinnar. RED-tilskipuninni er ætlað að tryggja einsleitan markað fyrir þráðlausan fjarskiptabúnað með því að kveða á um ákveðnar lágmarkskröfur varðandi öryggi og heilsu manna og húsdýra, rafsegulsviðssamhæfi og hagnýta notkun tíðnisviðsins. Með tilskipuninni er ætlunin að auka markaðseftirlit, sér í lagi hvað varðar rekjanleika ábyrgðar framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Er lagt bann við því að setja á markað og bjóða á markaði þráðlausan fjarskiptabúnað sem ekki hefur uppfyllt þær grunnkröfur sem settar eru fram í tilskipuninni, staðist samræmismat því til staðfestingar og verið merktur með CE-merkingu. Tilskipunin felur því jafnframt í sér ákveðna vernd fyrir notendur þráðlauss fjarskiptabúnaðar, hvað varðar heilsu þeirra, friðhelgi eignarréttar o.fl., sem og rétt þeirra sem neytenda þar sem tilskipunin kveður á um ítarlega upplýsingaskyldu rekstraraðila. Þá á CE-merkið að veita notanda búnaðarins vissu um að búnaðurinn uppfylli þær gæðakröfur sem til hans eru gerðar, sbr. grunnkröfur tilskipunarinnar.
    Með hinni nýju tilskipun hafa ákvæði R&TTE-tilskipunarinnar verið uppfærð m.t.t. þeirra tækniframfara sem orðið hafa undanfarin ár og aðlöguð annarri nýrri löggjöf Evrópusambandsins. Þannig tekur hin nýja tilskipun einungis til þráðlauss fjarskiptabúnaðar en ekki línulegs líkt og fyrirrennari hennar gerði. Þannig er gildissviði tilskipunarinnar breytt sem eitt og sér kallar á lagabreytingu. Þá er í RED-tilskipuninni fjallað með ítarlegum hætti um skyldur rekstraraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar, þ.e. framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila, og viðurlög við brotum þeirra á ákvæðum tilskipunarinnar. Eins fjallar tilskipunin um hlutverk og starfsemi samræmismatsstofa og tilkynningaryfirvalda aðildarríkja með ítarlegri hætti en áður hefur verið gert. Þá hefur verið komið á fót miðlægu skráningarkerfi á vegum Evrópusambandsins þegar kemur að þráðlausum fjarskiptabúnaði og samræmismatsstofum sem annast gerð samræmismats og viðurkenningu á búnaðinum.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingu á fjarskiptalögum að því marki að kveða verður skýrt á um breytt gildissvið, grunnkröfur sem þráðlaus fjarskiptabúnaður þarf að uppfylla, skyldur rekstraraðila og möguleg viðurlög við brotum þeirra. Það er því nauðsynlegt að gera breytingar á fjarskiptalögum svo uppfylla megi kröfur um skýrleika viðurlaga vegna brota rekstraraðila. Er einnig nauðsynlegt að gera breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun til samræmis. Aftur á móti er ekki gerð krafa um viðurlög er varðar önnur ákvæði tilskipunarinnar, svo sem varðandi kröfur til samræmismatsstofa, tilkynningaryfirvöld o.fl. Það er því lagt til að ráðherra verði gert skylt að setja reglugerð sem kveður með ítarlegri hætti á um skyldur rekstraraðila og markaðseftirlit sem og hlutverk og skyldur samræmismatsstofa, faggildingaraðila og tilkynningaryfirvalda, heimildir markaðseftirlitsaðila o.fl. Er slíkt í samræmi við núverandi fyrirkomulag þar sem ráðherra hefur sett reglugerð nr. 90/2007, um þráðlausan búnað og notendabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra.
    Við gerð frumvarpsins var leitast við að viðhalda sambærilegu fyrirkomulagi og gilt hefur hingað til um CE-merkingar á fjarskiptabúnaði. RED-tilskipunin felur í sér ákveðin nýmæli en önnur ákvæði hennar eru mjög sambærileg ákvæðum núgildandi R&TTE-tilskipunar. Þannig eru ekki gerðar umfangsmiklar breytingar þegar kemur að þeim grunnkröfum sem gerðar eru um þráðlausa búnaðinn, áfestingu CE-merkis eða það ferli að framleiðandi búnaðar verði að framkvæma samræmismat til að staðfesta samræmi búnaðarins við grunnkröfurnar. Þá byggjast ákvæði RED-tilskipunarinnar varðandi samræmismatsstofur, kröfur sem gerðar eru til þeirra og tilkynningar á þeim, á sama grunni og áður. Faggildingarsvið Einkaleyfastofu hefur annast mat á aðilum sem óska þess að framkvæma samræmismat vegna CE-merkinga og hefur það verið hlutverk ráðherra að tilkynna þá aðila sem staðist hafa slíkt mat til annarra aðildarríkja og Eftirlitsstofnunar EFTA. Hlutverk þessara aðila verður skilgreint nánar í reglugerð sem ráðherra er gert skylt að setja.
    Líkt og í fyrri tilskipun Evrópusambandsins varðandi innflutning á fjarskiptabúnaði er gert ráð fyrir samstarfi markaðseftirlitsyfirvalda, í þessu tilfelli samstarfi Póst- og fjarskiptastofnunar og tollyfirvalda. Það samstarf byggist á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 765/2008 frá 9. júlí 2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum, sbr. reglugerð nr. 566/2013 um markaðseftirlit, faggildingu o.fl., og tekur ekki breytingum við innleiðingu á hinni nýju RED-tilskipun.
    Helstu breytingar sem kveðið er á um varða skyldur allra rekstraraðila, þ.e. framleiðanda, innflytjanda og dreifingaraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar, sem og það nýmæli að brot þeirra gegn skyldum sínum geti varðað sektum.
    Í 9. gr. frumvarpsins er loks nýtt ákvæði er varðar stjórnvaldssektir og lýtur það bæði að reglum um nethlutleysi og reglum um CE-merkingar á fjarskiptabúnaði.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. TSM-reglugerðin.
    Tiltölulega lítið hefur verið fjallað um nethlutleysi hér á landi. Þó er rétt að geta þess að Póst- og fjarskiptastofnun gerði árið 2016 úttekt á stöðu nethlutleysis með könnun á framkvæmd íslenskra fjarskiptafyrirtækja þar að lútandi. Skýrsla um niðurstöðu úttektarinnar var birt í apríl 2016, en þar er m.a. fjallað um inntak nethlutleysis. Þar sem um er að ræða nýmæli á sviði fjarskiptaréttar þykir tilefni til að kynna helstu efnisatriði nethlutleysis og hvaða sjónarmið búa að baki. Sú umfjöllun byggist að mestu leyti á fyrrnefndri skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar.

3.1.1. Um nethlutleysi.
    Til eru nokkrar skilgreiningar á hugtakinu nethlutleysi. Meginstef hugtaksins er þó fólgið í því að öll umferð um internetið skuli meðhöndluð á jafnræðisgrundvelli. Nethlutleysi á að stuðla að því að internetið verði áfram vettvangur óheftra boðskipta, nýsköpunar og viðskipta eftir bestu getu (e. best effort). Leiðir þetta af sér ráðstafanir sem grípa þarf til svo tryggt verði sem best að fjarskiptanetið geti annað öllum gagnaflutningi. Meginmarkmið nethlutleysisreglna er að flytja skuli öll rafræn samskipti óháð efnisinnihaldi, hugbúnaði, notkunareiginleikum, þjónustu, búnaði, upprunavistfangi eða móttökuvistfangi. Mikilvægt er að hafa í huga að hugmyndafræðin um nethlutleysi snýst eingöngu um að ekki skuli mismuna netumferð, þ.e. þegar notandi er kominn í netsamband. Reglan fjallar því ekki um að útvega skuli einstaklingum fullnægjandi netsamband ef það er ekki þegar fyrir hendi.
    Reglur um nethlutleysi fela þó ekki í sér að net- og umferðarstýring sé með öllu óheimil, en slík stýring er stundum nefnd netmismunun. Þannig getur komið upp sú staða að nauðsynlegt er að framkvæma net- og umferðarstýringu til þess að mögulegt sé að tryggja ákveðin gæði. Þessi skil geta þó oft verið óljós og því er nauðsynlegt að tryggja að umferðarstýring í fjarskiptanetum sé ekki skaðleg og/eða komi í veg fyrir eðlilega nýsköpun og samkeppni. Með það að leiðarljósi er mikilvægt að meta allar aðgerðir sem fela í sér net- og umferðarstýringu í gagnaflutningsnetum. Reglan á eingöngu við um gagnaflutning, en ekki símtöl eða önnur boðskipti á netum sem ekki fela í sér rafrænar pakkasendingar.
    Kjarni nethlutleysis er í raun neytendavernd sem tekur til samskipta fjarskiptafyrirtækja við viðskiptavini sína, t.d. varðandi upplýsingagjöf í viðskiptasamningum, en einnig til aðgerða fjarskiptafyrirtækja varðandi tækni- og kerfislega þætti sem hafa áhrif á stýringu fjarskiptaumferðar. Í stórum dráttum skiptist efnislegt inntak nethlutleysis í fimm þætti sem stuttlega verður vikið að í eftirfarandi umfjöllun.

3.1.2. Opið internet.
    Nethlutleysi felst í því að notendur internetsins skuli geta nálgast og miðlað efni eða þjónustu á internetinu, óháð hug- og tæknibúnaði, notkunareiginleikum, upprunavistfangi eða móttökuvistfangi. Í reglunni felst viðurkenning á því hversu mikilvægur netaðgangur er fyrir hinn almenna borgara í frjálsu og tæknivæddu samfélagi. Samhliða þessu hefur því verið slegið föstu að aðgangur að interneti sé meðal grundvallarréttinda þegna EES-ríkja sem ekki verða skert, nema að uppfylltum skilyrðum mannréttindasáttmála Evrópu. Nethlutleysisreglur eru viðleitni til þess að tryggja þessi réttindi í framkvæmd, eftir því sem kostur er. Þó skal tekið fram að þessi réttindi til aðgangs að efni og þjónustu á internetinu eru ekki án undantekninga, en reglunni er t.d. ekki ætlað að heimila aðgang að efni sem er bannað samkvæmt öðrum lögum.

