Ferill 399. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 561  —  399. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991 (rökstuðningur við málskostnaðarákvarðanir).

Flm.: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Álfheiður Eymarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson.


1. gr.

    Á eftir 3. mgr. 130. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sé málskostnaður felldur niður skv. 2. mgr. eða hann lækkaður eða hvor aðilinn látinn bera sinn kostnað skv. 3. mgr., skal sú ákvörðun sérstaklega rökstudd í forsendum dóms.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Markmið þessa frumvarps er að tryggja að rökstuðningur fylgi ákvörðunum dómara um málskostnað. Hingað til hafa að jafnaði engar skýringar fylgt slíkum ákvörðunum og erfitt verið að átta sig á þeim atriðum sem lögð hafa verið til grundvallar.
    Við lok dómsmáls metur dómari hvernig málskostnaður skiptist milli aðila, sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Málskostnaði hefur verið lýst sem nokkurs konar skaðabótum þess aðila sem vinnur mál, en hugsunin að baki reglum um að annar aðili greiði hinum málskostnað er að gera þann aðila sem vinnur mál skaðlausan af málarekstri sínum. 1
Þau útgjöld sem felast í málskostnaði skv. 1. mgr. 129. gr. sömu laga eru þóknun lögmanns, kostnaður af birtingu stefnu og tilkynninga, dómsmálagjöld í ríkissjóð samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, ferðakostnaður, þóknanir til matsmanna, vitna, þýðenda og votta og kostnaður af endurritum, sem greiddur er af dómstólum. Þá getur ýmis annar kostnaður á borð við kostnað við gagnaöflun fallið undir málskostnað, t.d. þegar afla þarf örorkumats í skaðabótamáli.
    Skv. 130. gr. laga um meðferð einkamála getur dómari tekið ákvörðun um að annar aðili skuli greiða hinum málskostnað, að annar aðili greiði hluta málskostnaðar hins eða að málskostnaður verði látinn falla niður og þannig beri hvor aðili um sig eigin málskostnað. Hin almenna regla er að sá aðili sem tapar máli í öllu verulegu skuli dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Á síðastliðnum árum hefur þó myndast rík venja fyrir því að málskostnaður falli niður í vissum málaflokkum, jafnvel þó að annar aðilinn tapi málinu í öllu verulegu. Þar má sem dæmi nefna skaðabótamál einstaklinga gegn vátryggingafélögum, þar sem einstaklingur lætur reyna á að sækja rétt sinn til tryggingafélags fyrir dómi. Hið sama kann að vera uppi þegar veruleg vafaatriði eru í máli, þó að niðurstaða máls hafi orðið öðrum aðila í vil. Jafnframt er algengt að dómarar víki frá meginreglunni um skiptingu málskostnaðar í meiðyrðamálum, þ.e. einkarefsimálum þar sem annar aðilinn stefnir hinum fyrir brot gegn 234., 235. eða 236. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, eða til ómerkingar ummæla skv. 241. gr. sömu laga. Í slíkum málum er líklegra en ella að málskostnaður verði felldur niður. Þetta á sérstaklega við um þau mál þar sem stefndu eru sýknuð af kröfum stefnanda.
    
Rökstuðningur dómara við málskostnaðarákvarðanir.
    Í 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála eru talin upp atriði sem skulu koma fram í forsendum dóms. Samkvæmt f-lið greinarinnar skal greina rökstudda niðurstöðu um sönnunaratriði og lagaatriði. Þessi liður á þó aðeins við efnislega niðurstöðu varðandi úrlausnaratriði dómsins. Í h-lið sömu greinar segir að í forsendum skuli greina málskostnað, en þó er ekki sérstaklega tilgreint að niðurstaða um málskostnað skuli vera rökstudd. Hefð hefur skapast fyrir því að ákvarðanir dómara um málskostnað séu annaðhvort lítið eða ekkert rökstuddar, jafnvel þó að um umtalsverð fjárhagsleg réttindi málsaðila geti verið að ræða. Þannig getur niðurfelldur málskostnaður þess aðila sem vann málið hlaupið á milljónum króna. Vegna þess hve stuttur rökstuðningur við málskostnaðarákvarðanir er alla jafna verður að líta svo á að þau rök sem liggja að baki málskostnaðarákvörðunum komi ekki fram.

