Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 565  —  40. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningaaldur).

Frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Breytingar á kosningalögum er nauðsynlegt að undirbúa vel, sérstaklega þegar um er að ræða slíka grundvallarbreytingu eins og lækkun á kosningaaldri sem lögð er til í frumvarpinu. 1. minni hluti telur jákvætt að auka réttindi barna í samfélaginu stig af stigi. Fyrir nefndinni kom hins vegar fram að slíka breytingu þyrfti að undirbúa vel, m.a. þar sem kynning þyrfti að ná til nemenda í grunnskólum, framhaldsskólum og þeirra sem ekki stunda skóla. 1. minni hluti telur mikilvægt að stuðla að lýðræðislegri þátttöku barna en telur nauðsynlegt að vandað sé til kynninga í tengslum við kosningar og að þær takist vel. 1. minni hluti telur að ekki sé nægur tími til að koma af stað vönduðu kynningarverkefni þegar einungis eru rúmir tveir mánuðir til kosninga.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið hjá gestum og umsagnaraðilum um að betra væri að breytingin tæki gildi við þarnæstu sveitarstjórnarkosningar þar sem þá myndi gefast nægur tími til undirbúnings. 1. minni hluti tekur undir það og telur að gera þurfi úttekt á námskrám og kennsluefni um lýðræði og stjórnmál til að meta hvort breytinga sé þörf. Þá sé mikilvægt að sett sé umgjörð um það hvernig og með hvaða hætti sé heimilt að beina upplýsingum frá stjórnmálaflokkum að hópnum sem er á aldrinum 16 til 18 ára, sérstaklega innan veggja skólanna. Þar þurfi að setja skýrar reglur.
    Við umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram að markviss fræðsla til nýrra kjósenda af hálfu stjórnvalda er mikilvæg, þrátt fyrir að lýðræðisþjálfun og fræðsla í skólum verði tryggð. Heppilegt getur verið að slík fræðsla sé samstarfsverkefni stjórnvalda og félagasamtaka, með verkefnum eins og #ÉgKýs, en mikilvægt er að tryggja að fræðslan nái til allra nýrra kjósenda hverju sinni. Eftir sem áður verða þeir sem kjósa í fyrsta skipti til sveitarstjórna á aldrinum 16–19 ára og þeir sem kjósa í fyrsta skipti til Alþingis á aldrinum 18–21 árs, og því er töluverð áskorun að ná til alls þess hóps með sams konar kynningarverkefnum.
    Þá hefur Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), sem fylgist með framkvæmd kosninga hér á landi, almennt varað við því að ráðast í breytingar á kosningalöggjöf svo skömmu fyrir kosningar. 1. minni hluti tekur undir þessi sjónarmið og telur rétt að breytingin taki ekki gildi fyrr en við þarnæstu sveitarstjórnarkosningar.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að nauðsynlegt væri að samhliða breytingum á kosningaaldri færu fram rannsóknir á kosningaþátttöku ungmenna og áhrifum breytingarinnar á lýðræðisþátttöku til lengri tíma litið. Rannsóknir eru einn af þeim þáttum sem mikilvægt er að tími gefist til að skipuleggja í aðdraganda jafnveigamikilla breytinga. Mikilvægt er að dómsmálaráðuneytið í samstarfi við Samtök íslenskra sveitarfélaga leiti leiða til að tryggja að til þess bær rannsóknarstofnun sinni verkefninu. Samhliða er æskilegt að auka rannsóknir á leiðum til að auka lýðræðislega þátttöku almennt.
    1. minni hluti tekur undir það sjónarmið, sem skýrt er í áliti meiri hluta, að kjörgengi ætti að fylgja lögræðisaldri og styður breytingartillögu meiri hlutans þar að lútandi.
    1. minni hluti telur nauðsynlegt að dómsmálaráðuneytinu verði falið að yfirfara þá löggjöf sem tengist breytingunni og gera tillögu að frekari lagabreytingum ef á þarf að halda. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu verði falið að gera úttekt á því hvort lagabreytingin gefi tilefni til breytinga á námskrá og kennsluefni um lýðræði og stjórnmál sem og að huga að fræðslu til kennara af þessu tilefni. 1. minni hluti leggur til að gildistöku laganna verði frestað til 1. janúar 2019.
    1. minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Alþingi, 16. mars 2018.

Líneik Anna Sævarsdóttir.