3.1.3. Jafnræði fjarskiptaumferðar og bann við ómálefnalegri stýringu.
    Hvað varðar útfærslu á reglunni í framkvæmd, þá felur hún í sér að fjarskiptafyrirtæki megi ekki beita umferðarstýringu í ómálefnalegum tilgangi, t.d. með því að draga úr gæðum tiltekinnar þjónustu á netinu í viðskiptalegum eða samkeppnislegum tilgangi. Meginregla nethlutleysis sem snýr að fjarskiptafyrirtækjum felur þannig í sér að þau skuli flytja öll rafræn samskipti óháð efnisinnihaldi, hugbúnaði, notkunareiginleikum, þjónustu, búnaði, upprunavistfangi eða móttökuvistfangi. Þessi skylda er ekki án undantekninga, en gert er ráð fyrir að í ákveðnum tilfellum sé heimilt að beita umferðarstýringu, t.d. til að bregðast við álagi á fjarskiptanetum, enda sé stýringunni beitt á jafnræðisgrundvelli, hún sé hófleg og vari ekki lengur en þörf er á.

3.1.4. Skilyrði fyrir framboði á sérþjónustu.
    Sett eru sérstök skilyrði fyrir framboði á sérþjónustu (e. specialised services), en um er að ræða þjónustu sem er þess eðlis að hún krefst tiltekinna gæða til þess að vera nothæf, t.d. tryggðar bandbreiddar eða forgangs. Samkvæmt nethlutleysisreglum er fjarskiptafyrirtækjum heimilt að bjóða slíka þjónustu en eingöngu gegn því skilyrði að slík sérþjónusta rýri ekki gæði hins almenna internets, þ.e. þeirrar internetþjónustu sem stendur notendum til boða án yfirgjalds (e. premium price service).

3.1.5. Gagnsæi og upplýsingagjöf til neytenda.
    Einn þáttur nethlutleysis snýr að upplýsingagjöf til áskrifenda. Í reglunni er mælt fyrir um þau atriði sem fjarskiptafyrirtæki er skylt að upplýsa viðskiptavini sína um í samningum við þá. Eru þetta atriði á borð við:
          Upplýsingar um hvernig umferðarstýring þjónustuveitanda geti haft áhrif á gæði þjónustunnar og öryggi persónuupplýsinga.
          Ítarlegar og greinargóðar útskýringar á því hvernig gagnaþök og viðmið um hraða og gæði hafa áhrif á internetþjónustuna, sérstaklega með tilliti notkunar efnis, forrita og þjónustu.
          Hvernig sérþjónusta sem endanotandi pantar geti haft áhrif á almennan netaðgang hans.
          Ítarlegar og greinargóðar upplýsingar um gagnaflutningshraða (bæði í upphali og niðurhali), þ.e. lágmarkshraða, venjulega aðgengilegan hraða, hámarkshraða og auglýstan hraða í fastanetum. Í farnetum þarf að upplýsa um áætlaðan hraða. Enn fremur hvernig frávik frá þessu geti haft áhrif á réttindi endanotanda til að geta náð sér í og miðlað efni að eigin vali.
          Ítarlegar og greinargóðar upplýsingar um það hvaða úrræði endanotendum standi til boða ef um er að ræða varanlegt eða reglubundið misræmi á raungæðum og auglýstum gæðum (bætur, endurgreiðsla, o.s.frv.).
    Tilgangur þessarar upplýsingagjafar er að notendur geti tekið upplýsta ákvörðun um val á fjarskiptafyrirtæki og metið hvaða áhrif lögmæt umferðarstýring geti haft á fjarskiptanotkun þeirra.

3.1.6. Lágmarkskröfur til internetþjónustugæða.
    Mikilvægur þáttur nethlutleysis, sem felur í sér nýmæli á sviði fjarskiptaeftirlits, er að heimila fjarskiptaeftirlitsstjórnvaldinu að setja kröfur um tæknileg skilyrði og lágmarksgæði netþjónustu. Hér getur verið um að ræða kröfur um lágmarksgagnaflutningshraða, miðað við tilteknar álagsforsendur, biðtíma (e. latency) og flökt (e. jitter) í gagnaflutningsþjónustu. Hefur fjarskiptaeftirlitsstofnun Evrópu (BEREC) verið falið að setja leiðbeiningar um mæliviðmið og mæliaðferðir í þessu sambandi sem fjarskiptaeftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja EES er ætlað að horfa til.

3.2. RED-tilskipunin.
    Löggjöf Evrópusambandsins á sviði fjarskiptabúnaðar miðar að því að tryggja að allur slíkur búnaður uppfylli ákveðnar grunnkröfur sem gerðar eru um vernd heilsu manna og húsdýra og friðhelgi eignarréttar og hagnýta notkun fjarskiptatíðnirófsins. Til að ná þeim markmiðum er kveðið á um aukið samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar á innri markaðnum á grundvelli skilgreindra grunnkrafna og sambærilegra matsaðferða við vottun slíks búnaðar með CE-merki.
    Fjarskiptabúnaður þarf að uppfylla ákveðnar grunnkröfur áður en hann er settur á markað innan EES. Standist búnaður mat á því hvort kröfurnar séu uppfylltar skal hann CE-merktur því til staðfestingar. Þegar búnaður hefur hlotið slíka merkingu er heimilt að setja hann á markað og er aðildarríkjum jafnframt óheimilt að takmarka markaðssetningu hans. Einungis er heimilt að takmarka frjálst flæði hans á hinum innri markaði á grundvelli lýðheilsu og vegna hagnýtrar notkunar á fjarskiptatíðnirófinu. Þannig hefur CE-merkið þann tilgang að gefa til kynna að umræddur búnaður uppfylli þær grunnkröfur sem gerðar eru til hans á hinum innri markaði og uppfylli skilyrði fyrir frjálsu flæði hans á markaðinum. Skiptir þá engu hvort búnaðurinn er framleiddur innan sambandsins eða utan þess. Þannig er merkinu ekki ætlað að vera staðfesting á því að búnaðurinn sé framleiddur innan landamæra Evrópusambandsins heldur einungis að hann uppfylli þær grunnkröfur sem samræmd löggjöf sambandsins gerir til hans. CE-merking á búnaði telst þannig vera hluti af nauðsynlegum upplýsingum um búnaðinn sjálfan fyrir yfirvöld aðildarríkja og notenda en er ekki ætlað sem tæki til markaðssetningar. Sýnileg CE-merking gefur því til kynna að umræddur fjarskiptabúnaður hefur undirgengist ákveðið ferli sem felur í sér mat á samræmi hans við þær grunnkröfur sem gerðar eru til hans og að framleiðandi hans ábyrgist slíkt samræmi.
    Hin nýja RED-tilskipun er nokkuð umfangsmikil og fjallar í fyrsta lagi að nokkuð stórum hluta um samræmismat sem framkvæma skal fyrir þráðlausan fjarskiptabúnað, uppbyggingu og kröfur sem gerðar eru til samræmismatsstofa sem og hlutverk tilkynningaryfirvalda. Þá er í öðru lagi, líkt og áður greinir, fjallað um kröfur til þráðlauss fjarskiptabúnaðar og ábyrgð og skyldur rekstraraðila. Ákveðinn meginmun er þó að finna á þessu tvennu þar sem kveðið er á um að viðurlög skuli liggja við brotum rekstraraðila á skyldum sínum samkvæmt tilskipuninni. Með frumvarpinu eru því lagðar til breytingar sem fyrst og fremst lúta að skyldum rekstraraðila, grunnkröfum fjarskiptabúnaðar og viðurlögum við broti gegn þeim skyldum og kröfum. Þá er jafnframt að finna nýtt skilgreiningarákvæði fyrir þráðlausan fjarskiptabúnað sem afmarkar gildissvið ákvæðanna. Aftur á móti er, líkt og áður segir, kveðið á um skyldu ráðherra til að setja ítarlega reglugerð sem m.a. skal kveða á um grunnkröfur þráðlauss fjarskiptabúnaðar, skyldur rekstraraðila, viðurlög við brotum, samræmismatsstofur, faggildingu þeirra, hlutverk, málsmeðferð og kröfur, sem og tilkynningaryfirvöld.
    Hvað varðar breytingu á XII. kafla fjarskiptalaga er um að ræða fimm meginbreytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði 61. gr. laganna, er varðar grunnkröfur þráðlauss fjarskiptabúnaðar, verði breytt til samræmis við þær kröfur sem settar eru fram í RED-tilskipuninni. Þótt grunnkröfur búnaðarins séu sambærilegar þeim sem nú eru í gildi samkvæmt fjarskiptalögum er ljóst að umræddar kröfur ná nú einungis til þráðlauss fjarskiptabúnaðar en ekki línulegs búnaðar. Þá er grunnkröfum RED-tilskipunarinnar jafnframt ætlað að tryggja dýravernd og ná til sæmilegra fyrirsjáanlegra atvika.
    Í öðru lagi eru gerðar breytingar á 65. gr. laganna sem nú mælir fyrir um viðurkenningu búnaðar og ákveðnar skyldur framleiðanda og umboðsmanns hans. Þar sem lagt er til að komi ný grein er kveður með ítarlegri hætti á um skyldur allra rekstraraðila, sem og að frekar verður kveðið á um þær skyldur í reglugerð, er lagt til að 65. gr. mæli fyrst og fremst fyrir um samræmi búnaðar og að óheimilt sé að setja hann á markað, bjóða hann á markaði eða taka í notkun án þess að hann uppfylli þær grunnkröfur sem til hans eru gerðar og hann fái CE-merkingu á grundvelli samræmismats.
    Í þriðja lagi er lagt til að sett verði nýtt ákvæði er lýtur að skyldum rekstraraðila, þ.e. framleiðanda, innflytjanda og dreifingaraðila. Með hinni nýju tilskipun eru settar fram ítarlegar skyldur hvers aðila. Er ljóst að nauðsynlegt er að setja inn efnisákvæði sem kveður á um hverjar skyldur aðilanna eru enda varðar brot aðila gegn þeim viðurlögum.
    Í fjórða lagi er lagt til að sett verði ítarlegra ákvæði um markaðseftirlit Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem stofnuninni er gert heimilt, að undangengnu mati á þráðlausum búnaði, að takmarka markaðssetningu og notkun hans af ástæðum sem tengjast almannaöryggi, -heilbrigði og -hagsmunum jafnvel þótt hann uppfylli grunnkröfur tilskipunarinnar.
    Í fimmta lagi er lagt til að nýtt reglugerðarákvæði verði sett þar sem kveðið er á um skyldu ráðherra til að setja reglugerð sem kveður frekar á um skyldur aðila, markaðseftirlit og viðurlög ásamt því að innleiða önnur efnisákvæði RED-tilskipunarinnar.
    Að lokum er svo lagt til að bætt verði við nýju viðurlagaákvæði sem komi á eftir almennu viðurlagaákvæði 74. gr. í XVI. kafla fjarskiptalaga, 74. gr. a. Tekur það bæði til TSM-reglugerðarinnar og RED-tilskipunarinnar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins byggist á alþjóðlegum skuldbindingum er leiðir af EES-samningnum en að öðru leyti gefur efni frumvarpsins ekki tilefni til þess að skoða alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá.