Málskostnaðarákvarðanir í meiðyrðamálum.
    Þegar dómstólar kveða upp dóma eru ákvarðanir um málskostnað ekki síður mikilvægar en þær sem snúa að efnislegri hlið málsins. Málskostnaður í dómsmálum getur oft numið hærri fjárhæð en þeir fjárhagslegu hagsmunir sem stefnt er vegna og má sjá mörg dæmi þess í meiðyrðamálum.
    Til þess að víkja megi frá reglu 1. mgr. 130. gr. einkamálalaga um að sá sem tapi máli í öllum meginatriðum skuli greiða málskostnað þurfa að koma til sterk rök. Greinin kveður á um skýra skyldu til að greiða mótaðila málskostnað í vissum tilfellum. Þegar um er að ræða meiðyrðamál eða mál sem ætlað er að takmarka eða stöðva tjáningu einstaklinga eða lögaðila eru ekki aðeins fjárhagslegir hagsmunir undir heldur einnig atriði er varða réttinn til frjálsrar tjáningar. Málskostnaðarákvarðanir í slíkum málum eru þannig ekki síður mikilvægar en ómerkingar ummæla eða ákvarðanir um skaðabætur og refsingu. Dæmdar fjárkröfur í málum er varða ærumeiðingar skv. 234., 235. eða 236. gr. almennra hegningarlaga eru oft lágar og geta verið mun lægri en dæmdur málskostnaður. Hinn raunverulegi þungi af rekstri meiðyrðamála ræðst því oft frekar af því hvernig málskostnaður er dæmdur en beinlínis af niðurstöðu máls. Því er afar mikilvægt að haldbær rök liggi til grundvallar þegar vikið er frá meginreglu 1. mgr. 130. gr. einkamálalaga.
    Af skoðun þeirra héraðs- og hæstaréttardóma sem fallið hafa undanfarna áratugi má sjá að afar sjaldgæft er að nokkur rökstuðningur sé við það hvernig málskostnaðarákvarðanir eru teknar. Með frumvarpi þessu er lagt til að ráðin verði bót á því og að málskostnaðarákvarðanir verði gerðar gagnsærri og auðskiljanlegri. Þannig megi stuðla að því að upplýsa um þær réttarvenjur sem skapast hafa um ákvörðun málskostnaðar og í framhaldinu megi eiga sér stað umræða um hvort slíkar réttarvenjur séu nauðsynlegar og eðlilegar.

Stjórnarskrá og mannréttindasáttmáli Evrópu.
    Rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar er varinn í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var á Íslandi með lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur um áratugaskeið mótað dómaframkvæmd um 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. M.a. hefur hann skýrt greinina svo, að í henni felist rétturinn til að fá rökstudda niðurstöðu dómstóla. Það að gefa ekki nægilegan aðgang að forsendum dóma getur falið í sér brot gegn 1. mgr. 6. gr. sáttmálans. 2
    Sú staðreynd að algengara skuli vera að málskostnaður sé felldur niður í meiðyrðamálum getur einnig haft áhrif á tjáningarfrelsið, sem verndað er í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Fjölmiðlar hafa atvinnu sína af því að fjalla um opinbera og valdamikla aðila og kann umfjöllun þeirra í mörgum tilvikum að vera umdeild. Því verða fjölmiðlar oftar fyrir því að þeim er stefnt fyrir meiðyrði. Dómavenja sem snýr að því að fella málskostnað niður í þeim málaflokki kann að skapa mikinn kostnað fyrir þá aðila sem oft fjalla um umdeild mál. Slík dómavenja getur stuðlað að kælingaráhrifum (e. chilling effect) gagnvart tjáningarfrelsinu, en Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað varað við því að framkvæmd sem kunni að stuðla að slíkum áhrifum, sérstaklega þegar blaðamenn eiga í hlut, kunni að brjóta gegn 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. 3

Niðurlag.
    Það að réttarfar og málsmeðferð séu opinber er meginregla í einkamálaréttarfari. Að gera þann hluta dóma sem snýr að málskostnaði gagnsærri og ítarlegri er til stuðnings þeirri meginreglu. Það er einnig í samræmi við ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar um að dómþing skuli háð í heyranda hljóði og við ákvæði 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem segir að allir skuli eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar, en það að forsendur og rökstuðningur dóma skuli vera aðgengilegur er nauðsynlegur hluti af þeirri réttindavernd sem 1. mgr. 6. gr. sáttmálans veitir. Ætlunin með frumvarpi þessu er að fá fram í dagsljósið rökstuðning sem liggur að baki þeirri venju að fella niður málskostnað í meiðyrðamálum og þannig tryggja að ekki festist í sessi dómvenja sem getur haft neikvæð áhrif á tjáningarfrelsið, enda munu þá ákvarðanir um málskostnað sæta mun ítarlegri gagnrýni en áður og mögulegrar endurskoðunar á æðri dómstigum.
    Með frumvarpi þessu er sú breyting lögð til að þegar dómari víkur frá meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála skuli sú ákvörðun sérstaklega rökstudd. Þannig skuli dómari tilgreina ástæður þess og lagarök fyrir því að hann víkur frá meginreglunni. Með samþykkt frumvarpsins má stuðla að auknu réttaröryggi, auknu gagnsæi og því að auðveldara verði að greina ríkjandi réttarvenjur.

1     Markús Sigurbjörnsson, Einkamálaréttarfar (2. útg., Úlfljótur 2003) 242.
2     Ryakib Biryukov gegn Rússlandi, umsókn nr. 14810/02 (MDE, 17. janúar 2008), nr. 38–46 og Werner gegn Austurríki, umsókn nr. 21835/93 (MDE, 24. nóvember 1997), nr. 56–60.
3     Goodwin gegn Bretlandi, umsókn nr. 17488/90 (MDE, 27. mars 1996).