5. Samráð.
    Drög að frumvarpi til innleiðingar á TSM-reglugerðinni voru birt til kynningar á vef ráðuneytisins vorið 2017. Bárust athugasemdir frá Samtökum iðnaðarins. Lutu athugasemdir m.a. að því að með þessari breytingu væri aðeins hluti ákvæða TSM-reglugerðarinnar innleiddur, en jafnframt að sum ákvæði væru ítarlegri en beinlínis er kveðið á um í TSM-reglugerðinni. Jafnframt gagnrýndu Samtök iðnaðarins ákvæði um stjórnvaldssektir, enda teldu samtökin heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að leggja á dagsektir nægjanlegt viðurlagaúrræði.
    Ráðuneytið hefur farið ítarlega yfir þær ábendingar sem bárust og gert viðeigandi breytingar eftir því sem efni þóttu standa til, innan þess svigrúms sem heimilt er við innleiðingu á Evrópureglugerðum og tilskipunum.
    Drög að frumvarpi til innleiðingar á RED-tilskipuninni voru birt til kynningar og samráðs á vef ráðuneytisins sumarið 2017. Ekki bárust neinar athugasemdir við innleiðingardrögin. Samhliða vinnu við frumvarpið hefur jafnframt verið unnið að drögum að reglugerð til nánari útfærslu vegna innleiðingar á RED-tilskipuninni sem að sama skapi verður í framhaldinu kynnt á vef ráðuneytisins.

6. Mat á áhrifum.
    Það er mat samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að áhrif af lagabreytingunni séu jákvæð og mikilvæg fyrir fjarskipti bæði hvað varðar notkun og almenna virkni fjarskipta, enda má segja að það sé meginmarkmið bæði RED-tilskipunarinnar og TSM-reglugerðarinnar að vernda hagsmuni notenda og stuðla að virkni og heildstæði fjarskiptakerfa.
    Ráðuneytið telur að TSM-reglugerðin feli ekki í sér óhóflega íþyngjandi ákvæði fyrir fjarskiptafyrirtæki sem bjóða aðgang að interneti, enda telur ráðuneytið að fjarskiptafyrirtæki hér á landi standi almennt vel að verki hvað nethlutleysi varðar.
    Hvað varðar RED-tilskipunina er afar mikilvægt að við innflutning á fjarskiptabúnaði sé farið að lögum og reglum enda getur hlotist mikið óhagræði og kostnaður af því að fluttur sé inn búnaður sem ekki er CE-merktur þar sem slíkur búnaður getur til að mynda valdið alvarlegum truflunum á öðrum fjarskiptum. Innleiðing RED-tilskipunarinnar hefur fyrst og fremst áhrif á innflytjendur og dreifingaraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar hér á landi þar sem lagðar eru á þá ákveðnar skyldur sem rekstraraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar, sbr. 6. gr. Ráðuneytið telur að þær reglur sem hér um ræðir séu ekki óhóflega íþyngjandi fyrir rekstraraðila, þ.e. framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðila fjarskiptabúnaðar. Framleiðendum þráðlauss fjarskiptabúnaðar er líkt og áður skylt að sjá til þess að sá þráðlausi fjarskiptabúnaðar sem þeir framleiða uppfylli þær grunnkröfur sem gerðar eru og tryggja að ákveðnar upplýsingar fyrir notendur fylgi þráðlausa búnaðinum. Þó er rétt að geta þess að frumvarpið nær einungis til þráðlauss fjarskiptabúnaðar en ekki línulegs og því falla rekstraraðilar slíks búnaðar hvorki undir ákvæði RED-tilskipunarinnar né frumvarpsins. Rekstraraðilum þráðlauss fjarskiptabúnaðar er gert að uppfylla skyldur sínar samkvæmt frumvarpinu og reglugerð ráðherra, að viðlögðum sektum sem Póst- og fjarskiptastofnun ákvarðar. Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins eða innleiðing tilskipunarinnar hafi önnur áhrif á almannahagsmuni en jákvæð. Felast í tilskipuninni auknar kröfur um gæði þráðlauss fjarskiptabúnaðar, hvernig samræmis hans verði gætt og það sýnt neytendum í formi CE-merkingar. Skal notkun búnaðarins ekki ógna heilsu manna eða húsdýra, hvorki þegar búnaðurinn er gerður eða við sæmilega fyrirsjáanleg skilyrði. Það er mat ráðuneytisins að þessar ráðstafanir séu jákvæðar og til þess fallnar að draga úr óæskilegum áhrifum.
    Þá hefur frumvarpið nokkur áhrif á markaðseftirlitsstarfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem stofnunin skal nú jafnframt hafa eftirlit með því hvort innflytjendur og dreifingaraðilar uppfylli skyldur sínar samkvæmt frumvarpinu og reglugerð ráðherra. Þá er stofnuninni einnig gert skylt í RED-tilskipuninni að framkvæma mat á þráðlausum búnað sem settur hefur verið á markað ef nægjanlega alvarlegar ástæður eru til þess. Er slíkt gert til að meta hvort búnaðurinn geti haft áhrif á eða ógnað almannaöryggi, almannaheilbrigði eða almannahagsmunum. RED-tilskipunin gerir ráð fyrir nokkurri umsýslu er kemur að samræmismatsstofum, faggildingu þeirra, vöktun og tilkynningu til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESA og annarra aðildarríkja. Það fyrirkomulag byggist þó að mestu leyti á núverandi fyrirkomulagi og varðar samvinnu faggildingarsviðs Einkaleyfastofu við ráðuneyti og samskipti ráðuneyta við erlend yfirvöld. RED-tilskipunin gerir ekki ráð fyrir breytingu á samstarfi Póst- og fjarskiptastofnunar og tollyfirvalda hér á landi. Með þessum hætti er ljóst að ávinningur af innleiðingu tilskipunarinnar og samþykkt frumvarps þessa mun auka vernd manna og húsdýra, með auknum grunnkröfum um gæði, gegn mögulegum neikvæðum áhrifum af þráðlausum fjarskiptabúnaði. Þannig eru gerðar kröfur til allra rekstraraðila í rekstrarkeðju búnaðarins sem skulu lúta eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar vegna þráðlauss fjarskiptabúnaðar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlað að sá kostnaður sem hlýst við innleiðingu reglugerðar um nethlutleysi samkvæmt leiðbeinandi reglum frá BEREC verði um 35,8 m.kr. Í þeirri fjárhæð vegur þyngst einskiptiskostnaður vegna innleiðingar, hönnunar og uppsetningar kerfa, eða um 15 m.kr. ásamt öðrum stjórnsýslukostnaði. Á árinu 2020 er áætlaður rekstrarkostnaður 19,9 m.kr. og lækkar í 14,4 m.kr. á árunum 2022–2023. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í málaflokki samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í gildandi fjármálaáætlun. Ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum umfram gildandi fjárlög þar sem fyrirséð er að kostnaður falli fyrst til á árinu 2019. Niðurstaða greiningar á fjárhagsmati frumvarps er að ekki er talin þörf á að gera frekari ráðstafanir til tekjuaukningar, þ.e. að hækka hlutfallstölu rekstrargjalds fjarskiptafyrirtækja, sbr. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, en tekjur af rekstrargjaldi fjarskiptafyrirtækjanna standa undir kostnaði við eftirlitið.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að við skilgreiningarákvæði laganna bætist nýr töluliður þar sem hugtakið þráðlaus fjarskiptabúnaður er skilgreint. Um er að ræða rúma skilgreiningu sem nær til allra rafmagns- og rafeindavara, sem hafa þann tilgang að gefa frá sér og/eða taka við hátíðnibylgjum fyrir þráðlaus fjarskipti og/eða staðsetningarákvörðun, eða rafmagns- eða rafeindavara sem verður að bæta við aukabúnaði í til að þær geti gefið frá sér og/eða tekið við hátíðnibylgjum fyrir þráðlaus fjarskipti og/eða staðsetningarákvörðun. Slíkur aukabúnaður gæti til að mynda verið loftnet. Þannig verður hinn þráðlausi búnaður annaðhvort að vera notaður til þráðlausra fjarskipta, þ.e. fjarskipta sem berast með hátíðnibylgjum, eða til staðsetningarákvörðunar, þ.e. að ákvarða staðsetningu, hraða og/eða önnur einkenni hlutar, eða öflun upplýsinga varðandi þessa mæliþætti, með því að nota útbreiðslueiginleika hátíðnibylgja. Sem dæmi má nefna radarvara, hreyfiskynjara og staðsetningartæki (GPS). Búnaður sem hefur þann tilgang að gefa frá sér eða taka við hátíðnibylgjum fyrir þráðlaus fjarskipti eða staðsetningarákvörðun hefur kerfisbundin not af fjarskiptatíðnirófi. Til að tryggja skilvirka notkun þess og komast þannig hjá skaðlegri truflun fellur allur slíkur búnaður undir RED-tilskipunina. Þá miðast gildissvið skilgreiningarinnar við hátíðnibylgjur við lægra tíðnisvið en 3000 GHz.
    Ákveðnar tegundir þráðlauss fjarskiptabúnaðar eru þó undanskildar gildissviði RED-tilskipunarinnar, sbr. ákvæði 3. mgr. 1. gr. hennar og viðauka I við tilskipunina. Í tilskipuninni og viðauka I er þó ekki um tæmandi talningu að ræða þar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur heimildir til að taka ákvarðanir um að ákveðin tegund búnaðar falli undir ákvæði tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar og viðauka I við hana er eftirfarandi búnaður undanskilinn gildissviði hennar:
     i.      Þráðlaus fjarskiptabúnaður sem eingöngu er notaður fyrir almannaöryggi, varnir og þjóðaröryggi. Til að búnaður falli undir þessa undanþágu verður hann að vera notaður eingöngu í þágu framangreindra flokka. Þráðlaus fjarskiptabúnaður sem jafnframt telst vera notendabúnaður fellur því undir gildissvið tilskipunarinnar og fjarskiptalaga. Dæmi um slíkan búnað er til að mynda TETRA-kerfi sem eru víða notuð af lögreglu og öðrum opinberum aðilum til verndar almannahagsmunum og þjóðaröryggi en eru þó ekki eingöngu notuð til slíks.
     ii.      Þráðlaus búnaður sem radíóáhugamenn nota í skilningi 56. skilgreiningar í 1. gr. reglna Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) um þráðlaus fjarskipti fellur utan gildissviðsins nema búnaðurinn sé boðinn fram á markaði. Búnaður telst ekki boðinn fram á markaði ef búnaðurinn er í settum sem radíóáhugamenn setja saman og nota, eða um er að ræða búnað sem einstakir radíóáhugamenn búa til í tilrauna- og vísindaskyni sem tengist fjarskiptum radíóáhugamanna. Meta skal í hverju tilviki fyrir sig hvort búnaður, sem fer á milli radíóáhugamanna, teljist boðinn fram á markaði. Við slíkt mat skal líta til þess hvort slíkt sé gert í viðskiptalegum tilgangi, svo sem ef ákveðið framboð af búnaði er til staðar, hvort þóknun komi fyrir o.þ.h. Einstakar tilfærslur á búnaði milli radíóáhugamanna geta því fallið utan gildissviðsins.
     iii.      Þráðlaus búnaður um borð í skipum sem fellur undir gildissvið tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/90/EB frá 23. júlí 2014 um búnað um borð í skipum. Sú tilskipun felldi úr gildi tilskipun 96/98/EB, frá 20. desember 1996, um búnað um borð í skipum, en allar tilvísanir í síðarnefndu tilskipunina teljast nú tilvísanir í hina nýju tilskipun, sbr. 3. mgr. 40. gr. hennar. Tekið skal fram að búnaður sem verður settur um borð í skip og fellur undir samþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) um öryggi mannslífa á hafi (SOLAS-samþykkt) fellur undir gildissvið RED-tilskipunarinnar. Þá fellur þráðlaus fjarskiptabúnaður í skipum sem ætlaður er til nota á svæðum sem ekki falla undir framangreinda samþykkt jafnframt undir ákvæði RED-tilskipunarinnar.
     iv.      Framleiðsluvörur, hlutar og búnaður til flugs sem falla innan gildissviðs 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 216/2008, frá 20. febrúar 2008, um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu. Aftur á móti verður hér að líta til II. viðauka við reglugerðina þar sem tiltekið er að ákveðnar tegundir flugbúnaðar séu undanskildar ákvæðum 1., 2. og 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Er um að ræða nokkuð ítarlega útlistun í stafliðum a–j. Þar kemur til að mynda fram að flugbúnaður sem er 150 kg eða léttari falli ekki undir umrædda reglugerð. Af þessu leiðir að til dæmis flygildi (drónar) undir 150 kg falla undir gildissvið RED-tilskipunarinnar, sbr. i-lið viðauka II við reglugerð nr. 216/2008. Hafa verður í huga hér að breytingar á umræddri reglugerð geta því haft áhrif á það hvað telst til þráðlauss fjarskiptabúnaðar í skilningi RED-tilskipunarinnar.
     v.      Sérsmíðuð matssett fyrir sérfræðinga, eingöngu til notkunar í starfsstöð fyrir rannsóknir og þróun í slíkum tilgangi falla utan gildissviðs RED-tilskipunarinnar. Til að falla undir þessa undanþágu þarf hið sérsmíðaða matssett að uppfylla eftirtalin skilyrði:
              a.      settið þarf að hafa verið smíðað á grundvelli sérstakrar beiðni frá ákveðnum viðskiptavini eða hópi viðskiptavina, sem eru hluti af ákveðinni rannsókn og þróunarverkefni, sem nær til allra eða hluta einkenna af hinu sérsmíðaða setti, eða
              b.      settið þarf að hafa verið smíðað í samræmi við sérstakar kröfur ákveðins viðskiptavinar eða hóps viðskiptavina, sem eru hluti af ákveðinni rannsókn eða þróunarverkefni, sem ná til allra eða hluta einkenna hins sérsmíðaða matssetts.
        Þannig gerir hin einstaka hönnun og eðli hins sérsmíðaða matssetts það að verkum að eingöngu er hægt að nota það fyrir tiltekna rannsókn eða tiltekið þróunarverkefni. Ef aftur á móti umrætt sett er síðar gert aðgengilegt á almennum grundvelli, eða þegar það er ekki lengur notað fyrir umrædda rannsókn eða þróunarverkefni, getur það ekki lengur talist vera sérsmíðað matssett og fellur því undir ákvæði RED-tilskipunarinnar.

Um 2. gr.

    Reglan um nethlutleysi tekur m.a. til þeirrar stýringar sem fjarskiptafyrirtækjum er heimilt að viðhafa við stjórnun fjarskiptaumferðar. Slík stýring getur verið ráðstafanir sem gerðar eru í miðlægum símstöðvarbúnaði, en getur einnig verið afleiðing af því hvernig tæknilegir sniðfletir eru skilgreindir í samskiptalagi neta, t.d. við samtengingu. Við samtengingu almennra fjarskiptaneta reynir á það hvernig fjarskiptaumferð er afhent frá einu fjarskiptafyrirtæki til annars, hvernig er tekið á móti umferðinni og henni miðlað áfram. Um þetta fjalla m.a. samtengisamningar milli fjarskiptafyrirtækja. Samtenging almennra fjarskiptaneta er því rétti vettvangurinn fyrir fjarskiptafyrirtæki til að upplýsa um þá umferðarstýringu sem þau áskilja sér. Rétt þykir að fjarskiptafyrirtæki geri hvert öðru grein fyrir hvaða tegundir stýringar kunna að vera viðhafðar til að hafa áhrif á flæði fjarskiptaumferðar og tilgreini þær í samtengisamningum sín á milli. Hér er ekki um að ræða kröfu um tæknilega lýsingu á stýringunni eða tilgreiningu á tegund búnaðar eða forrits til þessara nota, heldur fremur tilgreining á eðli og virkni ráðstöfunarinnar. Sömu sjónarmið eiga við í samningum sýndarnetsaðila við netrekendur almennra fjarskiptaneta. Sýndarnetsaðilinn þarf að vera upplýstur um það hvaða tegundir umferðarstýringar netrekandinn viðhefur sem haft getur áhrif á þá þjónustu sem sýndarnetsaðilinn veitir viðskiptavinum sínum og er skylt að upplýsa þá um. Tekið skal fram að umferðarstýring sem fjarskiptafyrirtæki áskilja sér þarf að vera lögmæt og vísar orðalag ákvæðisins til þess. Hér er um að ræða þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi skv. 3.–4. mgr. b-liðar 3. gr. frumvarps þessa og nánar er mælt fyrir um í reglugerð sem ráðherra setur.

Um 3. gr.

    Í a-lið ákvæðisins eru lagðar til breytingar á reglusetningarheimild Póst- og fjarskiptastofnunar um IP-fjarskiptaþjónustu. Horfa þær til þess að nethlutleysi felur í sér kröfur um lágmarksgæði IP-fjarskiptaþjónustu, þ.e. að notendur hafi aðgang að nothæfri internetþjónustu sem fullnægir öllum þörfum daglegs lífs í tæknivæddu upplýsingasamfélagi, svo sem á sviði atvinnu, menntunar, rannsókna og afþreyingar. Ljóst er að þróunin hefur orðið sú að ýmis algeng þjónusta krefst töluverðs gagnaflutningshraða til þess að hún virki sem skyldi. Til að tryggja aðgengi notenda að opnu og nothæfu interneti hefur eftirlitsstjórnvöldum verið falið að skilgreina lágmarkskröfur um gæði internetþjónustu. Í a-lið ákvæðisins er tveimur stafliðum bætt við 2. mgr. 41. gr. fjarskiptalaga sem felur í sér lagastoð fyrir innleiðingu á 5. gr. TSM-reglugerðarinnar. Á grundvelli þessa ákvæðis frumvarpsins verður Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að skilgreina lágmarkskröfur um gæði IP-fjarskiptaþjónustunnar. Hér undir falla atriði á borð við gagnaflutningshraða, álagsviðmið, biðtíma og flökt (e. latency og jitter), einnig tæknilegir sniðfletir og tæknikröfur sem áhrif geta haft á gæði IP-fjarskiptaumferðar. Þá verður Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að setja reglur um hvernig gæðin verða mæld og prófuð. Á grundvelli ákvæðisins verður fjarskiptafyrirtækjum jafnframt skylt að afhenda Póst- og fjarskiptastofnun allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að leggja mat á gæði IP-fjarskiptaþjónustu og framkvæma prófanir.
    B-liður ákvæðisins varðar innleiðingu á meginþáttum nethlutleysis samkvæmt TSM-reglugerðinni.
    Í 1. mgr. b-liðar er innleidd meginreglan um hið opna internet sem þegnum aðildarríkja EES skal standa til boða, sbr. 3. gr. TSM-reglugerðarinnar. Tengist þessi regla meginmarkmiði hins evrópska fjarskiptaregluverks um að allir þegnar EES-ríkja skuli eiga rétt til aðgangs að efni og þjónustu á internetinu og að ekki megi skerða þennan rétt án þess að uppfyllt séu skilyrði til skerðingar á grundvallarréttindum samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. rammatilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/21/EB, eins og henni var breytt með tilskipun 2009/140/EB. Segja má að nethlutleysisreglan sé nánari framkvæmd á þessum rétti. Með tilliti til þessa ber að skýra ákvæðið rúmt með hagsmuni notenda að leiðarljósi. Þó ber að taka fram að tilgangurinn með þessu ákvæði er ekki að heimila notkun eða aðgang að efni eða þjónustu sem brýtur gegn öðrum lögum eða leiðir af dómsúrskurði.
    Í 2. mgr. b-liðar kemur fram meginreglan um að meðhöndla skuli netumferð á jafnræðisgrundvelli. Með aðgangi að interneti er átt við rafræna fjarskiptaþjónustu sem er aðgengileg öllum og veitir aðgang að internetinu og þar með tengingu við því sem næst alla endapunkta internetsins, án tillits til þeirrar nettækni og endabúnaðar sem notaður er. Samkvæmt skilgreiningu fjarskiptalaga á fjarskiptaþjónustu telst netaðgangur hluti af fjarskiptaþjónustu, en fjarskiptaþjónusta er skilgreind sem þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet, þ.m.t. tölvupóstþjónusta og netaðgangur, sbr. 15. tölul. 3. gr. fjarskiptalaga. Með hugtakinu truflun er hér ekki átt við að undir engum kringumstæðum verði truflanir á fjarskiptakerfum, heldur að ekki sé gripið til ráðstafana eða íhlutunar sem hefur truflandi áhrif.
    Í 3. mgr. b-liðar er aftur á móti vikið að þeim undantekningum sem heimilar eru á reglum um nethlutleysi en skv. 3. tölul. 3. gr. TSM-reglugerðarinnar geta ráðstafanir talist sanngjarnar séu þær gagnsæjar, án mismununar og hóflegar. Fela slíkar undantekningar einkum í sér málefnalegar og nauðsynlegar ráðstafanir fjarskiptafyrirtækja til að hafa áhrif á flæði fjarskiptaumferðar, t.d. þegar það er tæknilega nauðsynlegt eða þegar áskriftir gera ráð fyrir tilteknum gagnaflutningshraða eða gagnaþaki. Ekki er heimilt að beita umferðarstýringu í viðskiptalegum og/eða samkeppnislegum tilgangi, t.d. með því að beina viðskiptavinum í eða frá tiltekinni þjónustu. Ætla verður að umferðarstýring geti haft slíkt að markmiði nema fjarskiptafyrirtæki geti sýnt fram á að það sé tæknileg þörf fyrir stýringunni. Þá getur í undantekningartilvikum verið heimilt að beita umferðarstýringu sem gengur lengra en sem leiðir af eðlilegri stjórnun fjarskiptaumferðar, en eingöngu samkvæmt skilyrðum sem mælt er fyrir um í reglugerð og gert er ráð fyrir að séu háð þröngri lögskýringu. Sem dæmi má búast við því að umferðarstýring geti verið notuð til að hindra aðgang að efni sem er ólögmætt samkvæmt öðrum lögum eða fyrirmælum lögbanns, dómsúrskurðar eða samkvæmt ákvörðunum þar til bærra opinberra yfirvalda. Einnig getur verið þörf á því að bregðast við atvikum sem varða heildstæði og þanþol fjarskiptaneta á álagstímum, svo sem til þess að bregðast við netárásum eða til þess að koma í veg fyrir yfirvofandi umferðarteppu á netum eða draga úr áhrifum umferðarteppu sem á sér stað í undantekningartilvikum eða er tímabundin. Slíkri stýringu skal beitt á jafnréttisgrundvelli og má hún aðeins vara meðan þörf er á. Í þessu felst annars vegar að meðhöndla skuli sambærilega fjarskiptaumferð á sambærilegan hátt og getur það réttlætt að gerður sé munur á ólíkum tegundum fjarskiptaumferðar, svo fremi sem sömu stýringu sé beitt fyrir hverja tegund. Hins vegar felur krafa um að stýring skuli ekki vara lengur en nauðsyn ber til í sér að fjarskiptafyrirtæki þurfi að gera sanngjarnar ráðstafanir, innan eðlilegs tíma, til að auka rýmd í fjarskiptaneti sínu fremur en að beita álagsbundinni umferðarstýringu með viðvarandi hætti.
    Loks er í 4. mgr. b-liðar ákvæðisins lagt til að ráðherra skuli setja reglugerð til nánari útfærslu á meginþáttum nethlutleysis skv. 1.–3. mgr. b-liðar ákvæðisins, m.a. skilyrði fyrir beitingu umferðarstýringar, og undirbyggja lagastoð til innleiðingar á öðrum þáttum TSM-reglugerðarinnar sem varða nethlutleysi. Er hér um að ræða gildissvið og orðskýringarákvæði reglugerðarinnar, sbr. 1.–2. gr. hennar, vernd friðhelgi einkalífs, ef beiting umferðarstýringar ar á vinnslu persónuupplýsinga og skilyrði fyrir framboði á sérþjónustu, sbr. 3.–4. mgr. 3. gr., ákvæði um ráðstafanir varðandi gagnsæi og upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja gagnvart áskrifendum sínum, sbr. 4. gr., og eftirlitssúrræði skv. 5. gr. TSM-reglugerðarinnar.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um þær grunnkröfur sem þráðlaus fjarskiptabúnaður og hugbúnaður, sem gerir kleift að þráðlaus fjarskiptabúnaður sé notaður eins og fyrirhugað er, þarf að uppfylla til að tryggja ákveðna almannahagsmuni og byggist á 3. gr. RED-tilskipunarinnar. Um er að ræða mjög sambærilegar kröfur við núgildandi ákvæði en að því viðbættu að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn skal nú tryggja heilsuvernd og öryggi húsdýra sem og að við gerð samræmismats skal taka tillit til sæmilegra fyrirsjáanlegra skilyrða þegar kemur að heilsuvernd og öryggi manna og húsdýra og friðhelgi eignarréttar.
    Ákvæðið kveður á um tvenns konar grunnkröfur, þ.e. kröfur sem ná til alls þráðlauss fjarskiptabúnaðar, sbr. 1. og 2. mgr. ákvæðisins, og svo auknar kröfur sem gilt geta um ákveðna flokka eða tegundir fjarskiptabúnaðar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Þannig skal allur þráðlaus fjarskiptabúnaður vera gerður með þeim hætti að hann tryggi heilsuvernd og öryggi einstaklinga og húsdýra og friðhelgi eignarréttar, þ.m.t. markmið sem sett eru fram í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða rafföng fram á markaði sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka, en ekki eru sett fram nein spennumörk, sbr. a-lið 1. mgr. greinarinnar. Þannig fellur búnaður sem eingöngu gengur fyrir rafhlöðum, líkt og farsímar, undir löggjöfina. Hvað varðar grunnkröfur á sviði rafsegulsviðssamhæfis, sbr. b-lið 1. mgr., þá eru kröfurnar sem mælt er fyrir um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samhæfingu laga aðildarríkjanna varðandi rafsegulsviðssamhæfi, fullnægjandi þannig að þær nái yfir þráðlausan fjarskiptabúnað og er vísað til þeirra samkvæmt RED-tilskipuninni og taka þær gildi samkvæmt henni. Að öðru leyti en er varðar grunnkröfur gilda framangreindar tilskipanir, nr. 2014/35 og 2014/30, ekki um þráðlausan fjarskiptabúnað.
    Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar þarf þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn að tryggja hagkvæma og skilvirka notkun á tíðnirófinu svo að komist sé hjá skaðlegri truflun. Þráðlaus fjarskiptabúnaður ætti því að vera gerður með þeim hætti að hann noti fjarskiptatíðnirófið á skilvirkan hátt og styðji við skilvirka notkun þess. Sem dæmi má nefna að sendir ætti einungis að senda frá sér hátíðnibylgjur sem ekki valda skaðlegri truflun sem og að takmarka ætti eins og kostur er að hann gefi frá sér óæskilegar hátíðnibylgjur, svo sem á aðliggjandi rásum, sem hafa hugsanlega neikvæð áhrif á markmið tíðnistefnu. Einnig má nefna í dæmaskyni að tryggja ætti afköst þráðlauss fjarskiptabúnaðar svo að það geri móttökubúnaði kleift að virka eins og fyrirhugað er og verndi hann gegn hættum af skaðlegri truflun, einkum frá sameiginlegum eða aðliggjandi rásum. Þótt móttökubúnaður valdi í sjálfu sér ekki skaðlegri truflun er móttökugeta æ mikilvægari í að tryggja skilvirka notkun á fjarskiptatíðnirófi með því að auka viðnámsþol hans gegn skaðlegri truflun og óæskilegum merkjum á grundvelli viðkomandi grunnkrafna í samhæfingarlöggjöf Evrópusambandsins.
    Að auki getur þráðlaus búnaður þurft að uppfylla grunnkröfur sem kveðið er á um í 3. mgr. greinarinnar, sbr. einnig 3. mgr. 3. gr. RED-tilskipunarinnar. Til að kröfurnar sem um getur í þessari málsgrein eigi við þarf hlutaðeigandi þráðlaus fjarskiptabúnaður að hafa verið tilgreindur í sérstökum flokki af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þannig þarf framkvæmdastjórnin að taka sérstakar ákvarðanir, sbr. 44. gr. RED-tilskipunarinnar, þar sem kveðið er á um ákveðna flokka eða tegundir þráðlauss fjarskiptabúnaðar sem þurfa að uppfylla þessar viðbótargrunnkröfur. Hafi slíkar ákvarðanir ekki verið teknar eiga kröfurnar ekki við. Um er að ræða sambærilegt fyrirkomulag við það sem nú er í gildi og hefur framkvæmdastjórnin tekið ákvarðanir hvað þetta varðar á grundvelli R&TTE-tilskipunarinnar. Þær ákvarðanir halda gildi sínu, sbr. 50. gr. RED-tilskipunarinnar, að því marki að þær gangi ekki gegn ákvæðum hennar.
    Þær kröfur sem um ræðir í 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins (3. mgr. 61. gr.), sbr. 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, lúta m.a. að samvirkni búnaðar. Þannig er samvirkni við annan þráðlausan fjarskiptabúnað um net og tengingar við skilfleti af viðeigandi gerð nauðsynleg á hinum innri markaði. Þannig einfaldar aukið rekstrarsamhæfi á milli þráðlauss fjarskiptabúnaðar og aukabúnaðar, svo sem hleðslutækja, notkun þráðlauss fjarskiptabúnaðar og minnkar óþarfa úrgang og kostnað. Þá er þörf á frekari aukningu á þróun samræmdra hleðslutækja fyrir tiltekna flokka eða tegundir þráðlauss fjarskiptabúnaðar, notendum til hagsbóta. Eins er heimilt að gera auknar kröfur um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs notenda og áskrifenda þráðlauss fjarskiptabúnaðar ásamt vörn gegn svikum. Þá er jafnframt gert kleift að setja kröfur um aðgang að neyðarþjónustu, velferð og störf fatlaðs fólks.
    Þær ákvarðanir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tekið á grundvelli R&TTE-tilskipunarinnar lúta að aðgengi að neyðarþjónustu. Um er að ræða ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2000/637/EB frá 22. september 2000 um beitingu e-liðar 3. mgr. 3. gr. tilskipunar 1999/5/EB gagnvart þráðlausum búnaði sem fellur undir svæðisbundið fyrirkomulag að því er varðar talstöðvarþjónustu á skipgengum vatnaleiðum, ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2001/148/EB frá 21. febrúar 2001 um beitingu e-liðar 3. mgr. 3. gr. í tilskipun 1999/5/EB gagnvart snjóflóðaýlum, ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2013/638/EB, frá 12. ágúst 2013 um grundvallarkröfur varðandi fjarskiptabúnað um borð í skipum sem ætlaður er til notkunar í skipum, sem falla ekki undir samninginn um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS), og til þátttöku í hinu alþjóðlega neyðar- og öryggiskerfi fjarskipta á sjó (GMDSS-kerfinu), ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/53/EB frá 25. janúar 2005 um beitingu e-liðar 3. mgr. 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 1999/5/EB gagnvart fjarskiptabúnaði sem ætlaður er til þátttöku í sjálfvirka auðkenniskerfinu (AIS) og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/631/EB frá 29. ágúst 2005 um grundvallarkröfur sem um getur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/5/EB með tilliti til þess að tryggja neyðarþjónustu aðgang að Cospas-Sarsat-staðsetningarsendum.
    Aðrar málsgreinar lagaákvæðisins verða óbreyttar frá núgildandi ákvæði.

Um 5. gr.

    Í greininni er kveðið á um samræmi búnaðar og markaðssetningu hans og kemur hún í stað gildandi 65. gr. Ákvæðið leggur bann við því að bjóða fram á markaði þráðlausan fjarskiptabúnað sem ekki er með CE-merki til staðfestingar þess að hann uppfylli þær grunnkröfur sem til hans eru gerðar, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Þá er jafnframt kveðið á um það í 2. mgr. að óheimilt sé að taka þráðlausan fjarskiptabúnað í notkun, nema notkun hans sé í samræmi við tilgang hans og hann sé með CE-merkingu til staðfestingar þess að hann uppfylli grunnkröfur. Mikilvægt er að árétta að ef búnaðurinn hefur staðist samræmismat og er með CE-merkingu til staðfestingar þess að hann uppfylli grunnkröfur 1. og 2. mgr. 4. gr. og hlutaðeigandi grunnkröfur 3. mgr. 4. gr. þá er markaðssetning og notkun búnaðarins heimil og skal ekki vera takmörkuð af aðildarríkjum. Aðildarríki geta eingöngu gert viðbótarkröfur að því er varðar að taka í notkun eða notkun búnaðarins af ástæðum sem tengjast árangursríkri og skilvirkri notkun á fjarskiptatíðnirófinu, að koma í veg fyrir skaðlega truflun og rafsegultruflanir eða af ástæðum er varða lýðheilsu, sbr. 7. gr. RED-tilskipunarinnar. Rétt er að tilgreina að innflutningur einstaklinga eða lögaðila á notendabúnaði telst vera að setja búnað á markað (markaðssetning). 4. mgr. greinarinnar er nær óbreytt frá núgildandi ákvæði (3. mgr. 65. gr.). Gildir ákvæðið einnig um hvers kyns afhendingu, þ.m.t. fjarsölu.

Um 6. gr.

    Í greininni er lagt til að inn í fjarskiptalög komi ný grein, 65. gr. a, þar sem kveðið er á um skyldur rekstraraðila, þ.e. framleiðanda, innflytjanda og dreifingaraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Rekstraraðilar bera ábyrgð á að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn uppfylli kröfur sem tilskipunin kveður á um, í samræmi við það hlutverk sem þeir gegna samkvæmt ákvæðum hennar, til að tryggja öfluga heilsuvernd og öryggi einstaklinga og húsdýra og friðhelgi eignarréttar, fullnægjandi rafsegulsviðssamhæfi, árangursríka og skilvirka notkun á tíðnirófinu og, ef nauðsynlegt er, öfluga vernd hvað varðar aðra almannahagsmuni og til að tryggja sanngjarna samkeppni á hinum innri markaði. Allir rekstraraðilar verða því að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þeir bjóði aðeins fram þráðlausan fjarskiptabúnað á markaðinum sem samræmist ákvæðum RED-tilskipunarinnar, sbr. frumvarp þetta og reglugerð sem ráðherra skal setja á grundvelli þess, sbr. 8. gr. frumvarpsins (66. gr. a).
    Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um skyldur framleiðenda þráðlauss fjarskiptabúnaðar og er ákvæðið byggt á 10. gr. RED-tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er að finna upptalningu á helstu skyldum framleiðenda samkvæmt tilskipuninni en þeir skulu m.a. tryggja, áður en þeir setja búnaðinn á markað, að hann sé samræmi við þær grunnkröfur sem gerðar eru til hans, skv. 4. gr. frumvarps þessa (61. gr.), sbr. 3. gr. tilskipunarinnar, að búnaðurinn sé með CE-merkingu, sem hlýst á grundvelli samræmismats.
    Líkt og áður segir mælir 1. mgr. ákvæðisins fyrir um skyldur framleiðenda. En helsta skylda þeirra er að tryggja, þegar þeir setja þráðlausan fjarskiptabúnað á markað, að hann hafi verið hannaður og framleiddur í samræmi við þær grunnkröfur sem kveðið er á um í 4. gr. frumvarpsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. RED-tilskipunarinnar, útbúa tæknigögn fyrir búnaðinn og framkvæma, eða láta framkvæma, samræmismat fyrir þráðlausa fjarskiptabúnaðinn, sbr. 3. mgr. 10. gr. RED-tilskipunarinnar. Þessar skyldur hvíla eingöngu á framleiðendum og yfirfærast þær ekki á innflytjendur eða dreifingaraðila. Þá getur framleiðandi ekki afsalað sér eða framselt skyldur sínar um að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn uppfylli grunnkröfur 4. gr. frumvarpsins og að honum fylgi viðeigandi tæknigögn, svo sem með samningi við viðurkenndan fulltrúa.
    Þá ber framleiðendum að tryggja að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn sé þannig gerður að hægt sé að nota hann í a.m.k. einu ríki innri markaðarins án þess að notkun hans brjóti í bága við gildandi kröfur um notkun á tíðnirófi. Framleiðendum þráðlauss fjarskiptabúnaðar er skylt að framkvæma samræmismat til staðfestingar þess að búnaðurinn uppfylli grunnkröfur. Þá ber þeim skylda að gera samræmisyfirlýsingu sem fylgja skal búnaðinum og festa CE-merkið á búnaðinn til staðfestingar þess að hann hafi staðist slíkt samræmismat. Slíka samræmisyfirlýsingu skulu þeir varðveita í 10 ár eftir að búnaðurinn hefur verið settur á markað. Mikilvæg regla RED-tilskipunarinnar er að almennt skal ætla fyrir fram að þráðlaus fjarskiptabúnaður, sem er í samræmi við samhæfða staðla eða hluta þeirra og tilvísanir í þá hafa verið birtar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, standist grunnkröfur um öryggi sem settar eru fram í 3. gr. tilskipunarinnar, sbr. 4. gr. frumvarps þessa. Það undanskilur framleiðendur þó ekki frá skyldu þeirra til að framkvæma samræmismat en gerir það að verkum að þeir geta nýtt sér samræmismatsaðferð sem um getur í II. viðauka við RED-tilskipunina og þannig án aðkomu tilkynntrar samræmismatsstofu.
    Í 17. gr. RED-tilskipunarinnar er fjallað um samræmismatsaðferðir til að meta hvort þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn uppfylli grunnkröfur tilskipunarinnar. Í samræmismatinu skal tekið tillit til allra fyrirhugaðra notkunarskilyrða, og varðandi kröfur er lúta að heilsuvernd og öryggi einstaklinga og húsdýra og friðhelgi eignarréttar, sbr. a-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, skal einnig taka tillit til sæmilega fyrirsjáanlegra skilyrða. Þá skal samræmismatið taka til allra mögulegra samsetninga þráðlausa fjarskiptabúnaðarins.
    RED-tilskipunin kveður á um mismunandi aðferðir við framkvæmd samræmismats eftir því hvaða grunnkröfur verið er að meta. Í fyrsta lagi, þegar um er að ræða kröfur skv. 1. mgr. 4. gr. frumvarps þessa (1. mgr. 61. gr.), sbr. 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, er um þrjár mismunandi aðferðir að ræða, þ.e. innra framleiðslueftirlit, sbr. viðauka II við tilskipunina, ESB-gerðarprófun, sbr. viðauka III við tilskipunina og samræmi byggt á fullri gæðatryggingu, sbr. viðauka IV við tilskipunina. Í öðru lagi, þegar um er að ræða grunnkröfur 2. og 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins (2. og 3. mgr. 61. gr.), sbr. 2. og 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, og framleiðandi hefur beitt samhæfðum stöðlum að fullu leyti, er einnig um þrjár aðferðir að ræða, þ.e. innra framleiðslueftirlit, sbr. viðauka II við tilskipunina, ESB-gerðarprófun, sbr. viðauka III við tilskipunina og samræmi byggt á fullri gæðatryggingu sem um getur í viðauka IV við tilskipunina. Hafi framleiðandi, varðandi sömu grunnkröfur, ekki beitt samhæfðum stöðlum, einungis beitt þeim að hluta, eða ekki eru slíkir staðlar fyrir hendi er framleiðanda skylt að framkvæma samræmismatsaðferð sem kveður á um aðkomu tilkynntrar samræmismatsstofu, þ.e. annaðhvort ESB-gerðarprófun, sbr. viðauka III við tilskipunina, eða samræmi byggt á fullri gæðatryggingu, sbr. viðauka IV við tilskipunina. Samræmismatsaðferð sem byggð er á viðauka II við tilskipunina felur ekki í sér aðkomu tilkynntrar samræmismatsstofu en breyting þeirrar aðferðar getur einungis átt við um 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins er lýtur að heilsuvernd og öryggi einstaklinga og húsdýra og friðhelgi eignarréttar sem og fullnægjandi rafsegulsviðssamhæfi eða þegar stöðlum hefur verið beitt að fullu. Til frekari útskýringar má styðjast við eftirfarandi mynd:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Framleiðendum þráðlauss fjarskiptabúnaðar ber jafnframt að tryggja að aðferðir séu til staðar til að raðframleiðsla á búnaðinum haldist í samræmi við grunnkröfur, að teknu tilliti til breytinga á hönnun eða eiginleikum fjarskiptabúnaðarins og breytinga á samhæfðum stöðlum eða tækniforskriftum sem lýst er yfir að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn miðist við.
    Í greininni er kveðið á um þá skyldu framleiðanda að útbúa tæknigögn fyrir þráðlausa fjarskiptabúnaðinn sem hafa að geyma upplýsingar um þær aðferðir sem framleiðandinn notar til að tryggja að búnaðurinn uppfylli grunnkröfur. Í viðauka V við tilskipunina koma fram hvaða upplýsingar skulu koma fram í tæknigögnunum, sbr. 21. gr. RED-tilskipunarinnar. Um er að ræða almenna lýsingu á búnaðinum, svo sem ljósmyndir eða teikningar, hugbúnaðar- og fastbúnaðarútfærslur, upplýsingar til notenda og leiðbeiningar um uppsetningu, frumdrög að hönnun, framleiðsluteikningar og skýringarmyndir af íhlutum, undireiningum, straumrásum og öðrum viðeigandi svipuðum þáttum ásamt útskýringum á framangreindum þáttum, skrá yfir samhæfða staðla sem framleiðandi hefur beitt eða, hafi þeim ekki verið beitt, þá lýsingu á þeim lausnum sem valdar hafa verið til að uppfylla grunnkröfur. Eins ber framleiðendum að láta samræmismatsyfirlýsingu og ESB-gerðarprófunarvottorð fylgja sem hluta tæknigagna sem og niðurstöður hönnunarútreikninga og prófunarskýrslur. Þá skulu tæknigögn innihalda upplýsingar um það hvort búnaðurinn sé þannig gerður að hann sé hægt að nota í a.m.k. einu aðildarríki án þess að brjóta í bága við notkun á fjarskiptatíðnirófi, sbr. 2. mgr. 10. gr. RED-tilskipunarinnar, og hvort finna megi upplýsingar á umbúðunum ef um takmörkun á notkun er að ræða eða kröfur eru gerðar um leyfi til notkunar þráðlausa fjarskiptabúnaðarins, sbr. 10. mgr. 10. gr. RED-tilskipunarinnar. Framleiðendur skulu varðveita tæknigögn og samræmisyfirlýsingu í tíu ár eftir að hinn þráðlausi fjarskiptabúnaður hefur verið settur á markað.
    Ákvæðið gerir ráð fyrir því að framleiðendur verði að tryggja að hinum þráðlausa fjarskiptabúnaði fylgi upplýsingar um búnaðinn á íslensku. Er nægjanlegt að búnaður sem er ætlaður á neytandamarkað fyrir almenna notkun uppfylli slíka kröfu. Ef búnaður er sérhæfður og eingöngu ætlaður til sértækra nota á tilteknu sviði, þar sem ætla má að eingöngu fagaðilar á viðkomandi sviði umgangist búnaðinn, er heimilt að hafa upplýsingarnar á öðru tungumáli sem viðurkennt er innan þess sviðs. Slíkar upplýsingar skulu a.m.k. hafa að geyma framleiðslunúmer eða annað sem gerir kleift að bera kennsl á búnaðinn, nafn framleiðanda, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang, leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál. Ef búnaðurinn gefur frá sér hátíðnibylgjur skal tekið fram það tíðniband sem hann er starfræktur á sem og hámarksafl fjarskiptatíðni sem sent er á bandinu. Framleiðendum ber að upplýsa um sérstakar takmarkanir á búnaði, t.d. ef takmarkanir eru á að taka þráðlausan fjarskiptabúnað í notkun, eða sérstakar kröfur eru gerðar um leyfi til notkunar. Þá ber framleiðanda að tryggja að búnaðinum fylgi ESB-samræmisyfirlýsing fyrir búnaðinn. Þó er heimilt að láta einfaldaða samræmisyfirlýsingu fylgja ef tilgreint er nákvæmt veffang þar sem hægt er að nálgast óstyttan texta samræmisyfirlýsingarinnar. Ekki er gerð krafa um að samræmisyfirlýsing sé á íslensku.
    Framleiðanda þráðlauss fjarskiptabúnaðar er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa sem skal inna af hendi þau verkefni sem tilgreind eru samkvæmt skriflegu umboði. Slíkt umboð skal til að mynda gefa viðurkenndum fulltrúa heimild til að varðveita ESB-samræmisyfirlýsinguna og tæknigögnin í tíu ár eftir að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn hefur verið settur á markað. Veita skal markaðsyfirvöldum upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Líkt og áður segir er það þó á ábyrgð framleiðanda að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn uppfylli þær grunnkröfur sem gerðar eru til búnaðarins og gerð tæknigagna, sbr. 1. mgr. 11. gr. RED-tilskipunarinnar, og getur hann ekki firrt sig ábyrgð með því að tilnefna utanaðkomandi fulltrúa.
    Í 2. mgr. 6. gr. er kveðið á um að innflytjendum sé einungis heimilt að setja á markað þráðlausan fjarskiptabúnað sem uppfyllir grunnkröfur sem gerðar eru til hans og skulu þeir tryggja, áður en að hinn þráðlausi fjarskiptabúnaður er settur á markað, að framleiðandi hafi unnið samræmismat og að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn sé þannig gerður að hægt sé að nota hann í a.m.k. einu ríki innri markaðarins án þess að það brjóti í bága við gildandi kröfur um notkun á tíðnirófi. Þá er kveðið skýrt á um að ef innflytjandi þráðlauss búnaðar telur, eða hefur ástæðu til að ætla, að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn sé ekki í samræmi við grunnkröfur 4. gr. frumvarpsins er honum óheimilt að setja þráðlausa fjarskiptabúnaðinn á markað fyrr en hann hefur verið færður til samræmis við kröfurnar.
    Þá kveður ákvæðið á um skyldu innflytjanda þráðlauss fjarskiptabúnaðar til að ganga úr skugga um og tryggja að framleiðandi hins þráðlausa búnaðar hafi útbúið tæknigögn fyrir búnaðinn í samræmi við ákvæði RED-tilskipunarinnar, að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn hafi CE-merkið, að þráðlausa búnaðinum fylgi þær upplýsingar og skjöl sem framleiðandanum ber að láta fylgja sem og að á búnaðinum sé að finna framleiðslunúmer (eða sambærilegt) fyrir þráðlausa búnaðinn sem gerir kleift að bera kennsl á hann og að á honum sé einnig að finna nafn framleiðanda, skráð viðskiptaheiti hans eða skráð vörumerki og heimilisfang þar sem hafa má samband við hann. Þá skal innflytjandi tryggja að þráðlausa fjarskiptabúnaðinum fylgi íslenskar leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál á íslensku.
    Í ákvæðinu er einnig kveðið á um þær skyldur innflytjenda þráðlauss fjarskiptabúnaðar að skrá nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang, þar sem hafa má samband við þá, á þráðlausa fjarskiptabúnaðinn. Ef slíkt er ekki mögulegt vegna stærðar þráðlausa fjarskiptabúnaðarins eða sökum þess að innflytjandi yrði að opna umbúðirnar, skal setja upplýsingarnar á umbúðirnar eða í skjal sem fylgir þráðlausa búnaðinum. Upplýsingarnar skulu vera á íslensku. Eins er sett sú skylda á innflytjanda að honum beri á því tímabili sem búnaðurinn er á hans ábyrgð að tryggja að geymslu- eða flutningsskilyrði þráðlausa fjarskiptabúnaðarins tefli ekki í tvísýnu samræmi hans við þær grunnkröfur sem honum ber að standast.
    Í 3. mgr. greinarinnar er kveðið á um skyldur dreifingaraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Dreifingaraðilar skulu, þegar þeir bjóða fram þráðlausan fjarskiptabúnað á markaði, gæta þess vandlega að búnaðurinn sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru um hann. Skulu þeir til að mynda staðfesta að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn sé með CE-merkið, að honum fylgi skjöl sem krafist er og að búnaðinum fylgi íslenskar leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál á íslensku. Eins skal dreifingaraðili tryggja, þegar þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn er á hans ábyrgð, að geymslu- eða flutningsskilyrði þráðlausa fjarskiptabúnaðarins tefli ekki í tvísýnu samræmi hans við grunnkröfur 4. gr. frumvarpsins.
    RED-tilskipunin kveður á um að hvor tveggja framleiðandi og innflytjandi skuli, í því skyni að vernda heilbrigði og öryggi endanlegra notenda þráðlauss fjarskiptabúnaðar, framkvæma úrtaksprófanir á þráðlausa fjarskiptabúnaðinum. Við mat á því hvort framkvæma skuli úrtaksprófun verður að líta til þeirrar hættu sem stafar af hlutaðeigandi þráðlausum fjarskiptabúnaði. Þá ber framleiðanda og innflytjanda, ef nauðsynlegt er, að halda skrá yfir kvartanir og innkallanir á þráðlausum fjarskiptabúnaði. Ef til framangreinds kemur ber þeim að veita dreifingaraðilum allar slíkar upplýsingar. Eins kveður tilskipunin á um að rekstraraðilum beri, hafi þeir ástæðu til að ætla að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn uppfylli ekki grunnkröfur tilskipunarinnar, að gera nauðsynlegar ráðstafanir, ýmist til að færa búnaðinn í það horf að hann samrýmist kröfunum, til að taka hann af markaði eða innkalla hann. Ráðherra skal í reglugerð kveða á um þessar sameiginlegu skyldur rekstraraðila.

Um 7. gr.

    Með greininni er gert ráð fyrir áframhaldandi markaðseftirliti af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar með þráðlausum fjarskiptabúnaði og rekstraraðilum hans. Póst- og fjarskiptastofnun hefur farið með slíkt eftirlit á grundvelli núgildandi ákvæða fjarskiptalaga og reglugerðar nr. 90/2007. Þá hefur verið við lýði ákveðið fyrirkomulag, sem er byggt á löggjöf Evrópusambandsins, um samstarf Póst- og fjarskiptastofnunar, sem markaðseftirlitsvalds, við tollyfirvöld hér á landi. Um samstarf þessara eftirlitsyfirvalda er fjallað í 16.–29. gr. reglugerðar nr. 765/2008/EB og gerir frumvarpið ekki ráð fyrir að breytingar verði á því við gildistöku þess, sbr. 39. gr. RED-tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að Póst- og fjarskiptastofnun fari með markaðseftirlit með þráðlausum fjarskiptabúnaði og rekstraraðilum hans og að stofnunin skuli, að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu, taka til meðferðar mál er varða markaðseftirlit með þráðlausum fjarskiptabúnaði og skyldum rekstraraðila. Áfram er sérstaklega tilgreind heimild stofnunarinnar um ótakmarkaðan aðgang að sölustöðum þráðlauss fjarskiptabúnaðar við framkvæmd eftirlits síns.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að stöðva sölu þráðlauss fjarskiptabúnaðar og kyrrsetningar hans ef viðkomandi þráðlaus fjarskiptabúnaður uppfyllir ekki grunnkröfur skv. 4. gr. frumvarpsins (61. gr.) eða ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur um slíkar kröfur annars vegar og hins vegar af ástæðum sem tengjast almannaöryggi, almannaheilbrigði og almannahagsmunum. Við beitingu heimilda sinna samkvæmt þessu ákvæði skal Póst- og fjarskiptastofnun hafa nægilegar ástæður til að ætla að þráðlausi fjarskiptabúnaðurinn hafi í för með sér alvarlega áhættu fyrir almannaöryggi, almannaheilbrigði og almannahagsmuni til að hefja framkvæmd mats á umræddum búnaði. Komi í ljós við framkvæmd mats á búnaðinum að grunnkröfur laganna, eða reglugerðar sem ráðherra setur, eru ekki uppfylltar getur Póst- og fjarskiptastofnun aðhafst strax og tekið ákvörðun um stöðvun á sölu og dreifingu búnaðarins og krafið viðkomandi rekstraraðila um að grípa til viðeigandi aðgerða til úrbóta. Ef slíkar aðgerðir Póst- og fjarskiptastofnunar lúta að vernd almannaöryggis, almannaheilbrigðis eða almannahagsmuna verða ákvarðanir stofnunarinnar að byggjast á niðurstöðum mats á búnaðinum. Ákvæðið byggist m.a. á 40. og 42. gr. RED-tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. greinarinnar er kveðið á um upplýsingaskyldu rekstraraðila en Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili afhendi stofnuninni sundurliðaðar upplýsingar og teikningar um búnað sem ráðgert er að setja á markað. Með slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.

Um 8. gr.

    Í greininni er kveðið á um sérstaka skyldu ráðherra til að setja reglugerð um eftirlit með markaðssetningu og samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Reglugerðarákvæðið er nokkuð ítarlegt og er ætlað að ná með heildstæðum hætti yfir ákvæði RED-tilskipunarinnar en líkt og áður hefur komið fram var ekki nauðsynlegt að fara í lagabreytingar við innleiðingu hennar umfram það sem kveðið er á um í frumvarpi þessu. Er sami háttur hafður á við innleiðingu á ákvæðum tilskipunarinnar og var viðhafður við innleiðingu á R&TTE-tilskipuninni þar sem meginákvæði hennar er að finna í núgildandi fjarskiptalögum en öðrum markmiðum hennar náð með setningu reglugerðar nr. 90/2007. Þannig mun sú reglugerð sem ráðherra er gert skylt að setja samkvæmt ákvæðinu til að mynda kveða á um samræmismatsstofur, kröfur til þeirra og eftirlit með þeim, mismunandi tegundir samræmismats, gerð tæknigagna, CE-merki og áfestingu þess, hlutverk tilkynningaryfirvalda, samstarf við önnur aðildarríki, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnun EFTA. Þá er reglugerðinni einnig ætlað að kveða með ítarlegri hætti á um skyldur rekstraraðila, markaðseftirlit og valdheimildir Póst- og fjarskiptastofnunar, t.d. ákvörðun stjórnvaldssekta vegna brota á ákvæðum 6. og 7. gr. frumvarps þessa sem útfærð verða með ítarlegri hætti í ákvæðum reglugerðarinnar.

Um 9. gr.

    Lagt er til að inn í fjarskiptalög komi ný grein, 74. gr. a, þar sem kveðið er á um stjórnvaldssektir.
    Í 1. mgr. er að finna heimild til þess að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á reglum um nethlutleysi. Í 6. gr. TSM-reglugerðarinnar segir að sett skuli skilvirk viðurlagaákvæði vegna brota á reglum um nethlutleysi, sem skulu hafa varnaðaráhrif. Tekur þetta til brota gegn meginþáttum nethlutleysis skv. 3. og 4. gr. reglugerðarinnar og í þeim tilvikum þegar fjarskiptafyrirtæki virðir að vettugi eftirlitsúrræði, sbr. 5. gr. hennar. Hvað varðar hið síðastnefnda atriði verður að telja að almenn og gildandi viðurlaga- og dagsektarákvæði taki til brota af því tagi. Hins vegar er ljóst að mæla þarf fyrir um verknaðarlýsingu hvað varðar brot gegn efnisákvæðum nethlutleysisreglna. Er ákvæðinu ætlað að ná til umferðarstýringar sem takmarkar internetþjónustu af ásetningi með ólögmætum hætti gagnvart einstökum viðskiptavinum sem og umferðarstýringar sem beitt er með heildstæðum hætti á öllu fjarskiptanetinu og hefur með ólögmætum hætti áhrif á þá internetþjónustu sem fjarskiptafyrirtækið veitir. Ekki er að finna almenna heimild fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til að leggja á stjórnvaldssektir. Nethlutleysisreglur eru hins vegar þess eðlis, m.a. vegna þess að þær varða tækni- og kerfislegar aðgerðir fjarskiptafyrirtækja, að ekki þykir skynsamlegt að slík brot skuli eingöngu sæta almennum viðurlagaákvæðum sem krefjast ákærumeðferðar af hálfu lögreglu og málsmeðferðar fyrir dómi. Við ritun þessa ákvæðis var því höfð hliðsjón af 3.–4. mgr. 54. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, sem hafa að geyma sektarheimild til handa Póst- og fjarskiptastofnun vegna brota á tilteknum ákvæðum fjölmiðlalaga, m.a. hvað varðar hámark sekta.
    Í annarri málsgrein er Póst- og fjarskiptastofnun veitt heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á framangreindum ákvæðum og ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Byggist ákvæðið á 46. gr. RED-tilskipunarinnar þar sem kveðið er á um skyldu aðildarríkja til að mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum rekstraraðila á þeim ákvæðum sem eru samþykkt samkvæmt tilskipuninni og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé framfylgt. Er jafnframt tilgreint í 46. gr. tilskipunarinnar að slíkar reglur geti falið í sér refsiviðurlög vegna alvarlegra brota. Aftur á móti var valið að fara mildari leið og heimila álagningu stjórnvaldssekta í stað refsiviðurlaga. Verður að ætla að slík heimild feli í sér nægjanleg varnaðaráhrif. Ákvæðið heimilar Póst- og fjarskiptastofnun, líkt og áður segir, að leggja á sektir vegna brota á tilgreindum ákvæðum laga og réttarheimilda settra á grundvelli þeirra. Í ákvæðinu er að finna leiðbeiningar fyrir Póst- og fjarskiptastofnun um hvernig skal ákvarða fjárhæð sekta en við slíka ákvarðanatöku skal stofnunin líta til alvarleika brotsins, til að mynda hvað það hafi staðið lengi yfir og hvort um ítrekað brot hafi verið að ræða. Þá ber stofnuninni að líta til þess hvort brot hafi verið framið í þágu hagsmuna viðkomandi aðila eða hvort mögulega hefði mátt koma í veg fyrir brotið með stjórnun og eftirliti. Loks ber að líta til þess hver fjárhagslegur styrkleiki hins eftirlitsskylda aðila er. Lagt er til að sektirnar geti numið 10 þús. kr. til 10 millj. kr. en verði þó aldrei hærri en sem nemur 3% af veltu síðasta almanaksárs hjá hlutaðeigandi rekstraraðila.
    Loks er í greininni tiltekið að gjalddagi stjórnvaldssektar sé 15 dögum frá ákvörðun stofnunarinnar og að dráttarvextir skulu reiknast frá þeim degi verði vanskil á greiðslu sektarinnar. Ákvarðaðar stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar og renna þær til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

Um 10. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að við 12. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, bætist nýr málsliður þar sem kveðið verði á um aðfararhæfi stjórnvaldssekta sem Póst- og fjarskiptastofnun ákvarðar.